Elísabet Kristinsdóttir, oft kölluð Elsa í Dagsbrún, fæddist 3. desember 1935 í Neskaupstað. Hún lést 29. október 2023.

Foreldrar Elísabetar voru Ölveig Rósamund Eiríksdóttir frá Krossanesi við Reyðarfjörð, f. 1907, d. 2010, og Hans Kristinn Marteinsson, skipstjóri og útgerðarmaður, frá Litlu-Breiðuvík í Reyðarfirði, f. 1907, d. 1984. Systir Elísabetar er Þórdís Kristinsdóttir, jafnan kölluð Día, f. 1950.

Eiginmaður Elísabetar var Geir Hannes Þorsteinsson f. 27. október 1928, d. 8. janúar 2021. Þau giftu sig í Minneapolis í Minnesota árið 1960. Þau eignuðust fjögur börn saman. Fyrir átti Elísabet son með fyrrum unnusta sínum, Pétri Hafsteini Sigurðssyni, f. 1932, d. 1957. Sonur Elísabetar og Péturs er Kristinn. Börn Elísabetar og Geirs eru Rósa, Þorsteinn, Gunnar Ellert og Auður Edda. Börn Elísabetar eru nánar tiltekið: 1) Kristinn Pétursson, f. 20. júlí 1956. Sambýliskona Kristins er Pála Svanhildur Geirsdóttir. 2) Rósa Geirsdóttir, f. 24. maí 1961. Eiginmaður Rósu er Tómas Jennþór Gestsson. Eiga þau þrjú börn: Elísabetu, Rakel og Geir. 3) Þorsteinn Geirsson, f. 24. júlí 1963. Eiginkona Þorsteins er Stefanía Guðmundsdóttir. Eiga þau tvær dætur: Írisi Hrund og Sóleyju. 4) Gunnar Ellert Geirsson, f. 26. mars 1968. Eiginkona Gunnars Ellerts er Sigurborg Magnúsdóttir.  Börn Gunnars og fyrrum eiginkonu hans, Ingibjargar Hlínardóttur eru Emil Örn, María Rós, Daníel Örn og Perla Dís. 5) Auður Edda Geirsdóttir, f. 21. ágúst 1973. Sonur hennar er Óskar Sigurgeir Auðar.


Elísabet ólst upp og varði yndislegum æskuárum í Neskaupstað með foreldrum sínum og systur. Bjuggu þau í húsi sem nefnt er Dagsbrún sem þau öll hafa verið kennd við. Þar bjuggu þau ásamt móðurforeldrum hennar og frændfólki og var stórfjölskyldan í miklum og nánum samskiptum. Lauk hún unglingaprófi frá Nesskóla og landsprófi frá Héraðsskólanum á Eiðum. Síðar fór hún í Menntaskólann í Reykjavík.

Í Neskaupstað kynntist Elsa Geir sínum. Þau fluttu út til Bandaríkjanna 1960, gifta sig þar og hefja hjúskap. Að loknu sérnámi Geirs í barnalækningum flytja þau aftur til Íslands. Lengst af bjuggu þau á Markarflöt í Garðabæ, þar sem þau byggðu sér og börnum sínum fallegt hús og heimili. Lengst af helgaði Elísabet sig húsmóðurstarfinu. Hana dreymdi þó alltaf um áframhaldandi nám og innritaði sig í Menntaskólann í Hamrahlíð þegar börnin fóru að stálpast. Síðar lauk hún stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þar sem hún starfaði síðar á bókasafni skólans.

Elísabet verður kvödd og jarðsungin frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 14. nóvember 2023, og hefst athöfnin klukkan 11.

Æskuheimili móður minnar í Neskaupstað var reisulegt hús á sjávarkambinum, þar sem ættbogi móður minnar stækkaði og mér er minnisstætt hversu stolt hún var af að vera kennd við æskuheimili sitt; Elsa í Dagsbrún, en saga móður minnar er umfram allt saga seiglu og væntumþykju.

Það sem einkennir Dagsbrúnarfólkið er hversu skarpgreint, duglegt og varfærið það er, sagði mamma alltaf við mig. Henni þótti undurvænt um fólkið sitt sem mótaðist af sjósókn og þeim hættum sem af henni stafaði en hafið bæði gaf og tók. Ung fór mamma ekki varhluta af því en unnusti hennar og barnsfaðir fórst með Goðanesi NK 105 þegar togarinn strandaði í mynni Skálafjarðar við Austurey í Færeyjum. Eftir sat móðir mín í djúpri sorg með ungan frumburð sinn, Kristin Pétursson, og segir mér svo hugur að hún hafi alla tíð haldið Kidda sínum þéttar að sér en margur maðurinn gæti haldið.

Ást og stuðningur við stóran hóp afkomenda og vina einkenndi mömmu enda vildi hún ávallt veg þeirra sem mestan og studdi hún fólkið sitt með ráðum og dáð.

Foreldrar mínir voru meðal frumbyggja á flötunum í Garðabæ, mamma var mikill Garðbæingur og heimili okkar var ætíð opið fyrir vini og vandamenn, bæði innlenda og erlenda, henni fannst gott og gaman að hafa fólkið sitt í kringum sig.

Það er mér í fersku minni þegar mamma ákvað að klára stúdentinn. Hún skráði sig í Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð en stúdentsprófinu lauk hún frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ við mjög góðan orðstír, hlaðin verðlaunum.

Námið var mömmu alltaf leikur einn og stærðfræðin auðlesin bók. Einu sinni sem oftar gekk ég inn á æskuheimili mitt í Garðabænum og sá mér til mikillar undrunar að þar sátu ungir verkfræðinemar í Háskóla Íslands þétt í stofunni og gengu þeir um gólf og ræddu misflóknar fléttur stærðfræðinnar á milli þess sem ilmandi hjónabandssælu, smákökum og snittum var sporðrennt án fyrirhafnar. Mamma hafði þá boðið ungum verkfræðinemum í ókeypis stærðfræðikennslu en sjálf var hún um það bil hálfnuð í sínu stúdentsnámi. Það er óhætt að segja að ég hafi orðið undrandi en um leið stoltur af mömmu minni og hæfileikum hennar sem hún allt of sjaldan flaggaði.

Mamma hafði óbilandi trú á að allar dyr stæðu fólkinu sínu opnar og að allt væri mögulegt, dugnaður og áræðni væri allt sem þyrfti til. Eflaust var ég stundum áræðnari en efni stóðu til og stundum gerðist það að ég fylgdi ekki nákvæmlega leiðsögn móður minnar og varð henni þá oft á orði að það væri eins og tala við grjót að leiðbeina mér. Svar mitt var alltaf það sama: Þetta er hárrétt hjá þér, mamma, enda er ég kallaður Steini, og fallegt bros mömmu náði aftur yfirhöndinni og mér var fyrirgefið en ég vissi það manna best að tryggasta leiðin til að lenda í vandræðum hjá mömmu var að hafa rétt fyrir sér á röngum tíma.

Fyrir tíu árum flutti mamma á Ísafold þar sem hún naut aðhlynningar og óhætt er að segja að frá þeirri stundu hafi taktur lífsins breyst og orðið ögn torlesnari. Undir það síðasta var gengið af fundi við konu sem ekki þekkti gesti sína. Þessi veruleiki varð hluti nýrrar tilveru og ásetningurinn varð því ávallt að reyna að ganga af fundi með bros á vör. Heimsóknirnar urðu fleiri en ég þorði að vona en allar voru þær mismundi erfiðar og óhætt að segja að þegar hurðinni var hallað hafi tárvot augu gengið af fundi.

Eftir því sem heilsu mömmu hrakaði varð sífellt erfiðara að brydda upp á frásögnum eða samtali sem hún gat tekið þátt í en eitt var þó víst að ef efnið snérist um Dagsbrúnarfólkið þá varð þráður samtalsins traustari og greina mátti gleði bæði í andliti hennar og handahreyfingum.

Fullvissan um að hlúð væri vel að mömmu var huggun harmi gegn en systur mínar, Rósa og Auður Edda, hlúðu aðdáunarlega að móður sinni og fæ ég þeim seint fullþakkað fyrir.

Segja má að læra megi sitthvað af göngu með hrumri móður og eitt er víst að maður öðlast betri skilning á því að tala um dauðann rétt eins og lífið enda er í hverfulleika lífsins gildi þess falið.

Að leiðarlokum þakka ég yndislegri móður fyrir allt það sem hún gerði fyrir mig, konu mína, börn, barnabörnin fjögur og tengdasynina og ég geri orðin í síðasta erindinu um íslensku konuna að mínum:



En sólin hún hnígur og sólin hún rís.

Og sjá, þér við hlið er þín hamingjudís,

sem ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar, sem ann þér og þér helgar sitt líf.




Þorsteinn Geirsson

Í fyrstu æskuminningu sem ég hef náð að framkalla er mamma að hjálpa mér með ljósbláa sjóhattinn sem ég fékk frá ömmu og afa á Norðfirði. Framkvæmdum var ekki lokið við æskuheimilið við Markarflöt og allt þakvatnið af austurhlið hússins streymdi niður á einum stað. Undir bununni stóð ég kátur og glaður og álagsprófaði hattinn og regngallann með því að halla höfðinu aftur og láta barðið aftan á hattinum leiða vatnið niður bakið. Mamma fylgdist með mér með sínu hlýja brosi úr þvottahúsinu.

Rúmum fimmtíu árum síðar átti ég mína síðustu minningu með mömmu þegar hún kvaddi þessa tilveru á fallegum sunnudagsmorgni. Systurnar gleði og sorg einkenna þessar tvær minningar. Þó er gleði í þeim báðum á sinn hátt. Ég skil það best nú að ég væri hvorki sá sem ég er né á þeim stað sem ég er ef ekki væri fyrir það allt sem gerðist á milli þessara tveggja minninga og ást og atlæti mömmu. Svo mikið gerði hún fyrir mig að því verður vart með orðum lýst.

Sjóhattinum hef ég týnt en líkt regnvatninu í þá daga falla nú tár í fold er ég lýt mínu bera höfði og þakka elsku mömmu fyrir að hafa verið skjól mitt, skjöldur og hlíf í öll þessi ár. Hún var þessi íslenska kona sem unni fólkinu sínu og helgaði því líf sitt.

Mamma var greind, gáfuð, minnug og þekkti uppruna sinn betur en flestir. Hún var stolt af því harðfylgi og dugnaði sem fólkið hennar sýndi við að draga fram lífið við kröpp kjör, nægjusemi og oft á tíðum erfiðar aðstæður.

Mamma var góð á bókina og gat lært og munað það sem hún las. Ég fékk að njóta þess. Við vorum nánast samstíga í námi til stúdentsprófs frá FG og raungreinaþekkingu sinni, sem ég naut góðs af í framhaldsnámi og geri enn, náði hún með einstakri þolinmæði að miðla til mín og sneiða hjá athyglisbrestinum sem truflaði mig þá og ég áttaði mig á og viðurkenndi löngu síðar. Verkfræðigráðan er ekki síður mömmu en mín.

Elsku mamma, ég minnist þess að eitt sinn sem oftar tók ég að mér matseld kvöldsins. Ég reyndi oft að ýta á þá takka sem fengu þig til að hlæja oft með því að snúa hlutum aðeins á hvolf. Maturinn var tilbúinn og þú sagðist vera lystarlaus því þú hafðir borðað kleinur. Ég þráspurði með ýtni og fíflaskap hvernig á því gæti staðið, án þess að leyfa þér að komast almennilega að. Á einhverjum tímapunkti kom að því að þú barst fyrir þig þorsta eftir heimkomu úr vinnu á bókasafni FG. Mér tókst einhvern veginn að afbaka samtalið þannig að þú hefðir borðað hálfan poka af kleinum rétt fyrir mat vegna þorsta! Ég hef ekki tölu á því hvað ég bauð þér oft kleinu við þorsta eftir það. Við gátum oft síðar hlegið að þessu saman viðbragðið var oft hið hjartnæma tilsvar: Ó, hvað þú getur verið vitlaus.
Svona atriði voru miklu fleiri en þetta á sérstakan stað í hjarta mínu.

Elsku mamma, ég vona að ég standi mig í þökk til þín í að miðla áfram til barnanna minna.
Takk, elsku gullfallega mamma, ég elska þig meir en orð fá lýst og er endalaust þakklátur fyrir fyrstu minninguna, kveðjustundina og allt sem varð þar á milli.

Þinn sonur,

Gunnar Ellert Geirsson.