Fjóla Jónasdóttir verslunarkona fæddist 29. maí 1937. Hún lést 16. desember 2023 á taugalækningadeild Landspítala í Fossvogi.

Foreldrar Fjólu voru Jónas Gunnlaugsson, f. 19.6. 1910, d. 20.3. 1991, og Guðveig Guðmundsdóttir, f. 2.10. 1916, d. 21.4. 1990.

Systkini Fjólu eru Lilja, f. 1.9. 1938, Oddur, f. 9.4. 1940, d. 27.1. 1947, Guðmundur Ágúst, f. 27.3. 1942, d. 1.9. 2004, Ármann Sævar, f. 5.12. 1943, Jónas, f. 18.8. 1945, d. 24.5. 2021, Oddur, f. 18.6. 1947, Björk, f. 28.8. 1949, Jónína Björg, f. 10.2. 1952, Heiða Rós, f. 24.2. 1953, Guðrún, f. 31.10. 1955, Bjarki, f. 30.4. 1957, og Guðríður, f. 29.3. 1959.

Fjóla giftist Garðari Erni Kjartanssyni, f. 11.7. 1927, d. 4.11. 2001, þann 2.11. 1963. Fjóla eignaðist dótturina Guðveigu Jónu Hilmarsdóttur, f. 19.6. 1962, og gekk Garðar henni í föðurstað, barnsfaðir var Hilmar Henry Gíslason, f. 1936, d. 2021. Guðveig er gift Stefáni Erni Ástvaldssyni, f. 4.6. 1958. Börn þeirra eru Brynja, f. 1985, gift Guðna, f. 1982, þau eiga tvær dætur, Hildi Ósk, f. 2011, og Silju Dögg f. 2018, og Hlynur, f. 1988, sambýliskona hans er Sigrún Tinna Gissurardóttir, f. 1990, synir þeirra eru Júníus Máni, f. 2020, og Meyvant Máni, f. 2023.

Fjóla og Garðar Örn eignuðust þrjá syni, þeir eru: 1) Örn, f. 13.9. 1963, sambýliskona hans er Uthai Huiphimai, f 28.9. 1970, synir þeirra eru Garðar Örn Tannagon, f. 2000, Arnar Örn Gissana, f. 2003, og Mikael Örn Pachara, f. 2009. 2) Þröstur, f. 22.12. 1965, sambýliskona er Sigríður Lára Ásbergsdóttir, f. 15.7. 1963. Þröstur eignaðist dótturina Þórunni, f. 1989, barnsmóðir Hjördís, f. 27.6. 1970, d. 30.5. 1999. Sambýlismaður Þórunnar er Gísli Steinar Jónsson, f. 1984, sonur þeirra er Hinrik Hrafn, f. 2021. Dætur Þrastar og Sigríðar Láru eru Sandra Dögg, f. 1999, og Katrín Ósk, f. 2005. 3) Hrafn, f. 8.11. 1974, eiginkona hans er Bergþóra Kristín Benediktsdóttir, f. 1.12. 1981, þau eiga soninn Benedikt, f. 2011.

Fjóla bjó í Borgarnesi frá fæðingu til 1945, þá flutti hún ásamt fjölskyldu sinni að Hamri, rétt fyrir utan Borgarnes. Síðan fluttu þau aftur í Borgarnes að Þorsteinsgötu 5, frá 1949-1952 er hún fór að heiman.

Fjóla fór ung að heiman, eða 15 ára. Þá gerðist hún vinnukona að Hofsstöðum í Borgarfirði í einn vetur. Hún vann í Fornahvammi, Hvítárvallaskála og í Melabúðinni. Fjóla fluttist á Akureyri og vann þar í verslun og sjoppu. Loks fluttist hún til Reykjavíkur og var heimavinnandi næstu árin. Hún vann við ræstingar á árunum 1978-1981. Árið 1982 réð hún sig í afleysingar í Kakólandi Menntaskólans í Reykjavík. Þar vann hún í um 25 ár uns hún hætti að vinna þá sjötug að aldri.

Fjóla verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, 8. janúar 2024, klukkan 13.

Mamma var mikill dugnaðarforkur, ósérhlífin, lítillát og hæglát. Enda komin af harðduglegu fólki. Amma og afi eignuðust 13 börn og 12 lifðu fram á fullorðins ár. Þetta hefði aldrei við hægt nema með samheldni og dugnaði.
Það fór aldrei mikið fyrir henni en hún var risastór karakter. Mamma var fyrst og fremst fjölskyldukona. Henni fannst best að hafa fjölskylduna í kringum sig. Fannst alltaf svo tómlegt þegar Örn bróðir fór frá henni eftir að hann kom frá Akureyri og gisti hjá henni með fjölskylduna sína. Sama þegar barnabörnin bjuggu hjá henni í mislangan tíma. Helst hefði hún viljað hafa þau alla tíð.
Mamma og pabbi bjuggu í Dalalandinu lengst af og fluttust svo í Laufengið 2001. Mamma og pabbi náðu vel saman. Þau skiptu öllum verkum heimilisins eftir að pabbi veiktist fyrst 1987 og eftir það tók hann þátt í heimilishaldinu. Mamma saknaði pabba sárt veit ég, en það var ekki rætt. Það var bara haldið áfram, lífið hélt áfram. Rétt eins og nú þegar hún hefur kvatt okkur heldur lífið áfram, þannig hefði hún viljað það. Hún vildi alls ekki eitthvað vol og væl, það var ekki hennar. Sem dæmi þegar ég var að ræða við hann eitt sinn um það hvort hún hefði einhverjar óskir um jarðaförina sína þá var svarið stuttu og laggott mér er alveg sama, ég verð dauð þá. Hún kom alltaf hreint fram. Hún var hreinskilin, stundum um og of og samviskusöm var hún. Hún var mjög minnug, mundi alla afmælisdaga, alla afmælisdaga systkina sinna og systkinabarna og það er talsverður fjöldi. Við mamma vorum oft tvö ein þegar ég var lítill. Pabbi vann mikið og ég var sannkallað örverpi. Oft vorum við eitthvað tvö ein saman. Í Dalalandinu var alla tíð mjög gestkvæmt og allir alltaf velkomnir í heimsókn eða gistingu í lengri eða skemmri tíma. Margar minningar að maður sofnaði í einu herbergi en vaknaði í öðru af því að það höfðu komið gestir utan af landi óvænt um kvöldið.
Mamma ólst upp í Borgarnesi og hugsaði alltaf fallega til Borgarness. Mamma bjó Hamri rétt fyrir utan Borgarnes og hún og Lilja systir hennar löbbuðu þaðan í skólann og heim. Nema yfir harðasta veturinn þá voru þau hjá ömmu sinni. Hún talaði alltaf vel um sinn tíma í Borgarnesi. Mamma fór snemma að heiman og var ekki langskólagengin en hún var ofsalega klár í íslenskunni og duglega að leiðrétta mann þegar maður talaði vitlaust. Einnig ef hún heyrði villur í fréttum þá var hún fljót til að leiðrétta sjónvarpið. Mamma var vel gefin og hefði hún haft tækifæri til náms þá hefði hún menntað sig, líklega eitthvað sem myndi hjálpa öðru fólki. Þannig var mamma. Hugsaði alltaf um aðra en sig fyrst.
Þegar ég fer að muna eftir mér, þá er mamma að vinna við ræstingar í Grímsbæ og svo í sjoppu í Hátúni. Svo fer hún að vinna í Menntaskólanum í Reykjavík. Mömmu leið vel þar og vann þar líka í 25 ár. Hún tengdist mörgum sem voru með henni í Kakólandi í MR. Hún var stolt af mörgum MR-ingum sem hún kynntist þar. Henni fannst gaman að segja frá þeim, hverra manna þau voru og var montin af þeim þegar hún sá þau í fréttum eða frétti eitthvað af þeim.
Mamma var ekkert að flíka tilfinningunum sínum en alltaf skynjaði maður væntumþykju og ást frá henni, sagði það aldrei samt, var af þeirri kynslóð. Þegar mamma lá banaleguna sagði ég henni að ég elskaði hana, þá gaf hún frá sér smá hljóð eins og að hún hefði heyrt í mér, ég vil allavega trúa því.
Mamma var mjög sterkur karakter, hún var einhvern veginn alltumlykjandi í kringum okkur og vildi alltaf allt fyrir okkur fjölskylduna gera. Hún var alltaf til í að hafa Benediktinn minn. Gat sagt sögur alltaf af því hvað þau gerðu. Meðan hún hafði sjónina, þó lítil væri þá spiluðu þau saman og hann fékk hana í fótbolta með sér.
Mömmu fannst gaman að fara í stutta bíltúra og fá jafnvel einn ís. Oft vildi hún kaupa skyndibita ef ég skutlaði henni til læknis. Valdi þá pizzu, fish´n chips, kjúklingabita (þó ekki KFC) og hamborgara. Mamma sagðist aldrei hafa haft gaman að elda en hún eldaði samt alltaf góðan mat. Mamma var svo til blind síðustu árin og hafði fengið krabbamein 2014 sem hún náði sér af. Síðustu ár höfðu verið erfið þar sem það var vesen með ristilinn og olli það henni mikilli vanlíðan. Aldri var kvartað. Það er ekkert að mér var oft viðkvæðið og hafði þess í stað meiri áhyggjur af mér. Mamma var ótrúlega hörð, algjör nagli og dugleg. Hún hélt ein heimili alveg undir það síðasta og fékk ekki mikla aðstoð. Fékk heimilisþrif á tveggja vikna fresti. Einnig komu systur hennar að hjálpa henni. Það var talað um það á spítalanum hvað hún var dugleg þegar hún lá þar núna í haust. Enda stóð það ekki til að hún kæmi heim heldur færi á hjúkrunarheimili en 26 dögum eftir stóra og tvísýna aðgerð var hún mætt heim til sín þar sem henni leið best. Sagði samt við mig að nú væri hún væri hætt að elda.


Einhvern veginn eftir þá aðgerð sem hún fór í haust var maður orðinn sannfærður að hún yrði eitthvað með okkur lengur. Við vorum ekki undir þetta búin. Mamma kvaldist ekki á spítalanum og fékk að fara fljótt. Það var akkúrat eins og hún hefði viljað hafa það. Ekki vera byrði á neinum, meira en hún þurfti.
Ein af æskuminningum mínum um hana er að hún fór á gömlu dansana. Hún elskaði að dansa og fór stundum um helgar til þess. Mamma hlustaði mikið á rás 2. Hún hlustaði mikið á íslenska tónlist og hlustaði mikið á sögur. Mamma púslaði mikið meðan hún hafði sjónina og prjónaði líka. Ég á enn nokkrar lopapeysur eftir hana. Hún prjónaði líka á son minn galla þegar hann var nýfæddur. Mamma var mjög dugleg og var aldrei að gera ekki neitt en gat samt stundum slakað á yfir sápuóperum í sjónvarpinu. Hún missti mikið þegar sjónin hvarf. Kvartaði samt ekki, en sagði að hún hefði verið fegin að missa sjónina en ekki heyrnina.
Mamma lá ekkert á skoðunum og hún skildi ekki af hverju að Gísli Marteinn væri í sjónvarpinu og svo var hann kominn með morgunþætti á tímabili á laugardagsmorgnum á Rás 2, er ekki nóg að það búið sé að eyðileggja föstudagskvöldin, heldur þarf líka að láta hann eyðileggja laugardagsmorgna. Talaði beint frá hjartanu. Mamma hlustaði á Rás 2 og fylgdist vel með þjóðfélagsumræðunni og oft betur en við sjáandi.
Þegar mamma veiktist núna í desember og ég kom til hennar og sá að þetta var alvarlegt sagði ég við hana að ég yrði að fá að hringja á sjúkrabíll svarið var í hennar anda ég er sko búinn að fá nóg af þeim. Það er huggun á þessu erfiðu tímum hún var sátt við sitt lífshlaup. Stolt af öllum sínum afkomendum. Mamma var fyrst og fremst góð kona og hún var mér svo margt. Gat talaði við hana um allt og hún dæmdi aldrei. Þegar mamma lá banaleguna og eftir að hún lést þá finnur maður það hvað hún var ofsalega stór partur af okkur öllum. Benedikt minn, saknar ömmu sinnar mjög mikið, sem hún Bergþóra eiginkona mín. Þær voru miklir mátar. Systkin mín syrgja mömmu og barnabörnin og barnabarnabörnin líka. Mamma virtist oft laða að sér fólk og eignaðist nokkrar vinkonur á gamals aldri. Þær hafa kvatt hana líka margar góðar vinkonur síðustu árin og núna í sumar dó Ágústa frænka og það var mömmu mjög erfitt. Hún talaði oft um það og það er huggun að hugsa til þess að mamma sé sameinuð þeim pabba og Ágústu.
Daginn sem mamma veiktist þá segi ég við hana hvort hún yrði ekki hjá okkur á aðfangadag og mamma svaraði ég veit ekkert hvar ég verð Kannski fann mamma eitthvað á sér um að hún yrði ekki hjá okkur.
Mamma fékk að fara fljótt, helst vildi hún fá að deyja í svefni og heima. Mamma hefði aldrei viljað vera á hjúkrunarheimili og að einhver þyrfti að hafa fyrir henni. Það er ekki í hennar anda. Hún var tilbúin í kallið þegar það kom óvænt núna í desember. Mamma var hvíldinni fegin.
Þegar ég keyri heim af spítalanum um nóttina, eftir að mamma lést, þá er lag í útvarpinu, Mamma sem Björgvin Halldórsson söng.
þá kom þetta erindi eftir Jónas Friðrik:
Því mamma skildi flest.
Já, mamma hún var best.
Hún bætti öllu úr
svo undarlega fljótt.
Því mamma vissi allt.
Já, mamma kunni allt.
Hún var í önnum oft,
þá aðrir sváfu rótt.


Elsku mamma, þakka þér fyrir allt. Mömmu mun ég alltaf minnast með mikilli hlýju og þakkalæti og sakna alla tíð. Mamma var best.

Hrafn Garðarsson.