Sigurður Ingi Lúðvíksson, sjómaður og athafnarmaður, fæddist 10. mars 1944. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi 6. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Knud Grytnes og Kristín Helga Sveinsdóttir, f. 10. janúar 1911, d. 28. ágúst 2008.  Kjörfaðir hans varð Lúðvík Reimarsson, f. 31. ágúst 1920, d. 22. janúar 2003. Ingi átti tvö systkini: Hafsteinn Reynir Magnússon, f. 21. september 1936, d. 29. október 2022, giftur Margréti Þóreyju Gunnlaugsdóttur, f. 19. apríl 1944.  Þau eiga þrjú börn. Anna Ingibjörg Lúðvíksdóttir, f. 5. júlí 1953, gift Þorvaldi Pálma Guðmundssyni, f. 17. júní 1951. Þau eiga þrjú börn.

Ingi giftist Ástfríði Árnadóttur, f. 9. október 1953, og eignuðust þau saman tvö börn, Grétar Inga, f. 3. desember 1976, verslunarstjóra hjá BYKO, og Hildi Sigurðardóttur, f. 9. september 1979, Global Mobility partner hjá LEGO.

Grétar á fjögur börn með fyrrverandi konu sinni Sigríði Katrínu Kristbjörnsdóttur: Soffía Ásbjörga, f. 2000, dóttir hennar Sigríður Emelía, f. 2022, Fannar Ingi, f. 2003, Ásta Katrín, f. 2008, og Egill Ingi f. 2013. Hildur á þrjú börn ásamt eiginmanni sínum, Guðmundi Rúnari Kristjánssyni, Kristján Gabríel, f. 2002, Mikael Steinn, f. 2006, Elma Rakel, f. 2012.  Ingi eignaðist  því sjö afabörn og eitt langafabarn.

Ingi fæddist í Reykjavík og bjó í Njarðvík til sjö ára aldurs. Þá fluttist hann til Vestmannaeyja þar sem hann eyddi unglingsárunum. Ingi stundaði sjómennsku frá unga aldri og lærði síðar matsveininn í Hótel- og veitingaskólanum í Reykjavík.  Sem ungur maður var Ingi mikið til sjós, fyrst sem háseti og loks matsveinn bæði á íslenskum og erlendum skipum. Ingi starfaði meðal annars á skipum Eimskips til fjölda ára sem svo seinna fór hann sjálfstætt að stunda sjóinn.

Eftir sjómennskuna var Ingi í sendibílarekstri og var lengst af með þrjá bíla á sínum snærum.

Þegar að ellilaunaaldurinn nálgaðist söðlaði Ingi um og varði tíma sínum mikið í Taílandi. Þar var hann öllum hnútum kunnugur og var í allskonar rekstri en aðallega þó í að hjálpa öðrum Íslendingum að njóta Taílands til fulls. Ingi rak í nokkur ár hinn fræga Pulsubar á Pattaya sem er Íslendingum sem þar hafa dvalið í ljósu minni sem samkomustaður Íslendinga þar um slóðir.


Síðustu árin varði Ingi miklum tíma hjá dóttur og tengdasyni sínum í Danmörku.

Útför hans fer fram í Kópavogskirkjuí dag, 15. janúar 2024, klukkan 13.

Meira á www.mbl.is/andlat

Í dag kveð ég afa Inga. Sorgin sem fylgir því að missa afa Inga jafnast ekkert á við þau forréttindi og gleði sem ég finn yfir því að hafa átt hann sem afa og að hafa átt þær stundir sem ég fékk með honum.
Þótt að það sé sorgleg tilhugsun að afi Ingi muni aldrei aftur segja Guð hjálpi þér, ég má ekki vera að því! þegar ég hnerra , er það þakklæti sem ég finn mest fyrir í dag.
Afi Ingi var einn af þeim mönnum sem lifðu lífinu til fulls á sínum yngri árum og í hans tilfelli voru hans yngri ár þangað til að hann varð rúmlega sjötugur. Hann ferðaðist víða og vann við ýmislegt.
Afi Ingi fór ótroðnar slóðir og sem dæmi um það náði hann að tengja plötuspilara í leigubíl sem hann keyrði í Vestmannaeyjum í gamla daga. Sem er gott dæmi um bæði hugvit og hugmyndaflug afa Inga. Þannig var hann eini leigubílstjórinn sem gat spilað Bítlaplötur á meðan hann rúntaði um með eyjarskeggja á djamminu.
Afi var kokkur og gat eldað hvað sem er nánast úr hverju sem er. Afi keyrði skutlu og gat komið innbúi úr heilu einbýlishúsi inn í 5,4 rúmmetra skutlu bíl. Afi átti bar á Taílandi og virtist þekkja alla sem höfðu nokkurn tímann séð kort af Thailandi. En það sem skilaði sér mest til mín var að afi átti bestu sögurnar.
Ég þekkti auðvitað ekki afa á þessum tíma, þótt ég hafi heyrt margar góðar sögur af honum þá. Afi Ingi sem ég þekkti var orðinn eldri maður og farinn að búa með okkur af og til. Þótt að afi væri orðinn gamall og minnið aðeins farið að týnast var hann fullur af lífi. Að hlusta á gamla rokk-tónlist, leika við hundinn (annan eins dýravin verður erfitt að finna) og laga allskonar hluti var það sem hann gerði helst þegar hann bjó hjá okkur í Danmörku. Afi gat ekki setið kyrr, varð alltaf að vera að gera eitthvað. Hann minnti náttúrulega mest á ungling þegar hann stalst út í sígó seint á kvöldin svo að mamma myndi ekki sjá hann.
Mér fannst alltaf skemmtilegt þegar Afi bjó hjá okkur. Það var alltaf mesta fjörið á honum heima hjá okkur. Þótt hann hafi dregið meðalaldurinn á heimilinu upp um svona 60 ár. Þegar að minnið sveik hann, lét afi það ekkert á sig fá og gerði manna mest grín af sjálfum sér og því fylgdu oft á tíðum fyndin atvik.
Til dæmis bankaði hann einu sinni upp á herbergið hjá mér og sagði að ég þyrfti að koma inn í eldhús að sjá rosalegar fréttir, það væri farið að gjósa á Íslandi. Ég fylgdi honum þar sem hann arkaði inn í eldhús eins og fætur toguðu, á sínum 5 cm viðar klossum sem hann skildi aldrei við sig. Þegar hann var búinn að draga mig inn í eldhús kom í ljós að hann var á Youtube að horfa á 8 ára gamla heimildamynd.
Mér fannst það þægilegt og skemmtilegt að vera með afa mínum. Þegar ég flutti til Íslands, til að byrja í menntaskóla, langaði mig mest að búa í Furugrundinni með afa Inga.
Það var alltaf jafn gaman að búa með afa Inga og í þann stutta tíma sem við bjuggum tveir saman í Kópavogi var það engin undantekning. Ég setti upp hljóðkerfi og plötuspilara í íbúðinni þannig það var alltaf tónlist i gangi hjá okkur. Við vorum með nákvæmlega sama tónlistarsmekkinn. Eitt af því mörgu sem ég tek frá Afa mínum. Elvis, Bítlarnir, Chuck Berry og Tina Turner var það sem nágrannar fengu að hlusta á með okkur afa á fullu blasti.
Það sem mig langar mest að erfa frá afa mínum er jákvæðnin. Sama hvað á móti blés var afi Ingi alltaf jákvæður. Ég get fullyrt það að ég hef aldrei heyrt afa minn kvarta. Ekki einu sinni þegar sambúð okkar afa varð skyndilega slitinn, að því hann mjaðmarbrotnaði. Hann kvartaði ekki einu sinni þegar læknirinn sagði að miðað við ástand hans þurfti hann að fara á hjúkrunarheimili.
Eftir að afi flutti á Móberg var Furugrundin okkar bæði tómleg og leiðinleg. Sem betur fer náði ég að heimsækja afa oft á Selfoss og sá hversu sáttur hann var með dvölina á hjúkrunarheimilinu. Afa leið best þegar hann gat hjálpað til og var oft ekki síðri en starfsfólkið í frágangi og uppvaski. Hann bauð meira að segja starfsmönnum sem honum fannst vera of þreyttir að leggja sig í rúminu hans, og hann tekið næturvaktina þeirra á meðan.
Við héldum jólin á aðfangadag á Móbergi með honum. Afi var vanmáttar og veikur en í svaka stuði samt. Hann grínaðist og sagði okkur sögur. Afi spilaði við okkur billiard á Móbergi og vann alla leiki sem hann tók á sig þrátt fyrir þróttleysi og veikindi. Á síðustu metrunum þegar að Mamma var hjá honum og við fjölskyldan farin aftur til Danmerkur töluðum við oft við hann á Facetime. Alveg sama hvað hann var slappur og vanmáttar brosti hann og hafði meiri áhuga á því hvernig við hefðum það en hvernig honum liði. Hann ætlaði bara að ná sér og skella sér eina ferð enn til Danmerkur á leiðinni til Taílands.
Og ef einhver okkar hnerraði sagði hann Guð hjálpi þér. Ég má ekki vera að því! og brosti svo með prakkarasvip.
Þannig munum við alltaf muna afa Inga, brosandi með smá prakkara svip.
Takk fyrir mig elsku afi, við munum alltaf sakna þín - en með bros á vör.

Mikael Steinn Guðmundsson