Stefán Reyn­ir Gísla­son fædd­ist 23. októ­ber 1954. Hann lést 17. októ­ber 2023.  Útför hans var 27. októ­ber 2023.

Sumt fólk hefur meiri áhrif á lífið hjá manni en aðrir og Stefán Gíslason var einn af þeim.

Ég kynntist Stebba þegar ég var barn og hann varð píanókennari minn og systkina minna. Við vorum svo heppin að læra öll á píanó hjá honum í Tónlistarskólanum til lengri eða skemmri tíma. Um skeið kom Stebbi meira að segja heim í stofu og tók okkur í spilatíma hvert af öðru eða okkur sem vorum að læra á þeim tíma. Hann var góður kennari og hver tími skemmtilegur því hann hafði lag á að gera hlutina auðvelda. Hann stoppaði oft í kaffi og varð því fljótt fastur punktur í tilverunni. Þegar ég var komin í Varmahlíðarskóla fór ég í tíma þar sem Tónlistarskólinn var með aðstöðu. Stundum lengdist svolítið í tímunum því það var alltaf svo gaman hjá okkur, bæði að spila og spjalla. Það myndaðist einhver einstök tenging milli kennara og nemanda, sameiginlegur áhugi á að gera sitt besta og vinna vel. Alltaf þessi léttleiki og að taka hlutina ekki of alvarlega en gera samt vel. Þetta var góð blanda og hver tími einstakur. Seinna kenndi hann svo nokkrum af systkinabörnunum. Ég var svo heppin að fá að fylgja ungri systurdóttur í tíma til hans þar sem hann kenndi henni bæði á blokkflautu og píanó. Það var svo gaman að fá að fylgjast með tímanum og þarna sá ég aftur þennan eiginleika hvað hann var næmur, laginn og jákvæður kennari og hvernig hann náði að laða fram allt það besta hjá litlu frænku minni.

Í mínum augum var hann mikil fyrirmynd og er ein af mínum stærstu fyrirmyndum í lífinu. Þegar ég var í 7. bekk Varmahlíðarskóla ákvað ég að ég vildi verða tónlistarkennari og ég man meira að segja ennþá þetta augnablik þegar ég tók þessa ákvörðun. Ég hafði verið í píanótíma hjá Stebba um morguninn og svo seinna um daginn var samverustund á sal í Varmahlíðarskóla þar sem Stebbi og Páll skólastjóri sáu um fjöldasöng. Það voru alltaf einhverjir töfrar í kringum allt sem Stebbi gerði og þarna í samverustundinni ákvað ég þetta. Mig langaði að vera svona tónlistarkennari og manneskja eins og Stebbi, manneskja sem hefði áhrif á fólk. Ég mun reyndar örugglega aldrei komast með tærnar þar sem hann hafði hælana en mun svo sannarlega leggja mig alla fram. Það var ekki bara tónlistin sem hafði um þessa ákvörðun að segja, heldur líka hvernig manneskja Stebbi var. Hann var næmur og hafði einlægan áhuga á fólki. Það skipti ekki máli á hvaða aldri fólk var, allir voru jafnir og hann talaði af virðingu við alla. Hann tók eftir og lét sig varða um hlutina. Í fermingarathöfninni minni spilaði hann lagið Slá þú hjartans hörpustrengi sem forspil þegar ég og Gísli prestur gengum inn kirkjugólfið. Mér þótti svo vænt um það, því þetta var lag sem við höfðum æft fjórhent á píanó og hann vissi að mér hafði alltaf þótt svo skemmtilegt að spila það. Það snerti við mér að hann skyldi muna eftir því. Hann vissi líka að ég hafði verið stressuð að fermast ein og ég er viss um að þetta var hans leið til að láta mér líða betur.

Ég var líka svo heppin að fá að koma fram með honum við ýmis tækifæri, eins og við messur, skírnir, brúðkaup og jarðarfarir. Ég á flautu og hann með mér á píanó eða orgel. Það getur verið erfitt að spila í jarðarförum yfir nánum aðstandendum sínum en með Stebba var allt hægt. Hann var svo faglegur og músíkalskur og það var svo gott að spila með honum að maður gleymdi stað og stund.

Ég skil ekki hvernig samfélagið í Skagafirði á eftir að fara að án Stebba. Hann var allt í öllu í tónlistarlífinu (að öðrum ólöstuðum) og snerti líf svo margra. Mikill er missir allra sem þekktu hann.

Ég minnist Stefáns Gíslasonar með mikilli virðingu og þakklæti fyrir allt og allt. Í mínum huga verður hann alltaf mikill listamaður, kennari og fyrirmynd sem lét öðrum líða vel í kringum sig og lét gott af sér leiða.

Elsku Berglind mín, Sigurgeir, Stefán Rafn, Árni Dagur, Magga, Halla, Sara, Hjörleifur, Hinrik, Guðrún Katrín og stórfjölskyldan öll. Mikill er missir ykkar og sársaukinn óbærilegur. Engin orð geta læknað það en ég veit að góðar minningar um einstakan mann munu lifa og ylja um ókomna tíð.

Linda Margrét Sigfúsdóttir.