Jafet Sigurður Ólafsson fæddist í Reykjavík 29. apríl 1951. Hann lést 7. nóvember 2023.
Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Jafetsdóttir, f. 5.11. 1916, d. 27.12. 1980, og Ólafur M. Magnússon, f. 22.9. 1920, d. 18.9. 1991.
Bróðir Jafets er Magnús Ólafsson, f. 6.3. 1944.
Eftirlifandi eiginkona Jafets er Hildur Hermóðsdóttir, f. 25.7. 1950. Börn Jafets og Hildar eru: 1) Jóhanna Sigurborg, f. 12.3. 1975, gift Jóni Björgvini Stefánssyni, f. 10.6. 1973. Börn þeirra eru Matthildur María, f. 13.1. 2004 og Jafet Stefán, f. 17.10. 2016. 2) Ari Hermóður, f. 16.4. 1982, giftur Sonju Wiium, f. 24.1. 1986. Dætur þeirra eru Arney Tinna, f. 14.12. 2011, Katrín Tanja, f. 25.7. 2015 og Hildur Karen, f. 19.4. 2019. 3) Sigríður Þóra, f. 22.1. 1991, sambýlismaður hennar er Guðmundur Ingi Gunnarsson, f. 9.10. 1991.
Jafet ólst upp í Hlíðunum og var Valsari frá fyrstu tíð. Hann stundaði nám í Hlíðaskóla, lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1973 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1977. Þá var hann löggiltur verðbréfamiðlari.
Sumarið 1973 réð hann sig sem vinnumaður við bæinn Árnes í Aðaldal og kynntist þar eiginkonu sinni, Hildi. Þau giftu sig 15. júní 1975 í Neskirkju í Aðaldal. Fjölskyldan bjó lengst af í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík.

Jafet starfaði í iðnaðarráðuneytinu frá 1975 til 1984, hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga frá 1984 til 1986 og hjá Þróunarfélagi Íslands frá 1986 til 1988. Hann var útibússtjóri Iðnaðarbankans og síðar Íslandsbanka í Lækjargötu í Reykjavík frá 1988 til 1994. Hann var útvarpsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins 1994 til 1996, stofnaði Verðbréfastofuna ásamt fleirum árið 1997 og var þar framkvæmdastjóri til 2006 þegar hann seldi sinn hlut. Eftir það stýrði hann eigin fjárfestingarfélagi, Veig.
Jafet var í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, meðal annars stjórnarformaður Aðalskoðunar í níu ár og sat í stjórn Steinullarverksmiðjunnar og Þörungavinnslunnar. Hann sat einnig í stjórnum Verðbréfaþings Íslands, Nýherja og Samtaka banka og fjármálafyrirtækja. Þá var hann konsúll fyrir Rúmeníu frá 2007 til 2023 og haustið 2022 sæmdur rúmenskri orðu fyrir störf sín. Hann sat í ýmsum stjórnum fyrir Val og stangveiðimenn. Jafet spilaði badminton í fjöldamörg ár og var formaður Badmintonsambandsins frá 1990-1994. Á sínum yngri árum var Jafet mörg sumur fylgdarmaður erlendra veiðimanna í laxveiði í Laxá í Aðaldal.
Jafet var forseti Bridgesambands Íslands frá 2009 til 2022 og sat um tíma í stjórn Bridgesambands Evrópu.

Jafet og Hildur eyddu flestum seinustu sumrum í sumarhúsi sínu, Hólanesi, í Aðaldal og eyddu einnig miklum tíma seinustu 25 árin á Kóngsbakka, Snæfellsnesi, þar sem Jafet hafði verið í sveit sem barn.

Útför Jafets fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 20. nóvember 2023, klukkan 13.

Í dag kveð ég góðan vin. Jafet Sigurður Ólafsson var maður sem ég var svo lánsamur að fá að kynnast, hann var fróður um flest allt sem vert er að tala um, þekkti að mér fannst velflesta núlifandi Íslendinga og aðra sem farnir eru og vissi deili á þeim og þá sem þeim tengdust.
Okkar leiðir lágu fyrst saman eins og líklega hjá mörgum, þegar hann starfaði sem útibússtjóri Iðnaðarbankans í Lækjargötu og fann ég strax hvaða mann hann hafði að geyma, en það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að leiðir okkar lágu saman aftur og þá varðandi byggingaverkefni í Búkarest höfuðborg Rúmeníu, þar kom Jafet eins og alltaf sterkur inn ásamt fleiri fjárfestum sem að verkefnunum komu. Jafet var alltaf virkur bæði í leik og starfi, hann var framkvæmdastjóri bæði í sínum fyrirtækjum sem og annarra og í stjórnum margra fyrirtækja, félaga og félagasamtaka. Hann brann fyrir allskyns íþróttum og var vel að sér í þeim flestum þó Íþróttafélag Vals hafi verið framarlega í röðinni ásamt Bridge sambandi Íslands, hann var mikill bridge maður frá unga aldri og var forseti Bridge sambands Íslands um árabil og til margra ára í stjórn evrópska Bridge, sambandsins Executive Committee of EBL.

Jafet var skipaður ræðismaður Rúmena á Íslandi 2007 til 2022. Á þeim tíma heimsótti hann Rúmeníu reglulega og með honum og ræðismanni Íslands þar Georgiana og eiginmanns hennar Florin Poganaru myndaðist gott vinasamband, hann hitti þessi heiðurshjón oft á sínum ferðum. Ég og eiginkona mín bjuggum í Búkarest til margra ára og nutum þess að fá tækifæri til að kynnast Georgiana, Florin og þeirra fjölskyldu. Georgina og Jafet voru alltaf í góðu sambandi og síðast daginn fyrir andlátið töluðu þau saman, hún tekur fráfall vinar síns nærri sér.

Í hvert skipti sem Jafet kom til Rúmeníu var hann búinn að skipuleggja hvað hann vildi gera, það var allt skipulagt, farið á fund í Utanríkisráðuneytið og fundað með kollega sínum Georgiana, hann var með lista yfir matsölustaði sem hann var búinn að googla en alltaf var farið á traditional-rúmenskan veitingastað, það var sá matur sem hann vildi helst í þessum ferðum. Oftar en ekki var hann með hugmyndir að ferðalagi, stundum dagsferðir en líka var farið í nokkra daga. Við ferðuðumst víða og sáum margt, fórum nokkrum sinnum yfir til Búlgaríu, einnig til Republic of Moldavia, heimsóttum þeirra höfuðborg Chicinau, fórum líka yfir í sjálfstjórnarhérað sem heitir Transnistria, hliðhollt Rússum og sáum þar háar styttur af fyrrum rússneskum einræðisherrum.

Fyrir fáeinum árum komu Hildur og Jafet akandi til Rúmeníu frá Ungverjalandi og spurðu hvort við Sigrún eiginkona mín værum til í að hitta þau í Cluj sem er falleg borg undir þýskum áhrifum eins og margar borgir í Transilvania. Úr þessu varð nokkurra daga ferðalag, margar borgir skoðaðar, við gistum í Sighisoara sem er falleg miðaldaborg og vorum þar innan gömlu borgarmúranna á hóteli í nokkur hundruð ára gamalli byggingu. Þar á huggulegum útibar horfðum við á íslenska landsliðið sigra breska heimsveldið, ógleymanleg stund. Við Jafet fórum víða eins og áður hefur komið fram, við sigldum um vaðfuglasvæði, stærsta fenjasvæði í Evrópu Danube Delta, fórum þar á stað Mila 23 sem er lítil eyja með örfáum íbúum, gistingin náði ekki einni stjörnu, við vorum við settir saman í lítið herbergi, sem var allt í lagi en það var ekki hiti á húsinu og Jafet svaf með handklæði vafið um höfuðið og ég borðaði morgunmatinn í hönskum. Þetta var ekki lúxus, en þannig staðir standa oft upp úr þegar litið er til baka.

Það gleymir enginn Kóngsbakka sem þangað hefur komið en þar hafa Jafet og Hildur komið sér vel fyrir í gömlum uppgerðum sveitabæ þar sem Jafet hafði verið í sveit hjá ættingjum sínum í æsku. Að sitja í borðstofunni í gömlu hlöðunni og líta út og sjá haförn fljúga framhjá var toppurinn á heimsókn okkar. Einnig var gaman að koma við hjá Hildibrandi á næsta bæ, hlusta á hann segja sögur og fá hjá honum hákarl og hákarlalýsi.
Jafet réð sig ungur til sumarvinnu norður í Árnes í Aðaldal, þar kynntist hann Hildi Hermóðsdóttur sem var heimasæta á bænum. Laxá í Aðaldal er ein af fallegri laxveiðiám á landinu og Jafet bæði veiddi í ánni og einnig var hann leiðsögumaður þar árum saman og kynntist efalítið mörgu samferðafólki þar. Við hjónin fengum þeirra leiðsögn um ána, skoðuðum sveitina og næsta nágrenni með þeim Hildi og Jafet fyrir nokkrum árum á ferð okkar um landið. Jafet Ólafsson var mikill selskapsmaður og í ágúst síðastliðnum stefndum við Jafet og fleira fólki til okkar en forföll voru og spurði ég Jafet hvort hann vildi fresta boðinu, svarið var, Jón við frestum aldrei neinu og við áttum gott kvöld með góðum vinum.
Með þessum orðum kveð ég góðan og traustan vin og samhryggist Hildi, fjölskyldu og vinum.

Jón Valur Smárason.