Ingimundur Eymundsson (Ingi) fæddist 24. ágúst 1935 á Vatnseyri við Patreksfjörð. Hann lést í faðmi barna sinna í Reykjavík 20. desember 2023.
Foreldrar hans voru Margrét Jóhannsdóttir, f. 12.3. 1905, d. 30.5. 1988, og Eymundur Austmann Friðlaugsson, f. 20.7. 1907, d. 2.6. 1988.
Eldri bræður Inga voru Jóhann Sigurður og Alfreð en þeir eru báðir látnir. Yngsti bróðir Inga er Kristinn, f. 13.11. 1949.
Ingi og Elínborg Guðmundsdóttur, f. 18.10. 1935, d. 17.7. 2022, giftust árið 1957. Ingi og Ella skildu árið 2014. Börn þeirra eru: 1) Ellert Austmann, f. 17.8. 1957, leikari, giftur Evu Karlsdóttur. Synir þeirra eru: a) Evert Austmann, giftur Helenu Hrund Ingimundardóttur. Synir þeirra eru Maron Logi og Grétar Nóel. Fyrir á Evert soninn Leonard Ben og Helena Hrund dótturina Rebekku. b) Aron Austmann, trúlofaður Arnfríði Ósk Jónsdóttur.
2) Annetta Austmann, f. 15.10. 1960, iðjuþjálfi, para- og fjölskyldufræðingur MA og handleiðari, gift Bjarna Þorsteinssyni. Dætur þeirra eru: a) Birta Austmann, gift Edward Alexander Eiríkssyni. Synir þeirra eru Sölvi Leó og Elvar Leó. Fyrir á Edward soninn Róbert Darra. b) Sunna Austmann.
3) Stúlka (Anna), f. 28.8. 1965, d. 29.8. 1965.
4) Rebekka Austmann, f. 12.7. 1967, sviðshöfundur, gift Sigurði Guðmundssyni. Fyrir á Sigurður dótturina Aðalborgu Birtu, hún er gift Róberti Davíðssyni. Þau eiga börnin Nóa og Rán.
5) Elísabet Austmann, f. 7.11. 1968, markaðsfræðingur með MBA, gift Hilmari Garðari Hjaltasyni. Synir þeirra eru tvíburarnir: a) Dagur Austmann, trúlofaður Birtu Skúladóttur og b) Máni Austmann. Fyrir á Hilmar dótturina Önnu Björk.
Á barnsaldri flutti Ingi ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þar sem faðir hans hóf störf sem bifvélavirki. Ingi fetaði í fótspor föður síns og lærði bifvélavirkjun. Ingi var glaðvær og hjálpsamur að eðlisfari og var mjög farsæll í starfi sem bifvélavirki og síðar sem bifvélavirkjameistari og fékk fljótlega stjórnunarstörf á þeim verkstæðum sem hann vann á. Samhliða starfi sínu sem bifvélavirki gerðist Ingi kvikmyndasýningamaður í Tónabíói eftir að hafa lært þá iðn. Ingi tók við rekstri Bíóhallarinnar á Akranesi og síðar gerðist hann yfirmaður í kvikmyndahúsi sem starfrækt var á svæði bandaríska hersins á Miðnesheiði.
Ingi stofnaði ásamt fleirum einn fyrsta einkarekna ökuskólann á Íslandi. Hann starfaði við bifreiðar þar til hann lét af störfum rúmlega áttræður.
Ingi og Ella bjuggu lengst af með börnum sínum í Mosfellsbæ þar sem þau byggðu sér fallegt einbýlishús. Helsta áhugamál Inga lengst af var hestamennska. Hann spilaði einnig á gítar og hafði mikla unun af tónlist og kvikmyndum.
Ingi var ein helsta driffjöðrin í Lionsfélaginu í Mosfellsbæ og var meðlimur í félaginu frá árinu 1978. Á tímabili var hann formaður félagsins og hlaut ýmsar viðurkenningar frá Lionshreyfingunni fyrir störf sín í þágu félagsins.
Útför Inga verður haldin frá Fossvogskirkju í dag,  3. janúar 2024, klukkan 15.

Elsku, hjartans bróðir minn, þá er komið að kveðjustund hjá okkur.
Mikið óskaplega á ég eftir að sakna þín þar sem þú varst mér svo mikils virði, þó það hafi verið 14 ár á milli okkar var aldursmunurinn ekki svo mikill.
Þú kenndir mér svo margt í gegnum árin og ég þér það sem ég gat, enda áttum við svo mörg áhugamál saman og fórum í gegnum lífið nánast eins og copy/paste, töluðum saman nánast daglega um okkar tilveru, sorgir, gleði og áföll.
Ekki veit ég hvar á að byrja um lífshlaup þitt en það kemst ekki fyrir í minningargrein, svo fjölbreytt var lífið þitt, en ég skal reyna að stikla á stóru.

Ég fer 63 ár aftur í tímann þegar þú varst að vinna hjá Loftleiðum sem áhafnabílstjóri og keyrðir rútur hjá Vestfjarðarleið. Þú lærðir Bifvélavirkjun hjá Ræsi þar sem pabbi okkar var verkstjóri í Réttingum og boddýviðgerðum og var færni þín í réttingum ótrúlega góð svo eftir var tekið. Þar sem varahlutir voru af skornum skammti og þá varð að rétta, hefla og þrykkja stálið sem er ekki hægt í dag.


Eftir að þú varðst meistari í bifvélavirkjun fórst þú að læra sýningar við kvikmyndahús í Tónabíói þar sem þú starfaðir sem sýningarstjóri í mörg ár. Þú kenndir mér fagið eftir að ég kláraði nám í bifvélavirkjun hjá Ræsi, þú varðst síðan formaður í FSK (félag sýningarmanna við kvikmyndahús) og tókst mig með í stjórn félagsins. Þú áttir frumkvæði að því að kaupa íbúð í Tjarnargötu 10 í Reykjavík sem varð félagsheimili FSK. Þar reyndi á þína snilli að kaupa húsgögn sem voru fjármögnuð með framlögum félaga, gjöfum og styrktarsýningum á miðnætursýningum og framlögum kvikmyndahúsaeiganda.
Samhliða starfi þínu í Tónabíói rakst þú líka Bíóhöllina á Akranesi og voru ansi margar ferðirnar sem þú fórst með Akraborginni á milli Reykjavíkur og Skagans.
Síðan fórst þú að vinna hjá Bílaborg sem var Mazda-umboðið á Íslandi og voru við þá báðir sprautaðir með Mazda-geninu og höfum við átt margar Möstur í gegnum árin.
Síðan tókst þú að þér að reka Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli og eftir það varstu allt í einu orðinn bifreiðaeftirlitsmaður og prófdómari. Svo tókst þú við rekstri Meiraprófsskóla ríkisins og stofnaðir Ökuskóla Íslands ásamt Eyjólfi Guðmundssyni vini þínum. Pólitíkin varð þess valdandi að þið hættuð með skólann og fórst þú þá á gamlar slóðir og gerðist þjónustustjóri fyrir Mazda hjá Ræsi. Samhliða störfum þínum hjá Ræsi fórst þú að sýna bíó hjá mér í Andrews Theater og naust þín þar enda höfðu verið gerðar miklar breytingar frá því að þú varst þar við völd og hafðir mikla ánægju af.
Þú varst félagi í Lionsklúbbi Mosfellsbæjar í tugi ára og varst í flestöllum stöðum í stjórn klúbbsins ásamt öðrum nefndarstörfum.
Eftir að Ræsir hætti og herinn í Keflavík fór tók við hálfömurlegur tími hjá þér, sex mánaða uppsagnafrestur í nýjum húsakynnum (Askja), að spila á spil með Stefáni Jóns þar sem ekki var hægt að borga ykkur uppsagnafrestinn sökum slæmrar stöðu Ræsis sem var að rúlla yfir.
Músík var þér í blóð borin eins og hjá okkur öllum bræðrum, en gítar var þitt uppáhald. Þú varst ómenntaður en vinnukonugripin og taktfesta voru ekkert vandamál. Þú skelltir þér samt í gítarnám sem þú hafðir mikla ánægju af til að verða ennþá betri. Þú endaðir starfsævi þína með skólaakstri hjá Teiti rútubílum og gekk það vel framan af en heilsunni fór þá að hraka.

Á þessum tíma í þínu lífi fékkst þú leigupláss á Hömrum í Mosó þar sem þú sást um þig sjálfur og komst þú næstum daglega til mín í kaffi á bifreiðaskoðunarstofuna á Gylfaflöt þar sem ég var að vinna og eins í bílskúrinn hjá mér með bilun í bílnum hjá þér. Í október 2021 varðst þú orðinn mjög veikur og keyrði ég þig á læknastöðina í Mjódd til skoðunar og í framhaldi fórstu með sjúkrabíl á Borgarspítalann. Á tímabili hélt ég að þú værir að kveðja en í einni heimsókninni til þín hélt ég í höndina á þér og talaði við þig. Þú varst með litla rænu en eins og hendi væri veifað fórst þú að sýna batamerki. Eftir nokkuð langan tíma fórst þú á Landakot og þaðan á Vífilsstaði þar til að þú fékkst inni á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni.
Í Sóltúni undir þú hag þínum vel enda kominn á æskuslóðir þínar þar sem pabbi og mamma keyptu íbúð í Samtúni árið 1945 og síðan í Miðtúni 84. Þú bjóst á báðum stöðum áður en þú fluttir til Ellu þinnar í Stangarholtið.
Þann 30. nóvember varð slys er þú misstir fótanna og fékkst slæma byltu, fórst í framhaldi af því á Borgarspítalann og síðan aftur í Sóltún. Ég fór í heimsóknir til þín en þú varst mjög veikur á þessum tíma. Þann 17. desember þegar ég kom til þín var allt annað að sjá þig, þú þekktir mig og áttum við yndislega stund saman. Eitthvað varstu að tala um bræður okkar Jóhann (d. 2007) og Alfreð (d. 2023). Ég skildi ekki hvað þú varst að tala um en skil það núna. Þann 20. desember kvaddir þú okkur.
Elsku bróðir, takk fyrir allt, takk fyrir að vera til staðar fyrir mig og halda i höndina á mér í öll þessi ár sem þú lifðir. Guð geymi þig.
Börnum þínum, tengdabörnum og barnabörnum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristinn Eymundsson.