Sigmundur Birgir Guðmundsson fæddist í Reykjavík 10. apríl 1937. Hann
lést á Landspítalanum Fossvogi 14. janúar 2024.
Foreldrar hans voru Undína Sigmundsdóttir húsmóðir, f. í Vestmannaeyjum
6. júní 1912, d. 19. maí 1981 og Guðmundur Sölvason verslunarmaður, f. á Siglufirði 3. febrúar 1910, d. 17. júní 1995, síðast innheimtustjóri Sláturfélags Suðurlands.
Systir Sigmundar Birgis var Eygló Guðmundsdóttir, f. 14. desember 1935,
d. 1. nóvember 2012.
Sigmundur Birgir kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur 9. mars 1957. Guðrún er
fædd á Stökkum á Rauðasandi 18. desember 1936. Hún er dóttir hjónanna H. Sigríðar Ólafsdóttur, húsmóður og saumakonu, f. 10. apríl 1908, d. 20. desember 1995 og Jóns Péturssonar, f. 31. janúar 1897, d. 26. júní 1943, bónda á Stökkum á Rauðasandi.
Bróðir Guðrúnar var Pétur Jónsson, f. 13. nóvember 1937, d. 25. apríl 2021.
Guðrún starfaði sem húsmóðir, verslunarkona og rak prjónastofuna Önnu
um langt árabil.
Sigmundur Birgir og Guðrún eignuðust þrjú börn: 1) Jónína, f. 28. júní 1956. 2) Páll, f. 22. mars 1961, kvæntur Sigrúnu Fanndal Sigurðardóttur, f. 21. júní 1961. Synir þeirra eru: a) Sigurður Freyr, f. 26. desember 1986, d. 20. apríl 1997, b) Páll Axel, f. 29. júní 1988, unnusta hans er Nanna Beck Holme, f. 6. september 1984. Dóttir þeirra er Billie Beck, f. 16. nóvember 2022. c) Daníel Freyr, f. 5. september 1998. 3) Undína, f. 28. október 1963, gift Jóhanni Þór Halldórssyni, f. 12. júní 1957. Börn þeirra eru: a) Karen, f. 10. júní 1984, gift Birgi Urbancic Ásgeirssyni, f. 22. janúar 1987. Börn þeirra eru Stirnir, f. 24. mars 2018, Ynja, f. 18. desember 2019 og Myrra, f. 26. apríl 2022. b) Birgir Þór, f. 26. apríl 1988, unnusta hans er Tinna Gunnlaugsdóttir, f. 21. janúar 1985. Börn þeirra eru Eiður Jack, f. 28. apríl 2005, Bertha Margrét, f. 27. júlí 2015 og Tara Geirrún, f. 12. ágúst 2018. c) Tanja Rún, f. 31. maí 1990, unnusti hennar er Vilmundur Jónsson, f. 24. ágúst 1988. Dóttir þeirra er Undína Sif, f. 15. janúar 2023.
Sigmundur Birgir stundaði nám í Austurbæjarskóla, Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Iðnskólanum, þar sem hann lauk námi í pípulögnum.
Hann starfaði sem pípulagningameistari og rak sitt eigið fyrirtæki til fjölda ára. Sigmundur starfaði í seinni tíð við akstur hópferðabifreiða, fyrst hjá Guðmundi Jónassyni þar sem hann ók ferðamönnum um okkar fallega land og síðar fyrir Kynnisferðir en þar ók hann aðallega flugáhöfnum.
Hann var einnig virkur félagi í Björgunarsveitinni Ingólfi til margra ára.
Sigmundur Birgir hafði gaman af því að ferðast, bæði innanlands sem og utan og hann var mikill tónlistarunnandi og þá einna hrifnastur af klassískri tónlist og djassi.
Útför Sigmundar Birgis fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 25. janúar 2024,
kl. 13.
Elsku afi.
Mér finnst svo óraunverulegt að sitja við tölvuna að skrifa þessi síðustu
orð frá mér til þín og bíð eftir því að vakna upp af þessari martröð,
hendast upp í bíl og renna yfir heiðina til þín og ömmu í kaffi og spjall.
Sú er hins vegar ekki raunin og er þetta blákaldur veruleikinn, að ég muni
ekki fá að sjá himinbláu augun þín, uppljómað andlitið og fá hlýja knúsið
frá þér aftur þegar ég horfi upp stigaganginn á leið minni upp í íbúð til
þín og ömmu á Kársnesbrautinni, mínu öðru heimili þaðan sem minningarnar
eru svo ótalmargar og munu vafalaust hlýja mér um ókomin ár. Mikil eru
forréttindin að hafa átt svona góðan afa og dýrmætan vin og fá að fylgjast
að í gegnum í lífið í rúm 33 ár. Að hafa afa sér við hlið í öllum þeim
verkefnum sem ég tók mér fyrir hendur og deila með þér jafnt gleði- og
sorgarstundum.
Eftirminnilegar eru stundirnar sem við áttum saman allt frá barnæsku þegar
ég beið uppi í gluggakistu með Táslu að fylgjast með þegar afi renndi eftir
Kársnesbrautinni í lok vinnudags hjá Kynnisferðum, lagði bílnum við
stöðvarhúsið, kom svo askvaðandi upp brekkuna frá Gunnutúni, brosti og
veifaði þegar hann sá okkur bíða. Sátum við oftar en ekki saman inni í
eldhúsi og gæddum okkur á ristabrauði með sultu og osti, kakói og kaffi,
ömmu súkkulaðiköku, ískaldri mjólk nú eða uppáhaldinu okkar beggja,
rabarbaragraut með rjóma. Settumst svo saman inn í stofu og hlustuðum á
geisladiska og vínilplötur og horfðum saman á Spaugstofuna á
laugardagskvöldum þegar ég var í næturgistingu og amma gekk frá ullarbolum
við hliðina á okkur. Allir göngutúrarnir með Táslu um Kársnesið,
bakarísferðirnar að sækja einn súkkulaðisnúð með hörðu súkkulaði og
kókómjólk, ísbíltúrarnir, ferðalögin með ykkur ömmu, sumarbústaðarferðirnar
á Þingvallavatn með Herði og Pálínu frænku, Rauðasandsferðirnar og svo
ótalmargar fleiri minningar sem ekki komast allar fyrir á blaði. Eina allra
skemmtilegustu ferðina fórum við Birgir bróðir í með ykkur ömmu árið 2003,
þá Vestfjarðahringinn, og bar þá ferð oft á góma þegar við spjölluðum
saman, nú síðast vikuna fyrir jól þegar við skoðuðum myndir og rifjuðum upp
gamla góða tíma. Árlegi jólabaksturinn klikkaði yfirleitt ekki og gegndir
þú viðamiklu hlutverki, að skjótast út í búð eftir hinu og þessu hráefni
sem vantaði svo við amma gætum klárað að töfra fram lagterturnar.
Að hafa ykkur ömmu á hliðarlínunni allt mitt líf, bæði við áhugamál og nám
hérlendis sem erlendis, var ómetanlegt og voru sunnudagarnir okkar dagar
þar sem við spjölluðum saman um heima og geima og ævintýrin sem við
upplifðum. Þú varst alltaf svo stoltur af þeim áföngum sem ég náði, bæði í
hrossaræktinni og í námi, og fenguð þið amma yfirleitt fyrsta símtal og
aldrei vantaði upp á stuðninginn. Þú varst alltaf harðákveðinn í að koma
til mín til Slóvakíu og vera með fjölskyldunni við útskriftina. Covid kom í
veg fyrir þá ferð en þið amma fylgdust spennt og stolt með í gegnum tölvuna
þegar ég tók við prófskírteininu og loksins orðin dýralæknir. Að loknu námi
reyndum við eftir fremsta megni að halda í hefðina okkar með vikulegum
samtölum þar sem ég flutti austur fyrir Selfoss með Villa mínum. Alltaf
tókstu Villa svo vel, hafðir mikið dálæti á honum og varst svo kátur að sjá
hversu góðan mann ég nældi mér í fyrir að verða 17 árum. Mikið varstu síðan
stoltur þegar litla Undína Sif okkar fæddist 15. janúar 2023 og þegar þú
fréttir að hún myndi fá að bera nafn langalangömmu sinnar sem og ömmu.
Elsku afi, áfallið var mikið þegar þú varðst fyrir því óláni að lærbrotna í
september síðastliðnum og fylgjast með heilsunni þinni hraka hratt síðustu
mánuði. Hins vegar hélt ég eins og svo margir að þú myndir ná þér upp úr
þessari lægð og fyrr en varði myndum við sitja aftur saman við eldhúsborðið
og í stofunni heima á Kársnesbraut. Ég mun aldrei gleyma síðasta skiptinu
sem við sátum saman með ömmu og Undínu Sif og þú rifjaðir upp fyrir mér
stundina þegar þú sást ömmu í fyrsta skipti á balli í Þórscafé og vissir um
leið að þarna var komin sú allra fallegasta manneskja sem þú hafðir nokkurn
tímann séð, og varst ákveðinn í því að þetta yrði þinn lífsförunautur.
Mikið sem þið amma voruð heppin hvort með annað, harðdugleg, eljusöm,
húmoristar og ævintýragjörn, bestu vinir og sálufélagar í 70 ár. Skarðið
sem þú skilur eftir þig er stórt og sorgin er mikil en elsku afi, ég og við
fjölskyldan munum passa vel upp á elsku ömmu og munum við halda
sunnudagshefðinni okkar við um ókomin ár. Ég kveð þig með miklum söknuði en
ég veit að nú ertu loksins laus undan verkjum og hleypur um Kársnesið með
Táslu og Mollý ykkar þar sem þið tyllið ykkur á stein og horfið út
sjóndeildarhringinn á Snæfellsjökul uppljómaðan í sólsetrinu og sennilega
hvert með sinn ísinn í boxi.
Þangað til við hittumst aftur, góða ferð elsku afi.
Umhyggju og ástúð þína
okkur veittir hverja stund.
Ætíð gastu öðrum gefið
yl frá þinni hlýju lund.
Gáfur prýddu fagurt hjarta,
gleðin bjó í hreinni sál.
Í orði og verki að vera sannur
var þitt dýpsta hjartans mál.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Þín
Tanja, Vilmundur (Villi) og Undína Sif.