Dagbjört Gísladóttir fæddist í Reykjavík 2. júlí 1963. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 19. september 2023.

Eftirlifandi móðir hennar er Jóna Kristlaug Einarsdóttir, f. 13. apríl 1935. Foreldrar hennar voru Guðrún Dagbjört Sigvaldadóttir, f. 15. júlí 1900, d. 12. júlí 1997, og Einar Einarsson, f. 15. ágúst 1901, d. 30. okt. 1952. Faðir Dagbjartar var Gísli Hvanndal Jónsson, f. 3. des. 1929, d. 12. nóv. 2016. Foreldrar hans voru Jón Þórarinsson, f. 26. mars 1892, d. 15. júlí 1969, og Jónína Sesselja Jónsdóttir, f. 3. feb. 1891, d. 20. nóv. 1958.

Systkini hennar eru: Marteinn Hafsteinn, f. 12. janúar 1952, Jón Thor, f. 2. mars 1957, Elín Björk, f. 22. júní 1966, og Jónína Sesselja, f. 20. okt. 1969. Hálfsystir Dagbjartar er Jónína Brynja Hvanndal Gísladóttir, f. 18. sept. 1947 (móðir Anna Eyjólfsdóttir, f. 16. júlí 1930, d. 30. jan. 2008).

Eftirlifandi eiginmaður Dagbjartar er Jakob Agnarsson, f. 10. maí 1964 á Ólafsfirði. Foreldrar hans voru Agnar Víglundsson, f. 5. apríl 1930, d. 27. mars 2012, og Guðrún Stefanía Jakobsdóttir, f. 15. júní 1938, d. 10. des. 2016.

Börn Jakobs og Dagbjartar eru: 1) Gísli Hvanndal, f. 28. júní 1985, hann á tvö börn, þau eru Jakob Örn Hvanndal, f. 3. sept. 2013, og Dagbjört Benný Hvanndal, f. 9. júní 2015. 2) Kristófer Baldur, f. 25. apríl 1991. 3) Guðrún Stefanía Tyler, f. 27. júní 1995, gift Jordan Chase Tyler, f. 19. ágúst 1992.

Dagbjört ólst upp í Hafnarfirði og að loknu námi vann hún þar ýmis störf, þá aðallega í matvöruverslunum. Ung að árum fór hún á vertíð í Höfn á Hornafirði sem reyndist örlagarík ákvörðun, en þar í fiskvinnslunni kynntist hún eiginmanni sínum, Jakobi Agnarssyni frá Ólafsfirði. Eftir að hafa búið saman að hluta til í Hafnarfirði og á Ólafsfirði fluttust þau 1995 alfarið til Ólafsfjarðar, þar sem þau hjónin ráku um árabil veitingastaðinn Kaffi Glaumbæ og myndbandaleiguna Heimaval.

Dagga, eins og hún var oftast kölluð, var hjálpsöm og ætíð tilbúin að nýta krafta sína þar sem á þurfti að halda. Andleg mál voru henni hugleikin og var hún til margra ára formaður Ljóssins á Ólafsfirði, sat bænahringi og tók á móti miðlum er heimsóttu bæjarfélagið. Auk þess lærði hún m.a. bowentækni, heilun, reiki, ilmolíumeðferðir og englaheilun. Síðustu árin tók Dagbjört þátt í störfum Ólafsfjarðarkirkju og starfaði þar sem meðhjálpari. Hún söng með kirkjukórnum og heillaðist sérstaklega af gospeltónlistinni.

Útförin fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 6. október 2023,  klukkan 13.

Elsku vinkona okkar.

Vinabandið var sterk og var vafið snemma. Guðmunda og Dagga urðu vinkonum strax í æsku og vináttan varð til í hverfinu þar sem þær ólust upp í Hafnarfirði. Við þrjú kynntumst svo á unglingsárum. Í fyrstu var um að ræða kunningsskap sem þróast upp í að við Guðmunda fórum að vera saman og um svipað leiti fór Dagga að slá sér upp með Óla Geir og úr varð góður vinskapur þar sem ýmislegt var brasað og skemmt sér, fjórir krakkaormar að máta sig við lífið og tilveruna. Það var okkur mikið áfall þegar Óli Geir lést þann 19. júní 1981 í vélhjólaslysi en saman tókumst við á við áfallið og afleiðingarnar. Þar með styrktist sá vinarþráður sem aldrei rofnaði og því urðum við hvoru tveggja, traustir vinir og lífsförunautar.

Síðar fann Dagga okkar ástina að nýju þegar hún kynntist Ólafsfirðinum honum Kobba sínum á vertíð á Höfn í Hornafirði. Dagga kom með drenginn suður og eins og hendi væri veifað bættist nýr strengur í vinarþráðinn. Þá þegar var okkar yngsta barn fætt og fljótleg fæddist þeim sonurinn Gísli. Vinskapurinn hélt áfram að styrkjast og margar fallegar minningar skapaðar sem nú er gott að eiga og ylja sér við. Þrátt fyrir ýmist basl og langa vinnudaga sem fylgdu þegar ungt fólk var að koma sér upp þá voru fundnar stundir til að hittast, gleðjast og eiga yndislegar stundir saman. Báðar fjölskyldur stækkuðu og Kristófer bætist í barnahóp þeirra. En nú var Ólafsfjörðurinn farin að toga í þau en Dagga átti einnig ættir að rekja í Firðinn fagra eins og þau kölluðu Ólafsfjörð. Þau rifu sig upp og fluttust norður og Guðrún Stefanía bætist í barnahópinn fljótlega eftir það. Þrátt fyrir þennan búsetuflutning rofnaði okkar sterki vinarþráður aldrei þó samverustundum hafi óhjákvæmilega fækkað og á köflum hafi liðið langt á milli. Það var ávallt yndislegt að heimsækja þau norður og sömuleiðis að fá þau í heimsókn þegar þeim gafst tími til ferða suður. Það er ekki rúm hér til að rifja upp þær fjölmörgu stundir sem við höfum átt saman sem ætíð voru ánægjulegar og gefandi. Það er samt skrítið til þess að hugsa að fyrir sléttu ári síðan vorum við að enda tveggja vikna yndislega ferð sem við fórum saman til Sikileyjar þar sem hverjar stundar var notið í alskyns skoðunar- og skemmtiferðum. Í upphafi júlímánaðar þessa árs fórum við í ferð til Krítar í tilefni sextugsafmælis okkar elsku vinkonu. Engan grunaði þá hvert stefndi þó hún hafi verið farinn að kenna sér meins án þess að læknar hefðu getað greint hver orsökin væri. Samt sem áður áttum við ánægjulega ferð og við sjáum Döggu og Kobba fyrir okkur ljóslifandi að dansa, knúsast og taka þétt utan um hvort annað kvöldið fyrir brottfaradaginn heim. Það er sárt til þess að hugsa að þær verða ekki fleiri stundir sem þessar með þeim hjónum a.m.k. ekki í þessari jarðvist.

Sumt er eins og það sá skrifað í skýin, vinskapurinn sem hófst fyrir svo mörgum árum síðan og styrktist eftir því sem árin liðu varð til þess að við hjónin fórum norður til að vera þeim til halds og traust eftir fremsta megni. Dagga var þá komin inn á sjúkrahúsið á Akureyri til meðferðar eftir rannsóknir í Reykjavík. Hún talaði um að með okkur hefði komið einhver kraftur og á þriðjudeginum, viku fyrir andlát hennar, áttum við saman yndislega stund í Lystigarðinum sem Döggu var afar kær og er staðsettur rétt framan við spítalann. Veðrið var yndislegt, sólríkur og fallegur dagur. Við fengum okkur kaffisopa með þeim hjónum, spjölluðum og gengum svo með hana um Lystigarðinn þar sem við dáðumst að fegurð garðsins. Á fimmtudeginum fékkst leifi til að fara með Döggu til dvalar í sumarhús á vegum SAK sem staðsett er efst í Kjarnaskógi og er ætlað sjúklingum og aðstandendum þeirra, þessi dvöl átti að vera ein varðan í því að koma Döggu okkar heim í Fjörðinn fagra. Dvölin gekk vel, það var spjallað, hlegið, eldað og notið þess að vera saman utan veggja spítalans. En því miður kom upp bakslag og hún þurfti að fara aftur inn á SAK til frekari meðferðar. Meðferðin gekk vel og elsku Dagga okkar orðin stöðug aftur. Það var því seint á sunnudeginum að við hjónin afréðum að halda heim og koma aftur síðar. Kveðjustundin var falleg og við kvöddum elsku Döggu okkar sem stóð upp úr rúminu vafði okkur örmum sínum, kvöddumst við með fallegum orðum. Hún sagði að lokum að við værum sannir vinir, vinir að eilífu, sjáumst fljótlega, blikkaði og gaf Guðmundu í skyn að allt yrði í lagi.

En skjótt skiptast verður í lofti, heilsu Döggu hrakaði og við heldum norður aftur á þriðjudeginum. Elsku Dagga okkar, vinur og lífsförunautur beið okkar alveg til þeirrar stundar er við vorum mætt en þá kvaddi hún þessa jarðvist. Kveðjustundin var sannarlega sár og ósanngjörn og eftir sitja ættingjar og vinir með brostin hjörtu.

Við hjónin erum elsku Döggu ákaflega þakklát fyrir öll árin, stundirnar og minningarnar sem munu lifa í hjörtum okkar að eilífu. Við erum einnig þakklát elsku vini okkar Kobba og fjölskyldunni allri fyrir að hafa haft okkar með í lokakafla lífs hennar, enn einn strengur hefur verið vafin í vinaband sem aldrei mun bresta.



Vinir að eilífu.


Guðmunda Snædís Jónsdóttir, Ágúst Þór Pétursson.