Frímann Grímsson fæddist 20. desember 1958. Hann lést 5. janúar 2024 af slysförum.

Foreldrar Frímanns eru Grímur Sigurgrímsson, f. 16. ágúst 1935, d. 28. apríl 2019, og Elín Frímannsdóttir, f. 26. nóvember 1935, d. 29. júní 2002.
Systkini Frímanns eru Jón Grímsson, f. 8. desember 1959, Hrafnhildur Grímsdóttir, f. 13. febrúar 1961, og Ingibjörg Grímsdóttir, f. 8. nóvember 1964. Hálfbróðir Frímanns sammæðra er Hallgrímur Georg Guðbjörnsson, f. 16. desember 1953, d. 1976.

Margrét Á. Hrafnsdóttir fæddist 29. ágúst 1960. Hún lést af slysförum 5. janúar 2024.

Foreldrar Margrétar eru Hrafn Sveinbjörnsson, f. 28. janúar 1937, og Sigríður Ólafsdóttir, f. 8. október 1937, d. 11. apríl 1986. Seinni eiginkona Hrafns er Elín Alice Eltonsdóttir, f. 15. maí 1946, d. 10. júní 2021.

Systkini Margrétar eru Óli Kristinn Hrafnsson, f. 12. ágúst 1956, Ágúst Sigurður Hrafnsson, f. 13. febrúar 1958, Sveinbjörg Hrafnsdóttir, f. 14. mars 1962, Kristín Mary Hrafnsdóttir, f. 10. ágúst 1967, og Birna Hrafnsdóttir, f. 30. apríl 1972.

Börn Frímanns og Margrétar eru Guðni Þór, f. 11. júní 1981, maki Sara Dögg Svansdóttir, f. 14. júní 1988, og Elín, f. 31. maí 1988, maki Helgi Karlsson f. 17. september 1986.
Barnabörn Frímanns og Margrétar eru Henning Smári Helgason, f. 3. mars 2014, Ólafía Ella Guðnadóttir, f. 5. desember 2014, Helen Elma Guðnadóttir, f. og d. 1. apríl 2019, Heiðdís Huld Helgadóttir, f. 15. janúar 2020, og Elma Eir Guðnadóttir, f. 17. maí 2020.

Útför þeirra hjóna fer fram í Keflavíkurkirkju í dag, 25. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er með mikilli sorg og söknuði sem ég minnist Frímanns og Möggu. Það er sagt að tíminn lækni öll sár. Það er ekki rétt en sársaukinn verður þolanlegri með tímanum.

Við Frímann ólumst upp í fimm systkina hópi. Halli bróðir var elstur, síðan komum við þrjú, Frímann, ég og Hrafnhildur, nokkuð þétt á 26 mánuðum. Svo kom Ingibjörg þremur árum seinna. Sjö manna heimili var nokkuð þungt fyrir foreldra okkar á þessum árum og húsakostur þröngur. Við Frímann deildum herbergi frá unga aldri alveg þangað til við fórum að heiman. Eins var um systur okkar. Aldrei bar skugga á samband okkar. Við rifumst aldrei og áttum auðvelt með að leika okkur saman. Enda erum við jafn gamlir í 12 daga á ári. Hann var stóri bróðir og hafði gjarnan frumkvæði að ýmsum uppátækjum og ég fylgdi honum gjarnan. Margt af því var skemmtilegt, stundum hættulegt. Hann var í sveit í fimm sumur. Síðast sumarið 1974. Ég var þá 14 ára og fékk að fylgja með en hann var þá orðinn sjóaður vinnumaður og kenndi mér margt sem ég bý enn að.

Fjölskyldan flutti til Svíþjóðar árið 1970. Þá var ég 10 ára og Frímann 11 ára. Í nýjum skóla í nýju landi var ákveðið að við skyldum vera í sama bekk. Þannig var það þessi tvö ár í Svíþjóð. Þegar við fluttum aftur heim vorum við aftur settir í sama bekk sem þá var 1. bekkur í gaggó. Þannig var það í tvö ár. Af þessu leiddi að við fermdumst saman. Þegar leiðir skildi fór hann í Iðnskólann og ég í landspróf.

Þegar leiðir okkar lágu sitt í hvora áttina bæði í skóla og síðar í lífinu vorum við alltaf nánir en samt ekki þannig að við þyrftum að heyrast með reglulegu millibili. Það gat liðið langt á milli símtala en þegar þau komu voru þau löng og þegar við hittumst var eins og við hefðum hist síðast í gær.

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur 1975 eftir samtals 10 ára dvöl í Keflavík. Þar voru rætur okkar og vinir. Þegar Frímann fékk bílpróf breyttist mikið. Hann fór eðlilega að sækja til Keflavíkur að skemmta sér. Það var í þessum ferðum sem Frímann kynntist Möggu sinni. Hún var 16 og hann 18. Eftir það var ekki aftur snúið og eru árin þeirra saman að nálgast hálfa öld.

Frímann og Magga fluttu fljótlega til Keflavíkur og hófu sitt líf. Bjuggu þau allan sinn tíma á Suðurnesjum fyrir utan nokkur ár á Bakkafirði. Fljótlega byrjaði Frímann að starfa í björgunarsveitunum og var hann viðloðandi þær alla ævi.

Frímann og Magga ferðuðust mikið saman um landið. Þegar Guðni og Ella bættust við voru þau að sjálfsögðu tekin með. Á yngri árum fóru þau mikið gangandi eða í jeppaferðum upp á hálendi. Þau byrjuðu í hefðbundnum tjaldbúskap og færðu sig svo smám saman upp í hjólhýsi. Ekki er til sá staður á landinu sem þau höfðu ekki komið til. Aldrei fengu þau leið á Íslandi og völdu það fram yfir sólarlandaferðir.

Magga starfaði síðustu árin á leikskólanum í Sandgerði og átti auðvelt með að laða til sín börnin. Enda var hún kölluð Amma Magga. Fréttin um fráfall Möggu var mikið áfall alveg upp í grunnskólann þótt langt væri síðan börnin útskrifuðust úr leikskóla.

Fyrir ca. áratug byrjuðu þau að hjóla sér til ánægju og heilsubótar. Eftir það fylgdu hjólin alltaf með í útilegur. Fyrir tveimur árum keyptum við Frímann okkur eins hjól. Fulldempuð rafmagnsfjallahjól. Ég komst nýlega að því að við vorum báðir hvor í sínu lagi að teikna upp skemmtilegar hjólaleiðir á ýmsum stöðum á landinu.

Ég vil að lokum minnast á skemmtilegan dag sem við bræður áttum fyrir tveimur árum í Hallormsstaðaskógi. Við hjóluðum inn í skóginn og yfir Hallormsstaðaháls og niður í Skriðdal og hjóluðum svo hringinn til baka. Við þurftum að kljást við ár, læki og mýrarfen. Í einu slíku stoppar Frímann og sekkur í mýri en ég var kominn af stað yfir á eftir honum. Ég hjóla á hann og við dettum í drulluna og hlæjum eins og vitleysingar. Eins gott að enginn sá þessa karla á sjötugsaldri leika sér í drullunni.

Elsku Guðni, Ella, Sara og Helgi, þið hafið staðið ykkur eins og hetjur í gegnum þessa raun og ég veit að þið komið sterkari út úr þessu. Missir barnanna ykkar er sömuleiðis mikill. Þau þurfa hlýju og ást og af henni hafið þið meir en nóg. Munið að það er allt í lagi að brosa í gegnum tárin og ylja sér við góðar minningar um góða foreldra, vini og ferðafélaga.

Jón Grímsson og fjölskylda.

Jón Grímsson og fjölskylda.