Svanhildur Jóhannesdóttir fæddist í Reykjavík 8. mars 1950. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 29. október 2023.

Foreldrar hennar voru Jóhannes Halldórsson skipstjóri, f. 28. nóvember 1906, d. 21. apríl 1967, frá Sundi í Höfðahverfi og kona hans Margrét Pálsdóttir húsfreyja, f. 3. ágúst 1915, d. 21. september 1960, dóttir Páls Bergssonar og Svanhildar Jörundsdóttur frá Syðstabæ í Hrísey.


Svanhildur var yngst þriggja systkina en hin eru Sigurlaug, f. 24. september 1945, gift Hrafni Hallgrímssyni, f. 13. september 1938, og Jóhannes, f. 2. september 1947, d. 19. október 1997, giftur Ólafíu Björk Davíðsdóttur, f. 21. maí 1951.


Svanhildur giftist 20. nóvember 1971 eftirlifandi eiginmanni sínum Tryggva Jakobssyni, f. 19. apríl 1950. Foreldrar hans voru Jakob Tryggvason, organisti við Akureyrarkirkju, f. 31. janúar 1907, d. 13. mars 1999, og kona hans Unnur Tryggvadóttir húsfreyja, f. 27. desember 1907, d. 24. maí 1987. Börn Svanhildar eru: 1) Elín Ólafsdóttir, f. 18. ágúst 1969 (kjörforeldrar Elínar voru Ólafur Erlendsson og Helen Hannesdóttir), maki Hjálmar Skarphéðinsson, f. 8. október 1969. Börn: Dagur, Eva og Orri. 2) Jakob Tryggvason, f. 20. júní 1972, maki Svanfríður Ingjaldsdóttir, f. 16. júní 1975. Börn: Tryggvi Páll og Sigrún Inga. 3) Jóhannes Tryggvason, f. 18. júní 1976, maki Ólöf Helga Jakobsdóttir, f. 20. apríl 1983. Börn: Svanhildur, Sölvi og Valgerður Jakobína.


Svanhildur lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1969 og leiklistarnámi frá Leiklistarskóla Íslands 1976 eftir nám við leiklistarskóla SÁL 1972-1975 þar sem hún var einn stofnenda. Svanhildur starfaði sem leikari, leiklistarkennari og leikstjóri á árunum 1976-1988 og var m.a. fastráðin hjá Leikfélagi Akureyrar um tíma. Á árunum 1977-1984 sinnti hún landvörslu ásamt eiginmanni sínum í Herðubreiðarlindum og Skaftafelli þar sem synir þeirra nutu náttúrunnar með foreldrunum. Á árunum 1987-1991 starfaði hún sem skrifstofustjóri hjá fiskeldisfyrirtækjum. Að því loknu hóf hún störf sem framkvæmdastjóri Skýrslutæknifélags Íslands þar sem hún sinnti útgáfu, ráðstefnuhaldi, fjármálum og kom að erlendu samstarfi félagsins. Svanhildur starfaði á árunum 2003-2010 sem þjónustu- og markaðsstjóri Vinnuverndar ehf. Síðustu starfsár sín starfaði hún sem fjármálastjóri Fjeldsted og Blöndal lögmannsstofu. Svanhildur var listræn, málaði myndir, samdi leikrit og sögur sem hún hafði þó alltaf fyrir sig. Umhverfis- og jafnréttismál voru henni hugleikin og fylgdist hún vel með því sem fram fór í þeim málaflokkum.


Útför Svanhildar fer fram frá Neskirkju í dag, 7. nóvember 2023, klukkan 15.

Haustið 1972 stofnaði hópur ungs fólks leiklistarskóla sisvona en enginn slíkur skóli var þá starfandi í landinu. Samtök áhugafólks um leiklistarnám (SÁL), sem stofnuð höfðu verið fyrr um sumarið, stóðu að baki þessari djörfu framkvæmd með það að markmiði að mennta tilvonandi leikhúslistafólk þangað til ríkisrekinn skóli tæki við. Nemendur voru sjálfir við stjórnvölinn; þeir sömdu námskrá, réðu kennara, útveguðu húsnæði og rukkuðu sjálfa sig um skólagjöld til að standa undir rekstrinum. Í þessum fjölbreytilega hópi var Svaný, falleg ung kona með ljóst hár sem glitraði á í ljósbroti. Svaný var þá þegar gift Tryggva sínum Jakobssyni og þau áttu lítinn snáða, Jakob. Fljótt kom í ljós að Svaný kunni til verka þegar stemma þurfti af reikninga enda dugði ekkert rassvasabókhald þegar berjast þurfti fyrir tilvist skólans og sækja um fjárveitingar með tilheyrandi greinargerðum og bréfaskriftum; þetta lenti að mestu á Svaný með stífu kvöld- og helgarnámi, heimilislífi og barnauppeldi. Rökstuddar umsóknir ásamt vandaðri úrvinnslu fylgigagna skiluðu opinberum fjárveitingum til SÁL-skólans sem óx svo fiskur um hrygg að á öðru ári var hann hálfs dags skóli og á þriðja ári heils dags skóli en eftir það var hann lagður niður þvi markmiði hans var náð með stofnun Leiklistarskóla Íslands haustið 1975 sem mat nám SÁL-skólans og tók inn nemendur hans.

Á þriðja námsári valdist Svaný í undirbúnings- og samstarfsnefnd til að móta stefnu og starfsemi hins nýja ríkisleiklistarskóla eftir að lög um hann höfðu verið samþykkt. Hún gaf sér samt tíma til að taka virkan þátt í fyrsta kvennafrídeginum 24. október 1975 og við dáðumst að henni syngja Áfram stelpur uppi á palli á Lækjartorgi, já, Svaný þorði, gat og vildi. Hún var skipulögð í öllum sínum verkum og í náminu nálgaðist hún viðfangsefni sín af raunsæi en ekki tilfinningasemi og fylgdi því fast eftir að fá greinargóða niðurstöðu úr leiðbeiningum og samræðum við vinnslu hlutverka enda uppskar hún eftir því vel. Við vorum ellefu sem útskrifuðumst úr Leiklistarskóla Íslands 31. maí 1976 eftir samtals fjögurra ára nám og sama vor fæddi Svaný annan son, Jóhannes.

Fjölskyldan bjó nokkur ár á Akureyri og var Svaný þá á samningi hjá Leikfélagi Akureyrar. Meðal hlutverka hennar þar voru Ásta Sóllilja í Sjálfstæðu fólki; Ásta í Dal í Skugga Sveini; Svandís í Stalín er ekki hér og Eva Puntila í Puntila og Matta. Eftir að þau Tryggvi fluttu aftur suður fékkst Svaný við leikstjórn um nokkurra ára skeið áður en hún sneri sér að bókhalds- og skrifstofustörfum.

Einhvern veginn fórum við aldrei alveg hvert í sína áttina eftir útskrift 1976. Við höfum komið reglulega saman í tæplega hálfa öld og Tryggvi er löngu orðinn heiðursfélagi í makafélaginu. Þráðurinn hefur aldrei slitnað. Hann mun heldur ekki slitna þótt Svaný okkar sé nú horfin úr hópnum, við minnumst hennar með söknuði og þakklæti fyrir allt sem hún gaf okkur af örlæti sínu.

Tryggva, okkar kæra vini, börnum, tengdabörnum og barnabörnunum átta sendum við innilegar samúðarkveðjur og biðjum þeim guðs blessunar.

Bekkjarfélagar úr SÁL-skólanum,

Anna Sigríður Einarsdóttir, Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir, Elísabet Bjarklind Þórisdóttir, Evert Kristjón Ingólfsson, Nanna Ingibjörg Jónsdóttir, Ólafur Örn Thoroddsen, Sigurður Sigurjónsson, Sólveig Halldórsdóttir, Viðar Eggertsson, Þórunn Pálsdóttir.