Örn Árnason fæddist 24. mars 1943 í Reykjavík. Hann lést 8. júlí 2023 umvafinn fjölskyldu.

Foreldrar Arnar voru Árni Brynjólfsson og Ólöf Guðný Geirsdóttir. Örn átti tvö yngri systkini, Geir og Ólöfu.

Örn bjó öll sín ár í Reykjavík, fyrir utan námsár í Noregi þar sem hann kláraði meistaranám í rafvirkjun.

Örn giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, Ragnheiði Kristínu Karlsdóttur, 5. október 1963. Börn þeirra eru fjögur: Karl, f. 8. október 1961, Erla, f. 3. febrúar 1965, Harpa, f. 29. október 1974, og Árni Svavar, f. 25. september 1979. Börnin eru öll gift, barnabörnin orðin 11 og langafabörnin sex.

Útför Arnar fór fram í Guðríðarkirkju 17. júlí 2023.

Elsku pabbi.

Þá er komið að leiðarlokum í bili. Eins og ég vonaði mikið að læknavísindin myndu ná að hjálpa þér og þú fengir meiri gæðatíma með okkur. En þú barðist eins og ljón þrátt fyrir allar hindranirnar. Eftir sitjum við með gat í hjartanu og fullt af minningum. Minningum um að skríða í holinu hjá þér þegar þú lagðir þig í hádeginu, fallegu jólaljósin sem þú settir upp heima, fara í hesthúsin með brauð, skautaferðir á Tjörnina, vélsleðaferðir þar sem þú dróst okkur á skíðum og alltaf tókst þér að plata okkur Adda með í að skoða skipin, því við vissum að þótt bíltúrinn tæki endalausan tíma þá fengjum við ís. Koma með þér á badmintonæfingu til Magga, veiðiferðir á Hvalsá og sólböð. Þú elskaðir sól og hita, og þrátt fyrir allar þessar klukkustundir í sólinni lærðirðu aldrei að snúa þér við. Við gátum mikið hlegið að Homeblest-brúnkunni þinni; brúnt að framan og hvítt að aftan. Man líka hvað þú varst glaður þegar við slógum saman í hjól fyrir þig á einhverju afmælinu og þú fórst í kjölfarið að hjóla um hvippinn og hvappinn. Það var líka svo gaman að sjá sundáhuga þinn. Hversu metnaðarfullur og kappsamur þú varst í að gera betur og meira í lauginni.

Held það hafi komið okkur öllum á óvart að þú værir hundahvíslari. Hundarnir okkar og ykkar mömmu elskuðu að vera með þér og þú nenntir endalaust að stússa með þá. Ekki er hægt að minnast þín án þess að tala um kjötsúpu. Það sem þú gast látið hana malla. Þær voru ófáar helgarnar sem við vöknuðum við kjötsúpufýluna af súpu sem þá var eflaust búin að malla í þrjá tíma og átti góða fjóra tíma eftir. Sagðir að þetta tæki allt sinn tíma því eldað með ást. Og ekki þótti þér slæmt ef mamma var í burtu, þá dróstu upp grýlupottinn og mallaðir í extra stóran skammt fyrir alla vikuna, þá varstu kátur.

Sem betur fer náði alzheimerinn seint kaldhæðninni þinni og húmornum svo við eigum fullt hús af fyndnum tilsvörun og bröndurum í minningabankann.

Elsku pabbi, ég vona að hvar sem þú ert sértu hraustur og hamingjusamur. Þú kenndir okkur fullt af alls konar sem við munum taka með okkur áfram. Takk fyrir samfylgdina, og eins og ég sagði þér í síðasta spjallinu okkar: ég elska þig og hlakka til að sjá þig aftur.

Þín

Harpa.