Guðmundur Kr. Jónsson fæddist í Reykjavík 2. október árið 1937. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 16. desember 2023.
Foreldrar Guðmundar voru Jón Guðmundsson frá Blesastöðum, f. 14. mars 1911, d. 13. febrúar 2003 og Guðrún Ásgeirsdóttir frá Eiði, Hestfirði, f. 4. nóvember 1912, d. 11. júlí 2000. Guðmundur var næstelstur sex systkina, en hin eru: Þórarinn Ingi, f. 1935, d. 2017, Ásgeir, f. 1942, Sigurður, f. 1945, Bryndís, f. 1949 og Valgeir, f. 1954.
Guðmundur, eða Diddi eins og hann var oftast kallaður, bjó á Blesastöðum á Skeiðum fyrstu ár ævi sinnar, en flutti með foreldrum sínum í Hveragerði árið 1940 og bjó þar til æviloka, þ.e. í áttatíu og þrjú ár.
Hann kvæntist Valgerði Magnúsdóttur, f. 17. júní 1941, þann 10. október 1959. Foreldrar Valgerðar voru hjónin Guðrún Lovísa Hannesdóttir frá Bakka í Ölfusi, f. 1912, d. 1992 og Magnús Guðmundsson frá Reykjavík, f. 1905, d. 1983. Stjúpfaðir Valgerðar var Þorvaldur Sæmundsson, f. 1915, d. 1988.
Guðmundur og Valgerður eignuðust þrjár dætur: Guðrúnu Hönnu, f. 1960, Hafdísi Ósk, f. 1962, og Höllu, f. 1969. Guðrún Hanna er gift Runólfi Þór Jónssyni, eiga þau fimm börn og 15 barnabörn. Hafdís Ósk er gift Björgvini Ásgeirssyni, eiga þau fjögur börn og átta barnabörn. Sambýlismaður Höllu er Kent Lauridsen, eiga þau tvær dætur og tvö barnabörn.
Guðmundur byrjaði ungur að vinna við smíðar og útskrifaðist sem trésmiður úr Iðnskólanum á Selfossi árið 1959. Hann byggði sér ungur hús við Heiðmörk 53 í Hveragerði, þar sem hann og Valgerður hófu sinn búskap. Fimm árum síðar byggði hann við Heiðmörk 59, þar sem þau bjuggu í tuttugu og þrjú ár, eða þar til þau fluttu í Borgarhraunið, þar sem þau bjuggu í þrjátíu ár. Fyrir fimm árum fluttu þau svo í Lækjarbrún 36, þar sem þau hafa búið síðan.
Guðmundur vann meðal annars í Trésmiðju Hveragerðis, byggði og rak verkstæði með föður sínum og Ásgeiri bróður sínum um tíma, vann við að byggja Hveragerðiskirkju, en faðir hans var byggingarmeistari að kirkjunni. Hann var gjaldkeri sóknarnefndar í nokkur ár. Auk þess sem Guðmundur byggði mörg hús í Hveragerði í gegnum tíðina, byggði hann sér sumarbústað í Fljótshlíðinni. Hann vann einnig við byggingarframkvæmdir í Sigöldu, sem og við uppbyggingu í Vestmannaeyjum eftir gos, en lengst vann hann þó á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, eða í u.þ.b. fjörutíu ár.
Guðmundur var lengi í slökkviliði Hveragerðis, sat í byggingarnefnd Hveragerðis um tíma og lagði sitt af mörkum við uppbyggingu golfvallar í Hveragerði. Hann stundaði lengi skíðamennsku, spilaði badminton, fór í sleðaferðir um hálendið og spilaði golf í nokkur ár eða á meðan heilsan leyfði.
Sökum heilsubrests var Guðmundur um nokkurra mánaða skeið í dagdvöl á Bæjarási í Hveragerði, eða þar til hann lagðist inn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þar sem hann lést eftir nokkurra vikna dvöl.
Guðmundur verður jarðsunginn frá Hveragerðiskirkju í dag, 28. desember 2023, klukkan 14.
Fölskvalaust var augnaráðið, fallegt var brosið og faðmurinn mikið stór.
Smitandi hláturinn með tilheyrandi bakföllum, allir jafnir, allir
velkomnir. Styrk var höndin og endalaus var þolinmæðin. Það var auðvelt að
líta upp til afa, allir hans eiginleikar eftirsóttaverðir og til
eftirbreytni. Já, heimsins besta mann er erfitt að kveðja. Þarna var maður
á ferð sem hafði fulla stjórn á sínu lífi. Allt hans yfirbragð gaf til
kynna að hann sigldi öruggur í sína átt og hvað svo sem aðrir gerðu var
hann skýr í sinni stefnu, hvað þá þegar hann mætti stiga sem hann ávallt
hljóp upp. Fortíðin liðin, fjölskyldan í fyrsta sæti, áfram gakk með
faðminn opinn og ekkert múður.
Ég var svo heppin að vera fyrsta barnabarnið. Ljúfsárt að það hafi einmitt
verið á þessum degi fyrir 48 árum að við hittumst fyrst. Þar lyfti afi mér
í fyrsta skipti. Undir erfiðum kringumstæðum, eflaust, en með opinn faðminn
þá og alla tíð síðan. Í dag lyfti ég honum í fyrsta skipti. Undir erfiðum
kringumstæðum, vafalaust, en betri félaga og fyrirmynd, faðmlög og
fararnesti í gegnum lífið er ekki hægt að óska sér. Mikið er ég honum
þakklát. Hann kenndi mér að elska, að faðma, að treysta. Þar til ég hitti
hann síðast voru grunngildin æfð. Afi kenndi mér líka að fara í kollhnís,
að labba, hjóla og skíða. Ekkert af þessu reyndist létt. Það kom nefnilega
í ljós að litla afastelpan reyndist ekki skaplaus.
Þolinmæði og þrautseigja afa voru með eindæmum og ófá skiptin sem þau komu
í ljós. Til dæmis þegar hann kenndi mér að skíða. Þá hafði fjölskyldan
verið ræst snemma að morgni helgi eftir helgi. Amma smurði nesti, heitt
kakó á brúsa og afi hlóð bílinn. Svo var brunað í Bláfjöll í misgóðu færi.
Allt tók sinn tíma. Dagpassi keyptur fyrir alla og loks upp í brekku. Þar
hvíldi ég örugg í plógi í fangi afa þar til unga ofurhuganum fannst tími
til kominn að taka stjórn. Ég stóð ekki lengi í lappirnar og skemmst frá
því að segja að óhemjan orgaði að því marki að aðrir fjölskyldumeðlimir
földu sig á bak við hús í brekkunni og þóttust ekki kannast við barnið. Afi
stóð hins vegar keikur mér við hlið, hlustaði þolinmóður á hvernig þetta
væri allt honum að kenna, hlóð bílinn og keyrði aftur heim. Aðrir voru
heppnir ef þeir höfðu náð einni ferð á dagpassanum. Og þannig liðu
vikurnar, helgi eftir helgi. Fjölskyldumeðlimir heltust eðlilega úr
lestinni og undir það síðasta vorum það aðeins við tvö sem lögðum í
leiðangur. Niðurstaðan alltaf sú sama, ævintýrið hófst og endaði fyrir
hádegi, nestið borðað heima. En afi gafst ekki upp. Og svo kom snjallræðið.
Þann laugardaginn var ég vakin með strokum að vanda og haldið af stað. Í
stað þess að aka út úr bænum stoppaði afi fyrir utan Blómaborg og með mig
upp í rútu. Þetta fannst mér ævintýri, það var gaman í rútum. Dagpassi
keyptur, upp í brekku, ég tók stjórn og datt. Lagðist í snjóinn og heimtaði
heimferð að vanda. Þá skýrðist snjallræðið. Rólega útskýrði afi fyrir mér
að rútan gengi aðeins einu sinni á dag svo nú hefði ég valið um að standa í
lappirnar og reyna aftur eða liggja í snjónum og orga það sem eftir lifði
dags. Lexían lærð. Aldrei tókst mér að verða jafn góður skíðamaður og afi
en margar urðu ferðirnar og fram á fullorðinsár.
Ævintýri okkar afa voru þó ekki einskorðuð við skíðamennsku, kollhnísa og
hjólaferðir. Hann leiddi mig einnig upp að altarinu, hélt börnunum mínum
undir skírn og byggði húsin mín. Hann passaði barnabarnabörnin yfir daga,
yfir helgar, yfir vikur. Kletturinn minn gætti þess að ég kæmist í frí,
kæmist til náms eða vinnu. Lifði lífinu. Hann minnti mig reglulega á
lífsins gildi og þegar honum fannst nóg um fróðleiksfýsnina í endalausu
námi eða framapotið í starfi birtist hann óvænt með hjónabandssælu frá ömmu
og minnti mig á að það þyrfti líka að hugsa um börnin, það þyrfti líka að
smyrja nestið fyrir eiginmanninn. Hreinn og beinn, skilaboðin skýr.
Fjölskyldan í fyrsta sæti, alltaf.
Mannsævina er hægt að mæla á margan hátt. Ef ég ætti að lýsa æviskeiði afa
kemur orðið farsæld efst í huga og ekki skrýtið að hann sé mín helsta
fyrirmynd. Afi elskaði okkur öll en engan elskaði hann eins og ömmu.
Hjónaband þeirra til 64 ára einfaldlega öðrum til eftirbreytni. Hundrað
prósent verkaskipting, hundrað prósent eftirréttaskipting (oftar en ekki
vigtuð upp á gramm) og hundrað prósent samstaða. Hvorugt þeirra talaði
mikið um afrek hvort annars. Afi talaði almennt lítið um fortíðina, áfram
gakk. Fortíðin var geymd í stofuskápum líkt og reikningur ísskápsins sem
keyptur var í fyrsta húsið sem hann byggði aðeins 18 ára gamall.
Einkunnarorð hans voru einna helst skipulag, heiðarleiki, festa og
dugnaður. Mitt fyrsta símtal var alla tíð til hans, hvort sem það snerist
um lífsins sigra eða ósigra. Hjónabandsráðgjöf eða sparnaðarleiðir. Á
ögurstundum þar sem engin útgönguleið var í sjónmáli, eitt símtal, málið
dautt. Afi með mér í liði, þetta verður allt í lagi.
Grunngildin sem hann kenndi mér svo vel voru sannarlega mikilvæg. Lexíurnar
sem lærðust á fjöllum ekki síður, enga uppgjöf, standa í lappirnar og áfram
gakk, hlaupa upp stiga og hratt! Með einurð, seiglu og þolinmæði kenndi
hann mér nefnilega að mér eru allir vegir færir. Dálæti mitt á þessum
einstaka manni hefur alla tíð verið algert en þegar ég lít yfir öxl og
hugsa um öll þau forréttindi sem mér hafa hlotnast yfir okkar samferð þá
verður mér ljóst að þau hverfa ekki með honum. Kominn tími til að
stelpuskottið standi upp úr snjónum, fjölskyldan í fyrsta sæti, áfram gakk
með faðminn opinn og ekkert múður - rétt eins og afi kenndi mér.
Þín
Hrefna Lind.