Viðar Guðmundsson fæddist á Akureyri 18. mars 1939. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 12. október 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Kristín Guðbjörg Magnúsdóttir, f. 11.10. 1913, d. 21.10. 2011, og Guðmundur Magnússon, f. 14.11. 1910, d. 30.10. 1972. Systkini hans: Magni, f. 19.12. 1933, Halla Soffía, f. 21.2. 1936, d. 12.11. 2020, Margrét Heiðdís, f. 23.2. 1945, Oddný Guðfinna, f. 8.12. 1947, og Sigurgeir, f. 25.1. 1952. Samfeðra bróðir hans var Björgvin Hlíðar, f. 4.6. 1933, d. 30.1. 1962.


Árið 1955 kynntist Viðar eiginkonu sinni, Stellu Berglindi Hálfdánardóttur, f. 16.3. 1943, d. 24.12. 2016. Viðar og Stella giftu sig 26. ágúst 1961 og eignuðust fimm börn, þau eru: 1) Sólrún, f. 17.1. 1962, eignmaður hennar Jón Wendel, fjögur börn frá fyrra sambandi og hjónabandi: a) Aðalheiður Rós, f. 30.6. 1980, d. 30.6. 1980. b) Andrea Ösp, eiginmaður hennar Stefán Benedikt Vilhelmsson og börn hans Embla Steinvör og Iðunn Eldey. c) Berglind Ýr, eiginmaður hennar Eiríkur Nilsson og börn þeirra Alexander Orri, Mikael Darri og Ísabella Emma. d) Birkir Örn, unnusta hans Hildur Ólafsdóttir. 2) Brynjar, f. 25.4. 1964, eiginkona hans Gyða Björnsdóttir, dætur Gyðu: a) Elín Anna, eiginmaður hennar Yves Dumont, búsett í Brussel í Belgíu. b) Anna Margrét, sonur hennar Brimir Þór. Saman eiga Gyða og Brynjar dótturina Birnu, eiginmaður hennar er Eysteinn Gunnlaugsson og sonur þeirra Bragi. 3) Agnes, f. 28.6. 1966, eiginmaður hennar Þórir Magnússon, þrjú börn þeirra: a) Kolbeinn Viðar, eiginkona hans Svanhvít Hekla Ólafsdóttir, eiga þau tvö börn, Anítu Nótt og Núma Tý. b) Svanur, sambýliskona Tinna Bjarnadóttir, börn hans frá fyrra sambandi Salka Cecili, Jökull Hrafn og Ugla Rán. c) Anníe Mist, sambýlismaður hennar Frederik Ægidius, barn þeirra Freyja Mist. 4) Hilmar, f. 29.12. 1970, eiginkona hans Erla Björgvinsdóttir, hann á fjögur börn af fyrra hjónabandi, þau eru: a) Hildur Sif, eiginmaður hennar Alexander Abenius og börn þeirra Gabriel Týr og Benjamín Ýmir. b) Daníel Kristinn, eiginkona hans Hrafnhildur Gunnarsdóttir og börn þeirra Sunneva, Sólbjört og stúlka. c) Sóley Ósk, sambýlismaður hennar Ástþór Óskar. d) Viðar Snær. Erla á tvö börn af fyrra hjónabandi: a) Gunnar Dan og b) Apríl Unni. 5) Heiða, f. 26.10. 1972, eiginmaður hennar Kristján Kristjánsson, tvö börn þeirra: a) Aron Bjarki og b) Birta Maren, af fyrra sambandi á Heiða dótturina Karen Ósk, eiginmaður hennar er Guðmundur Þór Guðmundsson, synir þeirra eru Gunnar Zakarías og Ernir Þór.

Viðar var múrari og útskrifaðist sem múrarameistari 10.3. 1964. Hann vann alla tíð við múrverk og frá árinu 1996 og þar til hann fór á eftirlaun átti hann fyrirtækið Múrlínu ásamt tengdasyni sínum og dóttur.


Útför Viðars fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 26. október 2023, klukkan 13.

Elsku afi.

Ég á bara nánast ekki minningu af jólunum án þín. Allar mínar bestu æskuminningar af aðfangadagskvöldi eru með þér og allar þær hlýjustu úr Brúnalandinu. Ég man þegar mömmu langaði að reyna að færa aðfangadagskvöld heim til okkar og fá ykkur ömmu þangað í staðinn. Þá væri minna umstang, færri gjafir að færa á milli og henni þætti ansi notalegt að geta búið til nýja hefð af aðfangadagskvöldi heima hjá okkur. Verandi stálpaður unglingur var ég auðvitað mjög þroskuð og tók algjört dramakast í hvert skipti sem minnst var á þetta, því ég hélt nú ekki! Það væru sko ekki jól nema heima hjá ömmu og afa!

Og mamma hlustaði og við héldum öll okkar jól heima hjá ykkur og það var best.

Eftir að ég varð fullorðin var mér líka mikið í mun að vera hjá ömmu og afa, jólin færðust í litla Brúnaland á Strikinu og þegar ég var fátækur námsmaður sem komst ekki heim um ein jólin þá eyddi ég öllu kvöldinu (sem var reyndar fyrir hádegi úti hjá mér) frá byrjun til enda með ykkur á Skype. Ég fékk meira að segja að vera á fjölskyldumyndunum það árið, sem vídeó á tölvuskjá.

Já, ég á svo sannarlega mínar allra bestu aðfangadagsminningar með þér afi, en líka þær allra erfiðustu. Því við vorum líka saman daginn sem amma dó. Eins hrikalega erfitt og það var að hún skyldi kveðja okkur, hvað þá á aðfangadag, þá gerðum við eitthvað mjög fallegt úr því fyrir ömmu, sem elskaði jólin og hafði alltaf verið hjartað í þeim. En það var auðvitað líka fyrir okkur. Það var svo óraunverulegt að opna gjafirnar sem hún hafði keypt og vera heima hjá ykkur án hennar. En þarna vorum við öll til staðar fyrir hvert annað og áttum yndislega en auðvitað líka mjög erfiða stund.

Eftir að hún kvaddi færðum við okkur á heimili mömmu sem hefur núna tekið við sem yndislegi staðurinn sem við höfum eytt aðfangadagskvöldi með þér á, elsku afi.

Allar þessar minningar, súrar og sætar, á ég með þér, elsku afi minn.

Síðustu ár, eftir að ég eignaðist börn og við öll systkinin vorum komin með fjölskyldu hef ég eytt eins mörgum aðfangadagskvöldum og ég get með þér. Í þau fáu skipti sem aðstæður hafa ekki boðið upp á það hef ég þó alltaf fengið að eyða hluta af jólunum með þér, því við höfum jú alltaf haft annan fastan punkt og það er Þorláksmessuboðið góða. Því eyðum við með öllum frábæru afkomendunum sem þú og amma bjugguð til með því að eignast fimm börn og milljón barnabörn sem enn dæla niður barnabarnabörnum, sem eru auðvitað öll snillingar! Og ég vona svo sannarlega að við höldum því áfram þó það vanti ykkur allra bestu tvö. En í því boði hafa börnin mín tvö fengið að kynnast langafa-Vidda-prakkara um jólin.

Ég er óendanlega þakklát fyrir það hversu vel þú tókst börnunum mínum alveg frá byrjun. Ég fæddi þau ekki og deili þeim með öðrum fjölskyldum aðra hverja viku. Þær komu í líf mitt þriggja og átta ára og það var aldrei spurning hjá þér hvort þau voru stjúpbörn eða bara börnin mín. Þú gafst þér alltaf tíma í að grínast í þeim, spjalla við þær og spyrja þær spurninga. Líka þegar það var stutt eftir. Ég er svo glöð yfir að þær hafi fengið að kynnast gríninu í þér, því það er það sem þær muna mest eftir og það er svo sannarlega það sem ég man eftir. Því margar mínar bestu minningar með þér eru stútfullar af Vidda-afa-prakkara.

Já, það var alltaf svo stutt í prakkarann, elsku afi. Þú breyttist alltaf í barn á áramótunum og prakkarinn var þá sjaldan langt undan. Þér þótti mjög gaman að henda froskum í miðja hrúguna af okkur fjölskyldunni sem fylgdumst með þér, sonum þínum og tengdasonum sprengja upp dýrðarinnar flugeldasýningar sem allt var lagt í. Þar hoppuðum við og skoppuðum í allar áttir og hlógum og hlógum. Það er líklega mesta mildi að ekki kviknaði í einhverri kápunni, en þar sem það gerðist ekki fæ ég að eiga þetta sem dásamlega afa-prakkara minningu.

Þú elskaðir líka að spila, eitthvað sem ég hef svo sannarlega erft frá þér verandi algjörlega spilaóð! Það eru ófá kvöldin í sumarbústaðnum ykkar Heiðvangi í Öndverðarnesi sem við höfum eytt skellihlæjandi í Mæju, Súmm, Yatsy, Millunni með plastpeningunum, Trivial, Monopoly og fleiri spilum.

Já, ég mun aldrei spila Mæju án þess að hugsa til þín, elsku afi, því það var auðvitað lang, lang skemmtilegast að spila hana við þig! Þar fékk prakkarinn að skína alla leiðina í gegn! Spil sem þarf að gabba í og reyna að finna út hver er að gabba! Þú varst auðvitað lang bestur og aðalsportið var að reyna að vinna þig. Stundum var þetta við kertaljós í órafmögnuðum bústað við kamínuna til að halda á okkur hita og seinna í rafmagni og hita, en alltaf á sama stað við sama borð. Hláturinn og gleðin var svo mikil að það hlýtur hreinlega að hafa skinið frá bústaðnum.

Það gladdi mig óendanlega mikið að fá að kenna manninum mínum og börnunum Mæju í Heiðvangi síðustu ár. Þar hafa þau svo sannarlega fengið að heyra sögur af elsku Vidda-afa-spila-prakkara.

Ég á líka milljón fleiri minningar með þér, í sumarbústaðnum, í Brúnalandinu, í Vík, úti um allt land í útilegum og erlendis.

Mín allra fyrsta flugferð var til dæmis innanlands á landsmót á Húsavík. Við flugum til baka og ég sofnaði á leiðinni en Kolli frændi (einu ári yngri) var vakandi og sögur af hristingnum sem hafði verið um borð gerðu mig mjög öfundsjúka þar sem ég vaknaði á dýnu á gólfinu í Brúnalandinu. Mér fannst sko mest spennandi í heimi að hafa lent í hristingi og ekki gaman að hafa misst af honum. Eftir að hafa upplifað hristing í flugvéum ansi oft síðan þá hlæ ég stundum að því hversu spennandi mér þótti þessi tilhugsun, því hún er það alls ekki í dag. Það minnir mig á að við fjölskyldan höfum alltaf getað gert ævintýri úr öllu.

Ég fór líka með þér til útlanda, við fórum saman til Flórída í skemmtigarða og svo komstu líka til Bretlands á útskriftarsýninguna mína úr sirkusskóla. Þar gafstu mér eitt það allra besta hrós sem ég hef fengið og það hlýjar mér reglulega um hjartarætur. Það er augnaráðið þitt sem situr í mér því þú varst svo innilega stoltur af mér. Eftir sýninguna trúðirðu ekki þínum eigin augum, þér fannst sýningin svo flott, á svo háum standard og ég svo flott í henni.


Ég þurfti að segja dætrum mínum að þú værir farinn frá okkur í gegnum myndsímtal þar sem ég var erlendis og yngri dóttir mín kom þá með mjög skemmtilega mynd sem ég er með fasta í huga mér. Við vorum búin að ræða um að þú værir farinn frá okkur og byrjuð að tala um ýmislegt annað þegar hún segir allt í einu hey, sjáðu og ýtir á bleikan skýjafilter, fer að dansa og segir kannski er Viddi langafi að gera þetta einmitt núna. Ja, ég vona svo sannarlega, sama hvað gerist þegar maður deyr, að þú hafir fundið elsku Guggu ömmu aftur og ekki væri verra ef þið eruð dansandi á bleiku skýi einhvers staðar.

Ég mun alltaf elska þig og alltaf sakna þín og ykkar beggja. Þið gerðuð lífið betra og gerið enn.




Andrea Ösp Karlsdóttir.