Vilberg Sigurjónsson fæddist í Reykjavík 17. febrúar 1954. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landspítalans í Reykjavík 31. október 2023.


Vilberg var sonur hjónanna Sigurjóns Auðunssonar, f. 30. ágúst 1919, d. 9. nóvember 1996, og Ólafar Ólafsdóttur, f. 20. júlí 1923, d. 25. júní 1991. Vilberg var þriðji í systkinaröðinni. Systkini hans eru: Ólafur Hjörtur, f. 28. febrúar 1951, Jórunn, f. 9. ágúst 1952, Hólmfríður, f. 3. maí 1955, og Guðrún Sigríður, f. 8. júní 1956.


Eftirlifandi eiginkona Vilbergs er Sigrún Andrésdóttir, f. 14. ágúst 1952. Börn þeirra eru: 1) Ingibjörg, f. 30. janúar 1977. Eiginmaður Eric Matthew Myer, f. 21. nóvember 1972, börn þeirra Daníel Thor, f. 24. apríl 2002, og Sóley Anna, f. 29. janúar 2009. 2) Ólöf, f. 25. janúar 1979. Eiginmaður Guðni Þórir Jóhannsson, f. 6. ágúst 1976, börn þeirra Ævar, f. 20. október 2017, og Sigrún, f. 22. ágúst 2019. 3) Andri, f. 9. nóvember 1984. Eiginkona Sandra Vilborg Jónsdóttir, f. 16. júlí 1986. Börn þeirra Elvar Freyr, f. 27. apríl 2015, og Fannar Logi, f. 21. mars 2021.


Vilberg ólst upp í Grundargerði í Reykjavík ásamt góðum hópi systkina. Árið 1973 kynntist Vilberg eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigrúnu Andrésdóttur, og eignaðist með henni þrjú börn. Hann var strax handlaginn, sinnti sveitavinnu á sumrin á Yzta-Skála undir Eyjafjöllum, sem síðar varð ættarsetur stórfjölskyldunnar og uppáhaldsstaður Vilbergs. Hann var vinnusamur og hóf störf í Héðni árið 1971 meðfram námi í Iðnskólanum og síðar Vélskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1978. Hann kunni því vel og starfaði við vélfræðina alla sína tíð. Fyrst í Héðni, Hval 8, síðan Ölgerðinni og lok Ísaga sem í dag heitir Linde Gas. Hann starfaði þar til starfsloka.

Vilberg var virkur í félagsstörfum og var snemma farinn að láta vel til sín taka í pólitík Iðnnemasambandsins og sat í samninganefnd iðnnema um tíma. Hann var tvítugur þegar hann fór á aðalfund Alþýðubandalagsins í Reykjavík og tók sæti sem varamaður þar. Hann tók virkan þátt í starfi þar um tíma. Vilberg brann fyrir jöfnuði hins vinnandi manns, verndun náttúrunnar og góðu friðsælu samfélagi fyrir alla.

Vilberg gekk í Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur árið 1996 og kom hann að mörgum verkefnum og trúnaðarstörfum þar. Hann var formaður FBSR frá árinu 2000-2003. Hann vann ásamt vösku fólki að því að fjármagna og útbúa Björninn, stjórnstöðvarbíl Landsbjargar, sem er nú stjórnstöð fyrir viðbragðsaðila Landsbjargar. Hann tók virkan þátt í að skipuleggja og selja flugelda og jólatré fyrir Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík. Lávarðakaffi í húsnæði FBSR var fastur liður á laugardögum þar sem FBSR-menn koma saman til að drekka kaffi og ræða heimsmálin.


Útför Vilbergs fer fram frá Áskirkju í dag, 15. nóvember 2023, klukkan 13.

Í dag kveðjum við Vilberg bróður minn. Hann var að fást við blöðruhálskirtilskrabbamein, sem fór versnandi þegar leið á þetta ár. Hann var vélfræðingur og starfaði lengstum hjá Ísaga, nú Linde. Sá meðal annars um gasmál sjúkrahúsa landsins og á Grænlandi. Mikil félagsmála- og útvistarmaður. Starfaði alla tíð með Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur, var þar formaður um hríð og í svæðisstjórn Landsbjargar. Hann sá lengi um stjórnstöðvarbíl Landsbjargar, Björninn, sem er sameiginlegur fjarskiptabíl fyrir allar björgunarsveitirnar. Í áratugi sá hann um birgðahald á flugeldasölu flugbjörgunarsveitarinnar.

Hann sá um lagningu gaskerfis í efna-, eðlis- og líffræðikennslustofur Fjölbrautaskólans við Ármúla.

Var einbeitur, hress og lá ekki á skoðunum sínum. Hafði þann eiginleika að láta ekki draga úr sér kjark eða hrekjast undan ómerkilegu fjasi. Fyrirleit andlausa skriffinnsku og stigveldi. Það skipti ekki máli hve langt var á milli endurfunda, það var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Hann var í sveit á sumrum undir Eyjafjöllum, fyrst hjá ömmu en ég hjá móðursystur á Langanesi.

Fór í ferðir til Kína að kanna flugeldaframleiðslu fyrir flugbjörgunarsveitina. Fór í ferð um fjalllendi Nepal.

Það kom smá hik í barnsfæðingar hjá foreldrum okkar á eftir okkur Jórunni. Síðan kom Vilberg og það reyndist svo vel að tvö önnur börn komu næstu tvö árin. Við notum iðulega nafnið Bói, kom líkast til vegna þess að ég eða Jórunn, eða við bæði, höfum ekki getað sagt Vilberg.

Við ólumst upp í Smáíbúðahverfinu sem svo var kallað. Á milli þriggja gatna, Grundargerðis, Akurgerðis og Sogavegar, var hálfgerður mói og mýri. Þarna voru krakkar að leik, alltaf. Löngu síðar voru búin til skrautblómabeð og lagðar túnþökur, síðan er viðburður að nokkur sé þar á ferli. Í lok hvers árs var safnað í gamlárskvöldsbrennu á þessum móa. Í næsta hverfi, Bústaðahverfi, var sömuleiðis safnað í brennu. Mikil metnaður var að hafa stærstu brennuna. Nokkur ár í röð kom upp sá ósiður og kveikja í brennum nágrannans, dögum fyrir gamlárskvöld. Krakkarnir í Grundargerði voru ekkert með í slíkum spellvirkjum. Við settum hins vegar upp eftirlit með okkar brennu, enginn utanaðkomandi kom nálægt væri Vilberg á vakt.

Vilberg var einstaklega traustur og ábyggilegur. Frábær smiður. Strax smápatti sterkur, sem gott var að hafa með í för í Smáíbúðahverfi ef væringar voru með mönnum, sem þó var ekki oft.

Einhverju sinni bárust fregnir um gæsluvöll í nálægri götu. Við fórum nokkur að kanna málið. Vilberg var með þó nokkru yngri og minni. Fórum inn og vorum þar um hríð. Þegar okkur fannst við hafa fullkannað þennan gæsluvöll ákváðum við að halda okkar leið. Þá var búið að læsa hliði og okkur bannað að fara. Eftir smá bollaleggingar var ákveðið að fara samt og klifra yfir grindverkið þegar enginn sæi til; smá áhyggjur hvort Vilberg kæmist yfir eða við hin gætum lyft honum. Hann hélt nú ekki, það væri nú ekkert mál fyrir sig og gott ef hann var ekki fyrstur yfir. Engar fregnir bárust okkur af þessum flótta.

Vilberg var vélstjóri á hvalveiðiskipi Hvals í sumarleyfi frá Vélskólanum. Eitt haustið og skólinn löngu byrjaður og nemendur skólans sem unnu hjá Hval ekki mættir þá hringir skólastjórinn í forstjórann og er farið að lengja eftir sínum nemendum. Já, þeir fara alveg að koma og við greiðum aukatíma fyrir þá ef þarf, var svarið. Líklega hefur dvölin úti á sjó verið á við þó nokkurn tíma í skólanum.

Við skrifuðumst aðeins á þegar ég var búsettur í Svíþjóð. Kaflar úr þessum bréfum:

Þú veist líklega að hér heima á Íslandi er allt á hvínandi, bullandi ferð fyrir jólin. Kaupæðið er slíkt að manni flökrar. Kaupmennirnir græða óstjórnlega og gera allt til að ná í síðustu krónur fólksins. Og dýrtíðin er ofboðsleg. Bækur kosta morð fjár. Ég fór í bókabúð MM og keypti nokkrar bækur, endurminningar Svetlönu Stalín, Bréf til Láru eftir félaga Þorberg, Vistkreppa eða náttúruvernd eftir Hjörleif Gullormsson og svo keypti ég fyrsta og annað hefti af Sögum um ævi Skúla Thoroddsen og þetta kostaði allt hvorki meira né minna en rúmar tíu þúsund krónur, þó er það á félagsmannaverði. Endurminningar Svetlönu virðist vera nokkuð góð bók, ég er nýbyrjaður að lesa hana.

Þú nefndir í bréf þínu um daginn hneykslanlegan atburð, stjórnmálasamband við Sægon-klíkuna. Þetta er sá almesti glæpur sem íhaldið hefur framkvæmt nú á seinustu árum. Og er það andskoti hart að ekki hefur verið tekið á þessum atburði sem skyldi. Miðstjórn Alþýðubandalagsins hefur varla hreyft við málinu. Þegar ég sat minn fyrsta stjórnarfund félagsins í RVK þá krafðist ég þess að félagið færi þess á leit við miðstjórnina að mótmæla þessum atburði. Mér fannst það gefa því meira gildi ef það kæmi frá miðstjórn. En ekki neitt hefur skeð. Það er hart, alveg djöful hart.

Hér heima er mikið talað um járnblendiverksmiðjuna, og eru ekki allir á eitt sáttir í því efni. Ég held nú að þó Maggi Kjartansson hafi gert drög að samningi við auðhringinn Union Carbide, þá hafi það verið gert til að sanna það fyrir meirihluta þjóðarinnar að við Íslendingar ættum meira en helming í stóriðjum landsins. En það er ekki sama hver á heldur í svona málum. Enda hefur íhaldið gert ýmsar breytingar á þessum samningi. Minnkað eignarhlut okkar Íslendinga, lélegra raforkuverð og fleira og fleira.

Jæja ég vona að þú hafir það gott þarna úti og að þú lítir í bækur oftar en sjaldan og sleppir öllu lífi í stórborgunum (14. desember 1974).

Við félagar úr stjórn INSÍ sátum kjaramálaráðstefnu ASÍ og okkur leiddist mjög. lognmolla yfir öllu pakkinu. Það voru nokkrir fulltrúar utan af landi sem héldu uppi merki sósíalískrar verkalýðshreyfingar eins og t.d. Bjarnfríður Leósdóttir frá Akranesi og Jón Ásgeirsson, Alþýðusambandi Norðurlands getur þú athugað um kostnað á einhverjum verkfærum t.d. á átakslykli, meðalstórum, eins á sænskum lyklum (venjulegum föstum og stjörnum). Hvernig væri að fá einhverja myndabæklinga um ýmiskonar verkfæri (4. mars 1975).

Ég er að byrja í Vélskólanum eins og þú líklega veist. Vélskólinn er mjög góður skóli á alþjóða mælikvarða og frekar miklar kröfur gerðar til nemenda sem sjálfsagt og eðlilegt er. En fyrir okkur iðnsveina, iðnskólalærðu, eru það mikil og breytt umskipti að þurfa nú að fara að lesa og læra lexíurnar.

Segja má að til að byrja með hafi verið iðnskólabragur á lærdómnum en það varð fljótlega að breyta um slíkan hugsunargang nú að pólitíkinni, það er ýmislegt að frétta. Hjónaband Ólafs og Geirs gengur nú svona allavega með skini og skúrum. Þó má nú segja að hægri menn standi þó frekar hallandi fæti eftir síðustu atburði í kjaradeilunum. Verkföll eru skollin á hjá sjómönnum og þann 17. febrúar á verkfall að skella á og er eins búist við löngu verkfalli hjá ASÍ-félögunum. Ríkisstjórnin horfir bara á með alvarlegum augum (eins og Geir orðar öll vandamál nú orðið) á þetta allt saman og aðhefst ekki neitt til lausnar í þessum deilum. Landhelgismálið er í hershöndum og ekki neitt gert þar af viti. Allt traust lagt á NATO og Luns (NATO Luns) til að leysa landhelgisstríðið. Það má ekki hreyfa við hernum á Miðnesheiði því þá fer NATO að gretta sig. Ég held nú samt að fólkið í landinu sé orðið fullsatt á þessum heybrókum er stjórna landinu (15. febrúar 1976).

Hér heima á Fróni er heldur ófriðsamt og þá helst í menntamálum þjóðarinnar. Barnaskólakennarar krefjast réttlátari launaskiptingar í stétt sinni. Nemendur í framhaldsskólum eiga nú sem svo oft áður í deilum við ríkisvaldið út af námslánunum eins og þú veist það er hart að sjá á prenti hugmyndir frá stúdentaráði og líka frá kjarabaráttunefnd að á einum stað er talað um jafnrétti í lánamálum þannig að jöfn skipting sé milli skólabrauta, þess fjármagns sem fæst frá ríki og svo á öðrum stað er talað um hina æðri skóla. Það er samræmi í þessu eða hitt þó heldur. Nú eins er því svo farið að margur menntamaðurinn er kominn af alþýðuheimili og er það vel, og þá eru engin vandræði á milli en það eru til einstaklingar sem skreyta sig með fjöðrum ýmiskonar. Þeir eru margir sem segjast vera sósíalistar, róttækir vinstrimenn og svo framvegis á meðan þeir stunda sitt nám. Svo sjáum við þá í röðum með afturhaldinu, jafnvel í fremstu víglínu. Það er allt gott að frétta af okkur heima á Rauðalæk. Annars er það að segja að ég á von á erfingja bráðlega svona seinnipartinn í janúar (9. nóvember 1976).

Það var nú aldeilis skemmtilegt að fá þessi bréf.

Vilberg starfaði í stjórn Iðnnemasambandsins og gátum við tengt INSÍ og SÍNE í sameiginlegum hagsmunamálum. Hann aðstoðaði mig við að koma skeyti frá SÍNE í Uppsölum á framfæri á útifund ASÍ á Austurvelli haustið 1976. Það gat verið snúið að koma skilaboðum á framfæri á þessum árum. Í bréfi segir: Mamma var að hringja í þessu og sagði mér að hún hefði verið á útifundinum á Austurvelli og var skeytið lesið þar óbrenglað. Mamma sagði mér í gær að þú hefðir ætlað að biðja mig að vera á fundinum. Ég hefði ætlað mér það en gat það svo ekki vegna þess að við þurftum að fara í skoðunarferð í hvalbátana. En ég var búinn að tala við þá í stúdentaráði og tóku þeir niður á blað það sama og þú sagðir mömmu í símanum að væri innhald skeytisins. Og ætluðu þeir að bera það saman við skeytið þegar það kæmi en það var ekki komið þegar ég hringdi

Við fórum saman í ýmsar ferðir; nokkur dæmi: Á hreindýraveiðar, að ná í Aga-kokseldavél norður í Svalbarð, Þistilfirði. Skoðuðum Langanesið saman. Fórum iðulega á Skrúfudag Vélskóla Íslands Og svo allar ferðirnar vegna dyntóttu varmadælunnar á Yzta-Skála o.fl. o.fl.

Einhverju sinni á heimleið eftir erfiðan vinnudag varð mér á að dæla bensíni á dísilbílinn. Þetta voru ekki margir lítrar en þó nóg til að vélin lét ófriðlega og ég snardrap á bílnum. Auðvitað hringt í Vilberg og hann kom að vörmu spori. Bíllinn dreginn heim og við í brasi fram eftir nóttu að tappa þessu sulli af bílnum. Spíssar opnaðir og þunnri smurolíu úðað inn í olíuverkið. Dísilolía sett á tankinn. Bílvélin reykti rosalega þegar hún var gangsett en malaði svo bara mun betur en löngum áður.

Svona voru málin leyst, alltaf.

Missir okkar er mikill. Samúðarkveðja til Sigrúnar og allra barnanna.

Ólafur Hjörtur.