Einar Guðmundur Högnason skósmíðameistari fæddist í Reykjavík 27. maí 1947. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 25. nóvember 2023.
Foreldrar hans voru Þuríður Jónborg Sigurðardóttir, f. 28. júní 1925, d. 13. september 1994, og Högni Einarsson skósmíðameistari, f. 7. júlí 1919, d. 20. desember 1979. Systkini Einars eru Sigurður P., f. 8. nóvember 1945, Sigrún, f. 5. janúar 1950, og Hilmar, f. 1. október 1957.
Einar giftist 28. maí 1966 eftirlifandi eiginkonu sinni Sigríði Guðmundsdóttur, f. 5. ágúst 1946. Synir þeirra eru: 1) Þorsteinn, f. 3. júní 1967, maki María Einarsdóttir, f. 27. desember 1971, synir þeirra eru Einar Rökkvi, f. 22 nóvember 2008, og Elfar Húmi, f. 4. janúar 2011. 2) Högni, f. 17. mars 1974, maki Kristín Ásta Alfredsdóttir, f. 10. ágúst 1975. Börn þeirra eru Andrea Sif, f. 13. maí 1997, maki Morten Pedersen, f. 22. september 1996, dóttir þeirra er Emma Sóley, f. 12. apríl 2021, Birgitta Rós, f. 30. nóvember 2005, Breki, f. 13. júní 2008, Bríet, f. 13. júní 2008. 3) Guðmundur Einar, f. 22. júní 1979, maki María Pálmadóttir, f. 18. mars 1979. Synir þeirra eru Gabríel Reynir, f. 20. september 1997, Máni, f. 23. september 2006, Ísak Rökkvi, f. 4. júní 2009, Stormur, f. 17. febrúar 2021.
Einar fæddist í Reykjavík og ólst upp í smáíbúðahverfi frá átta ára aldri. Á unglingsárum spilaði hann handbolta með Fram. Hann lærði skósmíði hjá föður sínum og fluttust þau hjónin til Ísafjarðar strax eftir giftingu þar sem hann rak skóvinnustofu í þrjú ár og skóverslun. Þau fluttust til Reykjavíkur árið 1970. Þar rak hann skóvinnustofu í Sólheimum í 17 ár. Hann var verslunarstjóri í Toppskónum hjá Steinari Waage og síðar hjá Axel Ó á Laugavegi 11. Þar sá hann m.a. um hönnun á Puffins-skólínunni og voru þeir framleiddir í Portúgal. Hann fór síðan að vinna sem sölumaður hjá Íslenska verslunarfélaginu. Hann setti síðan upp sína eigin heildsölu. Síðustu árin starfaði hann hjá syni sínum og tengdadóttur við innflutning.
Einar starfaði í ýmsum félagasamtökum um ævina. Var í Rótarý á Ísafirði á meðan hann bjó þar. Var forseti JC Borgar í Reykjavík. Var forseti kiwanisklúbbsins Kötlu í Reykjavík. Síðustu 29 árin starfaði hann og var í Frímúrarareglunni á Íslandi.
Útför Einars fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 4. desember 2023, klukkan 13.
Það er svo ótrúlega margt sem hefur farið í gegnum hugann síðustu daga og þetta er svo skrýtin staða að vera í. Þegar ég hugsa um þig finn ég bara fyrir þakklæti og það hrúgast yfir mig yndislegar minningar um alls konar bras með þér sem undirstrikar svo hvernig þú varst, alltaf svo mikið sprell og gleði í kringum þig. Á sama tíma er svo sárt að hugsa til þess að geta ekki spjallað um allt og ekkert við þig eða lagt meira inn í minningabankann. Mikið getur lífið verið ósanngjarnt!
Ég man þegar ég hitti þig í fyrsta skiptið, alveg að farast úr stressi sem
ég hefði getað sleppt því mér leið strax eins og við hefðum bara alltaf
þekkst, þú varst þannig þegar þú spjallaðir við fólk. Gast spjallað við
alla, svo glaðlegur alltaf og hlýr og stríðnin ekki langt undan.
Ég man hvað mér fannst notalegt þegar þú kíktir við í kaffi þegar ég var
heima í fæðingarorlofi með strákana. Og ég hafði svo gaman af því þegar þú
kallaðir barnabörnin rassgat í bala.
Það fór ekkert á milli mála hvað þú dýrkaðir barnabörnin þín enda ófáar
ferðirnar upp í Hrísabrekku þar sem oft allur skarinn var með og þá var
bara flatsæng í stofunni, ekki málið! Svo var auðvitað farið með allt liðið
í sund og ís á eftir. Þú varst endalaust að bardúsa eitthvað og gera með
krökkunum hvort sem það var að kenna þeim að fljóta, grilla sykurpúða eða
spila rommí, gafst þér alltaf tíma fyrir þau. Þú varst mikill
fjölskyldumaður og oft var bjallað og spurt: Viljið þið ekki kíkja í
pítsu? Ég fékk nú oft að vita það að hann afi gerði t.d. bestu
kjötbollurnar og hakk og spagettí væri bara extra gott hjá honum afa.
Toppurinn var svo auðvitað bbq-rifin þín sem öll fjölskyldan elskaði og ég
sem er ekki einu sinni fyrir svínakjöt stóðst ekki enda með sérútbúinni
leynisósu. Strákarnir minnast þess að þú komst alltaf færandi hendi með
eitthvað sem þeim fannst gott þegar þú komst í heimsókn og strax sem
smástubbar spurðu þeir oft: Afi, hvað komstu með?
Mér finnst barnabörnin svo heppin að hafa fengið að umgangast þig svona
mikið því þú varst einstakur afi og vildir fylgjast með því sem þau voru að
taka sér fyrir hendur, þú varst alltaf til staðar með þína einstöku
jákvæðni sem ég veit að strákarnir mínir munu minnast því þeir tala oft um
það. Aldrei nein dómharka eða hneykslun á vitleysu ungdómsins heldur málin
bara rædd á jafningjagrundvelli þar sem þú gafst ráð og lagðir áherslu á
mikilvægi þess að vera góð manneskja bera virðingu fyrir skoðunum annarra.
Þú varst þeim virkilega góð fyrirmynd.
Jákvæðni finnst mér vera eitt af því sem einkenndi þig mest, það var aldrei
neitt mál hjá þér, alveg sama hvaða erfiðleikar komu upp, þú varst alltaf
til staðar, boðinn og búinn að gera allt sem í þínu valdi stóð til aðstoða
og finna lausn. Þú áorkaðir líka alls konar hlutum og komst hugmyndum í
framkvæmd sem aðrir gera ekki vegna þess að þú varst alltaf með jákvæðnina
að leiðarljósi og hafðir trú á því sem þú varst að gera sem er ómetanlegur
eiginleiki að hafa. Mér finnst þú hafa verið á undan þinni samtíð, alltaf
að prófa eitthvað nýtt og sást möguleika í öllu þetta var aðeins spurning
um útfærslu. Þú varst alltaf í alls konar pælingum og svo gaman að spjalla
um þær við þig og að segja manni sögur af einhverju í gamla daga.
Þú sýndir það líka í þinni veikindabaráttu hversu magnaður þú varst þar sem
þú náðir þér svo oft á strik, þú ætlaðir að sigra og þú varst bara góður
eða aldrei betri þegar þú varst spurður hvernig þú hefðir það. Það var
ekkert volæði í kringum þig, tókst þetta á ótrúlegu æðruleysi.
Þú varst einstakur gleðipinni með risastórt hjarta og það er svo
óraunverulegt og sárt að þú sért farinn. En það sem þú hefur kennt mér og
það sem ég vil bera áfram til strákanna okkar er þetta magnaða hugarfar sem
þú hafðir og munum við tileinka okkur að taka Einar afa á þau verkefni
sem lífið færir okkur.
Söknuðurinn er mikill en ljúfar minningar um einstakan mann munu lifa að
eilífu.
Farðu í friði elsku tengdó og takk fyrir allt, eða eins og þú kenndir
yngsta afastubbnum þínum: See you later, alligator!
Þín tengdadóttir,
María Pálmadóttir.