Ingibjörg Pála Jónsdóttir fæddist á Hofsósi 24. maí 1926. Hún lést í Reykjavík 15. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Ragnhildur Pálsdóttir Leví frá Heggstöðum í Húnaþingi, húsfreyja í Reykjavík, f. 15. janúar 1895, d. 13. febrúar 1970, og Jón Sigtryggsson frá Framnesi í Skagafirði, fangavörður og síðar dóm- og skjalavörður við Hæstarétt, f. 8. mars 1893, d. 3. desember 1974.  Systkini hennar eru Sigurlaug, f. 1927, d. 2021, Páll Leví, f. 1928, d. 1941, Sigrún Tryggvina, f. 1931, d. 2018, og Guðný, f. 1932, d. 1937.


Skömmu eftir að Ingibjörg fæddist fluttist fjölskyldan til Sauðárkróks þar sem faðir hennar starfaði sem kennari, þau fluttu til Reykjavíkur 1929, þegar Jón varð fangavörður í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg og móðirin matráðskona þar. Þar bjó fjölskyldan fyrst um sinn, en flutti síðar á Ásvallagötu, þar sem Ingibjörg bjó fram á tíræðisaldur.
Ingibjörg giftist 28. febrúar 1953 Steingrími Pálssyni, síðar launa- og lífeyrisskrárritara í fjármálaráðuneytinu, f. 13. janúar 1927 á Húsavík, d. 22. apríl 2017. Foreldrar hans voru Þóra Steingrímsdóttir, húsfreyja á Akureyri, f. 1897, d. 1982, og Páll Einarsson, sýsluskrifari á Akureyri, f. 1893, d. 1983.

Börn Ingibjargar og Steingríms eru: 1) Hildur, lyfjafræðingur, f. 1951, d.  2021. 2) Einar, stærðfræðingur, f. 1955, maki Eva Hauksdóttir lögmaður, f. 1967. Börn Einars með fyrrverandi eiginkonu, Moni Ivarsson, f. 1948, fv. rektor í Gautaborg, eru: a) Elín Hildur, félagsfræðingur í Gautaborg, f. 1990, maki Richard Hjertquist, f. 1990, börn þeirra eru John, f. 2018 og Disa, f. 2021. b) Freyr Anton, læknir í Skövde, f. 1993, maki Freja Askeli, f. 1994, börn þeirra eru Vidar, f. 2017, Alva, f. 2020, og Arvid f. 2022. 3) Þóra, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, f. 1958, maki Haukur Hjaltason taugalæknir, f. 1958, börn þeirra eru: a) Ragnhildur, læknir í Uppsölum, f. 1990, maki Valdimar Viktor Jóhannsson, f. 1987, dóttir þeirra er Þóra Björk, f. 2022. b) Steinunn, verkefnastjóri við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, f. 1993, maki Þorsteinn Sigurður Sveinsson f. 1989, synir þeirra eru Flosi, f. 2020 og Grettir, f. 2022. c) Halla, háskólanemi í Reykjavík, f. 1997, maki Flóki Larsen, f. 1998.
Ingibjörg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1946, vann við skrifstofustörf í Reykjavík næsta árið, nam svo sálfræði í Kaupmannahöfn frá 1947-1951, lauk ekki prófi þá, en aflaði sér viðbótarmenntunar síðar til starfsréttinda í félagsráðgjöf. Hún hóf störf á Geðverndardeild barna á sjöunda áratugnum, fluttist á nýstofnaða barna- og unglingageðdeild á Dalbraut um 1970, vann síðan sem félagsráðgjafi á Kleppsspítala í tvo áratugi og síðustu starfsárin sem félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Hún kom víða við í geðheilbrigðisþjónustu landsmanna, var m.a. starfsmaður Geðverndarfélags Íslands um árabil.
Útför Ingibjargar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 3. janúar 2024, klukkan 13.


Heiðurskona hefur kvatt á 98. aldursári, kær vinkona og starfsfélagi. Ingibjörg Pála var heilsteypt og vönduð manneskja, og gæfa að fá að kynnast henni og einstökum mannkostum hennar. Við áttum samfylgd um hálfrar aldar skeið. Fyrir það er ég ævarandi þakklát og þá ekki síst aldursmuninn sem leyfði mér að njóta reynslu hennar og foreldramyndugleika þegar á reyndi bæði í lífi mínu og starfi.

Ljúfar minningar koma upp í hugann. Við kynntumst fyrst sem félagsráðgjafar á Kleppsspítala sumarið 1969 þegar ég var sumarafleysari vinkonu okkar og kollega, Kristínar Gústavsdóttur, og fyrir alvöru sumarið 1972 þegar ég kom heim frá námi í Svíþjóð og tók við starfi Kristínar sem þá var einmitt að flytja þangað. Ingibjörg saknaði Kristínar mjög og orðaði það þannig að við Kristín hefðum mæst í loftinu og það hefði verið lán. Ingibjörg hafði þá sjálf þegar stundað sitt nám í Kaupmannahöfn og öðlast reynslu hér heima.

Ingibjörg var í hópi frumkvöðla í félagsráðgjöf á Íslandi, fyrst á sviði geðheilbrigðisþjónustu barna og síðan á Kleppsspítala. Það tókst með okkur vinátta, gagnkvæm virðing og sameiginlegur áhugi á klínískri félagsráðgjöf, hjóna- og fjölskyldumeðferð og faghandleiðslu. Varðandi siðfræði meðferðarstarfsins kom maður ekki að tómum kofunum hjá Ingibjörgu. Hún hafði óvenjulega sterka vitund um siðagildi og fagmennsku, en líka um pólitískt samhengi, mannréttindi, jöfnuð og réttlæti. Hún var fljót að sjá muninn á réttu og röngu og greina milli þess sem var viðeigandi og óviðeigandi. Þar var enginn afsláttur gefinn. Eftir ráðslag með henni gat því stundum þurft að axla sína eigin ábyrgð með rökum út frá margslungnum gildum og sjónarhornum - en þá var líka alltaf stuðningurinn vís. Ófáir ungfélagsráðgjafar nutu handleiðslu Ingibjargar og mörg, nú miðaldra, minnast þeirrar áhrifaríku reynslu með þakklæti enn í dag.

Ingibjörg var stundum efins þegar kom að framkvæmd nýrra hugmynda en hreifst líka auðveldlega með í leikinn og lagði þá gott til mála. Þar eru minnisstæð fyrstu uppeldisnámskeiðin okkar tveggja hér á landi fyrir foreldra unglinga. Við héldum þau á 8. áratugnum að kvöldlagi í þröngum húskynnum Geðverndarfélags Íslands í Hafnarstræti og höfðum meðferðis kaffibrúsa og jólaköku handa þátttakendum! Aðeins fyrirmyndarforeldrar sóttu námskeiðin! Lengi minntumst við þeirra með gleði og þakklæti fyrir viðtökurnar.

Við Ingibjörg bjuggum á sömu slóðum í Vesturbænum og áttum óteljandi gæðastundir, oft eftir kvöldgöngu, yfir léttvísglasi eða tebolla í nánu spjalli um lífið og tilveruna. Fallega klukkan hennar Ingibjargar sló alltof oft og hátt - til miðnættis! Á Ásvallagötunni kynntist ég líka á aðventunni funheitu súkkulaði með stífþeyttum rjóma og lögg af koníaki útí. Við vinkonurnar höfðum þá venju í áratugi að hringjast á um hádegið á aðfangadag, bara taka stöðuna og segja: Gleðileg jól. Ég sakna hennar djúpt og fann missinn sárt um þessi jól.

Félagsráðgjafahópurinn á Kleppi var samstilltur, fyrst frumkjarninn sem kynti eldana kringum hugmyndafræði fjölskyldumeðferðar og handleiðslu. Við nutum fjarhandleiðslu Kristínar og eiginmanns hennar Karls Gustafs með sannri velþóknun Ingibjargar. Við vorum þéttur hópur og kölluðum okkur GG og Ingibjörg! Hún var aldursforsetinn og þroskaður leiðtogi fyrir okkur yngri geðdeildargellurnar (GG). Þá var margt sprellað, oftast með faglegu ívafi, en eitt sinn sóttum við Ingibjörgu á límúsínu til Keflavíkur með freyðivíni og söng, ásamt óvæntri stórafmælisveislu í Skólabæ. Allt í samráði við Steingrím sem beið heimkomu sinnar elskuðu frá Uppsalaheimsókn til barna og barnabarna. Steingrímur var alltaf bakhjarlinn og seint verða þökkuð öll þau veisluboð og samverustundir sem hann bjó þessum hópi. Hann var líkt og ósýnilegur huldumaður sem galdraði fram gómsæta rétti og fágæti grænmetis og framandi ávaxta - sem enginn skildi hvaðan komu!

Við Þorsteinn þökkum Ingibjörgu Pálu ómetanlega vináttu og tryggð, og sendum fjölskyldu hennar einlægar samúðarkveðjur.


Sigrún Júlíusdóttir.

Mikil heiðurskona, sem hefur lifað fallegu og farsælu lífi, er fallin frá í hárri elli.

Leiðir okkar lágu saman á nýstofnaðri Geðverndardeild fyrir börn 1963 í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Þar voru saman komnir sérfræðingar á sviði barna og fjölskyldna sem unnu metnaðarfullt bautryðjendastarf. Ingibjörg hafði numið sálfræði í Kaupmannahöfn og nýttist kunnátta hennar vel í starfinu.

Ingibjörg var heilsteyptur perónuleiki og aðalsmerki hennar voru vönduð vinnubrögð og gott málfar. Hún fékk verkefni sem tengdust meðferðarstarfi og síðar réttindi félagsráðgjafa. Við störfuðum seinna saman á Kleppspítala.

Ingibjörg var fáguð í framkomu, virtist við fyrstu kynni hlédræg en leyndi á sér og var í rauninni óhrædd við að láta skoðanir sínar í ljós á mönnum og málefnum. Hún hafði ekki þörf fyrir að láta á sér bera, var góður hlustandi og leikin við að láta aðra njóta sín og naut sín vel í klíniskri vinnu félagsráðgjafa og í handleiðslustörfum.

Eitt dæmi um gott sjálfstraust Ingibjargar var þegar hún talaði fyrir hönd 70 ára stúdenta í Háskólabíói þegar enginn í árgangnum treysti sér til þess. Þá geri ég það bara, sagði hún og gerði þetta með miklum glæsibrag.

Ingibjörg var skemmtileg blanda af að hafa gömul gildi í hávegum en vera líka opin fyrir nýjungum, t.d. var hún lagin við að nota snjallsíma og fylgdist á þann hátt af miklum áhuga og gleði með barnabörnum og ættingjum sem bjuggu erlendis.

Uppeldisaðstæður Ingibjargar voru sérstakar, faðir hennar var yfirfangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og móðir hennar matráðskona þar. Þarna bjó hún með fjölskyldunni nokkur bernskuár og átti góðar minningar um fanga sem smíðuðu leikföng og lásu fyrir hana.

Reynslan af að umgangast fangana lagði kannski grundvöll að því fordómaleysi og umburðarlyndi sem hún sýndi fólki og í starfi sínu sem félagsráðgjafi.

Árið 1936 flutti fjölskyldan að Ásvallagötu 5 og þegar þau Steingrímur fóru að búa bjuggu þau á hæðinni fyrir ofan æskuheimilið og nutu góðs af því að hafa afa og ömmu á neðri hæðinni. Ingibjörg kynntist Steingrími í Kaupmannahöfn þar sem bæði voru við nám. Þau urðu fyrir miklum áhrifum af danskri menningu og siðum, samhent um að halda veislur og nutu sín sín vel í hlutverki gestgjafa. Vinsælust var árvissa veislan á Þorláksmessu þar sem boðið var upp á alíslenskan mat og drykk. Vinirnir lögðu sitt af mörkum, mikið var sungið, ljóð voru flutt og ræður haldnar. Gestir fluttu allskyns fróðleik og uppákomur, þar var mikil stemmning og glatt á hjalla.

Morgunverðirnir á laugardögum fyrir fjölskyldu og nána vini eru líka ógleymanlegir. Þeir voru með dönsku ívafi og gammeldansk með kaffinu. Steingrímur hjólaði í bakaríið til að kaupa bollur og vínarbrauð og stóð fyrir veitingum. Það var alltaf notalegt í fallegu stofunni á Ásvallagötu, hún var í sérstökum litum sem vinur þeirra Svavar Guðnason listmálari hafði ráðlagt. Stofan var málverk.

Vináttan þróaðist þó ég byggi í 42 ár erlendis. Hún kom fljótlega í heimsókn til að kynnast umhverfi og aðstæðum. Þóra dóttir þeirra kom sumarið 1973 til að kynnast lífinu í Gautaborg og hjálpa til með barnapössun. Skemmtileg tilviljun var að dætur okkar Þóra og Sigrún voru samtímis við nám í Uppsölum. Þarna kynntust þær sem fullorðnar á eigin forsendum.

Ingibörg var kjarkmikil í ellinni og var fallegt að fylgjast með hvernig hún hugsaði um Steingrím síðustu árin. Síðar flutti Ingibjörg i Mörkina þar sem þær mæðgur fengu fallegar íbúðir hlið við hlið og áttu nokkur góð ár saman. Það var mikið áfall þegar Hildur dó 2021.

Ingibjörg hafði ljúft viðmót og fallegt bros sem enginn gleymir.

Við Karl Gustaf og börn okkar sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur og þakklæti fyrir einlæga vináttu og tryggð öll árin.








Kristín Gústavsdóttir