Sigríður Beinteins Sigurðardóttir, fv. innheimtufulltrúi hjá Reykjavíkurborg, fæddist í Hafnarfirði 4. nóvember 1931 og átti þar heima nánast alla tíð. Hún lést á heimili sínu í Hafnarfirði 1. janúar 2024.
Foreldrar Sigríðar voru Sigurður Árnason kaupmaður í Hafnarfirði, f. 7.8. 1879, d. 9.9. 1942, og eiginkona hans Gíslína Sigurveig Gísladóttir, f. 29.9. 1896, d, 26.10 1975. Þau voru bæði gift áður og höfðu misst maka sína; hann Sigurlínu Helgardóttur og hún Sigurjón Melberg Lárusson vélstjóra. Hálfsystkini Sigríðar voru: Samfeðra: Árni skipstjóri og hafsögumaður, f. 1908, Þráinn klæðskerameistari, f. 1911, og Halldór, matsveinn á togurum, f. 1913: Sammæðra: Sigurgísli Melberg, f. 29.6. 1919, d. 21.10. 2001, Sigríður Dagbjört, f. 13.9. 1920, d. 9.9. 2003, og Sigurjón Melberg, f. 27.11. 1921, d. 17.6. 1975. Alsystkini Sigríðar eru: Friðþjófur, f. 20.7. 1924, d. 15.1. 2023, Hulda Júlíana, f. 26.10. 1926, d. 24.8. 1928, Beinteinn, f. 26.6. 1928, d. 4.4. 2020, Hulda Júlíana, f. 30.7. 1929, d. 19.4. 2004.
Sigríður giftist aldrei og var mest alla tíð einhleyp en átti í stuttu sambandi við barnsföður sinn Geir Hjartarson, f. 24.11. 1936, d. 17.2. 2015. Barn þeirra er Sigurður Árni Geirsson, f. 27.3. 1968, maki Ásta Dagmar Ármannsdóttir, f. 14.2. 1970, þau eiga engin börn saman. Börn Sigurðar frá fyrra hjónabandi eru Daníel, f. 23.11. 1990, Georg, f. 27.8. 1994, móðir þeirra er Einhildur Steinþóra Þórisdóttir, f. 6.5. 1969, d. 27.1. 2021. Börn Ástu Dagmarar frá fyrra hjónabandi eru Oliver Jóhansson, f. 5.11. 1991, Vilmar Breki Jóhannsson, f. 31.7. 1995, og Birta Lind Jóhannsdóttir, f. 26.4. 1999.
Að loknum barnaskóla stundaði Sigríður nám við Flensborgarskóla og lauk þaðan gagnfræðaprófi árið 1949. Að skólagöngu lokinni tók Sigríður að sér hin ýmsu störf, m.a. í sælgætisgerðinni hjá bræðrum sínum sem hét Kaldá. Ævintýraþráin leiddi hana fljótlega út fyrir landsteina til Kaupmannahafnar þar sem hún starfaði sem húsþerna í um hálfs árs skeið á óðalssetri við góðan orðstír og var verðlaunuð með viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Að því loknu starfaði Sigríður á Fossunum, millilandaskipum, sem þerna og heimsótti margar borgirnar í Evrópu. Síðar starfaði Sigríður á Keflavíkurflugvelli við skrifstofustörf um nokkurra ára skeið eða þar til hún hóf störf hjá Reykjavíkurborg þar sem hún endaði starfsferilinn en þar starfaði hún í 32 ár og lauk þar störfum árið 1997.
Á sínum yngri árum æfði hún og lék með Haukum í handbolta en síðar áttu sundlaugarnar hug hennar allan. Sigríður stundaði sund og gufu reglulega sér til heilsubótar og félagsskapar og setti hún oft skemmtilegan svip á sundlaugarlífið í Hafnarfirði.
Að loknum starfsferlinum tók Sigríður þátt í hinum ýmsu félagsstörfum, hún var virk í félagsstarfi eldri borgara framan af, tók þátt í kórstarfinu og var oft hrókur alls fagnaðar í ferðum á vegum félagsins. Sigríður sótti kirkjustarfið í Hafnarfjarðarkirkju og var með í bænahópi og kórstarfi.
Útför hennar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 15. janúar 2024, klukkan 13.
Sigga var afar sjálfstæð kona. Hún byrjaði ung að vinna. Eftir að hafa unnið í verslun sem afi okkar, Sigurður Árnason, rak vann hún um tíma hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Þaðan lá leiðin yfir höfin blá þar sem hún vann sem þerna á Fossunum og þjónustustúlka í Kaupmannahöfn. Yfir henni sveif ævintýraljómi. Í herbergi undir súð hjá ömmu Línu var kommóða sem forvitin frænka læddist í til þess að skoða útlenska dótið hennar Siggu frænku. Skartgripir, skraut og flott gleraugu sem Sigga setti upp þegar hún puntaði sig. Þetta djásn kom sér vel síðar þegar hægt var að fá það að láni fyrir hinar ýmsu uppákomur. Síðar meir hóf Sigga störf á skrifstofum Reykjavíkurborgar. Þar vann hún þangað til hún fór á eftirlaun.
Sigga og Sigurður Árni sonur hennar, sem skírður var í höfuðið á afa, bjuggu í næsta nágrenni við okkur og voru heimagangar á Klettahrauninu. Sigga var alltaf svo stolt af syni sínum sem reyndist hennar stoð og stytta. Mamma og Sigga voru góðar vinkonur og naut hún þess að bjóða þeim mæðginum í mat til okkar og þá sérstaklega um jól. Að vísu fannst okkur systkinum Sigga frænka helst til lengi að njóta ljúffengu máltíðanna því ekki var jólagjöfum úthlutað fyrr en allir voru búnir að borða. Það var mikill kærleikur á milli þeirra systra sem sýndi sig í því hversu oft og iðulega Sigga kom til mömmu á Hrafnistu þar sem hún lá langt leidd af alzheimer á efri árum.
Sigga frænka var sjálfstæð kona og hafði sinn eigin fatastíl. Pældi ekkert í hvað öðrum fannst og var að vissu leyti brimbrjótur hvað margt varðar. Hún borðaði afar hollan mat. Í gufunni vakti hún athygli fyrir að borða appelsínur og bera á andlitið þykkt lag af Nivea-kremi. Á sundlaugarbakkanum var hún alltaf með sólgleraugu og setti klút yfir andlitið til þess að verja það fyrir sólinni. Enda var Sigga með afskaplega fallega húð og ungleg í fasi.
Hún átti sama bílinn í þrjátíu og fimm ár, notaði hann sjaldan því hún kaus fremur að ganga á milli staða. Hún var spennt fyrir nýjungum. Vildi til dæmis ólm fá að prófa skellinöðruna hans Gísla heitins og fertug skvísan í pilsi með uppsett hár og sólgleraugu brunaði niður Linnetstíginn en úbbs, hún gleymdi að spyrja hvernig ætti að bremsa. Einnig má nefna að hún tók spjaldtölvutækninni fagnandi og var dugleg að leita sér leiðbeininga hjá okkur sem yngri vorum.
Sigga mætti alltaf fyrst í fjölskylduveislurnar, dansaði eins og enginn væri morgundagurinn og fór síðust. Hún hafði unun af því að spjalla við unga fólkið og fylgdist vel með og eins og yngri frænkur hennar höfðu á orði var Sigga aðalskvísan og alltaf svo skemmtilegur töffari. Hún hafði áhuga á að fylgjast með hvað væri í gangi hjá þeim og þegar hún spurði eina þeirra hvort hún væri ekki komin á séns og hún svaraði því neitandi þá hafði Sigga á orði þá tæplega níræð: já þú ert eins og ég; enginn nógu góður fyrir þig.
Við sjáum hana Siggu ljóslifandi fyrir okkur geislandi káta létta í spori gangandi um götur bæjarins. Konu sem tók sig ekki of hátíðlega en fyrst og fremst kæra frænku sem sparaði ekki hrósyrðin og þreyttist ekki á að hvetja okkur öll til dáða.
Við kveðjum Siggu frænku með kærleika og virðingu.
Erla, Kristjana, Kristján, Arndís og fjölskyldur.