Sigríður Hróalds Jóhannsdóttir fæddist í Reykjavík 8. september 1967. Hún lést 20. september 2023.

Foreldrar hennar voru Rebekka Kristjánsdóttir (Bíbí) talsímavörður og fararstjóri frá Ísafirði og Jóhann Guðmundsson innheimtustjóri, fæddur í Flatey á Breiðafirði.

Hálfsystkini Sigríðar eru Páll Guðjónsson, giftur Ingibjörgu Flygenring og eiga þau tvö börn; Fanný Guðjónsdóttir, gift Þorsteini Höskuldssyni og eiga þau þrjú börn; Herjólfur Guðjónsson, á tvö börn, giftur Önnu Fenger. Albróðir Sigríðar er Jón Jóhannsson, giftur Ástu Þóru Valdimarsdóttur og eiga þau tvö börn.

Sigríður giftist Björgvini Ragnarsyni, börn þeirra eru: 1) Þórunn Katrín, í sambúð með Ægi Birni Gunnsteinssyni, Þórunn á tvö börn frá fyrra sambandi, þá Björgvin Skúla Hauksson og Baltasar Erni Hauksson. 2) Karen Mjöll, í sambúð með Hektori Má Jóhannssyni og eiga þau einn son, Manúel Nóa,  Karen á dóttur frá fyrra sambandi, Veigu Katrínu Ólafsdóttur. 3) Jóhann Ari.

Sigríður var í sambúð með Þórarni Þórarinssyni og eiga þau einn son, Þórarin.

Sigríður var jarðsungin frá Grafarvogskirkju 17. nóvember 2023.

Eftirfarandi grein átti að birtast 17. nóvember sl. en féll niður fyrir mistök.
Allir hlutaðeigandi eru beðnir velvirðingar.
Við pabbi þinn giftumst 12. desember 1964. Jón bróðir þinn fæddist þann 17. nóvember 1964. Þremur árum seinna komst þú í heiminn og var mikil spenna hvort aftur kæmi strákur eða hvort það yrði stelpa. Föðuramma þín varð svo glöð þegar þú komst og hún eignaðist alnöfnu, Sigríði Jóhannsdóttur, enda hélt hún þér undir skírn. Hún fékk því miður ekki að njóta langra samvista við þig þar sem hún veiktist í janúar 1968, missti málið og lamaðist.

Elskan mín, þú varst mikið hænd að bróður þínum og fékk Nonni ekki mikinn frið fyrir þér fyrstu árin en hann hafði ekkert á móti því. Þú varst mikill gleðigjafi, þér gekk vel í skóla og eignaðist marga góða vini sem héldu sambandi eftir skólagöngu. Við bjuggum á fyrstu hæð á Háaleitisbraut 151. Þú, fjögurra ára, varst mjög málglöð og áttir það til að opna fram á gang með stóru skóhorni, setjast í tröppurnar og spjalla við alla sem komu og fóru. Þú gekkst í Álftamýrarskóla og eignaðist marga góða vini sem sakna þín í dag. Þú varst vel liðin í vinnu, sérstaklega í leikskólunum því þú varst mikil barnagæla og dýravinur.

Hinsta kveðja frá mömmu til þín:

Lýs, milda ljós, í gegnum þennan geim,
mig glepur sýn,
því nú er nótt, og harla langt er heim.
Ó, hjálpin mín,
styð þú minn fót; þótt fetin nái skammt,
ég feginn verð, ef áfram miðar samt.

Ég spurði fyrr: Hvað hjálpar heilög trú
og hennar ljós?
Mér sýndist bjart, en birtan þvarr, og nú
er burt mitt hrós.
Ég elti skugga, fann þó sjaldan frið,
unz fáráð öndin sættist Guð sinn við.

Þú ljós, sem ávallt lýsa vildir mér,
þú logar enn,
í gegnum bárur, brim og voðasker.
Nú birtir senn.
Og ég finn aftur andans fögru dyr
og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr.
(Matthías Jochumsson)



Hinsta kveðja til þín elsku dóttir mín góð.





Mamma.