Steingrímur Hólmgeir Ingvarsson fæddist á Blönduósi 13. nóvember 1939. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 15. nóvember 2023.


Foreldrar hans voru Svava Steingrímsdóttir, f. 1921, d. 2014 og Ingvar Björnsson, f. 1912, d. 1963. Systkini Steingríms eru: Björn, f. 1942, Ingvar, f. 1946, d. 2022, Helga, f. 1950, d. 2020; Kristinn, f. 1962.


Eiginkona Steingríms er Jóhanna María Þórðardóttir ljósmóðir, f. 8.11. 1941.


Börn Steingríms og Jóhönnu eru: 1) Rúnar Þór lögreglufulltrúi, f. 1965, giftur Ann Westerberg, f. 1956. Börn Rúnars úr fyrra hjónabandi eru Hólmgeir, f. 1989 og Axel Orri, f. 1992. Axel er giftur Ingrid Marie Bunes og eiga þau eitt barn. Ann á tvö börn úr fyrra hjónabandi; Jonas og Frida. 2) Linda Björk, bóndi á Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, f. 1966, gift Þorsteini Guðmundssyni, f. 1961. Börn þeirra eru: Jóhann Már, f. 1989 giftur Söndru Maríu Ásgeirsdóttur, f. 1989. Þau eiga tvö börn. Erna Guðrún, f. 1993, gift Ríkharði Þór Rögnvaldssyni, f. 1992. Þau eiga eitt barn. Brynja, f. 1999, í sambúð með Agli Milan Gunnarssyni, f. 1998. Steingrímur, f.  2000. 3) Svava Steingrímsdóttir tækniteiknari, f. 1971, gift Baldri Pálssyni, f. 1968. Börn þeirra eru Eva María, f. 2003 og Eiður Þór, f. 2010. Sonur Baldurs er Hafsteinn Esjar, f. 1996. 4) Gunnþóra Steingrímsdóttir sálfræðingur, f. 1976, í sambúð með Mogens Habekost, f. 1978. Börn þeirra eru: Maja Elísabet, f. 2008, Anna Lovísa f. 2014 og Konrad Benedikt, f. 2016. Dóttir Mogens er Dorthea, f. 1996.

Steingrímur ólst upp á Blönduósi og á Akranesi. Hann lauk stúdentsprófi frá MA árið 1959 og verkfræðiprófi frá Stuttgart í Þýskalandi árið 1967. Hann starfaði á verkfræðistofu á Akranesi í eitt ár, en hóf svo störf hjá Vegagerð ríkisins í Reykjavík. Frá 1969 og til starfsloka var Steingrímur  umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar fyrir Suðurland. Árið 1974 flutti Steingrímur með eiginkonu og börnum frá Reykjavík til Selfoss þar sem þau fljótlega byggðu sitt hús í Fagurgerði 10.

Steingrímur var í mörg ár bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn á Selfossi og í nokkur ár í flokksstjórn Alþýðuflokksins. Hann starfaði í sóknarnefnd Selfosskirkju í nokkur ár, var þar m.a. formaður og sat kirkjuþing. Hann var virkur í fjölda félags- og trúnaðarstörfum, m.a. í skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands, byggingarnefnd Selfoss, tómstundaráði, stjórn Brunavarna Árnessýslu, fulltrúaráði Sambands sunnlenskra sveitafélaga og í stjórn Steinsteypufélags Íslands. Steingrímur var frímúrari til margra ára.

Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 24. nóvember 2023, klukkan 14.

Vinur og félagi allt frá unglingsárum er nú allur, langri baráttu við erfið veikindi er lokið. Enn er höggvið skarð í ævilangan vinahóp okkar bekkjarsystkinanna MA-59. Söknuður fyllir hugann sem leitar langt aftur, allt til haustsins 1955 þegar ungt fólk víða að af landinu settist í 3. bekk Menntaskólans á Akureyri og hóf fjögurra vetra skólavist saman. Flestir nemendur skólans, sem ekki áttu heima á Akureyri, bjuggu í heimavistinni þar sem samvistir við góða og trausta félaga voru ómetanlegar fyrir þroska okkar unglinganna. Í árganginum voru sterkir karakterar og miklir dugnaðarmenn og mikill meirihluti hans bjó í heimavistinni og þar mótaðist hin sterka samkennd og samheldni sem haldist hefur alla tíð í MA-hópnum okkar. Samkennd og traust vinátta varð strax aðalsmerki þessa hóps og við höfum alla tíð stutt hvert annað í blíðu og stríðu. Í bekknum var ljúfmennið Steingrímur H. Ingvarsson og þarna lágu leiðir okkar fyrst saman.

Við áttum svo samleið næstu 3 veturna í stærðfræðideildinni og vorum í hópi stórhríðarstúdentanna sem útskrifuðust frá MA í illviðrinu 17. júní 1959. Hópmyndin sem tekin var í gamla leikfimihúsi MA geymir minningu um glatt ungt fólk sem horfði með tilhlökkun og spenningi til framtíðarinnar. Alla tíð síðan hefur þessi vinahópur haldið saman, glaðst og átt tíða samfundi. Steingrímur var félagslyndur og þau Jóhanna létu sig aldrei vanta í hópinn. Margar dýrmætar minningar lifa áfram um þennan góða vin.

Steingrímur var vel gefinn og góður námsmaður. Hann lauk menntaskólanum með prýði, nam byggingaverkfræði í þýskalandi og var svo umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar fyrir Suðurland. Steingrímur var samviskusamur og afar vel metinn fagmaður af þeim sem honum kynntust og hann helgaði sig starfinu af lífi og sál. En svo kemur eitthvað fyrir sem breytir lífi manns og það er hörmulegt að minnast þess atviks sem ég rek hér. Það breytti lífi fjölskyldunnar og snerti líka vini hans og félaga mjög djúpt og sárt alla tíð síðan og er þyngra en tárum taki.

Svo bar við dag einn í fyrstu viku ágúst árið 2002, að Steingrímur var að koma frá fundahaldi á NA-landi með starfsfélögum sínum hjá Vegagerðinni og var ásamt Jóhönnu á leiðinni heim á Selfoss þar sem þau bjuggu. Þegar þau voru stödd í Ljósavatnsskarði tók hún eftir því að eitthvað var að Steingrími, hann svaraði henni einkennilega og var greinilega veikur. Hún fékk hann til þess að skipta um sæti við sig og ók áfram rakleitt á Sjúkrahúsið á Akureyri. Steingrímur var tekinn inn á bráðamóttökuna og haldið þar til kvölds. Þá sagði vakthafandi læknir að þau skyldu fara, en þó ekki úr bænum og koma við í fyrramálið. Jóhanna lét nauðug segjast, fór með Steingrím og þau gistu í bænum um nóttina. Morguninn eftir fór hún með hann aftur á spítalann. Þar var henni ákveðið sagt, að þar sem nú væri að koma verslunarmannahelgin, allir vildu vera heima eða í fríi og að mannekla væri hjá þeim, væri best fyrir þau hjónin að fara heim á Selfoss og að Steingrímur færi þar til læknis eftir helgina. Jóhanna lét aftur nauðug undan, keyrði suður á Selfoss og þangað komu þau um kvöldið. Um nóttina vaknaði Jóhanna við dynk. Hún fór fram og þá lá Steingrímur á gólfinu, lamaður hægra megin og nánast mállaus. Blóðtappar voru í heila, skaðinn var skeður.

Steingrímur var að eðlisfari afar jákvæður persónuleiki, alltaf glaður og gamansamur og það breyttist aldrei. Við Sjöfn sættum oft lagi að heimsækja Steingrím og alltaf tók hann gestum fagnandi. Aldrei kvartaði hann eða barmaði sér og öll þessi mörgu ár reyndi hann alltaf að hafa jákvæð áhrif, brosti og hló og reyndi að tjá sig, en gat lítið sagt nema já og nei.

Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að þetta hefði ef til vill eða líklega ekki skeð ef tekið hefði verið á móti veikum manninum við komuna á sjúkrahúsið á Akureyri, af ábyrgð, fagmennsku og með fullri alvöru. Þá hefði líf Steingríms og fjölskyldunnar orðið öðruvísi en það varð. Þessi frásögn er því miður sönn þótt ótrúlegt sé og allan þennan tíma hefur fjölskylda Steingríms og vinafjöldinn dáðst að þolgæði hans og fundið svo sárt til með þessum góða dreng, sem við kveðjum hér.







Skúli Jón Sigurðarson.