Guðlaug Halldóra Guðmundsdóttir fæddist 18. júlí 1931 á Berserkjahrauni í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Hún lést á Dvalarheimilinu Fellaskjóli í Grundarfirði þann 4 . janúar 2024.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Sigurðsson, f. 26. ágúst 1887, d. 24. september 1946, og Kristín Pétursdóttir, f. 24. ágúst 1887, d. 6. desember 1976. Systkini Guðlaugar, öll látin, voru Halldór Lárus, Sigurður, Ingvi, Guðrún, Sigríður Inga, María, Pétur Breiðfjörð, Andrea, Jón og Sveinsína.
Guðlaug giftist 13. september 1952 Herði Pálssyni frá Hömrum í Grundarfirði. Börn þeirra eru: 1) Páll Guðfinnur, f. 6. júlí 1954, kvæntur Magatte Gueye og eiga þau tvo syni, Markús Örn og Pál Ólaf. Fyrir átti hann Hörð, Tinnu, Hrund, Sigrúnu og Þórarin sem lést skömmu eftir fæðingu. Páll á átta barnabörn og eitt barnabarnabarn. 2) Hilmar Þór, f. 1. desember 1956, sambýliskona hans Unnur Jónsdóttir. Fyrir átti hann Helgu Maríu, Guðlaugu og Hafdísi. Hilmar á átta barnabörn. 3) Óskírður sonur, f. 31. október 1961, d. 31. október 1961. 4) Hrönn, f. 20. júlí 1963, gift Sigurði Erni Hektorssyni. Fyrir átti hún Hrannar Pál og Grétar Þór. 5) Kristmundur, f. 21. október 1964, d. 12. desember 2009. Börn hans og Kolbrúnar Haraldsdóttur eru Berglind Ósk, Birna sem lést 2023 og Brynjar. Barnabörnin eru tvö. 6) Hlynur, f. 21. febrúar 1966, kvæntur Valborgu Hlín Guðlaugsdóttur og er Fanndís Hlín dóttir þeirra. Stjúpsonur Hlyns, sonur Valborgar, er Guðlaugur Már. Fyrir átti hann Davíð Frey og Tómas Inga. Barnabörnin eru fjögur.
Guðlaug ólst upp á Berserkjahrauni í Helgafellssveit en fór eftir unglingsárin til Reykjavíkur og gætti barna eldri systra sinna. Hún stundaði nám á húsmæðraskólanum að Löngumýri í Skagafirði. Síðan lá leiðin til Grundarfjarðar sem ráðskona til Páls Þorleifssonar og Ólafar Þorleifsdóttur þar sem hún kynntist syni þeirra og verðandi eiginmanni sínum, Herði. Þau hófu svo búskap á Hömrum þar sem þau bjuggu alla sína starfsævi. Þar ólu þau upp börn sín og byggðu upp myndarlegt bú þar sem snyrtimennskan var í fyrirrúmi. Þegar Hörður dó 2017 bjó Guðlaug áfram á Hömrum en flutti síðan í þéttbýlið í Grundarfirði. Fyrst í eigin íbúð en síðan á dvalarheimili aldraðra, Fellaskjól.
Guðlaug stundaði búskap með manni sínum ásamt heimilisstörfum og barnauppeldi. Þegar börnin uxu úr grasi vann hún utan heimilisins bæði við fiskvinnslu og sem matráðskona ásamt mörgu öðru. Þá rak hún byggingarvöruverslunina Hamra í Grundarfirði um árabil.
Guðlaug var sannkallaður listamaður í allri handavinnu og liggja mörg verk eftir hana hjá vinum og vandamönnum. Þá var hún mikil garðyrkjukona og gróðursetti bæði tré og blóm og kom sér upp fallegum garði á Hömrum. Guðlaug hafði gaman af allri tónlist, spilaði á harmonikku og söng í kirkjukórnum. Þá var hún ötull félagi í kvenfélaginu Gleym mér ei í Grundarfirði. Öllum góðum málum lagði Guðlaug lið og var hún ávallt boðin og búin til að hjálpa þeim sem á þurftu að halda.
Útför Guðlaugar fer fram frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 27. janúar 2024, klukkan 13.
Nú er hún mamma mín Guðlaug Halldóra Guðmundsdóttir farin yfir móðuna
miklu. Hún var síðust 11 systkina sem voru börn Guðmundar Sigurðssonar og
Kristínar Pétursdóttir frá Berserkjahrauni í Helgafellssveit.
Mamma var fædd 1931 og hefði orðið 93 ára á þessu ári. Hún kvaddi södd
lífdaga en minnistap hafði hrjáð hana síðustu árin. Það hefur verið erfitt
að sjá móðir sína fjarlægjast smátt og smátt og hverfa inn i móðu
gleymskunnar.
Hún mamma mín er besta mamma í heimi segja börnin og er ég börnunum
innilega sammála. Þegar ég var að alast upp á Hömrum var hún mamma allt í
öllu. Sama hversu snemma var farið á fætur var mamma alltaf á undan öðrum
og búin að taka til morgunmat og hvaðeina. Meðan aðrir stauluðust syfjaðir
um var hún með allt á hreinu og passaði að enginn gleymdi neinu. Þegar hún
kvaddi okkur á skóladegi voru allir með sitt, mamma passaði það. Hún
passaði líka að við stæðum okkur vel í heimanáminu. Metnaðinn fyrir okkar
hönd vantaði ekki. Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar mamma vakti
mig eldsnemma fyrir skóla til að þylja upp þriggja blaðsíðna kvæðið
Gunnarshólma svo ég stæði mig nú í skólanum.
Þegar ekki var skóli þurftu allir að leggja sitt af mörkum. Þegar ég lítill
og syfjaður og var vakinn eldsnemma að morgni til að ná í kýrnar upp í Dal
og reka þær heim í fjós lumaði mamma á súkkulaðimola sem gerð lífið
bærilegra. Mamma hugsaði fyrir öllu. Sumar sem vetur brunaði hún um á
Willis-jeppa en þá var ekki algengt að konur væru með bílpróf. Á vorin í
sauðburðinum hljóp hún á öllum tímum sólahringsins út í fjárhús til að
hjálpa kindum sem voru að bera og áttu í erfiðleikum. Mörg lömbin áttu
hennar nettu en styrku hönd lífið að launa.
Flest öll störf í sveitinni voru unnin á höndum og voru margir í heimili og
allir alltaf svangir. Það var morgunmatur, morgunkaffi, hádegismatur,
miðdagskaffi, kvöldmatur og kvöldkaffi.
Alltaf voru til nýbakaðar kökur, smurt brauð og kleinur í kaffitímum og
fiskur og kjöt á matartímum. Stórsteik var svo auðvitað á sunnudögum.
Enginn fór svangur frá Hömrum. Hún mamma passaði upp á það. Á jólunum
líklega um 1960 bjó mamma til ís í eftirrétt. Hann var ekki keyptur í búð
því þar fékkst hann ekki. Þá var heldur enginn ísskápur til á Hömrum.
Veðrið var ekki hagstætt til ísgerðar á aðfangadag þetta árið því það var
hlýtt í veðri, en mamma lét það auðvitað ekki stoppa sig. Hún náði sér í
snjó og blandaði hann salti. Þetta var hin besta kuldablanda sem frysti svo
ísinn hennar í skál sem hún lagði í kuldablönduna. Í minningunni er þetta
besti ís lífs míns.
Meðfram þessu öllu gróðursetti mamma og ræktaði. Hana munaði heldur ekki um
að mála jeppann í einu vetfangi á kvöldstund í góðu veðri. Morguninn eftir
sáum við að fuglahópur hafði spígsporað um á blautu lakkinu. Mamma tók
þessu með æðruleysi, málaði bara aftur næsta kvöld og setti ógnvekjandi
fuglahræðu við bílinn.
Mamma var hjálpsöm með afbrigðum og lagði góðum málum lið. Hún mátti ekkert
aumt sjá. Mamma og pabbi voru að mörgu leyti ólík en þegar mamma hafði
ákveðið eitthvað studdi pabbi hana með ráðum og dáð án þess að vera að
flíka því. Alls staðar sem mamma kom eignaðist hún vini. Hún sá ekki sólina
fyrir barnabörnunum sem hændust að henni.
Af þessum lýsingum að dæma mætti halda að hún mamma mín hefði verið
ofurkona. Já, það var hún svo sannarlega. Við tókum ekkert sérstaklega
eftir þessu sem börn. Mamma var bara eins og fjöllin, föst fyrir á sínum
stað og alltaf til taks. Þar var hægt að fá skjól hjá henni þegar á móti
blés og enginn tróðst yfir hana eða velti um koll. Ekki fyrr en þungur
óstöðvandi taktur tímans tók sinn toll.
Ég kveð móður mína með trega en gleðst yfir öllu því jákvæða sem hún kom
til leiðar um ævina. Hennar kynslóð byggði upp landið okkar og ætlaðist
ekki til að fá hlutina upp í hendurnar. Ég er stoltur af því að hafa átt
þessa konu fyrir móður.
Myndarlegur hópur afkomenda minnist hennar og eitt barnabarnið spurði:
Verða þá aldrei aftur bakaðar kleinur á Hömrum? Svarið var jú jú kannski
en hún Lauga amma þín gerir það ekki - það fer enginn í hennar spor.
Páll H.