Halldóra Pálsdóttir fæddist 16. nóvember 1935. Hún lést 2. september 2023.
Útför Halldóru fór fram 12. september 2023.
Elsku Krúttý mín.
Við fórum skyndilega saman upp á gjörgæslu og svo upp á lungnadeild og
vorum að losna úr covid-einangruninni. Ég á seint eftir að gleyma því er ég
var vakinn upp um miðja nótt til að koma og kveðja þig í hinsta sinn, elsku
Krúttý mín. Ég veit að þú varst ekkert á þeirri leið að kveðja þennan
heim.
Þú sem stóðst með mér í gegnum allt! Já allt, hvort sem það var súrt eða
sætt. Þú sást um að ala upp börnin okkar á meðan ég dró björg í bú. Betri
konu og móður hefði ég aldrei getað kynnst og tekur mig það mjög sárt að
rita til þín kveðjuorð.
Fallega einbýlishúsið sem við byggðum með okkar höndum, öll ævintýrin sem
við lentum í á lífsleiðinni, frábærar utanlandsferðir með þér og
fjölskyldunni okkar.
Ég sakna þín óendanlega mikið, elsku fallega konan mín. Far þú í friði,
fallega sál.
Þinn að eilífu,
Haddi (afi).
Hörður Adolphsson.