Arndís Sigríður Árnadóttir fæddist í Reykjavík 12. nóvember 1940. Hún lést í París 8. september 2023.
Foreldrar hennar voru Árni Tryggvason, hæstaréttardómari og sendiherra, f. 2.8. 1911, d. 25.9. 1985, og f.k.h. Guðbjörg Pálsdóttir húsfreyja, f. 4.12. 1915, d. 15.8. 1992.
Bróðir Arndísar er Tryggvi Árnason myndlistarmaður, f. 23.12. 1936, maki Guðbjörg Erla Gunnarsdóttir snyrtifræðingur. Systir Arndísar sammæðra er Björg Friðriksdóttir athafnakona, f. 20.5. 1949, maki Haukur Ólafsson athafnamaður.
Arndís giftist 28.10. 1961 Jóni E. Böðvarssyni verkfræðingi, f. 27.7. 1936. Foreldrar hans voru Böðvar Jónsson verksmiðjustjóri, f. 8.12. 1911, d. 18.2. 1997, og Steinunn Ágústa Magnúsdóttir húsfreyja, f. 9.8. 1912, d. 24.6. 1960.
Börn þeirra eru Böðvar rafmagnsverkfræðingur, f. 8.12. 1966, Ágústa Björg MBA, f. 28.5. 1969, og Einar Örn, blaðamaður og garðyrkjufræðingur, f. 28.10. 1975. Ágústa er gift Árna J. Rögnvaldssyni forritara, f. 28.12. 1968. Börn þeirra eru Anna Hrafndís, f. 1995 (látin), Hrefna, f. 1997, og Jón Arnar, f. 1999. Sonur Árna af fyrra sambandi og stjúpsonur Ágústu er Rögnvaldur Skúli, f. 1989. Einar er kvæntur Höllu I. Leonhardsdóttur fötlunarfræðingi, f. 8.8. 1976. Dóttir þeirra er Ingunn María, f. 2013. Dóttir Höllu af fyrra sambandi og stjúpdóttir Einars er Vigdís Halla, f. 2003.
Arndís lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1960 og stundaði nám í listasögu við Hollins College í Roanoke í Virginíu í Bandaríkjunum 1960-1961. Á árunum 1964-1974 bjó fjölskyldan í Baltimore í Bandaríkjunum þar sem Arndís sinnti barnauppeldi samhliða því að ljúka námi í innanhússhönnun við Maryland Institute College of Art og sótti jafnframt námskeið í ýmsum listgreinum við Towson University. Um ævina sinnti hún fjölda verkefna á sviði innanhússhönnunar fyrir heimili og fyrirtæki. Eftir heimkomu til Íslands vann Arndís að uppbyggingu bókasafns Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Safninu veitti hún forstöðu í 30 ár, þar af síðustu árin undir hatti Listaháskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands 1980 og rúmlega fimmtug lauk hún MA-prófi í hönnunarsögu frá De Montfort University í Leicester á Bretlandi. Árið 2004 hóf Arndís störf á Þjóðminjasafni Íslands og lagði jafnframt stund á doktorsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands sem hún lauk með doktorsvörn í ágúst 2011.
Samhliða störfum sínum hjá Myndlista- og handíðaskólanum fékkst Arndís við stundakennslu í bókasafns- og upplýsingafræði. Á efri árum sinnti hún sjálfstæðum fræðastörfum, skrifaði bækur í samstarfi við aðra, setti upp sýningar og hélt erindi og fyrirlestra bæði hér heima og erlendis. Hún var jafnframt virk í félagsmálum og stofnaði og sat í stjórn ARLIS/Norden, samtaka norrænna listbókasafna, sat í stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar, var heiðursfélagi í Upplýsingu, og félagi í Listfræðafélagi Íslands og Reykjavíkurakademíunni.
Útför Arndísar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 29. september 2023, klukkan 13.

Strjál eru laufin
í loftsölum trjánna,
blika, hrapa
í haustkaldri ró.

Virðist þó skammt
síðan við mér skein
græn angan
af opnu brumi.
(Snorri Hjartarson)

Það var okkur öllum sem þekktum hana Arndísi mikil sorg að heyra um ótímabært og skyndilegt andlát hennar. Hún var ein af þessum manneskjum sem virtust á einhvern hátt ódauðlegar.


Ég kynntist Arndísi fyrst árið 1986 þegar hún var kennarinn minn við Háskóla Íslands í námskeiðinu bókasöfn listastofnana innan bókasafns- og upplýsingafræðanna. Þessi glæsilega og fágaða kona vakti strax athygli mína, ekki bara fyrir afbragðskennslu heldur ekki síður fyrir brennandi áhuga hennar og þekkingu á námsefninu. Hún opnaði augu mín fyrir sífellt kvikum birtingarmyndum listarinnar og hvernig koma mætti ólíkum stefnum, skoðunum og aðferðafræði á framfæri á opinn og fordómalausan máta þar sem allir áttu sinn rétt, sinn sess. Hún brýndi fyrir okkur að andspænis listinni væru allir jafnir og því bæri okkur að koma öllum listamönnum og verkum þeirra til skila til þeirra sem um þá vildu fræðast, og þá ekki síst þeirra sem minnst var um fjallað, þeirra sem gjarnan hurfu í umfjöllun og upplýsingaflóði um stóra og fræga listamenn. Löngu seinna töluðum við um að við sem unnum á listbókasöfnum værum einskonar ökumenn listarinnar konstens chaufförer.

Nokkrum árum seinna þegar ég tók við sérfræðibókasafni Þjóðminjasafns Íslands, sem hefur að geyma ótrúlegt og fjölbreytilegt safn grunnheimilda tengdra listum og listfræði, hafði hún strax samband við mig og bauð mér til þátttöku í ARLIS (Art Libraries Society) sem eru alþjóðleg samtök listbókasafna á heimsvísu. Þá hafði hún ásamt nokkrum eldhugum á Norðurlöndum nýstofnað sérstök samtök innan ARLIS ARLIS/Norden. Henni var umhugað um að sem flest íslensk bókasöfn sem höfðu listefni hvers konar yfir að ráða tækju þátt í þessum samtökum og fyrir hennar tilstuðlan urðu brátt flest slík söfn á Íslandi meðlimir í samtökunum. Að sama skapi blómstraði starfsemi félagsins annars staðar á Norðurlöndum og úr urðu sterk og virk samtök sem stuðluðu að framgangi og sögulegri þekkingu á listum í hennar víðustu merkingu. Allar helstu listastofnanir og söfn á Norðurlöndum áttu sinn fulltrúa í samtökunum og var skipst á að halda veglegar ráðstefnur og málþing í borgum þessara landa. Það var mest fyrir tilstuðlan Arndísar og elju hennar að einnig hér á Íslandi voru haldnar glæsilegar ráðstefnur innan ramma samtakanna þar sem heimsfrægir fyrirlesarar voru fengnir til leiks. Auk þess gáfu samtökin út tímarit, ARLIS/Norden-Info, þrisvar til fjórum sinnum á ári og þar lét Arndís sitt ekki eftir liggja, enda var hún þar í stjórn um lengri tíma. Ég á Arndísi mikið að þakka fyrir að hafa fengið að vinna með henni um árabil innan þessara samtaka, þar sem hún var stöðugt hvetjandi, réttsýn, fordómalaus og víðlesin um efnið.

Arndís starfaði um árabil sem forstöðumaður Bókasafns Listaháskóla Íslands sem hún nútímavæddi og gerði að einu vandaðasta og framgangsríkasta bókasafni landsins. Innan listarinnar stóð hugur Arndísar þó alltaf mest til hönnunar hvers konar og eftir að hún lét af störfum hjá Listaháskólanum hóf hún gagnmerkar rannsóknir á íslenskri innanhússhönnun, þróun hennar og sögu. Hún varði doktorsritgerð sína árið 2011, Nútímaheimilið í mótun: fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970, sem markaði á margan hátt tímamót sem mikilvægt framlag til sjónlistasögu landsins. Arndís skrifaði auk þess fjöldann allan af greinum í blöð og tímarit og hélt fyrirlestra bæði hérlendis sem erlendis og sinnti stundakennslu bæði við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Hún var víðlesin og margfróð um allt sem viðkom listum og hönnun, einkum það sem varðaði Ísland.

Ónefnt annað áhugamál Arndísar var trjárækt sem hún hafði brennandi áhuga á og var óþreytandi við að fræða okkur hin um kosti ýmissa trjátegunda sem hún hafði dálæti á. Hún var ritari í stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar um langt árabil og vann ötullega að framgangi félagsins.

Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast Arndísi og hennar störfum náið í um 37 ár. Hún veitti mér þekkingu og sjálfstraust, var hvetjandi, fáguð og traust og ávallt tilbúin til að hjálpa og finna úrlausn vandamála sem upp gátu komið. Auk þess var hún tryggur vinur sem ég gat alltaf leitað til og var umhugað um velferð mína og fjölskyldu minnar. Ég minnist með gleði eins atviks þegar hún kom til mín og sagði: Gróa mín, veistu að við erum frænkur! Kom þá í ljós að við vorum skyldar í 4. og 5. lið en Arndísi þótti þetta engu að síður merkileg uppgötvun eins og mér og hampaði hún óspart frænkuskyldleikanum eftir þetta. Mér þótti vænt um það.

Ég votta Jóni, eftirlifandi eiginmanni hennar, og Einari, Ágústu og Böðvari, börnum hennar, mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Arndísar S. Árnadóttur.

F.h. ARLIS/Norden á Íslandi,

Gróa Finnsdóttir.