Svala Sigtryggsdóttir fæddist í Reykjavík 3. desember 1956. Hún lést á heimili sínu 10. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Sigtryggur Runólfsson, f. 11. júlí 1921, d. 7. september 1988, og Guðbjörg Sigurpálsdóttir, f. 9. nóvember 1926, d. 1. desember 2014. Svala var 10. í röðinni af hópi 11 systkina.

Svala giftist Ólafi Finnbogasyni, þau skildu.

Sonur þeirra er Arnar Þór Ólafsson, maki Adda Magný Þorsteinsdóttir. Börn þeirra eru Linda Björk, Arnar Máni, Steinunn María og Sóldís Svala. Svala og Ólafur eignuðust einnig stúlkubarn árið 1979 sem lést skömmu eftir fæðingu.

Svala giftist Þóri Sigurðssyni, þau skildu.

Synir þeirra eru: 1) Þórir Þórisson, maki Magndís A. Waage. Börn Sigurðar eru Tanya Berg, Þórir Snævarr og Birgitta Íren. 2) Magnús Þór Þórisson, maki Sandra Júlíusdóttir. Börn þeirra eru Júlía Rún og Patrik Leó. 3) Sigtryggur Þór Þórisson, maki Fríða Dögg Ragnarsdóttir. Börn þeirra eru Henry Leon, Emelía Ýr og Oliver Liam.

Svala giftist Gísla Ásgeirssyni, þau skildu.

Svala var fædd og uppalin í Reykjavík, bjó alla sína barnæsku í Heiðargerði 11. Að loknu skyldunámi fór hún strax að vinna og vann við hin ýmsu störf, þó aðallega við verslunarstörf. Svala æfði handbolta af kappi með Val á árunum 1970-1977 og þótti mjög efnileg en lagði boltann á hilluna þegar barneignir tóku við. Börn og barnabörn voru Svölu allt og átti hún einstaklega gott samband við þau öll og verður hennar sárt saknað.

Útför Svölu fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 29. janúar 2024, klukkan 13.

Blessuð sé minning dásamlegrar frænku minnar og þeirra mörgu stunda sem við áttum saman.
Við Svala vorum ekki bara frænkur, við vorum miklar vinkonur, mjög nánar og töluðum oft saman, jafnvel mörgum sinnum á dag.
Ég get einfaldlega ekki ímyndað mér lífið halda áfram án hennar Svölu minnar, það er svo sárt til þess að hugsa að eiga hana ekki að lengur, en ég veit að nú er hún búin fá að hvíldina sem hún talaði svo oft um að hún þráði og ég veit að mamma og amma hafa tekið vel á móti henni en þeirra saknaði hún svo sárt.
Svala var næm og vissi oft hvernig mér leið án þess að ég segði það og það var að vísu gagnkvæmt.
Við þekktum hvora aðra mjög vel og náðum svo vel saman að fólk varð hissa og átti jafnvel ekki til orð yfir samband okkar, hvernig við gátum talað saman og hvernig við töluðum við hvora aðra enda áttum við alveg einstakt samband sem ég mun ætíð búa að.
Svala háði mörg stríðin í lífinu því lífið var henni ekki alltaf auðvelt en hún stóð sína plikt þó lífið beygði hana stöku sinnum, hún bognaði kannski en aldrei brotnaði hún.
Svala var sú fyrsta sem ég talaði við eftir að ég kom frá lækni með þær fréttir að ég væri að fara í meðferð, það voru erfið skref að taka en Svala stóð með mér, studdi mig og samgladdist mér við hvert skref á þeirri braut, hún átti svo sannarlega sinn þátt í þeirri velgengni.
Svala elskaði ekkert heitar en fjölskylduna sína, strákana, tengdadæturnar og barnabörnin sem öll eiga virkilega um sárt að binda núna þegar komið er að kveðjustund en þá er einstaklega vel við hæfi að rifja upp lagið og textann sem hér fer á eftir:
Góða ferð
Þér leiðist hér ég veit það kæra vina
Þú vilt á brott að kanna nýjan stig
en þig skortir kjark þú hikar og hugsar dag og nótt
og hræðist að þú munir særa mig.
Góða ferð, góða ferð, góða ferð
góða ferð já það er allt og síðan bros
því ég geymi alltaf vina það allt er gafstu mér
góða ferð, vertu sæl já góða ferð.
/
Við áttum saman yndislega stund
við áttum sól og blóm og hvítan sand
og skjól á köldum vetri er vindur napurt söng
og von um gullin ský og fagurt lag.
/
Góða ferð, góða ferð, góða ferð
góða ferð já það er allt og síðan bros
því ég geymi alltaf vina það allt er gafstu mér
góða ferð, vertu sæl já góða ferð.
/
Þó farir þú í fjarlægð kæra vina
og fætur þínir stígi ókunn skref
Hve draumar ræst hafa' aftur þú áður sagðir mér
þín ást var mín og brosin geymt ég hef.
/
Góða ferð, góða ferð, góða ferð
góða ferð já það er allt og síðan bros
því ég geymi alltaf vina það allt er gafstu mér
góða ferð, vertu sæl já góða ferð
/
Góða ferð, góða ferð, góða ferð
góða ferð já það er allt og síðan bros
því ég geymi alltaf vina það allt er gafstu mér
góða ferð, vertu sæl já góða ferð.
Góða ferð - er lagið hennar Svölu, lagið sem hún söng svo oft fyrir barnabörnin, fyrir strákana sína og lagið sem við heyrðum óma góða ferð góða ferð góða ferð í lok hverrar heimsóknar.
Það er sárt til þess að hugsa að geta ekki hringt og talað við þig Svala mín, það var svo ótrúlega margt sem við gerðum saman. Stendur þar hæst sumarbústaðarferðin okkar góða sem hófst á því að við rúntuðum út um allt svæðið leitandi að bústaðnum þar sem við sáum ekki húsnúmerið á honum.
En svo reyndist rétti bústaðurinn vera sá sem við lögðum fyrir framan, á meðan ég hringdi og talaði við umsjónarmanninn.
Svo fyrstu nóttina í bústaðnum þegar reykskynjarinn byrjaði að baula og ég stökk á fætur sveiflandi viskustykki og var að reyna slökkva á honum og Svala í hláturskasti á meðan.
Elsku Svala mín þær eru svo margar, minningarnar sem koma upp.
Við ætluðum að vera duglegar að hittast á nýju ári og gera eitthvað saman en Guð hafði önnur plön að þessu sinni elsku Svala mín.
Ég trúi því að mamma hafi verið fyrst til að taka á móti þér með spurningunni áttu sígó? en þó að ég gæti haldið endalaust áfram að rifja upp minningar þá læt ég staðar numið hér og kveð þig með kveðjunni okkar, ég veit að þú skilar henni svo áfram til mömmu og ömmu frá mér.
Ég elska þig
Kæra fjölskylda
Synir, tengdadætur og barnabörn, harmur ykkar er mikill og söknuðurinn ólýsanlegur.
Við munum geyma minninguna með okkur, halda áfram að minnast Svölu okkar og segja sögur af henni, þær mega aldrei gleymast.
Ykkar frænka

Þórunn Helga Garðarsdóttir.