Sigurður Jónasson fæddist 31. október 1923. Hann lést 25. janúar 1978.

Í dag, 31. október, eru liðin 100 ár frá fæðingu elskulegs fósturföður míns, Sigurðar Jónassonar húsasmíðameistara frá Hátúni í Seyluhreppi í Skagafirði. Sigurður var maður uppbyggingar í anda aldamótakynslóðarinnar, einn af þeim sem byggðu Ísland á 20. öld, hörkuduglegur og framsýnn atorkumaður, fjölskyldufaðir af Guðs náð, stoð og stytta margra og hollvinur og einstök fyrirmynd. Eins og faðir hans lést hann langt fyrir aldur fram og var og er djúpt syrgður. Hann lést á Borgarspítalanum í Fossvogi hinn 25. janúar 1978.

Foreldrar Sigurðar voru þau Jónas Jón Gunnarsson, fæddur í Keflavík í Hegranesi 17. maí 1891, dáinn 17. júlí 1939, og Steinunn Sigurjónsdóttir, fædd í Stóru-Gröf á Langholti í Skagafirði 5. febrúar 1891, dáin 28. febrúar 1981. Systkini hans, sem nú eru öll látin, voru, í aldursröð: Sigurjón, f. 1915, d. 1993, bóndi á Syðra-Skörðugili á Langholti í Skagafirði, kvæntur Sigrúnu Júlíusdóttur; Gunnlaugur, f. 1917, d. 2009, bóndi í Hátúni í Skagafirði, kvæntur Ólínu Jónsdóttur; Hallur, f. 1918, d. 2011, bifreiðastjóri í Varmahlíð og bóndi á Kirkjuhóli í Víðimýrarplássi í Skagafirði, kvæntur Aðalbjörgu Jónsdóttur; Jónas, f. 1919, d. 1984, kaupmaður í Reykjavík og síðar bóndi á Nesjavöllum, kvæntur Ástu Pétursdóttur; Sigurður, f. 1921, d. 1921; Ólafur, f. 1926, d. 2014, bifreiðastjóri í Reykjavík, kvæntur Sæunni Gunnþórunni Guðmundsdóttur, þau skildu; Bjarni, f. 1927, d. 1928; Guðrún, f. 1927, d. 2019, húsmóðir í Reykjavík, gift Einari Páli Kristmundssyni; og Bjarni, f. 1929, d. 2022, rafvirkjameistari í Reykjavík, kvæntur Guðnýju Jónsdóttur.

Sigurður flutti ungur að heiman og lagði stund á húsasmíði og útskrifaðist frá Iðnskólanum árið 1946. Haustið 1950 varð hann forstöðumaður trésmíðaverkstæðis Reykjavíkurborgar, en 1. apríl 1959 réðst hann sem eftirlitsmaður hjá byggingafulltrúanum í Reykjavík og gegndi því starfi til æviloka. Hann stundaði búskap í frítíma sínum og sinnti félagsstarfi innan Sjálfstæðisflokksins og frímúrarareglunnar og sat m.a. í stjórn Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Árið 1956 stofnaði Sigurður heimili ásamt Guðrúnu Rögnu Ragnarsdóttur frá Hellissandi á Snæfellsnesi, f. 8. júlí 1928, dóttur hjónanna Hólmfríðar Ásbjörnsdóttur, f. 1900, d. 1983, og Ragnars Konráðs Konráðssonar, f. 1898, d. 1988. Hún lést 27. október 2004. Guðrún og Sigurður bjuggu lengst af sínum búskap í Hátúni við Rauðavatn þar sem þau byggðu upp stórbú í félagi við Ólaf, bróður Sigurðar. Einnig var Fanný, systir Guðrúnar Rögnu, mikil hjálparhella í Hátúni alla tíð. Þarna var gjarnan margt um manninn, bæði starfsfólk og fjölskyldan. Í Hátúni voru þau með svín, hænsni, fé og hesta og stórbú í hverri grein og snyrtimennskan til fyrirmyndar. Þau tóku samhliða upp búskap í Jórvík í Sandvíkurhreppi og voru auk þess með fé, bæði í Fjárborg við Rauðavatn og á Dallandi í Mosfellssveit. Mörg voru handtökin við hirðingu skepnanna, heyskap og viðhald húsa. Þrátt fyrir öll þessi umsvif byggðu þau sumarbústað við Þingvallavatn sem þau nefndu Berghól eftir æskuheimili Guðrúnar Rögnu undir Snæfellsjökli. Þar undi stórfjölskyldan sér við veiði og aðra útivist. Þau fluttu síðan að Sundlaugavegi í Laugardalnum í Reykjavík árið 1974.

Þau hjónin voru hjálpsöm, ættrækin með eindæmum og barngóð. Sjálfum varð þeim ekki barna auðið, en þau ættleiddu Sigrúnu Erlu Sigurðardóttur, f. 26.9. 1958. Maki hennar er Rúnar Gestsson, f. 1957. Þau búa í Jórvík í Sandvíkurhreppi. Þeirra börn eru Guðrún Lind, f. 1982, Lilja Björg, f. 1985, og Sigurður Bjarki, f. 1986. Fósturdóttir Guðrúnar Rögnu og Sigurðar er Guðrún Kristinsdóttir, f. 12.3. 1968. Maður hennar er Philippe Urfalino, f. 1955, dætur þeirra eru Bryndís og Freyja, f. 2005. Auk þeirra ólust þrjú systurbörn Guðrúnar Rögnu upp undir verndarvæng þeirra hjóna, þau Kristinn Kársson, f. 4.8. 1950, kona hans er Ingibjörg Leósdóttir, f. 1950, börn þeirra eru Ágúst, f. 1974, Ásbjörg, f. 1979, Harpa og Bjarki, f. 1985; Hallfríður Alfreðsdóttir, f. 11.4. 1954, eiginmaður hennar er Jón Þór Sigurðsson, f. 1950, börn þeirra eru Sigurður Arnar, f. 1977; Ester Ósk, f. 1981; og Fanný, f. 1989; og Kristjón Kristjónsson, f. 26.1. 1961, sambýliskona hans var Sigríður Hallbjörnsdóttir, þau skildu, sonur þeirra er Kristjón Sigurður, f. 1994, en fyrir átti Sigríður börnin Lindu og Adam Eið. Samtals eru fósturbörn Sigurðar og Guðrúnar Rögnu og niðjar þeirra hátt í 40 talsins. Hann hefði notið þess að eldast og sjá þau vaxa úr grasi og þau hjónin bæði.

Fósturfaðir minn var mikið sæmdarmenni, rólegur, hjartahlýr og hjálpsamur; trúaður og reglusamur. Öllum þótti vænt um hann. Dugnaður hans til vinnu og það sem hann fékk áorkað var ævintýri líkast. Þegar vinnudegi hans lauk tóku við bústörfin og ekki var hann síður afkastamikill á þriðju vaktinni sem snýr að velferð stórfjölskyldunnar. Hann heimsótti móður sína næstum daglega eftir að hún fluttist að Amtmannsstíg 5 og var alla tíð hjálplegur við hjónin sem höfðu hýst hann þegar hann var í námi. Trygglyndi hans var einstakt sem og metnaður fyrir hönd þeirra sem honum þótti vænt um.

Í myndasafni mínu eru margar ljósmyndir af fallegu og reisulegu húsi. Í Byggðasögu Skagafjarðar, 2. bindi, má sjá þetta sama hús. Þetta er hús í Hátúni í Skagafirði, byggt af Pétri Laxdal á árunum 1934-1935. Öll systkinin tengdust ættaróðalinu djúpum böndum eins og nafngiftin á Hátúni við Rauðavatn gefur til kynna, sem og stolti yfir því uppbyggingarstarfi og landnámi því sem Jónas, fósturafi minn, áorkaði með góðra manna hjálp. Jónas var að sögn sérlega duglegur maður, vænn og vinmargur. Þegar ungu hjónin eignuðust Hátún var það mýrlent og melar að miklu leyti. Bjarni Jónasson, yngstur Hátúnssystkinanna, sagði mér frá því að vinir Jónasar á Sauðárkróki hefðu fært honum hvenær sem færi gafst heilu bílhlössin af síld til að bera á viðkvæm túnin. Þannig hefði landið verið gróið upp á nokkrum árum. Vinurinn góði sturtaði síldinni á hlaðinu og svo dreifðu heimilismenn henni á túnin. Þessa minntist frændi minn með miklu þakklæti sem þeirrar velvildar í verki sem hefði stuðlað að verðmætaaukningu fjölskyldunni allri til góða.

Dugnaður Jónasar og samstöðuandi hefur verið Sigurði fyrirmynd. Ekki einungis beindi hann viðskiptum til yngsta bróður síns og hafði annan yngri bróður sinn með sér í búskapnum, heldur hjálpaði hann eldri bræðrum sínum sömuleiðis. Bjarni sagði mér frá því er þeir fóru tveir um hverja helgi sumarlangt frá Reykjavík til Skagafjarðar til að smíða íbúðarhús og leggja rafmagn fyrir elsta bróður þeirra sem hafði fest kaup á jörðinni Syðra-Skörðugili. Í Byggðasögu Skagafjarðar kemur fram að fjórir af sjö bræðrum hafi keypt jarðir eða stækkað við sig í Skagafirðinum og þykir mér líklegt að þeir pabbi og Bjarni hafi komið að sumum þeim bygginga sömuleiðis. Systkinin byggðu sér einnig íbúðarhús fyrir sunnan, þ.m.t. fjölbýlishúsið á Sundlaugaveginum, sem þrjú þeirra áttu upphaflega í sameiningu.

Allir sem kynntust fósturföður mínum voru betri manneskjur fyrir vikið og áhrifa hans gætir enn. Ég sé til dæmis dugnað hans, iðni og eljusemi, sem rennur í beinan karllegg frá Jónasi, í gegnum Sigga pabba, til föður míns Kristins og til Ágústar bróður; einnig til Kristjóns, fósturbróður míns, og Kristjóns Sigurðar, sonar hans. Fóstursystur mínar, sem eignuðust syni, skírðu þá einnig eftir pabba, Sigurð Arnar og Sigurð Bjarka, og hafa þeir báðir og allir þrír, ásamt Kristjóni Sigurði, til að bera hlýju og jafnlyndi afa síns og nafna. Dóttir hans og dótturdóttir búa enn á jörð og í húsi sem hann byggði og hann hefði verið stoltur af því. Öllum innblés hann okkur ást á landinu og málleysingjum þess og það eru forréttindi að fá að alast upp með góðu fólki, í kringum hesta og kindur sem honum þótti undurvænt um.

Ég var barn þegar hann dó en á milli okkar var svo kært að mér finnst ég hálft í hvoru enn lifa í skjóli hans. Minningin um góðan mann, traustan og hlýjan, lifir.

Guðrún Kristinsdóttir.