Pétur Kristinn Arason, listaverkasafnari og fv. kaupmaður í Faco/Levi's-búðinni, fæddist 17. ágúst 1944 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 16. desember.
Foreldrar hans voru Ari Jónsson kaupmaður og Heiðbjört Pétursdóttir húsfreyja. Pétur ólst upp í Reykjavík fyrstu árin en 11 ára flutti hann í Kópavoginn ásamt fjölskyldu sinni. Hann fór á hverju sumri í sveit og var víða, m.a. í Skagafirði og Neskaupstað. Pétur gekk í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraskólans og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar

Pétur tók ásamt bróður sínum, Fjölni, við rekstri fataverslunar föður þeirra, Fatagerð Ara og co., sem framleiddi herraföt og stakar buxur. Verslunin hafði skammstöfunina Faco og ráku þeir einnig verslanirnar Fons í Keflavík, Fönn í Neskaupstað og Fídó á Akranesi. Faco sá um dreifingu á Levi's-fatnaði og fékk síðar nafnið Levi's-búðin.

Meðfram verslunarrekstri hóf Pétur söfnun á myndlist um 1960. Fór hann vikulega utan í viðskiptaferðir og skoðaði þá söfn í Amsterdam og London og fleiri borgum. Hann fór síðan að reka sýningarpláss sem nefndist Krókur og starfaði í fimm ár og svo opnaði hann árið 1992 sýningarrýmið Aðra hæð, eða Second Floor, ásamt Ingólfi Arnarssyni á heimili sínu og eiginkonu sinnar, Rögnu Róbertsdóttur, á Laugavegi 37.

Pétur og Ragna héldu áfram að safna samtímamyndlist og árið 2003 opnuðu þau SAFN, samtímalistasafn á þremur hæðum sömu byggingar. Um leið seldi Pétur umboð sitt fyrir Levi's-fatnaðinn og lokaði versluninni. Þau ráku safnið í samstarfi við Reykjavíkurborg og var það opið almenningi til ársins 2008. Sýningar úr safneign Péturs hafa einnig verið haldnar á öðrum söfnum eins og í Nýlistasafninu, Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur. Árið 2014 opnuðu Pétur og Ragna tvö sýningarrými; á Bergstaðastræti 52 í Reykjavík og Levetzowstrasse 16 í Berlín, og voru sýningar haldnar á þessum stöðum í nokkur ár.

Pétur og Ragna gengu í hjónaband árið 1969. Þau eignuðist synina Pétur Ara, sem lést nokkurra mánaða 1967, og Kjartan Ara, f. 1972, myndlistarmann. Dóttir Kjartans og Maríu Rúnarsdóttur er Ísabella Róbjörg, f. 2006.

Útför Péturs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 8. janúar 2024, kl. 15

Hann Pétur Arason vinur minn og mentor hefur kvatt. Sorgin er mikil, áþreifanleg.

Maður kynnist fáum á lífsins leið sem hafa djúpstæð og mótandi áhrif á mann.
Pétur er meðal þessa áhrifamikla fólks í mínu lífi.
Ég er svo þakklát fyrir óteljandi margar góðar minningar frá samverustundum okkar.
Þær fyrstu sem koma upp í hugann nú á kveðjustund eru frá því fyrir tæpum 20 árum á skrifstofunni í Safni þeirra Péturs og Rögnu á Laugavegi, hvar ég starfaði á árunum 2005-2008, þegar við Pétur sátum gjarnan saman fyrir opnunartíma um helgar með sætabrauð og kaffi og skoðuðum vefsíður og katalóga erlendra listuppboðshúsa, ræddum hræringar og hreyfingar á listmarkaðinum og leituðum uppi nánari upplýsingar um alls kyns listamenn. Á þessum stundum, og svo ótalmörgum öðrum æ síðan, kynntist ég þeim hlýja, skarpa, örláta, skemmtilega og forvitna vini og velunnara sem Pétur var. Hann hafði endalaust gaman af því að ræða um myndlist frá alls kyns vinklum, hlustaði áhugasamur á sjónarmið annarra og hafði sterkar skoðanir á listum sjálfur. Sýn hans á myndlistina hafði byrjað að mótast frá æsku er faðir hans gaf honum málverk, fyrsta listaverkið af fjölmörgum sem Pétur átti eftir að eignast. En helsta mótunin varð frá því hann kynntist Rögnu, konunni sinni, og af lífi í listinni með henni.

Við Pétur kynntumst skömmu fyrir opnun Safns þegar hann kíkti gjarnan við í litlu sýningarrými sem ég rak í Þingholtunum um áratugar skeið. Ég sat yfir sýningunum þar og var nokkuð upp með mér að Pétur, sem ég vissi hver væri vegna sýningarrýmis hans Annarrar hæðar sem ég hafði þá heimsótt, skyldi sýna starfsemi minni áhuga og gefa sér tíma til að spjalla um listina. Betur kynntumst við svo þegar Pétur bauð mér starf í Safni við Laugaveg sem hafði þá verið starfrækt í um tvö ár. Þar störfuðum við náið saman að viðamikilli sýningarstarfsemi þar sem áhersla var lögð á sýningar á verkum úr ört vaxandi safneign Péturs og Rögnu ásamt með sýningum á nýjum verkum fjölda innlendra og erlendra listamanna. Strax frá byrjun var það stór hluti starfs míns að fylgjast vel með myndlistinni heima og heiman, koma með tillögur að listamönnum og/eða -verkum og eiga í samræðu við Pétur um sýningahugmyndir okkar beggja. Pétur treysti mér fyrir stjórn fjölda sýninga, gjörningadagskrá og uppákomum í Safni í samstarfi við stórkostlega listamenn og var þetta tímabil mér ómetanlegur skóli. Ekki síst var það mér lærdómsríkt að fylgjast með Pétri og hvernig listsöfnun hans, sem hann gekkst við að væri árátta, og einlæg löngun hans til að miðla listaverkunum til sem flestra, ræða um listina og leyfa henni að vera uppspretta skapandi samræðna, var honum eldsneyti. Í honum logaði neisti, brennandi áhugi á listinni, sem fann sér stöðugt súrefni í listsöfnun og sýningarhaldi. Og liststarfsemi Péturs og Rögnu blés svo sannarlega listheiminum á Íslandi og víðar súrefni í brjóst.

Starfsemi Safns við Laugaveg var á enda í upphafi árs 2008 og við tóku flutningar á safneigninni og skrifstofu yfir í næstu götu, á Vatnsstíg. Þar kom ég oft við í kaffispjall og var um leið gjarnan sjanghæjuð í skráningarvinnu, umsýslu vegna lánabeiðna eða annað sem tilheyrði utanumhaldi á safneigninni. Þetta voru alltaf ánægjulegar stundir og lærdómsríkar þar sem við Pétur spjölluðum lengi þar til hann þurfti allt í einu annaðhvort að þjóta til að tefla við Kristján vin sinn Guðmundsson eða til að horfa á fótbolta.


Árin á eftir áttum við í frekara samstarfi þegar mér var falið að stýra tveimur viðamiklum sýningum á verkum úr safneign Péturs og Rögnu í Listasafni Reykjavíkur, annarri á Kjarvalsstöðum árið 2010 og hinni ári síðar í Hafnarhúsinu og þeirri þriðju í Listasafni Íslands árið 2016. Auk þess stýrði ég sýningu á smáverkum úr safneigninni í Safni á Bergstaðastræti, sem þau hjónin ráku árin 2014-2015.

Pétur og Ragna dvöldu drjúgan hluta árs í Berlín á árunum 2014-2018 og það gerði ég einnig svo við hittumst gjarnan þar og sáum saman myndlistarsýningar og fórum á tónleika. Þar fékk ég að kynnast listsafnaranum Pétri í öðru ljósi, sem listsafnara í virku samtali við erlenda listsafnara, listamenn, gallerista, safn- og sýningarstjóra. Hann var örlátur á tengslamyndun fólks á milli, hafði gaman af því að kynnast nýju fólki og kom sífellt á óvart með því að sýna ótrúlegustu hlutum áhuga. Mikill tónlistaráhugi Péturs naut sín í Berlín, ekki síður en myndlistaráhuginn, og man ég meðal annars eftir að hafa farið þar með honum á klassíska tónleika í Fílharmóníunni, á fjögurra klukkutíma langa ambient-tónleika í kirkju og á hávaða-hljóðlistagjörning myndlistarmanna á næturklúbbi í gamalli verksmiðjubyggingu. Áhugi Péturs á möguleikum listarinnar, hinu óvænta, því sem kveikir ljós í líkamshylkinu, átti sér engin takmörk. Hann var opinn fyrir nýjum upplifunum og gat fundið fleti á og nálgast alla list þótt hann væri ekkert endilega hrifinn af öllu.


Pétur og Ragna opnuðu sýningarrými í Berlín árið 2014, sem einnig bar heitið Safn og var rekið til ársins 2017, en þar unnum við saman að sýningu á verkum annars tafláhuga-vinar Péturs, Bjarna H. Þórarinssonar, og á síðustu árum vorum við Pétur í sambandi varðandi útgáfu og sýningar á verkum Bjarna úr safneigninni.

Pétur var víðlesinn og vel lesinn um það sem vakti áhuga hans í myndlist og listum almennt, og lagði sig eftir að fræða sig um forsendur, sögulegan bakgrunn og tengingar. Það eru slíkir þættir sem gera safnara að góðum söfnurum og veita söfnum þeirra vægi að auki við vægi listaverkanna sjálfra. Þeir sem til þekkja vita að listaverkasafn Péturs og Rögnu er ekki bara einstakt hér á landi heldur á það sér enga hliðstæðu þegar litið er til tilkomu þess, merkrar sögu sýningarhalds þeirra hjóna á um 35 árum, frá Gallerí Króki og Annarri hæð, Safni á Laugavegi, á Lewitzowstrasse í Berlín og á Bergstaðastræti í Reykjavík.

Það rifjast svo ótalmargt skemmtilegt upp í vináttunni við Pétur, aðdragandi og uppsetning hverrar einustu af tugum þeirra sýninga sem við unnum saman að, góðar samræður og gæðastundir í skrifstofustússi, listneysla og góðir kaffibollar, og litlir kaffidropar sem dreifðu úr sér um öll gólf og teygðu sig stundum yfir á ramma og gler þegar asi var á þessum drífandi og framtakssama manni.


Kæru Ragna, Kjartan og Isabella, ykk­ar miss­ir er mik­ill.
Megi allar góðar vættir vernda ykkur, veita ykkur ljós og styrkja.
Minningin um merkan og góðan mann lifir.
Hvíl í friði, kæri Pétur.


Birta Guðjónsdóttir.