Edda Dröfn Eggertsdóttir fæddist í Reykjavík 10. september 1979. Hún lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi í faðmi fjölskyldunnar 3. janúar 2024.

Foreldrar Eddu eru Eggert Ólafur Jónsson og Margaret Petra Jónsdóttir. Edda Dröfn var yngst fjögurra systra. Systur hennar eru Hildur Þuríður Eggertsdóttir, Sylvía Guðrún Eggertsdóttir og Ragnheiður Eggertsdóttir.

Barnsfaðir Eddu Drafnar er Sigtryggur Kristinson og eiga þau saman soninn, Eggert sem var augasteinn Eddu og yndi. Edda var einstök móðir.

Edda Dröfn ólst upp í Hafnarfirði, gekk í Setbergsskóla, útskrifaðist frá Flensborg sem stúdent, hún stúderaði enskar bókmenntir í Háskóla Íslands og einnig lauk hún diplómanámi frá Bifröst í almennri stjórnsýslu árið 2020.

Ung stundaði Edda Dröfn handbolta með FH á og á seinni árum fékk hún brennandi áhuga á hlaupum og æfði með hlaupahóp FH, tók þátt í hinum ýmsu hlaupum og hafði dálæti á félagsskapnum í þeim góða hópi. Einnig var hún virk sem foreldri í Sundfélagi Hafnarfjarðar og seinna sem sunddómari.

Hún starfaði lengst af hjá Tryggingastofnun ríkisins og síðan hjá Þjóðskrá.

Útför Eddu Drafnar fer fram í dag, 15. janúar 2024, frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði klukkan 13.

Elsku Edda mín.

Nú hefur leiðir okkar skilið um stund. Söknuður minn til þín er mikill. Ég man þig fyrst í vöggunni á Einibergi og hvað ég var pínu sár að þú hefðir ekki fæðst á afmælisdaginn minn heldur daginn eftir. En fljótlega varð ég full af ást til þín og tók þig með mér út um allt og lét sem ég væri mamma þín.

Ég minnist þín sem litlu systur minnar sem ég á svo mikið með. Ég minnist með gleði í hjarta samveru okkar í gönguferðum, á spilakvöldum og í spjalli að drekka karamellukaffi. Ég er þér þakklát fyrir allt sem þú gafst mér með nærveru þinni. Ég er þér þakklát fyrir að þú vaktir áhuga Söru Lífar á utanvega- og götuhlaupi. Frá þér fékk hún drifkraftinn til að komast í gegnum þrekið í lögregluskólanum. Þó að pabbi hafi verið fyrirmynd hennar og hvati til að fara í lögreglunámið þá komst þú henni í gegnum þrekið. Ég minnist þess með miklu þakklæti.

Ég hugsa til gönguferðanna okkar tveggja sem og með Eggerti, Söru Líf, Adrían Ólafi og Krók, hvort sem það voru styttri göngur eða stærri þá eru þetta yndislegar stundir. Göngurnar um Hvaleyrarvatn og Heiðmörk nýttum við til að fá frið í haus eins og við sögðum oft.

Spilakvöldin okkar eru kær minning. Stundum mikil læti enda baðst þú mig á gamlársdag að taka með spil sem myndu ekki valda miklum látum. Þú vildir hafa rólegheit.

Ég er þér þakklát fyrir stuðninginn sem þú veittir Jóni Ólafi þegar hann missti pabba sinn í september.

Ég minnist þín sem drifkrafts sem ekkert amaði að þrátt fyrir illvíg veikindi. Eins þú orðaðir það mjög oft: Ég er bara góð, bara fín takk.

Við eigum svo ótal margar minningar og það er dýrmætt.

Minning um allskyns svipbrigði þín sem þú kunnir að setja upp þegar þú varst ekki sátt. Mér verður hugsað um góðan svip þegar við fórum á sýninguna 9 líf í desember. Þú svona lést ágætlega í ljós skoðun þína á sætavali sem var fremsti bekkur, þú varst ekki alveg sátt en svo í lokin þegar lagið Kveðja kom eftir Bubba Morthens þá sagðir þú: Veistu Sylvía, ég fékk bara tár í augun. Þú varst snillingur í ýmsum svipbrigðum.

Mér er svo dýrmætt að við gátum átt fallegar stundir í þögn saman, þurftum ekki alltaf að vera gjammandi.

Ferðin okkar stutta en góða á Þjóðhátíð í Eyjum 2019 með Eggerti, Helgu og Söru Líf var yndisleg.

Þú elskaðir að hlaupa og hlupuð þið Sara Líf mikið saman. Þrátt fyrir að þrek þitt til að hlaupa hafi minnkað þá varstu alltaf til í að mæta og hvetja Söru Líf okkar. Þið tókuð Adrían Ólaf stundum með í minni hlaupin. Þú varst Adrían Ólafi góð frænka og varst glöð yfir að vera orðin ömmusystir þegar hann fæddist. Þegar hann kom með mér til þín eða þú komst til mín þá sagðir þú alltaf: Nei, nei, er ekki uppáhaldsfrændi minn mættur. Takk systir fyrir að gefa Adrían Ólafi góðar minningar um flotta frænku.

Við töluðum mikið um að seinna meir myndum við fá okkur hjólhýsi og ferðast tvær saman. Þegar við yrðum ekki ferðafærar vegna aldurs þá myndum planta hjólhýsinu í garðinum hjá Hildi eða Ragnheiði og setjast að hjá þeim.

Allt sem þú hefur gefið mér geymi ég með mér. Ég elskaði að fá smáskilaboðin frá þér. Símtölin frá þér sem byrjuðu oftast á orðunum: Hey sys, hvað er planið í dag? og svo plönuðum við daginn út frá því. Þú hefur gefið mér margar dýrmætar minningar, takk Edda Dröfn, mín litla systir.

Eggert minn, þú verður alltaf lífið, ljósið og stjarnan hennar mömmu þinnar. Mamma og pabbi, þið verðið alltaf þau bestu hjá Eddu Dröfn okkar.

Ég sakna þín mikið og elska þig, Edda Dröfn mín.

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Ástarkveðja,


Sylvía systir.

Sylvía Guðrún Eggertsdóttir