Sóley Vífilsdóttir fæddist 18. mars 1974. Hún lést 10. nóvember 2023.

Útför hennar fór fram 25. nóvember 2023.


Elsku vinkona.

Það er óraunverulegt að sitja hér við eldhúsborðið og vera að skrifa um þig minningarorð, sama eldhúsborð sem er svo stutt síðan að við sátum saman við að spjalla og Ylfa Röfn sat hjá okkur og var að teikna.

Hugurinn hvarflar aftur í tímann, við vorum svo lánsamar að foreldrar okkar voru vinir svo að vinátta okkar hefur verið til staðar frá því að þú fæddist. Við samt svo ólíkar, þú rólegri og yfirvegaðri á meðan ég var hvatvísari og meiri villingur. En það var sama hvað ég gerði eða við krakkarnir í þorpinu, þú varst alltaf með, en lést ekki leiða þig út í vitleysu eins og að reykja og drekka þó svo að nánast allir aðrir væru að því. Það var ekki fyrr en þú fórst á Krókinn að þér var spillt, ég hef nú aldrei skilið hvernig þau fóru að því.

Stutt var á milli húsa og alls ekki alltaf þörf á því að banka heldur bara labbað inn sem var mjög heimilislegt. Við vorum eðlilega ekki alltaf sammála og alltaf sáttar en það stóð nú aldrei lengi, eitt sem ég man svo vel, það er ef við vorum t.d. að ræða texta í lögum eða eitthvað sem hafði gerst eða guð má vita hvað og við þráttuðum kannski um það í einhverja stund, að þá hafðir þú langoftast rétt fyrir þér en ekki held ég að það hafi nokkurn tímann hvarflað að þér að nudda salti í sárin með það þegar ég þurfti að gefa mig með að hafa ekki rétt fyrir mér.

Þú varst alltaf til staðar fyrir mig, við ræddum bókstaflega allt. Það var gott að deila með þér þegar maður var skotinn í einhverjum og svo að halla sér upp að öxlinni á þér þegar það gekk ekki, þá varstu auðvitað að reyna að hughreysta mann eins og þér var einni lagið með einhverjum skemmtilegum athugasemdum.

Svo þegar þú komst til baka frá Króknum var ég hætt í framhaldsskóla og komin aftur til Þórshafnar, þá lágu leiðir okkar aftur saman. Það var svo einhvern tímann á því tímabili sem við áttum alvarlegt samtal og þú sagðir mér að þú hefðir grun um að þú værir ólétt úppps já ok, við verðum að fá staðfestingu á því hvernig það mál stendur. Það varð úr að ég fór í apótekið til að kaupa óléttupróf því ekki vorum við að fara að senda ófríska manneskjuna í apótekið á Þórshöfn þar sem allir þekkja alla til að kaupa óléttupróf, það var betra að ég færi því ef einhverjar sögur færu af stað um mig að ég væri ólétt að það var þá allavega kjaftasaga.

En þarna byrjaði annað af tveimur bestu atburðum lífs þíns. Yndislega Hrefna Maren kom í heiminn í janúar 1995 og þá var ég flutt til Akureyrar, ég man að ég fór út á Akureyrarflugvöll til að sjá ykkur þegar þú varst að fljúga heim frá Reykjavík eftir að hún fæddist. Hún var svo sannarlega ljós í tilverunni og samband ykkar einstaklega fallegt alla tíð.

Eftir þetta lágu leiðir okkar svolítið í sundur, við bjuggum meira og minna hvor á sínum staðnum en strengurinn og tengingin á milli okkar hefur alltaf verið mjög sterk.

Seinna kemur hitt meistaraverkið þitt hann Sigurjón Vikar eins dásamlegur og hann er.

En núna síðustu ár þegar þú fórst að koma oftar til Akureyrar þá fórum við að hittast oftar en auðvitað alls ekki nógu oft. Þú komst stundum upp um þig ef þú settir inn snapp eða story þar sem ég sá að þú varst á Akureyri og sendi þá gjarnan á þig línu og ef vel stóð á hjá okkur báðum þá hittumst við.

Elsku blómið, þú varst svo heilsteypt manneskja með hlýjan og notalegan faðm og skemmtilegan húmor og orðafrasarnir sem komu stundum óborganlegir.

Þegar ég kvaddi þig um daginn var ég farin að átta mig á því að Fribbinn væri kannski ekki alveg svona dramatískur eins og þú sagðir heldur raunsær, en ég vonaði þó að ég myndi hitta þig aftur þegar ég kæmi heim úr Hveragerði, ég var eiginlega alveg viss um það, þetta gæti ekki gerst svona hratt. Þú áttir líka eftir að fara heim, við vorum alltaf að reikna með því.

En síðasta stundin sem við áttum í bústaðnum þegar ég var að lita á okkur augabrúnirnar og Inga mín að lakka á þér neglurnar er mér svo dýrmæt, ég man síðasta faðmlagið okkar.

Elsku elsku Sóley mín, takk fyrir að vera vinkona mín, takk fyrir allar stundirnar okkar saman, takk fyrir að vera hluti af lífi mínu og takk fyrir þig, elsku blómið.

Megi Guð varðveita þig og geyma og gefa öllu þínu fólki styrk í sorginni, eftir sitja ótal minningar og sögur sem eru til um þig sem eru okkur öllum dýrmætar. Heimurinn er fátækari án þín.

Þín æskuvinkona,

Hildur Salína.