Pétur Hannesson fæddist 28. júlí 1978 í Reykjavík. Hann andaðist 8. febrúar 2024.

Foreldrar Péturs eru hjónin Hanna Sigríður Jósafatsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 23.10. 1951 í Neskaupstað, og Hannes Freyr Guðmundsson kennari, f. 16.7. 1951 í Reykjavík.

Pétur var í miðið af sjö systkinum. Hin eru: 1) Ólöf Þóranna Hannesdóttir, f. 27.12. 1972, eiginmaður hennar er Njáll Ingvason, f. 16.4. 1965. Þau eiga samtals fjórar dætur og fimm barnabörn. 2) Guðmundur R. Hannesson, f. 16.3. 1974. Hann á fjögur börn með fyrrverandi eiginkonu og eina fósturdóttur. Kona hans er Þorbjörg Kristjánsdóttir, hún á tvö börn. 3) Sigurbjörg G. Hannesdóttir, f. 10.9. 1976, sambýlismaður hennar er Sigurður Villi Stefánsson, f. 23.1. 1972, þau eignuðust fjögur börn, eitt andaðist barn að aldri. 4) Þórey Hannesdóttir, f. 24.11. 1979, hún á eitt barn. Sambýlismaður hennar er Hrannar Már Ásgeirs Sigrúnarson, f. 2.12. 1975, hann eignaðist fjögur börn, eitt andaðist barn að aldri. 5) Sigríður Ósk Hannesdóttir, f. 20.11. 1987, hún á tvö börn. 6) Sunneva Ósk Hannesdóttir, f. 20.11. 1987.

Barnsmóðir Péturs er Brynja Árnadóttir, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Snædís Lilja, f. 17.3. 2005, og Hannes, f. 29.11. 2007. Börnin voru líf hans og yndi.

Pétur ólst upp í Seljahverfi og gekk í Seljaskóla. Hann lauk ekki framhaldsskóla en var sjálfmenntaður í tölvufræðum, vann lengi hjá Tæknivali og stofnaði síðan eigið fyrirtæki, Tölvutækni, sem hann rak til dauðadags. Áhugamál Péturs voru fótbolti og skíði. Hann var efni í íþróttamann, búinn miklu andlegu og líkamlegu atgervi en snemma tóku tölvur og tölvumál hug hans allan.

Á meðan Pétur bjó með barnsmóður sinni hafði hann unun af að vera með fjölskyldunni erlendis og njóta. Hann var barngóður með eindæmum. Þá var hann mjög elskur að systkinum sínum og einkum og sér í lagi yngstu systrum sínum, tvíburunum, og leit kannski á sig sem sérstakan verndara þeirra.

Útför Péturs fer fram frá Lindakirkju í dag, 26. febrúar 2024, kl. 15.

Streymt verður frá athöfninni:

https://mbl.is/go/u7x82

Elsku pabbi.

Mér þykir svo leitt að þetta endaði svona.

Ég mun alltaf muna eftir þér og sakna þín. Það var svo gaman að vera með þér, þú varst alltaf svo góður við mig og duglegur að kenna mér hluti.

Ég man svo vel til dæmis þegar ég var fimm ára og þú kenndir mér að hjóla með því að hlaupa með mér við hliðina á hjólinu og halda í peysuna mína á bakinu og svo slepptir þú takinu og ég var þá að hjóla bara sjálfur. Þegar ég fattaði að þú varst búinn að sleppa þá lét ég mig detta því ég hélt ég gæti ekki hjólað en þú vissir að ég gæti það alveg en bara þyrði því ekki sjálfur. En nú varst þú búinn að kenna mér að hjóla og sannfæra mig um að ég gæti það alveg.

Svona gerðir þú oft. Þú vissir að ég gæti eitthvað sem ég vissi ekki og trúði ekki sjálfur að ég gæti en þú ýttir á mig og vissir hvað ég gat.

Takk fyrir allt elsku pabbi ég mun aldrei gleyma þér.

Þinn sonur,

Hannes Pétursson.

Elsku hjartans drengurinn okkar er skyndilega og óvænt horfinn á braut aðeins 45 ára. Hann Pési okkar sem hefði átt að fylgja okkur síðasta ævispölinn. Þetta er óbærilegt okkur öllum og þó einkum og sér í lagi börnunum hans sem sem hann unni svo heitt, henni Snædísi og honum Hannesi.

Pési fæddist á Fæðingarheimilinu á Barónsstíg. Glögg og kærleiksrík ljósmóðir sem var að mæta á vakt eftir frí veitti athygli gulueinkennum hjá drengnum og kom honum í bráðameðferð þegar í stað. Fyrir Guðs mildi tókst honum sjálfum að vinna kröftuglega bug á gulunni en í sannleika og í raun á ögurstundu með blóðskipti framundan á næstu augnablikum. Þar var heitum bænum foreldra svarað með tæru kraftaverki.

Pési var einstaklega ljúft og hresst barn. Þessi yndislegi pjakkur sat ekki og beið eftir lífinu heldur leitaði það uppi hvar og hvenær sem færi gafst. Það var því eins gott að líta sem minnst af honum. Tveggja ára gamall vatt hann sér upp í háa gluggakistu sem ekki átti að vera á færi neins tveggja ára, krækti upp lokaðum glugga, laumaði sér út (sem betur fer á jarðhæð) og kom svo á spretti framhjá eldhúsglugganum þar sem við komum auga á hann á leið út á götu.

Þessum skarpgreinda og áhugasama unga manni voru í raun allir vegir færir og gott líkamlegt atgervi fékk hann í vöggugjöf. Við pabba sinn, kennarann, sagði hann eitt sinn þegar skólalærdómur var ræddur: „Pabbi, það eiga ekki allir gott með að læra.“ ADHD var ekki rætt á þeim tíma en hann var þess sjálfur fullviss síðar að sú skilgreining ætti við sig og skýrði margt.

Upp úr tvítugu leitaði hann til læknis vegna viðvarandi vanlíðanar og kvíða. Honum var gefið kvíðastillandi og mjög hættulegt lyf sem auk þess var mjög alvarlega ávanabindandi (Rivotril). Með þessu lyfi tókst honum að lifa og starfa í vel tvo áratugi og afreka mikið en án lyfsins gat hann ekki verið, það er eðli þess. Hann rak tölvuvöruverslun í mikilli samkeppni, keypti eigið húsnæði og fjárfesti í rúmgóðu verslunarhúsnæði og hafði gott vald á öllu.

Lengst af stóð hann uppi keikur og gat neytt lyfsins og fengið sér í glas með því. En nú fór lyfið að taka sinn toll og Pésinn okkar fór að leita sér lækninga við veikindunum og fíkninni sem það framkallaði. Læknar sem hefðu átt að hjálpa honum neituðu honum um áframhaldandi lyfjagjöf og kölluðu hann fíkil og skelltu beinlínis á nefið á honum. Þá var hann neyddur til að kaupa sér lyf á svörtum markaði til að halda sér gangandi. Kerfið sem bjó til fíkilinn henti honum út á tún þegar hann var kominn í ógöngur. Hann leitaði t.d. margsinnis til geðdeildar og máttum við foreldrar hans horfa upp á kulda og hroka starfsfólks sem vísaði honum miskunnarlaust og ítrekað frá, fárveikum án nokkurrar lausnar.

Pésinn okkar var tíður gestur á heimili okkar síðustu árin. Stundum dvaldi hann yfir nótt eða um stundarsakir en eftir að hann fékk sér íbúð á leigu í Álalind var hann mest þar. Kom þó oft og einatt og snæddi með okkur og stundum á hverju kvöldi. Hann var fyrst og fremst að reyna að byggja sig upp og ná fyrri styrk og virtist kominn á gott ról. Honum tókst á stundum að hrinda frá sér allri lyfja- og áfengisnotkun en varð aftur og aftur að lúta í lægra haldi. Hann leitaði einatt ráða hjá móður sinni og milli þeirra ríkti sérstaklega fallegt trúnaðarsamband og vinátta. Nýlega var viðtal við fullorðinn lækni sem af miklu hugrekki hafði ávísað fíklum lyfjum til að hjálpa þeim að komast af. Sjálfsagt höfðu einhverjir misnotað aðstoð hans en væntanlega flestir nýtt sér hjálpsemi læknisins til góðs. Þeir læknar sem leitað var til vegna Pésa brugðust án undantekningar. Sennilega er bara til einn hugrakkur læknir á öllu landinu en nú er landlæknir búinn að slá vopnin úr höndum hans. En Guð blessi hann fyrir staðfestuna, viðleitnina, fórnfýsina og hugrekkið.

Einstakur og elskaður ungur maður hefur verið tekinn frá fjölskyldu sinni. Ekkert kemur í staðinn en frá okkur fer hann elskaður, virtur og umkringdur þeirri elsku sem hann ávann sér með því að vera hjartahreinn og drengur góður. Guð geymi og taki í faðm sinn yndislega Pésann okkar. Í Jesú nafni.

Mamma og pabbi.

Elsku yndislegi Pétur bróðir okkar, mikið er erfitt að þurfa að kveðja þig svona snemma. Þú varst góður vinur minn og okkar og við elskum þig. Við eigum börn á svipuðum aldri og við höfum brallað ýmislegt saman. Ég sakna þess að fá ekki fleiri stundir með þér og geta spjallað við þig um daginn og veginn. En á sama tíma á ég dýrmætar minningar og skemmtilegar samverustundir með þér og fjölskyldu þinni. Þú varst með einstakan húmor, með þægilega og góða nærveru og það var líf og fjör í kringum þig. Við áttum margar góðar stundir saman og ég minnist skemmtilegra spila- og pitsukvölda, Eurovision-hittinga og við ferðuðumst innan- og utanlands saman. Ofboðslega góðar minningar sem ég mun ég mun varðveita vel í hjarta mínu. Við skírðum yngsta drenginn okkar í höfuðið á þér fyrir tæp 11 árum þar sem þú og Brynja barnsmóðir þín voruð skírnarvottar og við erum einstaklega stolt að eiga einn Pétur sem var skírður í höfuðið á frænda sínum. Þú átt tvö yndisleg börn sem við munum passa vel upp á, knúsa og vera þeim ávallt innan handar. Við fjölskyldan eigum eftir að sakna þín mikið, hvíldu í friði, fallegi og yndislegi Pétur okkar allra, við elskum þig.

Skýin virðast sár,

Af himnum falla tár,

þar til storminn hefur lægt.

(Sævar Sigurgeirsson)

Það bera sig allir vel

þótt úti sé stormur og él,

allt í góðu inni hjá mér,

lífið gott sem betur fer.

(Helgi Björnsson)

Þín systir

Sigurbjörg (Systa),

Sigurður Villi, Sóley Líf, Þórarinn, Stefán Freyr

og Pétur Logi.

Elsku yndislegi pabbi minn.

Mikið er það sárt og ósanngjarnt að þurfa að kveðja þig svona snemma. Ég sakna þín svo ótrúlega mikið og vona að þú sért kominn á góðan stað.
Minningarnar sem ég á eru mér afar dýrmætar og mun ég halda fast í þær. Þú varst svo ótrúlega góður pabbi sem vildir okkur börnum þínum svo vel og kenndir okkur afskaplega margt á okkar æskuárum sem hefur nýst okkur vel.

Þar má nefna sem dæmi öll samtölin sem við áttum um hagfræði tengd efni. Þú hafðir nefnilega mikinn áhuga á því að pæla og spekúlera í hagfræði og fannst því tilvalið að reyna að kenna mér sem mest á til dæmis íbúðarkaup, sparnað, lán og fleira sem þú vissir að væri gott að vita. Þetta hefur nýst mér vel hingað til og mun halda áfram að gera. Þetta jók mikið áhuga minn á hagfræði og er ég einmitt á hagfræðilínu á viðskiptabraut við Verzlunarskóla Íslands og finnst mér þú eiga nokkuð mikinn þátt í því vali.

Við ferðuðumst mikið til útlanda þegar við vorum krakkar og á ég margar góðar minningar úr þeim ferðum. Mér er efst í huga hvað þú varst orkumikill og til í að leika við mig stundum í sundlauginni. Ég fékk þig til að henda mér hátt upp í loft og tók ég stundum heljarstökk og lenti síðan ofan í lauginni. Þetta þótti mér svo ótrúlega skemmtilegt. Einnig tókum við þátt í ýmsum leikjum í sundlauginni sem voru á dagskrá og varst þú alltaf með mikið keppnisskap og þótti mér það dálítið fyndið og skemmtilegt að horfa á þig þar.

Við áttum það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á bílum. Þú vildir alltaf keyra um á flottum bílum og þér þótti skemmtilegt að skoða bíla á netinu og á bílasölum. Ég var alltaf að spila bílaleiki og beið í mörg ár eftir bílprófinu. Þú hvattir mig mikið áfram í bílaáhuganum, til dæmis með því að rúnta um með mér á bílasölum og skoða flotta bíla, keyptir fyrir mig leikjastýri og pedala sem gerði mér kleift að finna fyrir því hvernig er að keyra bíl og keyptir síðan
fyrir mig flottan bíl þegar ég fékk loksins langþráða bílprófið.

Ég á svo margar minningar um okkur saman og mun minning þín alltaf lifa sterk í hjarta mínu. Þín er sárt saknað elsku pabbi minn og ég elska þig óendanlega mikið.

Hvíldu í friði fallegi pabbi minn.

Þín dóttir,

Snædís Lilja Pétursdóttir.

Elsku yndislegasti, fallegasti, besti stóri brósi.

Ég trúi því ekki enn að þú sért farinn, en byrðin sem þú barst á herðum þér vó þyngra með hverju árinu, róðurinn varð þyngri og þyngri og ég horfði hjálparlaus á, þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð að taka allan þungann fyrir þig. En við ætlum ekki að tala um það, því nú er byrðin á brott og þú ert búinn að finna friðinn.

Pési minn hefði ekki viljað sjá okkur eins sorgbitin og við erum nú, þannig að ég bít á jaxlinn, hlæ í gegnum tárin, að prakkarastrikunum þínum og þínum einstaka húmor, að yndislega fáránlega fyndnu hlutunum sem þú gerðir. Enginn gat fengið okkur til að hlæja eins og þú elsku besti Pésinn okkar í öllum heiminum. Ég sakna svo þessa einstaka systkinasambands sem við áttum. Þegar þú varst enn við heilsu fórum við til útlanda saman og út að borða eða út að skokka, þú hringdir þegar þú fékkst skemmtilega flugu í hausinn eða þegar þú vildir bara tala, sama hvort það var nótt eða dagur. Við gátum oft verið algjörir vitleysingar saman og ekkert annað skipti máli á meðan. Eins og það er óendanlega erfitt að komast yfir þetta, þá minnist ég þín með skellihlæjandi börnin þín eða frændsystkinin þín í fanginu, ég minnist þín að heilla alla upp úr skónum með sjarmanum þínum, brosinu þínu og hlýjunni, minnist þín hoppandi um á stafninum á bátnum hans Njalla sem var á svoleiðis fullri ferð og ég gleymi því aldrei þegar við vorum kyssandi pálmatré á Tenerife og brosandi framan í heiminn. Ef ég sagði þér það ekki nógu skýrt á síðustu mánuðum hvað ég elska þig mikið, þá vil ég segja þér að ég elska þig út fyrir endamörk alheimsins og til baka, við höfum alltaf staðið við bakið hvort á öðru sama hvað og þessi systkinabönd munu seint dvína, ef nokkurn tímann, elsku einstaki ótrúlega mikið elskaði stóri bróðir.

Ég fer í glimmerbuxurnar þegar ég kveð þig í hinsta sinn, því þrátt fyrir að hjartað mitt sé í molum, þá þarf ég að heiðra þína einstöku lífsgleði og heimssýn.

Þín litla systir,

Sunneva Ósk (Sunna).

Elsku Pési minn, það er svo óraunverulegt og ósanngjarnt að þurfa að kveðja þig og sætta sig við að þetta sé virkilega raunin og við munum ekki fá að sjá þig aftur. Mikið munum við sakna þín elsku Pési okkar. Þú munt alltaf eiga risastóran stað í hjörtum okkar og við munum aldrei gleyma þér.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa um öll árin okkar saman. Við kynntumst svo ung, ég var 18 ára og þú 21 árs. Mér fannst ég eiga sætasta kærastann í öllum heiminum. Við vorum ung og ástfangin í blóma lífsins og fengum að dafna og þroskast saman í 17 ár en þá skildi leiðir okkar, en væntumþykjan og kærleikurinn fór ekki neitt þótt við höfum ekki alltaf verið sammála um allt og haft ólíka sýn á ýmsum málum.

Við upplifðum og gerðum svo margt í okkar sambúð. Fyrstu árin okkar saman bjuggum við í bílskúr hjá foreldrum þínum og svo bjuggum við í kjallaranum hjá foreldrum mínum í einhvern tíma en svo þegar við vorum búin að vera saman í fjögur ár og fyrsta barnið okkar hún Snædís Lilja var á leiðinni í heiminn þá keyptum við okkur fyrstu íbúðina okkar saman.

Á svipuðum tíma stofnaðir þú líka fyrirtækið þitt. Þú varst alveg óstöðvandi, 26 ára, svo klár og sniðugur og hafðir svo mikinn metnað og kjark til að slá bara til og fara út í sjálfstæðan rekstur.

Fyrirtækið fór rólega af stað. Þú byrjaðir heima, fórst svo að leigja eitt herbergi úti í bæ þegar það fór að vera meiri straumur af fólki heim til okkar að sækja vörur til þín og svo tókstu stökkið þegar þú sást laust húsnæði hinum megin við götuna, tókst það alveg í gegn og settir upp alvöru verslun og verkstæði þar. Þetta húsnæði var einnig frekar fljótt að sprengja utan af sér og þá keyptir þú helmingi stærra húsnæði þar sem það hefur verið síðan.

Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast annað barn árið 2007 þegar yndislegi Hannes kom inn í líf okkar og litla sæta fjölskyldan okkar var nú fullkomnuð. Þetta ár fluttum við einnig í fjölskylduvænt raðhús, innst í botnlanga því börnin þín áttu ekki að þurfa að fara yfir neina götu til að komast í skólann. Þú passaðir svo mikið upp á öryggi krakkanna og vildir til dæmis líka alltaf að þau væru í bílstólum áfram þótt þau væru komin með aldur til að mega hætta að nota stóla, við mikinn fögnuð þeirra eða þannig. Svo vildir þú líka, til að vera aðeins öruggari í umferðinni með þau, vera á jeppa, það átti bara ekkert að koma fyrir þau á þinni vakt.

Elsku fallegi og góði Pési, við munum sakna þin svo mikið.

Ég veit að þú vakir yfir gullunum þínum og þú munt alltaf eiga risastóran stað í hjörtum okkar allra.

Takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér Pési minn og fyrir fallegu fjölskylduna sem við sköpuðum saman.

Þín barnsmóðir,

Brynja Árnadóttir.

Verndarengillinn minn.

Pési minn hlýi, fallega brosið þitt mun vonandi aldrei hverfa úr minni mínu. Ég sé það þegar ég loka augunum og ég sé það í fólkinu okkar. Ég vona að þú vitir hvað við söknum þín og hvað eftirsjáin er mikil að ég sagði þér ekki hversu mikið ég og strákarnir mínir elskuðum þig. Ég hef hugsað um það á hverjum degi síðan ég vissi að þú værir farinn að ég hef örugglega ekki sagt þér hvað þú værir mikilvægur fyrir mér. Það var nefnilega svo mikilvægt að heyra að þú værir verndarengillinn minn og til taks þegar ég þurfti mest á því að halda, þegar enginn annar þorði. Þú barst mig um í örmum þínum sem barn, barst strákana mína þegar ég gat það ekki sjálf og ég veit að þú munt alltaf fylgjast með okkur, okkar eigin persónulegi Lykla-Pétur. Ég á rosalega erfitt með að eiga aldrei aftur eftir að heyra strákana segja „bæ, Pési“ á sinn einlæga hátt eins og ekkert væri sjálfsagðara, eins og þeir gætu sagt bæ við þig að eilífu. Bæ, Pési minn. Bæ, Pési okkar allra.

Þín

Bryndís

(Brynka skinka)

Okkur langar til að minnast góðs drengs, sem borinn er til grafar í dag, langt um aldur fram. Við kynntumst Pétri þegar hann og Brynja dóttir okkar hófu samband sitt fyrir rúmum 20 árum. Hann var myndarlegur, einstaklega vel gefinn og duglegur.

Pétur vann við tölvuviðgerðir og byrjaði snemma að panta tölvur og tölvuhluti. Hann hætti í tölvuviðgerðavinnunni og stofnaði eigið fyrirtæki, Tölvutækni. Það rak hann með myndarbrag og var með alla þræði í sínum höndum. Hann tók tölvur í viðgerð, fann út hvað var bilað, pantaði þá hluti sem vantaði og gerði við. Fljótlega sérhæfði hann sig í að kaupa vélarhluti og setja saman tölvur. Þetta voru oft öflugar leikjatölvur sem hann pantaði í pörtum og setti saman í sérhannaða vél fyrir hvern og einn notanda.

Fljótlega byrjuðu þau Brynja sambúð og þeim fæddist yndisleg dóttir, Snædís Lilja, ömmu- og afastelpan okkar. Tveimur árum seinna bættist svo dásamlegi ömmu- og afastrákurinn okkar Hannes í fjölskylduna. Þau fluttu í Norðlingaholt sem þá var að byggjast og bjuggu þar alla tíð. Þar kom að leiðir Péturs og Brynju skildi en hann gaf okkur þessi dásamlegu barnabörn og erum við óhemju þakklát fyrir þá dýrmætu gjöf. Pétur var einstaklega hlýr og góður drengur og aldrei bar skugga á samskipti okkar við hann. Hann var hjálpsamur og alltaf var hægt að leita til hans um aðstoð og góð ráð í sambandi við tækni og tölvur. Við kveðjum þig nú allt of snemma en minning þín lifir eilíflega í huga okkar.

Hafðu þökk fyrir allt kæri vinur.

Steingerður og Árni.