Guðrún Lára Sigurðardóttir fæddist á Kúfhóli 13. júní 1937. Hún lést 5. febrúar 2024.

Hún var dóttir hjónanna Sigurðar Þorsteinssonar og Guðríðar Ólafsdóttur. Guðrún Lára var ætíð kölluð Stella og það nafn færðist milli systra eftir því sem þær komu í heiminn.

Guðrún var næstyngst níu barna sem þau hjónin eignuðust.

Hinn 19. október 1957 giftist Guðrún Stefáni Jóni Jónssyni, skólastjóra í Austur-Landeyjum.

Þau eignuðust einn son, Hrafnkel, og fósturson, Haldor Gunnar Haldorsen.


Útförin fer fram frá Krosskirkju í dag, 17. febrúar 2024, og hefst klukkan 14.

Minningargrein á www.mbl.is/andlat

Föruneyti hattsins

Við vorum þrjú sem fylgdum Hatt-bera og með mér voru Árni Stefán og Katrín; stefnan var sett á Feneyjar. Það var löng sigling þangað en í svo góðum félagsskap var tíminn býsna fljótur að líða. Þegar til Feneyja kom var fararstjórinn okkar áttavilltur svo við gengum yfir langtum fleiri brýr en ella. Það var svo sem í lagi og gaf tilefni til uppstillinga og myndatöku af hatti og hattbera sem var Stella. Eins glæsilegur og hatturinn var bliknaði hann í samanburði við þann sem bar hann. Þetta var fyrsta og eina skipti Stellu í Feneyjum en hún passaði þar inn í umhverfið eins og hinar stjörnurnar.

Feneyjaferðin var útúrdúr frá Króatíu-ævintýri okkar þriggja með Stellu. Hún vann hug og hjarta hvers þess sem þjónaði okkur til borðs eða í verslun og hún náði skartgripasala bæjarins á alveg sérstakt flug. En það var allt í góðu og allir hlógu hátt og mikið.

Í Króatíu stunduðum við eina eftirlætisiðju fóstru minnar, það er að segja sólböð. Þau voru ekki tekin neinum vettlingatökum enda mikil kunnátta og reynsla hjá minni á því sviði. Eftir kvöldverð sátum við svo oftast á verönd hússins sem við dvöldum í og spiluðum á spil. Þá var kátt á hjalla og stundum brjóstbirta í glasi. Þetta var frábær ferð og gott að eiga þessar minningar.


Upphafið

Ég var á áliðnu sjötta aldursári þegar mamma sendi mig í Kúfhól til Stellu og Stefáns. Báðir foreldrar mínir glímdu við veikindi af ólíkum toga og mamma hefur sjálfsagt talið vissara að forða guttanum austur yfir Heiði og mögulega úr klóm Barnaverndar með Breiðavík í bakhöndinni. Ég var eðlilega vængbrotinn og leiður en Stella gerði lífið bærilegt og Stefán og nýr bróðir, Hrafnkell, tóku mér varlega til að byrja með. Þetta hefur verið mikil innrás á heimilið en ég hefði ekki viljað missa af neinu. Þarna eignaðist ég alveg nýja mömmu, pabba og bróður og annað heimili hefði ég ekki kosið.


Daglegt líf

Fljótlega rjátlaðist leiðinn af mér og við tók daglegt amstur og sífellt nýjar uppgötvanir. Þvílíkur ævintýraheimur sem ég var lentur í. Það var líka nýr skóli, ný skólasystkin og kennarar. Ansi hreint taugatrekkjandi á köflum. Að loknum svona spennandi dögum var gott að koma heim í skjól Stellu. Ég hugsaði vitanlega ekkert út í það hve mikla vinnu Stella innti af hendi, því til viðbótar við að gera öll inniverk eins og að elda, baka, sauma og þrífa þá sá hún um skepnurnar meðan við þrír vorum í skólanum því Stefán fóstri minn var skólastjóri og helsti kennarinn í Austur-Landeyjum.

Til sveita breytist vinnan eftir árstíðum og það leggjast allir á þær árar sem við á. Á sauðburði fór Stella inn í ærnar ef burður gekk illa því hún var með smærri hendur en Stefán. Það þurfti að snúa og toga og koma lambinu heilu út án þess að skaða móðurina. Ég man ekki eftir Stellu á dráttarvél og sennilega hafði hún antipat á þeim en í heyskap sá hún um að dreifin skilaði sér líka í hús og það rakaði enginn eins hratt og Stella. Í baggahirðingu var hún hamhleypa. Á haustin fór hún í yfirgír og gerði slátur, sauð kæfu og rúllupylsu og þau allra bestu hrossabjúgu sem gerð hafa verið. Flatkökurnar hennar voru líka alveg einstakar. Við strákarnir hjálpuðum til eins og við gátum en aðallega reyndum við að flækjast ekki of mikið fyrir. Á aðventu breytti hún svo gamla bænum á hólnum í dálítinn ævintýraheim með hvers kyns skrauti og kóróna þess sköpunarverks var eftirlíking af gamla bænum í vetrarskrúða. Þann Kúfhól hafði hún sjálf smíðað úr bylgjupappa svo bárujárnið virtist alvöru. Efnið er reyndar dálítið forgengilegt svo hún þurfti að smíða bæinn í þrígang og sá síðasti er ennþá til og bíður næstu jóla.

Árum saman var mikill gestagangur á Hólnum. Frá því að sauðburði lauk og fram undir réttarball datt varla úr helgi þar sem gamli bærinn var ekki fullur af gestum úr borginni. Mér fannst þetta æðislega gaman en álagið á Stellu var ógurlegt. Hún var vanalega fyrst á fætur og síðust í koju og gestirnir voru alveg áttavilltir og ringlaðir ef hún var ekki til að stjórna hjörðinni. Á endanum lét hún þó í sér heyra og þá hægðist heldur um.

Þótt gamli bærinn á Kúfhólnum væri hlýr í andlegum skilningi var húsið barn síns tíma og þar var kalt þegar kalt var úti. Í norðanbáli mátti meira að segja Pálína sín lítils. Pálína þessi var gömul kolaeldavél sem hafði verið breytt til að brenna olíu. Hún var hjartað í hitakerfi hússins og dugði oftast vel og á henni bakaði Stella flatkökurnar æðislegu. Draumur Stellu um nýtt hús rættist loks kringum 1980 og það var bylting að öllu leyti og mikið fagnaðarefni.


Fór í bæinn

Fyrir ríflega tveimur áratugum flutti Stella til Reykjavíkur og bjó fyrstu árin í Rauðagerðinu. Þann tíma vann hún við þrif hjá hinum og þessum og hafði úr verkefnum að velja því það spurðist út að það væri ekki slugsað við og vel væri gert. Þegar hún ákvað svo að festa kaup á íbúð varð Hamraborgin fyrir valinu og þar hjálpaði ég henni að mála með dyggri aðstoð Bryndísar Láru. Stella kunni vel við sig í Hamraborginni og festi þar dálitlar rætur þótt taugarnar austur væru afar sterkar. Í Hamraborg er margs konar þjónusta og þar er t.d. kráin Catalina. Þótt það sé kannski alræmd knæpa lét hún fóstra mín það ekki stoppa sig ef hún þurfti að horfa á eins og einn boltaleik. Eftir að við Katrín fluttum í Kópavoginn rölti Stella stundum til okkar í smá sóldýrkun í garðinum og kaffisopa eða kvöldmat og eftir á að hyggja hefðu þau skipti mátt vera miklu fleiri.
Stellu verður sárt saknað en allar minningarnar lifa með mér og hinum sem eftir eru og allar þær minningar eru góðar.

Með ævilöngu þakklæti,

Þinn

Haldor.