Sigurður Þráinn Kárason, byggingafræðingur og kennari, fæddist 21. nóvember 1935 í Reykjavík. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 12. nóvember 2023.
Foreldrar hans voru Þórdís Jóna Jónsdóttir, f. 1907, d. 1973, húsfreyja frá Eyrarbakka. Eiginmaður hennar Kári Sigurðsson, f. 1897, d. 1976, húsasmiður frá Eyrarbakka. Bræður hans voru Hrafnkell, f. 1938, d. 2021, og Guðni, f. 1942, d. 2001.
Hinn 31. desember 1932 kvæntist Sigurður Þráinn eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Guðmundsdóttur, f. 1940. Foreldrar hennar voru Þuríður Kristín Vigfúsdóttir, f. 1901, d. 1987, og Guðmundur Filippusson, f. 1891, d. 1955.
Dætur þeirra eru: 1) Kristín, f. 1963, gift Sigurjóni Hjartarsyni, f. 1958. Börn þeirra eru Hlynur Þráinn, sambýliskona hans er Stefanía R. Ragnarsdóttir. Dóttir þeirra er Berglind Lóa; Erna Rós og Björk. 2) Hildur, f. 1968, gift Jóni Ármanni Gíslasyni, f. 1969, og eiga þau synina Þorstein Gísla og Sigurð Kára. 3) Rúna (Guðrún Jóna), f. 1969. Eiginmaður hennar er Bjarni Gunnarsson, f. 1965. Dætur þeirra eru Hildur Mínerva og Lilja.
Sigurður Þráinn var húsasmíðameistari frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann lærði byggingarfræði í Kaupmannahöfn. Eftir að hann kom heim starfaði hann fyrir gatnamáladeildir í Hafnarfirði og í Reykjavík og hjá Vegagerðinni. Hann kenndi í Iðnskólanum í Reykjavík í rúmlega þrjátíu ár, eða til starfsloka.
Hann var virkur í Róðrafélagi Reykjavíkur. Hann var einn fyrstur Íslendinga til að taka svarta beltið í júdó. Hann var mikill áhugamaður um skák og æfði sund og sundknattleik hjá Sundfélagi Reykjavíkur.
Sigurður Þráinn verður jarðsunginn frá Digraneskirkju í dag, 24. nóvember 2023, og hefst athöfnin klukkan 15.
Í dag kveð ég tengdaföður minn, Sigurð Þráin Kárason eða Þráin eins og
hann var ávallt kallaður innan fjölskyldunnar. Hann var þolinmóður
rólegheitamaður og hafði góða nærveru. Það var sama hvenær kíkt var í
heimsókn eða hann kom við hjá okkur, það voru ávallt sömu rólegheitin.
Gjarnan var Þráinn með skrifblokk og penna í brjóstvasanum. Í henni mátti
finna einhverja þraut, gátu eða jafnvel vísu og þá oftast í léttum dúr.
Eitthvað af þessu var síðan lagt fyrir viðkomandi og urðu oft skemmtilegar
umræður í framhaldinu. Það mátti síðan krydda skemmtilegheitin með smá
stríðni ef þurfti, að mati Þráins. Hann var lúmskt stríðinn, einkum við
yngra fólkið.
Ef unga fólkið var þreytt eða illa fyrir kallað þá átti Þráinn leynivopn
sem dugði nær alltaf. Það var munnharpan. Þetta leynivopn notaði Þráinn
reglulega og ekki er langt síðan munnharpan var brúkuð fyrir langafabarn
Þráins, hana Berglindi Lóu, og virkaði vel sem endranær. Þessi notalega
nærvera og hógværð Þráins hafði mjög smitandi áhrif, flestir í
fjölskyldunni geta vitnað um það.
Við fjölskyldan nutum þeirrar gæfu að búa nánast hlið við hlið við
tengdaforeldrana í um tvo áratugi og var oft skotist milli Hjalló og Giljó,
ég tala nú ekki um yngri meðlimi fjölskyldunnar.
Það var ekki eingöngu verið að skottast þar á milli því reglulega var
skotist á Apó, í sumarbústaði sem Þráinn og vinir hans í Iðnskólanum höfðu
komið sér upp nálægt Laugarvatni. Lækur rann meðfram landareigninni og hægt
var að veiða silung beint á grillið. Það fóru líka ófáir dagar hjá
krökkunum í að búa til fleka með afa og sigla niður lækinn með öryggisband
þar sem afinn var ankerið.
Þarna var Þráinn í essinu sínu, leika og sulla með barnabörnunum þar sem
allir skemmtu sér. Þarna fékk íþróttamaðurinn að njóta sín. Þráinn hefur
kannski endurupplifað að hluta þegar hann á sínum yngri árum æfði og keppti
í róðri. Einnig æfði hann og keppti í sundi. Seinna meir, á besta aldri,
æfði hann og keppti í júdó alla leið í svarta beltið. Þegar ég kynntist
Þráni þá átti hann hjól og hjólaði töluvert. Hann hafði alla tíð mikinn
áhuga á hjólreiðum og öllum þeim nýjungum sem þeim fylgdu. Áttum við ófá
samtöl um þessa hluti og undraðist ég hve Þráinn var inni í þessum nýjungum
allt fram á síðasta dag.
Þráinn hafði gaman af tækninýjungum og þar naut kennarinn sín vel. Setti
sig vel inn í það sem var á hans sviði og spurði í smáatriðum út í það sem
hann hélt að aðrir kynnu. Ég man vel eftir þegar þau hjónin og dætur komu í
heimsókn til okkar Kristínar í Illinois í Bandaríkjunum þar sem við vorum í
námi. Þar mátti sjá ýmsar nýjungar sem mikið var spáð í, meðal annars var
Macintosh-tölvan vinsæl og Þráinn ákveðinn í að tileinka sér þessa nýju
tækni. Við keyrðum niður til Flórída á Canaveral-höfða. Þar var mikið spáð
í hlutina og ljóst að geimför voru mikið áhugamál Þráins.
Þráinn vann í nokkur ár hjá Vegagerðinni, meðal annars að mæla út veginn
á Skeiðarársandi. Margar sögur átti hann til frá þeim árum og ljóst að hann
naut sín á þessu svæði. Hann hafði verið í sveit á Blómsturvöllum undir
Harðskafa. Þar komst hann í kynni við gamla tímann, naut þess að aðstoða í
lífsbaráttu þessa fólks. Enda fáar kynslóðir upplifað aðra eins breytingu á
samfélaginu og kynslóð Þráins. Þráinn naut þess að aðstoða. Það þurfti ekki
mörg orð ef þurfti að mæla fyrir sólpalli eða þvíumlíku. Hann var mættur
með þrífótinn, kíkinn og appelsínugula snærið og drifið í hlutunum. Það var
strax ljóst á vinnubrögðunum að þar var fagmaður að verki.
Þráinn kenndi við Iðnskólann í áratugi. Var vinsæll kennari og ég vissi að
sumir fyrrverandi nemendur gerðu í því að hitta á Þráin síðar á
lífsleiðinni og ræða málin. Einnig átti Þráinn góðan vinahóp kennara í
skólanum sem náði langt út fyrir skólann. Það er ljóst að þessi sterku
kennara- og þolinmæðisgen erfast ekki bara til dóttur heldur líka til
dótturdóttur.
Það verða ekki fleiri heimsóknir, sögur, þrautir og gátur leystar með
Þráni. Eftir situr ljúf minning um einstakan mann, takk fyrir allt.
Sigurjón Hjartarson.