Björg Ólafsdóttir fæddist á Arndísarstöðum í Bárðardal 3. nóvember 1930. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 7. janúar 2024.
Foreldrar hennar voru hjónin Arnbjörg Halldórsdóttir húsfreyja, f. 4. október 1903, d. 13. maí 1990, og Ólafur Tryggvason, bóndi og huglæknir, f. 2. ágúst 1900, d. 27. febrúar 1975. Systkini: Halldór, f. 28. júní 1928, d. 2. september 1984, Jóhann Tryggvi, f. 26. nóvember 1935, og Þórunn, f. 19. ágúst 1943.
Björg giftist 19. júlí 1957 Jósef Kristjánssyni bifvélavirkja, f. 3. október 1924, d. 14. desember 2012. Foreldrar hans voru hjónin Ingiríður Jósefsdóttir húsfreyja, f. 3. september 1895, d. 6. september 1978, og Kristján Tryggvason, búfræðingur og smiður, f. 11. mars 1882, d. 12. nóvember 1946.
Börn Bjargar og Jósefs: 1) Guðbjörg Inga, f. 1958, gift Sigmundi Rafni Einarssyni, f. 1948. Synir: Jósef Þeyr, kvæntur Eyrúnu Linnet. Börn: Ásdís, Birkir, Gísli og Hilmar. Hólmar, kvæntur Guðrúnu Ósk Þorbjörnsdóttur. Börn: Ylfa Dís, Helga og Högni Hafberg. 2) Ólafur, f. 1962. 3) Jóhanna Elín, f. 1965, gift Bjarna Ásgrímssyni, f. 1963. Börn: Helga Björg Sigfúsdóttir, sambýlismaður Kim Rune Vik Rognan. Dóttir: Jóhanna Marín. Margrét Sylvía Sigfúsdóttir, sambýlismaður Nikolai Nörstegård. Ívar Smári Björnsson. Stjúpdætur Jóhönnu: Petra Þórunn Sigfúsdóttir, sambýlismaður Hreinn Hringsson. Börn: Andrea Líf og Alexander Ísak. Arís Bjarnadóttir-Miller. 4) Ragnhildur Björg, f. 1969, gift Gunnari Níelssyni, f. 1963. Börn: Birna Ósk, Tinna Björg og Ólafur Níels.
Fyrstu árin ólst Björg upp í Bárðardal en þegar hún var á áttunda aldursári buðust hjónin Björg Hallgrímsdóttir og Bjarni Rósantsson á Akureyri til að fóstra Björgu á veturna svo að hún gæti gengið í hefðbundinn barnaskóla í stað farskóla í sveitinni. En Björg og Arnbjörg voru fóstursystur. Dvaldi hún á veturna hjá Björgu og Bjarna en hjá foreldrum sínum á sumrin. Eftir að Björg kom til þeirra eignuðust þau dæturnar Guðrúnu Svövu, f. 21. janúar 1940, og Nönnu Kristínu, f. 7. febrúar 1941, sem urðu henni fóstursystur. Björg gekk í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar og lauk gagnfræðaprófi þaðan.
Björg starfaði í Amaró á meðan hún safnaði sér fyrir námi í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og handavinnudeild Kennaraskólans og brautskráðist þaðan sem handavinnukennari 1955. Hún kenndi fatasaum í Húsmæðraskóla Akureyrar í tvo vetur, handavinnu í Gagnfræðaskóla Akureyrar og í Barnaskóla Akureyrar við forfallakennslu. Hún tók líka að sér að aðstoða konur við saumaskap. Þegar börnin voru orðin nokkuð stálpuð bauðst henni að starfa við handavinnukennslu á Dvalarheimilinu Hlíð sem þá var nýmæli. Þar starfaði hún til sjötugs.
Björg og Jósef hófu sinn búskap í Viðarholti í Glerárþorpi við Akureyri. Árið 1963 fluttu þau í Vanabyggð 7, sem þau byggðu. Þar bjuggu þau alla tíð ásamt Ólafi syni sínum. Ólafur hugsaði um móður sína síðustu æviárin, þar til hún veiktist og fór á sjúkrahús 1. janúar 2024.
Útför Bjargar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 22. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.
Streymt er frá athöfn:
Elsku mamma, þá er kveðjustundin komin. Ég var að vona að ég næði að sjá
þig um miðjan janúar þegar ég átti bókað flug til landsins, en ég var 8
dögum of sein. Mig grunaði ekki þegar ég dvaldi hjá þér síðasta sumar að
það væri síðasta stund okkar saman. Það var sárt að sjá hversu fljótt þér
hrakaði en ég er samt mjög þakkát fyrir það að þú þurftir ekki að þjást
lengi og hversu friðsæl þú varst í lokin. Einnig fyrir það að þú gast búið
heima svona lengi með hjálp Óla bróður. Guði sé lof fyrir tæknina, að geta
séð þig og talað við þig hinum megin á hnettinum, það er alveg magnað og
gerir aðskilnað svo miklu auðveldari.
Við áttum góðar stundir síðasta sumar og það er mér og dætrum mínum mjög
dýrmæt minning. Við keyrðum umhverfis Mývatn með Óla bróður, Helgu og
Margréti, dætrum mínum sem eru búsettar í Noregi og Jóhönnu 8 mánaða
gamalli langömmudóttur, sem þú varst að sjá í fyrsta skipti. Það var rok og
kuldi, en við keyptum okkur ís, borðuðum góðan mat og fórum í lítinn
húsdýragarð í Fnjóskadal. Þú settist meira að segja á trampólínið og
skemmtir þér konunglega á meðan Óli hoppaði og þú, Helga og Jóhanna litla
hossuðust upp og niður, og við skellihlógum öll. Síðan fórum við öll í
pottinn í sumarbústaðnum í Vaglaskógi. Þú varst alltaf svo glöð og þakklát
og lifðir í augnablikinu, enda minnið farið að gefa sig og þú mundir
jafnvel ekki hvað þú hafðir gert fyrr um daginn.
Ég man ekki hvenær þú byrjaðir að missa minnið, en það gerðist hægt og
rólega til að byrja með, en ágerðist síðan síðustu árin. Og alltaf varstu
jafn hissa þegar Óli rétti þér símann og sagði að ég væri að hringja frá
Ástralíu. Nú, og hvað ertu að gera þar, sagðir þú alltaf með glettni í
röddinni og brostir út að eyrum og síðan spurðirðu um veðrið.
Þú varst alltaf mikil handavinnukona, enda vandvirk með eindæmum og mikill
fullkomnunarsinni. Ég man þú sagðir mér fyrir löngu að þegar þú vannst á
Amaró saumastofunni eftir Gagnfræðaprófið, þá lastu viðtal við stúlku í
Mogganum, sem hafði útskrifast úr Handavinnudeild Kennaraskólans og vissir
undir eins að þangað vildir þú fara. En til að komast inn í skólann þurfti
fyrst að fara í húsmæðraskóla. Þannig að þú fórst í Húsmæðraskólann í
Reykjavík og vannst síðan í Amaró til að safna fyrir
handavinnukennaranáminu. Námið tók tvö ár og var tekið inn í skólann annað
hvert ár. Þú varst svo lánsöm að komast inn og útskrifaðist
sem handavinnukennari árið 1955.
Eftir útskriftina kenndir þú fatasaum við Húsmæðraskólann á Akureyri. Eftir
að þú giftir þig kenndir þú handavinnu við Gagnfræðaskóla Akureyrar í tvo
vetur þegar Inga systir var lítil og Inga amma passaði hana á meðan, og
síðar forfallakennslu við Barnaskóla Akureyrar. Þegar þér var boðin föst
staða þurftir þú að afþakka hana, því þú vildir eignast fleiri börn. Auk
þess harðneitaði Inga amma að passa Óla bróður, því henni fannst hann svo
uppátækjasamur og erfitt að tjónka við hann. Það voru ekki leikskólar í þá
daga og konur þurftu að fórna starfsframa fyrir barneignir, sem þú gerðir
með glöðu geði.
Þú vannst heima um tíma og tókst að þér að sníða og þræða saman kjóla fyrir
konur. Seinna bauðst þér að kenna handavinnu á Dvalarheimilinu Hlíð á
Akureyri og þar vannstu mikið brautryðjendastarf. Ég man hvað mér þóttu
útsaumsstykkin sem saumuð voru hjá þér falleg og tilkomumikil. Það voru
reyndar líka nokkrir karlmenn hjá þér í handavinnunni. Mér er mjög
minnisstætt þegar þú varst að setja upp handavinnusýningar á vorin og við
Ragga systir hjálpuðum þér stundum að setja þær upp, það var mikil vinna og
vandasöm. Þú festir stykkin upp á risa stórt froðuplast með títuprjónum.
Seinna var það svo bannað vegna brunahættu. Við Ragga fengum líka stundum
að selja vörur í sölubásnum á sýningunum og það fannst okkur mikið sport.
Þú baðst okkur Óla að taka myndir og þú áttir mörg myndaalbúm af fallegum
útsaumsstykkjum saumuðum af eldri borgurum á Hlíð.
Ég minnist þess líka þegar þú komst heim með útsaumsstykki sem eldri
borgarar höfðu saumað, og baðst mig að skoða þau og sjá hvort ég sæi
einhverjar villur sem þyrfti að laga áður en þau voru pressuð og innrömmuð
eða sett upp. Því þú gast ekki hugsað þér að þau færu í innrömmun eða aðra
uppsetningu ef það væru augljósar villur í þeim. Þú pressaðir flestöll
útsaumsstykkin heima í sjálfboðavinnu og settir þau síðan upp. Svo mikið
var þér í mun að það væri fallega gert.
Eftir að pabbi veiktist og fór í dagvistun upp á Hlíð þá saumaði hann
margar myndir hjá þér með vinstri hendinni, því hann hafði lamast hægra
megin. Þú festir þær upp í álramma svo hann ætti auðveldara með að sauma
þær. Hann var ótrúlega natinn og þolinmóður og flest barnabörnin eiga mynd
eftir hann, sem mér finnst alveg einstakt, og dætur mínar meta
mikils.
Þú kenndir okkur systkinum að sauma út. Ég man að við saumuðum
krosssaumsmyndir með Andrési önd og félögum, sem við þurftum að telja út í
og Óli bróðir var enginn eftirbátur okkar systra. Þessar myndir héngu lengi
vel upp á vegg í herbergjum okkar í Vanabyggð. Mér fannst mjög gaman að
allri handavinnu og ég saumaði út margar myndir og púða með krossaum,
demantsspori og góbelín. Þú kenndir mér líka að prjóna, hekla, taka upp
snið, sníða og sauma föt. Þegar ég síðan fór í Kennaraháskólann og lærði að
vera textílkennari þá var ekki margt sem textílkennararnir þar gátu kennt
mér, sem þú hafðir ekki þegar kennt mér.
Eftir að ég flutti til Noregs fékk ég áhuga á að eignast íslenska
upphlutinn, því Norðmenn eiga svo fallega þjóðbúninga og skarta þeim við
hátíðleg tækifæri. Þú kenndir mér að baldera og komst til mín til Noregs
sumrin 2015 og 2016, þá 84 og 85 ára gömul og hjálpaðir mér við
saumaskapinn, sem þér fannst mjög gaman. Það varð síðan úr að upphlutirnir
urðu tveir, því Margrét dóttir mín saumaði sér líka og voru þeir báðir
vígðir þann 17. maí 2017, á þjóðhátíðardegi Norðmanna.
Elsku mamma, takk fyrir allt og allt. Þú hefur reynst mér einstaklega vel í
gegnum tíðina. Tókst alltaf á móti mér opnum örmum þegar ég kom í bæinn og
fékk að gista, ýmist búsett á Kópaskeri, í Noregi og nú síðast í Ástralíu.
Þú opnaðir heimilið fyrir mér og dætrum mínum þegar ég skildi árið 1997 og
við fengum að búa í Vanabyggðinni í 9 mánuði á meðan ég var að bíða eftir
húsnæði. Þú bauðst stjúpdóttur minni húsaskjól þegar mamma hennar flutti
til útlanda. Þú bauðst dætrum mínum að búa hjá þér þegar þær voru í MA og
nú nýlega syni mínum. Þú sást alltaf það góða í öllum og alltaf boðin og
búin til að hjálpa öðrum og vinna sjálfboðavinnu. Samviskusemi, óeigingirni
og fórnfýsi eru orð sem lýsa þér hvað best.
Elsku mamma, þú ert gull af manni. Ljós og friður fylgi þér og ég veit
að pabbi hefur tekið vel á móti þér. Ég hlakka til að hitta ykkur um
síðir.
Þín dóttir,
Jóhanna Elín.