Jón Karl Karlsson fæddist á Mýri í Bárðardal 11. maí 1937 og ólst þar upp. Hann lést á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki 1. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Karl Jónsson, bóndi á Mýri og verkamaður, og Björg Haraldsdóttir, húsfreyja og verkakona. Systur Jóns eru Sigríður f. 1933, d. 2022, Hildur Svava, f. 1942, og Aðalbjörg, f. 1943.

Eiginkona Jóns var Hólmfríður Friðriksdóttir, f. 3. júlí 1937, d. 2. febrúar 2013. Þau eignuðust þrjú börn; Brynhildi Björgu, f. 1959, maki Sigmundur Ámundason. Þau eiga þrjá syni, sjö barnabörn og eitt barnabarnabarn. Friðrik, f. 1960, maki Inga Dagný Eydal. Þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn. Karl, f. 1969, maki Guðný Jóhannesdóttir. Þau eiga fimm börn og þrjú barnabörn.

Jón lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum 1956. Hann var verkamaður hjá Mjólkursamlagi Skagfirðinga 1958-68, fulltrúi Verðlagsstofnunar á Norðurlandi vestra 1968-73, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs stéttarfélaga í Skagafirði 1970-92 og umboðsmaður Brunabótafélags Íslands á Sauðárkróki 1974-88.

Jón sat í stjórn Verkamannafélagsins Fram (síðar Aldan stéttarfélag) frá 1966 og var formaður þess 1967-2004, formaður Alþýðusambands Norðurlands 1973-75, sat í sambandsstjórn ASÍ frá 1968 sem varamaður og síðan sem aðalmaður frá 1972 og í áratugi. Jón var fulltrúi á öllum þingum ASÍ frá 1968 og þingforseti 1984-2000, sat í framkvæmdastjórn VMSÍ 1981-97, var varaformaður þess frá 1991 og fulltrúi VMSÍ á aðalfundum Nordisk fabriksarb. federation frá 1982 og í ýmsum öðrum norrænum nefndum til 1997.

Jón var bæjarfulltrúi á Sauðárkróki 1974-82, forseti bæjarstjórnar 1974-78 og formaður bæjarráðs 1980-82. Hann sat í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga 1976-82, í stjórn Verkamannabústaða á Sauðárkróki og formaður húsnæðisnefndar.  Einnig starfaði hann ötullega í Alþýðuflokknum á landsvísu, ekta krati af gamla skólanum.

Jón starfaði í Lionsklúbbi Sauðárkróks frá 1967, var formaður hans 1973-74 og 1999-2000, var umdæmisstjóri B-umdæmis Lions-hreyfingarinnar á Íslandi 1984-85, fjölumdæmisstjóri hreyfingarinnar á Íslandi 1985-86. Hann var formaður sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju 1987-93. Jón skrifaði margar greinar í blöð og tímarit um stjórnmál og verkalýðsmál. Hann var kjörinn Melvin Jones-félagi Lions-hreyfingarinnar 1988 og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið  2011 fyrir störf að verkalýðsmálum og réttindabaráttu.

Útför Jóns fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 12. febrúar 2024, kl. 14. Athöfninni verður streymt á FB-síðu Sauðárkrókskirkju.

Elsku pabbi kvaddi 1. febrúar, daginn fyrir andlátsdag mömmu sem lést 2. febrúar 2013. Mögulega hefur hann miðað á þann dag, en þetta var þá ekki í fyrsta skiptið sem hann ruglast á dögum, það getur komið fyrir alla.

Ég kynntist pabba tvisvar á lífsleiðinni. Sem barn og unglingur var hann ekki þannig mikið til staðar, enda út um allt í sínum störfum og félagsmálum, en þar var hann nánast heltekinn af sínum verkefnum og sinnti þeim af krafti og áhuga. Eðlilega er þá ekki mikill tími til að vera til staðar fyrir fjölskylduna, en ég hafði mömmu og hafði hana eiginlega út af fyrir mig lengi og varð þar af leiðandi mikill mömmustrákur.

Pabbi var félagslyndur út á við, en heima við dró hann sig gjarnan í hlé. Verkefni hans tóku sinn toll, en það gerist þegar berjast þarf fyrir högum og lifibrauði fólks og þurfa jafnvel að taka óvinsælar ákvarðanir. Mér hafa borist kveðjur frá fólki sem þakkar pabba sérstaklega fyrir stuðning og umhyggju þegar áföll dundu yfir í þeirra lífi. Pabbi gaf sig allan í slík verkefni og reyndi sem mest hann mátti í gegn um störf sín og félagsmál að styðja þá sem þurftu.

Pabbi hafði gaman af því þegar vinir mínir komu í heimsókn. Hann talaði tæpitungulaust sem vakti lukku og þó að ég jesúsaði mig af og til nutu mínir vinir þess að spjalla við pabba. Einn vinur minn minnist þess þegar hann kom í heimsókn á Hólaveginn hafi pabbi komið fram við alla sem jafningja. Hann hafði gaman af því að setjast niður með okkur í stofunni þegar við vorum að hita upp fyrir skemmtanir, tók virkan þátt í spjallinu og var jafnvel orðinn funheitur sjálfur þegar við héldum á brott.

Ég minnist pabba sem húmorista. Hann var spontant, hvatvís, greip inn í samtöl með allskonar athugasemdum þegar hann fann þeim pláss. Oftast vakti það lukku, en ekki alltaf eins og gengur. Ég minnist þess þegar hann setti tónlist á fóninn og um stofuna ómuðu sinfóníur gömlu meistaranna. Þá var gjarnan hummað með og jafnvel sungið en þegar hann fór að munda sprotann var vissara að leita skjóls. Tónlistarsmekkur minn féll pabba ekki alltaf í geð, honum var tíðrætt um þetta graðhestarokk sem ég væri að hlusta, þetta væri bara hávaði og ófáar ferðirnar kom hann inn í herbergi og bað mig um að lækka. Pabbi studdi okkur félagana þó með ráð og dáð í okkar hljómsveitarstússi og skaut m.a. yfir okkur æfingaskjólshúsi til lengri og skemmri tíma.

Seinna líf okkar pabba varð til þegar við fjölskyldan fluttum frá Ísafirði til Sauðárkróks 2006. Pabbi annaðist þá mömmu sem átti sér búsetu á dvalarheimilinu eftir áfall 2003. Það verkefni tók hann af krafti og einurð, líkt og önnur verkefni í gegn um tíðina. En ég fann þá hvað hann hafði misst mikið. Mamma var hans stoð og stytta og hann missti gríðarlega mikið þegar hún veiktist. Pabbi var óþreytandi að brasa með börnin okkar út um allt, skutlaði þeim hingað og þangað, sat jafnvel fyrir þeim á leið heim úr skóla til að geta pikkað þau upp, alltaf tilbúinn að hjálpa til. Ég rakst á jólabréf frá þeim mömmu síðan 2007 og þar tók hann fram að hann gerði sitt besta til að reyna að létta undir hjá okkur Guðnýju með börnin og kettina. Já ferfætlingarnir nutu líka þjónustu pabba.

Þegar mamma lést árið 2013 hófst nýr kafli í lífi pabba. Hann þurfti þá að finna sér nýjan tilgang því hann þurfti einhvern veginn alltaf að hafa tilgang. Þessi 10 ár sem hann annaðist mömmu mörkuðu spor í sálarlífið og þegar hún kvaddi sat eftir dapur og sorgmæddur einstaklingur. En fyrir áeggjan okkar systkina steig hann upp og tók til í sínu lífi og sýndi gríðarlegan styrk sem við vorum ekkert endilega viss um að hann hefði. Við fluttum í Eyjafjarðarsveit sumarið 2013 og Friðrik bróðir til Akureyrar skömmu síðar og því var pabbi í raun einn eftir á svæðinu. En hann reif sig upp líka árið eftir og kvaddi heimabæ sinn til margra áratuga, leigði sér íbúð á Akureyri og bjó þar allt til loka. Þar hélt hann áfram fyrri iðju, þjónustaði börnin okkar með skutli, veitti þeim húsaskjól þegar þau stunduðu framhaldsskóla á Akureyri og var tíður gestur hér fremra hjá okkur bæði boðinn og óboðinn. Hann lét það ekki eftir sér að bjarga okkur á veitingastaðnum margoft þegar vistir þraut skyndilega, var alltaf reiðubúinn að skjótast í búð og færa okkur nauðsynleg aðföng.

Við eyddum drjúgum tíma saman við áhorf á íþróttir í sjónvarpinu. Arsenal var okkar lið í enska boltanum og þegar við horfðum í sitthvoru lagi voru stöðugar símhringingar á milli. Hann fór einu sinni með Arsenalklúbbnum í ferð á Highbury völlinn, síðasta tímabilið sem Arsenal spilaði þar og hafði gaman af. Körfuboltinn skipaði einnig stóran sess hjá honum, sér í lagi okkar heimalið Tindastóll og það gladdi hann afar mikið að sjá þá vinna Íslandsmeistaratitilinn sl. vor í fyrsta skiptið í sögu félagsins.

Síðustu mánuðirnir voru pabba erfiðir. Hann greindist með hjartabilun sem síðar kom í ljós að ekkert var hægt að gera við. Ég vildi óska þess að ég hefði getað átt meiri gæðastundir með honum síðasta ævikvöldið en stór hluti okkar samveru snérist um baráttu fyrir hann sem einstakling og hluta af því samfélagi sem við viljum byggja og lifa í, sem hann og hans kynslóð bjuggu til fyrir okkur. Umönnunarkerfi eldri borgara sem virkilega þurfa á stuðningi og þjónustu að halda er handónýtt og þó frábært starfsfólkið í því reyni sitt besta, byggist aðstoðin á því hvað kerfið getur gert og ræður við en ekki á því hvað skjólstæðingar þess þurfa.

Pabbi dvaldi síðustu dagana á dvalarheimilinu á Sauðárkróki, þar sem hann þekkti hvern krók og kima og jafnvel starfsfólkið, frá því hann var þar eins og hvert annað húsgagn þegar mamma dvaldi þar. Sú stofnun á skilið miklar þakkir fyrir að taka á móti honum í því ástandi sem hann var og gera honum síðustu dagana eins bærilega og hægt var. Við fjölskyldan eigum Dvalarheimilinu á Sauðárkróki og starfsfólki þess svo mikið að þakka í gegn um tíðina.

Nú ætla ég að gera það sem pabbi þoldi ekki í minningargreinum, ég ætla að ávarpa hann beint: Elsku pabbi, ég þakka þér fyrir að hafa verið til staðar fyrir okkur Guðnýju og börnin okkar, ég þakka fyrir það tækifæri að hafa fengið að kynnast þér að nýju og fengið að eyða dýrmætum tíma með þér sem mun fylgja mér í minningunni alla tíð. Bið að heilsa mömmu, nú getið þið aftur tekið upp rimmurnar um hvar jólaskrautið og sumarblómin eiga að vera, en komið því að lokum fyrir á nákvæmlega sama stað og það hefur alltaf verið á.

Kalli

Karl Jónsson.