Magnús Loftsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Listaháskóla Íslands og Hvíta hússins, fæddist í Vestmannaeyjum 12. janúar 1957. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 13. febrúar 2024.


Magnús ólst upp í Vestmannaeyjum til 13 ára aldurs er hann flutti með foreldrum sínum og systkinum í Kópavog. Hann var sonur hjónanna Aðalheiðar Steinu Scheving hjúkrunarfræðings frá Vestmannaeyjum og Lofts Magnússonar verslunarmanns frá Ísafirði. Systkini hans eru Guðjón Scheving Tryggvason, f. 1951, Jón Loftsson, f. 1954 (lést 2023), Hreinn Loftsson, f. 1956, og Ásdís Loftsdóttir, f. 1958.


Magnús lauk landsprófi frá Vogaskóla 1973 og varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1977. Hann lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1981 og starfaði um skeið sem kennari við grunnskóla Vestmannaeyja. Hann var við nám í Academy of Art College og University of San Francisco frá 1983 og lauk BA-prófi þaðan 1987. Í kjölfarið stundaði hann framhaldsnám við San Francisco State University og var þar jafnframt aðstoðarkennari í grafískri vinnslu. Magnús útskrifaðist með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík 2008.


Magnús var framkvæmdastjóri Hvíta hússins 2005-2012 og framkvæmdastjóri Listaháskóla Íslands 2012-2020. Hann starfaði árum saman sem grafískur hönnuður og ráðgjafi í stefnumótun og var um skeið framkvæmdastjóri Stúdentaleikhúss Háskóla Íslands.


Eftirlifandi eiginmaður Magnúsar er Gunnar Ásgeirsson hárgreiðslumeistari. Foreldrar hans voru Ásgeir Pétursson flugstjóri og Þórey Ósk Ingvarsdóttir hjúkrunarfræðingur.


Útför Magnúsar fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 26. febrúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

...
Það er svo sárt að sakna
en það er svo gott að gráta.

Tárin eru dýrmætar daggir,
perlur úr lind minninganna.
Minninga sem tjá kærleika og ást,
væntumþykju og þakklæti
fyrir liðna tíma.
Minninga sem þú einn átt
og enginn getur afmáð
eða frá þér tekið.
Tárin mýkja og tárin styrkja.
Í þeim speglast fegurð minninganna.
...
(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þau eru mörg tárin sem hafa fallið þessa dagana hér í Skien og þau eiga eflaust eftir að verða fleiri þegar minningar um elsku vin minn koma upp í hugann. Ég veit þó að með tímanum munu tárin fá félagsskap af brosi og jafnvel hlátri, því vissulega á ég ótal margar yndislegar og skemmtilegar minningar um tíð okkar Magga saman; vináttu sem spannar fimmtíu ár.

Við kynntumst á heimavistinni við MA haustið 1973 og vorum þar í góðum og stórum vinahópi, sem þótti gaman að vera bara saman, fíflast og stríða hvert öðru, hlusta á píanóleik í setustofunni, borða kókosbollur og smákökur að heiman eða fara saman í Sjallann um helgar. Við Maggi æfðum stundum danssporin fyrirfram og seinna meir áttum við eftir að dansa mikið saman, hvort heldur á skemmtistöðum í Reykjavík, Vestmannaeyjum eða í San Francisco.

Árin sem við vorum saman í Kennaraháskólanum eru mér ógleymanleg, sérstaklega kóræfingarnar. Það var alltaf stutt í tilsvör frá tenórnum Magnúsi og það var oftar en ekki erfitt að syngja eftir allt flissið og hláturinn. Maggi var mjög vinsæll meðal samnemenda og fólk laðaðist að honum hvar sem hann fór. Hann var líka mjög vinsæll meðal nemenda sinna í Vestmannaeyjum þegar við kenndum þar saman og ég veit að bæði nemendur og foreldrar söknuðu hans mikið þegar hann hætti.

Maggi var listrænn, hvatvís, fyndinn og fallegur. Hann gat á tíðum verið svolítið eigingjarn, en einnig mjög rausnarlegur. Hann var iðulega hrókur alls fagnaðar, en gat líka verið hógvær og óákveðinn jafnvel feiminn, sem kom ósjaldan í ljós þegar við vorum að ferðast saman í Frakklandi og svo seinna, þegar hann bjó hjá mér í Sacramento. Þá vildi hann oftar en ekki, að ég skyldi ákveða hvað við ættum að gera, hvert við ættum að fara eða hvort hann ætti nú að kaupa þessa flíkina eða hina. Og spurningin um hvort fötin hans pössuðu saman kom í hvert sinn við vorum að fara út. En það var kannski litblindan sem sagði til sín þá. Þetta var tími með miklum sjálfsrannsóknum og spurningum og þau voru ansi mörg samtölin sem við áttum saman, sérstaklega eftir að hann flutti til San Francisco. Er ég ævinlega þakklát fyrir það traust sem hann bar til mín þá og alla tíð síðan.

Maggi og Gyða eru nöfn sem eiga samleið í mínum huga. Og það átti einnig við hjá mínum nánustu. Eftir að ég flutti til Noregs og var einungis í stuttum heimsóknum á Íslandi, spurði mamma alltaf hvort ég ætlaði ekki að hitta Magga og Gyðu. Nöfnin þeirra voru ætíð sögð saman. Og auðvitað hittumst við öll þrjú eins oft og við gátum þegar ég kom til landsins. Við náðum saman í Laugarásnum en hádegisverður á Kaffi Loka varð okkar stund og staður. Þrátt fyrir stutta samveru í hvert sinn, tókst okkur að uppfæra hvert annað um það helsta í lífi okkar síðan síðast, ásamt því að fara yfir helstu dægurmálin. Oftar en ekki, þegar þessi ljúfustu vinir mínir sátu þarna með mér, var mér hugsað til árana þegar við Gyða leigðum saman á Melhaganum og Maggi og Hörður Óskars voru fastir gestir hjá okkur. Ég man ekki svo glöggt hvað við ræddum þarna í kjallaranum, heldur man ég stemminguna og tilfinninguna sem eftir situr: Ekta vinátta og kærleikur. Ótrúlegt að báðir strákarnir okkar séu nú farnir.

Ein minning sem ég á um Magga og sú sem ég hef hve oftast minnst á við aðra vini, er þegar við héldum til Frakklands saman og heimsóttum vinafólk mitt, áður en við tókum stefnuna á Nice. Þetta var um mitt sumar og mjög heitt í veðri. Á meðan ég naut þess að ræða við vini mína, sitjandi á veröndinni eða við sundlaugina með vínglas í hendi, spurði Maggi hvort hann gæti ekki gert eitthvað í garðinum þar sem hann talaði ekki frönsku. Frúin í húsinu var ekki sein með að finna verkefni og það varð til að þessi myndarlegi íslenski gestur fór að grafa og setja upp girðingu fyrir hænsnin sem fjölskyldan hafði einmitt fengið. Verkið tók minnst þrjá daga og í 40 stiga hita vann minn maður aleinn og sveittur í sólinni, með blöðrur í lófum og kláraði auðvitað verkið með stæl, á meðan vinkonan sat hin rólegasta undir sólhlíf, spjallaði við gestgjafana og sötraði vín. Ég efast um að Maggi, þessi elska, hafi sagt fólki frá þessum dögum jafn oft og ég hef gert.

Ég og dóttir mín fluttum til Noregs rétt þegar Gunnar kom inn í líf Magga og missti ég því að mestu að sjá þeirra líf saman. En Maggi talaði alltaf svo fallega um manninn sinn og var svo stoltur af honum. Og alveg síðan Maggi veiktist, hef ég fylgst af aðdáun hvernig Gunnar hefur sinnt ástinni sinni með umhyggju, nærgætni og kærleik. Votta ég honum, Ásdísi og bræðrunum og öllum öðrum aðstandendum og ástvinum, mína innilegustu samúð. Megi allir góðir vættir styrkja og styðja þau í sorginni.

Djúp og varanleg vinátta
er dýrmætari
en veraldlegar viðurkenningar,
og allt heimsins gull og silfur.
Henni þarf ekki endilega alltaf
að fylgja svo mörg orð
heldur gagnkvæmt traust
og raunveruleg umhyggja.
Kærleikur,
sem ekki yfirgefur.
(Sigurbjörn Þorkelsson)

Ég ann þér hvíldarinnar elsku vinur, sakna þín ómælt og minnist þín með ást og hlýju.

Margrét Þóra Jónsdóttir.