Guðrún (Rúna) Valgeirsdóttir fæddist 25. júní 1946. Hún lést 24. janúar 2024. Útför Rúnu var 5. febrúar 2024.

Elsku yndislega Rúna frænka mín.

Mikið sakna ég þín. Þegar ég heyrði að þú værir farin trúði ég því ekki. Mér fannst svo erfitt að ímynda mér lífið án þín og var líklegast alltaf að vona að þú yrðir eilíf. En þannig er lífsins gangur víst ekki og ég er viss um að þú sért komin á yndislegan stað þar sem þér líður vel með ömmu Unni, afa Valgeiri, Víði frænda, Biddu frænku, Gogga og öllum hinum sem hafa kvatt þessa jarðvist.

Elsku frænka, þú varst ein af þessum manneskjum sem eru góðar í gegn falleg að innan sem utan. Þér fannst svo gaman að vera til og varst svo dugleg að njóta lífsins. Þrátt fyrir mikil og erfið veikindi síðustu árin varstu samt svo jákvæð og lífsglöð.

Ég á svo margar fallegar minningar um þig og alltaf er Ásgeir pabbi stór hluti af þeim. Ein minningin er meira að segja svo gömul að margir myndu segja að það væri ekki möguleiki að muna svo langt aftur. Samt man ég eftir því þegar þú varst að passa mig í Fjarðarselinu, að þú komst út í vagn að sækja mig eftir lúr. Ég man eftir andlitinu sem leit inn í vagninn og röddinni sem spjallaði við mig, þótt ótrúlegt sé! Svo var ég minnt á það um daginn að ég hefði alltaf sagst hafa farið með þér í Kópavogsflugvélina og átti sú flugferð að hafa átt sér stað áður en ég fæddist! Trúi því hver sem vill! Tekex með smjöri og osti var mun betra í Fjarðarselinu en á öðrum heimilum og fannst mér alltaf svo gaman að fara í heimsókn til ykkar þótt engir krakkar væru þar á mínum aldri. Mér fannst nefnilega alveg jafnskemmtilegt, ef ekki skemmtilegra, að hlusta á ykkur fullorðna fólkið spjalla saman en að leika við krakka. Svo var toppurinn þegar Sara Klara, labradortíkin okkar, eignaðist hvolpa og þið Ásgeir ákváðuð að fá elsku besta Gogga ykkar. Mikið fór hann ykkur vel. Hundarnir gerðu það að verkum að samverustundirnar urðu enn fleiri og ég man svo vel eftir því hve hændir hundarnir okkar voru að ykkur Ásgeiri, enda ekki skrýtið, hundar eru einstakir mannþekkjarar.

Upp í hugann koma allar yndislegu minningarnar úr Skorradalnum en sem barni fannst mér fátt skemmtilegra en að fara í Skorradalinn í notalega sumarbústaðinn ykkar; spjalla, lita, spila, ganga upp á fjall og fara niður að vatninu að fleyta kerlingar og stundum út á bát. Við systurnar vorum svo heppnar að fá stundum að keyra með ykkur Ásgeiri í Brúnku, húsbílnum ykkar. Ein skemmtileg minning kemur upp í hugann af mér og Berglindi systur syngjandi hástöfum lagið Betri tíð með Stuðmönnum. Þú sagðir að við syngjum svo vel en ég er nú ekki viss um að söngurinn hafi verið eins fagur og þú sagðir. Ég óskaði þess stundum að mamma og pabbi smituðust af sumarbústaða- og húsbílabakteríunni og gengju jafnvel í Húsbílaklúbbinn sem mér fannst mjög töff á þessum tíma en því miður varð raunin ekki sú. Þrátt fyrir það vorum við fjölskyldan dugleg að ferðast með ykkur og staðir eins og Þórsmörk og Þýskaland koma upp í hugann. Mér finnst svo gott að hugsa til þess hve vel þið Ásgeir nutuð lífsins og lifðuð því til fulls.

Það var svo notalegt að spjalla við þig og þú hafðir einlægan áhuga á öllu sem ég hafði að segja. Ég vildi óska að ég hefði heimsótt þig oftar undanfarin ár en við Rán mín vorum svo heppnar að kíkja til ykkar Ásgeirs í Rjúpnasalina þegar hún var nokkurra mánaða og varð heimsóknin mun lengri en planað var. Það var bara svo gaman að spjalla við ykkur um allt milli himins og jarðar og smjatta á vöfflum sem Ásgeir bakaði fyrir okkur. Rán leið svo vel með ykkur og það endaði á því að hún tók lúrinn sinn í rúminu ykkar því við hreinlega tímdum ekki að fara heim! Ætlunin var að heimsækja ykkur aftur sem fyrst en tíminn líður allt of hratt.

Við systur vorum alltaf á leiðinni til þín. Við Sóley og Rán létum loks verða af því núna í janúar en Berglind komst því miður ekki með og þótti það ákaflega leitt en hún hafði nælt sér í flensu. Þú varst svo ánægð að sjá okkur og spennt að heyra fréttir af öllum börnum okkar systra og vildir ólm skoða myndir af þeim. Við spjölluðum um heima og geima og horfðum á handboltaleik í sjónvarpinu með öðru auganu. Sóley smellti dýrmætri mynd af okkur Rán með þér og ég var ákveðin í að heimsækja þig sem fyrst aftur. Svo bárust fréttirnar. Mikið er ég þakklát að hafa fengið tækifæri til að spjalla við þig, knúsa og kyssa.

Elsku Rúna frænka. Þakklæti er mér efst í huga fyrir allar stundirnar okkar saman. Minning þín mun lifa með okkur öllum og það verður svo gott að faðma þig aftur og kyssa þegar minn tími kemur.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til elsku Ásgeirs, barnanna, tengdabarna, barnabarna og barnabarnabarns.

Mér finnst þessi vísa úr Hávamálum segja svo margt og eiga svo vel við þig:

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Ég elska þig.


Þín

Auður Sif.