Kristín Björg Helgadóttir fæddist á Sauðárkróki 26. desember. 1946. Hún lést á Heilbrigðisstofnunni á Sauðárkróki 13. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigríður Ögmundsdóttir, f. á Sauðárkróki 2. maí 1921, d. á Sauðárkróki 19. ágúst 2000, og Helgi Einarsson, f. á Akranesi 2. maí 1912, d. á Sauðárkróki 9. janúar 1964. Systkini Kristínar voru: 1) Ögmundur f. 28. júlí 1944, d. 8. mars 2006, eiginkona hans var Ragna Ólafsdóttir f. 7. maí 1944, d. 10. ágúst 2011. 2) Halldóra, f. 25. nóvember 1945, eiginmaður hennar er Ingimar Pálsson. 3) Einar, f. 3. desember 1949, eiginkona hans var Brynja Jósefsdóttir f. 16. júní 1948, d. 6. apríl 2023. 4) Magnús Halldór, f. 14. janúar 1962, eiginkona hans er Dísa María Egilsdóttir. Hinn 31. desember 1969 giftist Kristín Ingimar Jóhannssyni, f. 9. 10. 1949 á Ljósalandi í Lýtingsstaðahreppi. Foreldrar hans voru María Benediktsdóttir, f. 12. maí 1919, d. 14. janúar 2000. og Jóhann Hjálmarsson f. 27. nóvember 1919, d. 22. maí 1990. Börn Kristínar og Ingimars eru: Árni, f. 10. desember 1968. d. sama dag. 2) Júlíana, f. 24. mars 1974, sambýlismaður hennar er Jón Brynjar Kristjánsson f. 5. febrúar 1969. Sonur þeirra er Samúel Ingi f. 12. júlí 2007. 3) Salóme Sóley f. 13. nóvember 1986, sambýliskona hennar er Una Sjöfn Liljudóttir f. 19. september 1977. Sonur Salóme og Báru Kristínar Skúladóttur er Ingimar Skúli, f. 18. janúar 2012. Kristín ólst upp hjá foreldrum sínum á Sauðárkróki og lauk þar grunnskóla en varð gagnfræðingur frá Akranesi 1964. Hjúkrunarfræðingur frá HSÍ í júní 1970. Starfandi hjúkrunarfræðingur á Blönduósi 1970, síðan á Sauðárkróki frá 1. 1. 1971-2012, að undanteknum þremur mánuðum ársins 1973, þá á Sjúkrahúsinu á Blönduósi. Kristín fór ung að vinna við barnapössun, þá starfaði hún af og til í Sauðárkróksbakaríi þar sem hún sagðist hafa lært að vinna, þá starfaði hún einnig við fiskvinnslu, ummönnun sjúklinga og m. fl. Kristín söng í Kirkjukór Sauðárkrókskirkju í 20 ár og starfaði töluvert með Félagi eldri borgara í Skagafirði.

Útför Kristínar verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Streymt verður frá útförinni á facebooksíðu Sauðárkrókskirkju.

Elsku Stína mín á Króknum hefur kvatt þessa jarðvist!

Hún var ein af þessum merkilegu konum sem gefa meira en fólk hefur hugmynd um. Jarðbundin og praktísk. Hjálpsöm og umhyggjusöm. Ávallt til staðar fyrir dýrin og mannabörnin. Mikið sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera undir kærleiksríkri leiðsögn Stínu sem barn í nokkra mánuði, þrátt fyrir erfiðleikana sem leiddu mig til hennar.

Ég kynntist Stínu sem tímabundinni fósturmóður minni. Níu ára gömul var ég send til þeirra Ingimars yfir heila skólaönn og fékk að kynnast öðru umhverfi en ég var vön fyrir sunnan. Mér þótti strax gott að vera hjá þeim á Suðurgötunni.
Þeirra rólega umhverfi, með eina stóra systur mér við hlið, ásamt Tinnu hundi og kettinum Tarzan, veitti mér fljótlega það öryggi sem ég þurfti á að halda. Stína var alltaf að spyrja hvað mig vantaði og hvað mig langaði að gera.
Ég var frekar feimin að biðja um og skilja mínar eigin þarfir, en hún Stína var ekki lengi að hjálpa mér með það og seinna meir sagði hún mér sögur af hvernig ég var farin að biðja um allt milli himins og jarðar og lærði því líka
hvar mörkin voru dregin. Allt í góðu jafnvægi þar. Ég lærði að synda sjálf, fór á hestbak og æfði mig á píanóið og man enn eftir mínum fyrstu tónleikum þar sem ég spilaði mitt fyrsta lærða verk, sjálfsörugg með Stínu mína spennta í salnum.

Samskipti okkar minnkuðu svo aðeins með árunum en ég hugsaði oft til þeirra og vissi inni í mér að ég var ekki gleymd. Með tilkomu samfélagsmiðla hittumst við svo aftur og urðum góðar vinkonur á ný. Eftir að ég fluttist til New York prjónaði Stína á mig fallega lopapeysu sem ég enn í dag nýt þess að klæða mig í á köldum kvöldum hér í Kaliforníu.

Hún fylgdist alltaf vel með mér úr fjarska, eins og verndarengill, ávallt tilbúin að hjálpa ef á þurfti að halda. Ég gleymi aldrei hvernig hún endurtók setninguna æi, það er svo vont að missa mömmu sína þegar móðir mín lést árið 2015. Svo einlæg, sönn og hjartahlý var hún.

Ég náði sem betur fer nokkrum heimsóknum á Krókinn síðustu árin. Nú síðastliðið sumar keyrðum við í gegn frá Akureyri og átti ég dýrmæta stund með Stínu uppi á spítala, þar sem þrátt fyrir mikil veikindi hún að sjálfsögðu var með allt á hreinu, meira að segja heimsmálin. Ávallt spennt fyrir lífinu og forvitin að eðlisfari gat hún Stína haldið uppi hverjum samræðunum á eftir öðrum. Ég náði henni líka í eitt gott vídeóspjall bara nokkrum dögum fyrir fráfall hennar. Skyndileg löngun mín til að sýna henni fallega ömmutréð mitt hér í almenningsgarði nálægt heimili okkar í Kaliforníu varð að ómetanlegu samtali okkar, um meðal annars dvöl hennar í Ameríku forðum daga og söguna af hvernig hún og Ingimar voru gift í messu á gamlárskvöld fyrir 54 árum. Það merkilega gerðist svo að við maðurinn minn völdum einnig gamlársdag fyrir okkar giftingardag, 44 árum síðar, og eigum við því sameiginlegan merkisdag í minningunni.

Elsku besta Stína mín! Ég veit að þín verður sárt saknað af svo mörgum. Okkar sérstöku tengsl munu alltaf lifa með mér og nú geturðu kannski kíkt á mig af og til af himnum ofan og gefið mér góð ráð um samband hunds og kattar, en það er pínu eins og þú hafir haft einhver áhrif þar hér í byrjun árs rétt fyrir fráfall þitt, er við Erik tókum þá ákvörðun að bæta kisu í litla hópinn okkar, og því núna með hund og kött á heimilinu okkar.

Það er mikil list að stilla saman strengi, vera af mismunandi uppruna, og mun ég ávallt líta upp til þín af mikilli væntumþykju og þakklæti fyrir allt sem þú kenndir mér. Af jafnvægi og með tign.

Ég trúi því að þú sért umkringd fallegum sálum dýra þinna og ástvina. Á góðum stað þar sem sólin skín og fuglarnir syngja. Takk fyrir að hafa verið til.

Elsku Ingimar, Júlíana og Sóley, við Erik sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar einlægustu samúðarkveðjur.

Minning Stínu vakir með okkur að eilífu.

Þín

Jóhanna (Jósa).