Anna Esther Ævarr Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 25. ágúst 1936. Hún lést 4. janúar 2024 á Vífilsstöðum en hún var búsett í Grindavík síðustu árin.
Foreldrar Estherar voru þau Gróa Jakobína Jakobsdóttir, f. 24. nóvember 1913, d. 9. október 2000 og Jón Erlingsson, f. 25. apríl 1908, d. 29. júní 1941, fórst með e/s Heklu. Þau slitu samvistir.
Stjúpfaðir hennar og seinni maður Gróu var Steinn Einarsson, f. 11. apríl 1914, d. 24. desember 1986.
Esther var fjórða í röðinni af alsystkinum sínum sem í aldursröð eru: Gissur Pétur Ævarr, f. 26. september 1931, d. 20. nóvember 2018, Erlingur Kristinn Ævarr, f. 20. október 1932, Sigurbjörn Ævarr, f. 6. ágúst 1934, d. 8. maí 2014.
Hálfsystkini hennar samfeðra eru þau Helga og Jón Erlings.
Sammæðra eru Halldóra V.K. Ævarr, f. 6. mars 1939, Skúli Ævarr, f. 7. desember 1941. Ingibjörg Ævarr, f. 2. apríl 1953. Einnig ólu þau upp sem sín eigin Maríu Jónínu Steinsdóttir sem þau ættleiddu, f. 17. júlí 1944, Jón Baldvin Sveinsson, f. 12. febrúar 1945, d. 29. júlí 2023, Matthías Bergsson, f. 2. ágúst 1949 og barnabarn sitt Gróu Sigurbjörgu Ævarr Sigurbjörnsdóttur, f. 7. janúar 1955.
Esther giftist Sveini Sigfússyni Öfjörð, f. 23. mars 1928, d. 25. febrúar 2002, en þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Steinn Ævarr Öfjörð, f. 3. mars 1956, synir hans og Bergljótar Bergsdóttur, f. 18. maí 1957: Sölvi, f. 24. júní 1980, d. 2. október 1980 og Arnar, f. 8. júní 1982. 2) Guðmundur Öfjörð, f. 6. júlí 1961 og 3) Ámundínus Örn Öfjörð, f. 24. september 1972, eiginkona hans er Guðbjörg Gerður Gylfadóttir, f. 19. febrúar 1974. Synir þeirra eru Gylfi Örn, f. 17. desember 1994, unnusta hans er Heiðrún Sjöfn Þorsteinsdóttir, f. 30. janúar 1995 og eiga þau soninn Tristan Örn, f. 11. janúar 2022, Ævar Andri, f. 9. júní 1999, unnusta hans er Mikaela Domico, f. 3. júní 2000, Arnar Freyr, f. 22. ágúst 2007 og Orri Sveinn, f. 19. janúar 2009.
Seinni maður Estherar var Birgir M. Indriðason, f. 31. apríl 1936, d. 12. maí 2020.
Esther ólst upp í Vatnagarði á Eyrarbakka í stórum systkinahóp, þar sem allir hjálpuðust að og gekk hún í barnaskólann á Eyrarbakka. Hún lauk gagnfræðaprófi á Selfossi 1952. Hún var mikil hannyrðakona og lék allt í höndum hennar. Seinni ár vann hún utan heimilis við verslunarstörf.
Útförin fer fram í Eyrarbakkakirkju í dag, 15. janúar 2024, klukkan 14.
Elsku Dedda systir mín.
Ég vel þér kveðju, sem virði ég mest,
von, sem í hjarta geymi.
Annist þig drottins englar best
í öðrum og sælli heimi.
(Vald. Jónsson)
Nú ertu komin á góðan stað og ég veit að það hefur verið vel tekið á móti
þér og þú ert umvafin ást og kærleika af þeim sem farin eru á undan þér í
sumarlandið. Sé fyrir mér að þið mamma séuð að huga að blómum og sestar við
hannyrðir, sem ávallt léku í þínum höndum.
Ímynda mér þig sitja og mála á postulín, sérastaklega þar sem jólin eru
nýafstaðin og Deddu jólakannan sem þú málaðir og gafst mér ein jólin er
tekin fram og í hana blandað malt og appelsín. Hún ber sannarlega þínu
fallega handverki vel merki og er mér dýrmæt. Líka gaman að því hve
börnunum mínum og barnabörnunum finnst þessi fallegi hlutur tilheyra
jólunum. Annað tengt þessum árstíma er útsaumaða jólakortið sem þú sendir
mér eitt árið og ég rammaði inn. Ekki laust við að ég hefi séð litinn
glampa í augunum þínum er ég sat með þér milli hátíðanna og minnti þig á
þetta sem þú hefur oft áður heyrt mig tala um
Já, þær eru margar minningarnar sem koma upp í hugann þegar ég sest niður
að pára þessar línur og fóru um hugann þegar við héldumst í hendur bæði
þegar við vorum saman núna síðast og í Grindavík, stuttu áður en
náttúruhamfarirnar hófust.
Þú varst mín fyrirmynd í mörgu. Ég ætlaði t.d. að vera með eins fallegar og
penar hendur og þú. Halda eins um bílstýrið sem þú gerðir, svo fínlega og
allt öðruvísi en ég hef kynnst. Ætlaði líka að verða jafn fim á saumavélina
og þú, sem saumaðir hvert dressið á fætur öðru frá því ég man. Í eina tíð
sagði maður þér t.d. bara hvernig kjól ég væri með í huga og þá varð hann
fljótlega tilbúinn si svona, á bæði við þig og mömmu. Hjá ykkur voru snið
nefnilega ekki endilega nauðsynleg. Fallegu milliverkin í vöggusængur- og
koddaverin, sem ég á og varðveiti, hvort heldur voru bróderuð, hekluð,
prjónuð, allt ber þetta þínu fínlega handbragði vitni. Man hvað þið mamma
voruð glaðar þegar ég fékk silfurfingurbjörgina með bláa steininum fyrir
tíuna mína í handavinnunni í skólanum.
Við áttum oft skemmtilegar samverustundir þegar ég var að laga hárið þitt,
setja í þig premanent, klippa og snyrta bæði fyrir og eftir mitt
hársnyrtinám, hafðir alltaf trú á mér í þeim efnum, sem og þið allar, en ég
var svo lánsöm að eiga ykkur að til að æfa mig.
Okkar systrasamband var gagnkvæmt traust og fallegt þó árin væru nokkuð mörg á milli okkar, þú elst af okkur systrum og ég á hinum endanum.
Seinni árin voru nokkuð margir kílómetrar á milli okkar, en þá notuðum við símann. Það var ávallt notalegt að koma við hjá ykkur systrum mínum og mágum í Grindavík, fara í systraorlof til Gógó og við svo allar þrjár að spjalla með kaffibolla í sólstofunni, meðan Birgir hnýtti öngla.
Elsku Dedda mín, takk fyrir að vera stóra systir mín og fyrir okkar
fallega systrasamband, símtölin og okkar síðustu samveru sem við áttum
saman. Ég reyndi að segja þér fréttir af öllum og fannst mér augun þín
skynja sumt. Það var svo erfitt að fara frá þér, taka höndina mína úr
þinni. Þú kvartaðir ekki þó ég gæti vel gert mér grein fyrir því, þar sem
þú áttir orðið svo erfitt um mál en augun þín sögðu meira en mörg
orð.
Veit að þú vakir yfir ömmustrákunum þínum, sem þú elskaðir meira en allt,
og fjölskyldum sona þinna sem og okkur öllum.
Margt er í minninganna heimi,
mun þar ljósið þitt skína.
Englar hjá Guði þig geymi,
ég geymi svo minningu þína.
(Höf. ók.)
Sofðu systir sofðu rótt umvafin englum.
Þín systir,
Ingibjörg.