Sigríður Berglind Baldursdóttir fæddist í Reykjavík 6. júní 1946. Hún lést á HSN Blönduósi 16. janúar 2024.
Hún var dóttir Ingibjargar Guðrúnar Magnúsdóttur, f. 1924, d. 2009, og Baldurs Árnasonar, f. 1926, d. 2002.
Sigríður Berglind var elst af sínum systkinum. Hin eru: Gísli, f. 1948, Magnús, f. 1949, Helga Helen, f. 1950, d. 1986, Sveinlaug, f. 1950, d. 2008, Ann María, f. 1952, Jarþrúður, f. 1952, Davíð, f. 1954, Þorsteinn, f. 1954, Karl, f. 1957, Baldur, f. 1957, Þorbjörg Heiða, f. 1957, María Anna, f. 1960, d. 2021, Árni, f. 1960, og Dagbjört, f. 1965.
Sigríður Berglind, eða Sigga, ólst upp á barnaheimilum fyrstu ár ævinnar en flutti síðar til móður sinnar. Þar bjó hún ásamt þremur yngstu systkinum sammæðra. Sigga útskrifaðist með gagnfræðapróf úr Hagaskóla. Á níu ára afmælisdaginn sinn fór hún í sumardvöl til hjónanna Helgu Stefánsdóttur og Jóns Þórarinssonar að Hjaltabakka í Húnavatnssýslu. Þau kynni og móttökur urðu henni til mikillar gæfu og leit Sigga alltaf á Hjaltabakkafólkið sem sína bestu fjölskyldu og var það gagnkvæmt. Hjaltabakkahjónin voru henni sem foreldrar og börnum Siggu sem amma og afi. Þar eignaðist Sigga uppeldissystkin, Stefán, Sigríði, Þóru og Hildi, sem alltaf hefur verið mikið samband við. Á Hjaltabakka var Sigga samfleytt í níu sumur og veturinn 1963-1964 var hún í Kvennaskólanum á Blönduósi.
María móðursystir Siggu flutti á Blönduós frá London 1994 og lést árið 2017. Sigga var hennar nánasti aðstandandi og mikill kærleikur þeirra á milli. 1964 fór Sigga einn vetur til Maríu til London að vinna hjá henni á sjúkrahúsi.
Sigga giftist í janúar 1967 Ingva Þór Guðjónssyni, f. 28. febrúar 1939, d. 9. júní 2022. Þau eignuðust fjögur börn. 1) Hörpu, f. 1967, maki Hermann Þór Baldursson. Þeirra börn eru Þuríður, Ingvi Þór og Sigríður Berglind. 2) Helga, f. 1969, maki Margrét Sigurðardóttir. Þeirra börn eru Sunna, Tryggvi og Esjar Himri, barnabarn er Björn Brynjar Björnsson. 3) Þröstur, f. 1971, maki Þorkatla Sigurðardóttir. Þeirra börn eru Arnar Þór, Sigurður Þór og Hildur Ósk. 4) Magnús Valur, f. 1978, maki Ragnheiður Blöndal. Þeirra börn eru Benedikt Þór og Þröstur Már.
Fyrstu árin bjuggu Sigga og Ingvi í Reykjavík. Árið 1973 fluttu þau á Blönduós þar sem þau bjuggu alla tíð. Þar byggðu þau hús að Brekkubyggð 21. Fyrir sex árum fluttu Sigga og Ingvi á „kærleiksheimilið“ Flúðabakka. Seinustu mánuði Siggu bjó hún á Dvalardeild HSN á Blönduósi.
Sigga vann hin ýmsu störf, m.a. hjá Þór hf. í Reykjavík og á sjúkrahúsinu á Blönduósi. Hjá Sýslumanninum á Blönduósi vann hún í kringum 40 ár og hætti þar í lok árs 2013. Blönduós var Siggu mjög kær og fólkið sem þar bjó.
Útför Sigríðar Berglindar fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 3. febrúar 2024, kl. 14.
Ég veit ekki hvar ég á að byrja, eða enda þessa minningargrein sem mig langar að skrifa þér til heiðurs. Ég veit þú last alltaf dánartilkynningar og minningagreinar í Mogganum og því er við hæfi að þínar verði eins vel skrifaðar og hægt er.
Maður er oft minntur á hvað er mikilvægast í lífinu og að lífið er svo sannarlega núna.
Þegar við komum að kveðja þig þá fann ég sterkt hversu ótrúlega samheldna og góða fjölskyldu þið afi mynduðuð og ég veit þið eruð stolt og ánægð með okkur. Ég er þakklát að vera partur af fjölskyldunni sem þið skiljið nú eftir. Kannski einmitt fjölskyldunni sem þið bæði hefðuð óskað ykkur að eiga þegar þið voruð börn og ungmenni.
Amma var og verður límið sem passaði alltaf upp á alla og hvernig allir hefðu það. Hún var ótrúlega dugleg að halda sambandi við fjölskyldu og vini og setti sig svo vel inn í það sem fólk var að gera. Hún vissi allt um alla og ég elskaði að slúðra með henni. Amma var minnug og mundi til dæmis alla afmælisdaga og símanúmer. Amma var líka mjög skipulögð og líkaði best að hafa allt eftir sinni röð og reglu. Ófá skipti gerðum við grín að hún skyldi geyma símann sinn í þvottapoka ofan í tösku og hún fann hann sjaldnast áður en hann hringdi út. Þegar hún var að fara í ferðalag eða bara sund lá við að hún væri að flytja miðað við farangur. Allar gjafir frá hennar voru vel pakkaðar, oft í gömul ísbox, poka og kassa utan um það áður en hún setti yfir allt saman gjafapappír og falleg kort sem hún skrifaði svo mikið á að það sást ekki lengur í autt. Ég man ennþá hvað ég var glöð þegar ég gat loksins lesið skriftina þína og mörg af kortunum mun ég varðveita. Það besta var að hún gat alveg sjálf hlegið og gert grín að þessari ofur reglusemi í sér þó það væri fjarri lagi að hún myndi einfalda reglurnar fyrir sér og hvað þá afa sem þurfti ávallt að spyrja hvar hlutirnir væru.
Hún var einstaklega góð kona og var alltaf til í að aðstoða ef þess þurfti. Amma setti sig sjálfa aldrei í fyrsta sæti og það var oft eins og henni liði best þegar hún vissi að allir í kringum hana höfðu það gott og nutu velgengni, og þar átti hún stóran þátt með sínum ráðum, sinni hjálpsemi og umhyggju. Amma bjó yfir þeim góðu eiginleikum að vera skilningsrík og hún dæmdi ekki. Hún vildi bara öllum það besta.
Heimilið ykkar á Blönduósi var samverustaður og þar á ég margar frábærar minningar. Þegar vegalengdir eru lengri á milli fólks þá verða samverustundirnar oft mjög nánar og vel nýttar. Ég hlakkaði alltaf til að koma á Blönduós til ykkar. Þú stjanaðir við okkur. Það var nýtt á rúmum, nóg á borðum og þá rifja ég sérstaklega upp hvað þú gerðir góðar skonsur, kjöt í karrý og grjónagraut. Afi sá um glensið og var mikið í uppáhaldi þegar maður var krakki. Eftir því sem maður varð eldri áttaði maður sig á og fór að virða allt sem amma gerði. Amma var mikil rútínukona. Máltíðir og kaffi var yfirleitt á svipuðum tíma og svo voru fréttir teknar ýmist í sjónvarpi eða útvarpi. Maður lærði fljótt að það var heilagur tími.
Mér þykir vænt um morgnana sem við áttum saman við eldhúsborðið, af því við vöknuðum báðar alltaf snemma, með Moggann, kaffið, spjallið og þú að reyna að troða í mig morgunmat og þó ég hafi ekki viljað það þá skyldi ég nú allavega byrja daginn á LGG. Í dag gef ég syni mínum oft LGG á morgnana.
Ég minnist þess líka að amma beið alltaf eftir manni ef maður fékk að fara út á kvöldin, gaf manni hressingu og vildi vita hvernig hefði verið, hverjir hefðu verið og hvað hefði gerst.
Maður á svo margar góðar minningar með ömmu. Það var hægt að liggja yfir rómantískri bíómynd með henni og svo þótti mér virkilega gaman að fá hennar álit á allskonar málefnum eins og til dæmis Eurovision, kosningum, veðrinu, íþróttum og fleiru. Já, amma var vel upplýst um allskonar. Hún hugaði líka vel að heilsunni og fór flesta daga í sund og göngutúra. Mér þótti mjög gaman að fá að koma með en ég átti ekki roð í gönguhraðann hennar. Ekki heldur þegar við vorum í Kringlunni eða á ferðalögum. Hún hefði eflaust getað átt einhverskonar met í strunsi. Ég gerði stundum grín að henni að hún gæti nú reynt að færa þennan hraða yfir í sundtökin sem voru ekki eins hröð.
Amma var glæsileg kona og ef hún var að fara eitthvað var hún alltaf svo falleg, fín og vel tilhöfð. Í töskunni sinni átti hún svo alltaf ömmubensín sem voru hálsmolar sem hún deildi út.
Amma og afi voru dugleg að ferðast og veraldarvön. Ár hvert fóru þau í lítinn bæ á Spáni og áttu þar marga vini. Það var dásamlegt þegar við fórum öll fjölskyldan í afmælisferð með þeim þangað. Eins á ég góðar minningar þegar við fórum til London og svo þegar þau komu að heimsækja mig á meðan ég bjó erlendis. Allt sem maður gerði með þeim sýndu þau svo innilegan áhuga. Amma var hinsvegar minna fyrir að fara í einhverjar skoðunarferðir og endaði það yfirleitt með því að hún svaf þær af sér.
Undanfarin ár hefur verið ansi langt á milli okkar. En það breytti því ekki að alltaf vorum við í sambandi og þar átt þú mest allan heiðurinn af og það er eitthvað sem ég mætti taka mér til fyrirmyndar. Þú til dæmis lærðir á Skype þegar ég bjó erlendis til að geta séð allt hjá mér. Og svo var svo ótrúlega skemmtilegt þegar ég hjálpaði þér að opna Facebook og þú fannst fullt af gömlum vinum og kunningjum ásamt því að geta fylgst með öllu hjá öllum eins og þér fannst svo gaman. Ég áttaði mig fyrir nokkru síðan að það sem ég á eflaust eftir að sakna mest eru allar símhringarnar frá þér sem voru einmitt bara til að athuga hvernig ég hefði það, hvernig veðrið væri og hvað hefði drifið á daginn minn. Oftast endaðirðu á að segja við mig: Ekki láta þér verða kalt og haltu þínu striki.
Elsku amma, það var stundum sagt að við værum líkar og ef það er eitthvað til í því þá er ég mjög stolt og glöð með það. Og ég get ennþá lært fullt af þér. Fallegar minningar um góða konu lifa enn og ég lofa að koma þeim áleiðis.
Þetta er orðið ansi langt en það er þér og kortunum þínum vel við hæfi.
Góða ferð og bið að heilsa afa.
Sunna Jónsdóttir.