Flökkuhús Alþingishúsið í Bankastræti séð niður Skólavörðustíg. Húsið er með háum kjallara og tröppum líkt og Ferdinand Meldahl arkitekt teiknaði það upphaflega undir lok 19. aldar. Í breyttri mynd er það nú við Austurvöll.
Flökkuhús Alþingishúsið í Bankastræti séð niður Skólavörðustíg. Húsið er með háum kjallara og tröppum líkt og Ferdinand Meldahl arkitekt teiknaði það upphaflega undir lok 19. aldar. Í breyttri mynd er það nú við Austurvöll. — Tölvumynd/Guðni Valberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í bókinni Reykjavík sem ekki varð segja sagnfræðingurinn Anna Dröfn Ágústsdóttir og arkitektinn Guðni Valberg frá stórbyggingum í Reykjavík sem upphaflega voru hannaðar á öðrum stað en þær síðan risu

Í bókinni Reykjavík sem ekki varð segja sagnfræðingurinn Anna Dröfn Ágústsdóttir og arkitektinn Guðni Valberg frá stórbyggingum í Reykjavík sem upphaflega voru hannaðar á öðrum stað en þær síðan risu. Bókin kom fyrst út 2014 og var endurprentuð tvívegis það ár og síðan endurprentuð í þriðja sinn í upphafi árs 2015. Það upplag kláraðist með tímanum og því er bókin nú gefin út að nýju.

Í Reykjavík sem ekki varð er sagt frá átta opinberum byggingum eins og til að mynda Þjóðleikhúsinu, Seðlabankanum, Ráðhúsi Reykjavíkur og Háskóla Íslands sem reistar voru á öðrum stað en til stóð og jafnvel í annarri mynd, „þannig að við erum kannski að fjalla um upphaflegar hugmyndir arkitekta um lóðaval og útlit. Svo eru allskonar skýringar á því af hverju þessar fyrstu hugmyndir arkitekta urðu ekki að veruleika,“ segir Anna.

Aðspurð hvernig bók eins og Reykjavík sem ekki varð verði til segir Guðni að þau Anna hafi verið nýkomin af bókamarkaði „og ein af af þeim bókum sem við keyptum þar var bók um Safnahúsið á Hverfisgötu og í henni er gömul teikning sem sýnir mögulega staðsetningu hússins á Arnarhóli. Mér fannst þetta svo merkilegt og sagði við Önnu: ímyndaðu þér ef Safnahúsið hefði verið byggt á Arnarhóli og þar sem ég var akkúrat með þrívíddarmódel í tölvunni með Arnarhól á sýndi ég henni hvernig það leit út og þaðan kemur hugmyndin.“

„Bókin fékk ótrúlega góðar viðtökur þegar hún kom út 2014,“ heldur Anna áfram, „og mín skoðun er að það sé að hluta vegna þess að það er svo einlæg forvitni okkar sem rekur okkur af stað og líka þetta þverfaglega samstarf: ég er sagnfræðingur og Guðni er arkitekt. Guðni var að útskýra þetta fyrir mér og var svo upprifin yfir því hvað þetta er merkilegt og ég skildi það eiginlega ekki – var þetta ekki bara lóðin við hliðina? Hann útskýrði aftur á móti fyrir mér hvernig þetta hefði algerlega breytt tilfinningu okkar fyrir þessu túni og teiknaði það upp. Í framhaldinu fórum við að ræða að það væru svo margar svona hugmyndir aðrar, eins og Alþingishúsið í Bankastræti sem ég þekkti ekki, og gaman væri að sjá þær hugmyndir felldar inn á ljósmyndir eða þrívíddarlíkön. Við fórum því að safna saman hugmyndum og komumst að því að þær væru ótrúlega margar, bæði hvað varðar opinberar byggingar og svo líka byggingar í eigu einkaaðila, en þegar við fórum af stað ákváðum við snemma að fókusera á opinberar byggingar,“ segir hún og bætir við að þau hafi í raun ákveðið að skrifa bókina sem þau langaði að lesa.

Esjur í borgarmyndinni

Guðni segir að þau hafi viljað velja byggingar og staðsetningar sem snertu við fólki, „byggingar sem fólk hefur eitthvert erindi í og þekkir vel og við notuðum það sem viðmið að þetta væru ákveðnar Esjur í borgarmyndinni: Byggingar sem eru það fastar í sessi, svona eins og Esjan er í borgarmyndinni, að þær gætu hvergi annars staðar verið. Alþingishúsið er kannski sterkasta dæmið um það, hús sem gæti hvergi annars staðar verið, og þegar maður er búinn að teikna það upp í Bankastrætinu þá er eitthvað mjög skrýtið við það.“

Í inngangi bókarinnar vitna þau Anna og Guðni í grein í Lögréttu 1912 eftir Guðjón Samúelsson arkitekt þar sem hann segir: „Bæjarfyrirkomulag er eitt mesta áhugamál nútímans“ og víst er að áhuginn er ekki minni í dag ef marka má deilur um allt það sem gera á í Reykjavík. Anna segir að í umræðu um skipulagsmál og byggðarþróun í Reykjavík séu alltaf að koma upp aftur og aftur sömu atriðin eins og þétting byggðar og að borgin sé að breiða úr sér of hratt og of mikið og of dýrt sé að byggja upp innviði. „Þetta er sama umræða og um 1900 og umræðan um bílana er ekki ólík umræðu um hestana og það að það þurfi að hægja á hestunum sem eru að fara um borgina eða að bílunum sé að fjölga of hratt. Í bókinni fjöllum við dálítið um skipulagið 1927, sem er fyrsta skipulagið fyrir Reykjavík, og þar er ekki gert ráð fyrir bílum og bílastæðum. Svo er tillaga að skipulagi fyrir Reykjavík frá Einari Sveinssyni arkitekt 1943 og þar er bíllinn orðinn að algjöru aðalatriði innan við tuttugu árum síðar.“