Ásta Guðríður Guðmundsdóttir fæddist í Aarhus í Danmörku 20. nóvember 1972. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 29. febrúar 2024.
Foreldrar hennar eru hjónin Guðmundur M. Jóhannesson, f. 9. maí 1942, d. 5. júní 2006, og Svala Karlsdóttir, f. 29. júlí 1944. Systkini Ástu eru Jóhanna Andrea Guðmundsdóttir, f. 27. apríl 1965, maki Hjalti Jónsson, f. 24. júní 1964, og Guðmundur Karl Guðmundsson, f. 19. september 1976, maki María Guðjónsdóttir, f. 8. mars 1976.
Ásta hóf sambúð með Jóni Inga Dardi, f. 25. nóvember 1968. Þau slitu samvistum. Dóttir Ástu og Jóns er Steinunn Sif Jónsdóttir, f. 26. júlí 1989, maki Hjörleifur G. Bergmann, f. 25. desember 1993. Börn þeirra eru Viktoría Sif Bergmann, f. 21. mars 2018, og Dagur Ingi Bergmann, f. 18. júlí 2021.
Ásta hóf sambúð með Magnúsi Ver Magnússyni, f. 23. apríl 1963. Þau slitu samvistum. Dóttir Ástu og Magnúsar er Vera Mist Magnúsdóttir, f. 5. desember 2002.
Ásta hóf sambúð með Ágústi Val Guðmundssyni árið 2020 og stóð sambúð þeirra yfir allt til hinsta dags.
Ásta eyddi fyrstu árunum í Aarhus í Danmörku þar sem faðir hennar stundaði sérfræðinám í læknisfræði. Að námi loknu fluttist fjölskyldan heim til Íslands og kom sér upp heimili í Hjallaseli í Reykjavík. Ásta gekk í Seljaskóla og eignaðist þar vinkonur og vini sem fylgdu henni allt til síðasta dags.
Ásta hóf ung störf á Læknasetrinu og síðar Rannsóknastofunni í Mjódd, þar sem faðir hennar var einn stofnenda og eigenda. Samhliða námi og að útskrift lokinni tók hún að sér hin ýmsu störf. Ásta var stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og lauk hönnunarnámi frá Tækniskólanum í Hafnarfirði árið 2015. Ásta hóf síðar nám við sjúkraliðabraut Fjölbrautarskólans í Breiðholti en sökum veikinda náði hún ekki að ljúka því námi.
Fyrir tæpum fjórum árum greindist Ásta með illvígan sjúkdóm sem hún barðist hetjulega við allt þar til yfir lauk.
Útför Ástu fer fram frá Háteigskirkju í dag, 15. mars 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.
Hætta skal leik þá hæst hann stendur." Þetta gamla orðatiltæki er það fyrsta sem kemur í huga minn á þessari stundu. Þessi orð vilja reyna að segja okkur að skynsamlegt sé frá að hverfa þegar vel gengur. Að hætta á toppnum. Þú varst á toppnum elsku systir. Þú yfirgefur sviðið sem hetja.
Það er óraunverulegt að þurfa að setjast niður og rifja upp tíma okkar saman. Minningarnar eru fallegar. Tíminn var samt alltof stuttur. Fyrstu minningarnar koma frá Hjallaselinu þar sem við eyddum okkar bernskuárum. Ég myndi ekki endilega segja að samband okkar hafi verið að toppa á þeim tíma enda eðlileg barátta systkina um athygli. Þín skýring var reyndar sú að miðjubarnið fengi alltaf stysta stráið og það yngsta allt upp í hendurnar. Mín skýring hins vegar sú að þú værir kannski smá villingur. Þú varðst fljótt fullorðin. Rétt eftir grunnskóla varstu orðin mamma. Ekki hin hefðbundna tenging frá því að vera barn að ráðast strax í móðurhlutverkið. Þú varst ekkert fyrir meðalhófið heldur. Ég gaf mér aðeins lengri tíma í að fullorðnast og loksins þegar mér fannst skynsamlegt að hefja barneignir var ég svo heppinn að vera samferða þér. Með 3 daga millibili fæddust Íris María og Vera Mist. Sameiginleg afmæli hjá þeim frænkum eru minnisstæð. Þökk sé þér voru afmælin alltaf talsvert bleikari, með miklu meira glimmeri og fleiri kökum. Meðalhófið dugði ekki þar frekar en annarsstaðar. Þrátt fyrir að vera ekki samferða í fleiri barneignum tókstu mjög svo virkan þátt í uppeldi á Guðjóni Aroni og Gumma Leó. Alltaf varstu mætt í skipulagningu á afmælum og lékst á alls oddi. Alltaf fylgdist þú með því sem börnin okkar voru að gera og gafst þeim ómælda athygli. Engu skipti hvort um var að ræða val á fötum á árshátíð, árangur í skólanum eða hvernig gekk á síðasta fótboltamóti. Okkar börn voru þín börn. Þú gafst svo mikið af þér og í hjörtum þeirra allra áttu stóran sess. Þau hringdu óhikað í Ástu frænku og sögðu frá því sem á daga þeirra hafði drifið. Farin er frænka sem skilur eftir risa skarð í hjörtum þeirra allra. Eftir sitja aftur á móti minningar um dásamlega manneskju sem alltaf reyndist þeim svo hlý og góð. Það er dýrmætt.
Lífið er alls konar. Við upplifum sigra og tökumst á við alls kyns erfiðleika einnig. Það getur því verið kúnst að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Þú upplifðir þínar hæðir og lægðir eins og allir. Þú skilur samt eftir þig lærdóm. Þú naust lífsins, elskaðir að vera innan um þitt fólk og hafa gaman. Allstaðar var meira stuð og stemning þar sem þú varst og í leiðinni skein af þér gleði og þakklæti. Þín síðustu ár sýna þetta svo svart á hvítu. Þrátt fyrir þungan bagga að bera sem þessi sjúkdómur reyndist vera sýndirðu aldrei neinn veiklega. Þú ferðaðist um heiminn, mættir á fótboltamót, saumaklúbba, matarboð, leikhús og svo núna síðast á þjóðhátíð. Alltaf með bros á vör og töfrandi útgeislun. Mér er minnisstætt núna í ágúst þegar þú varst að fara á þjóðhátíð og vildir endilega fá okkur fjölskylduna með ykkur Gústa. Við vorum nú ekki endilega að nenna þessu en þú tókst það aldeilis ekki í mál. Krafturinn í þér dreif okkur af stað og útkoman dýrmæt minning. Þetta var þér að skapi, fjör, gleði og samvera. Þú elskaðir lífið.
Við kveðjumst að sinni kæra systir. Ég mun sakna þess að geta kallað á þig í mat eins og ég gerði svo oft og ég veit að þú elskaðir. Ég mun einnig sakna þess að bulla í þér og fá þig til að hlæja með mér af allskonar vitleysu. Ég held í minningarnar um allt sem við gerðum saman. Þú getur gengið stolt frá borði. Þú kveður hamingjusöm og ástfangin. Skilur við okkur öll í sátt og samlyndi og áttir fallega fjölskyldu. Fjölskyldu sem á nú um sárt að binda þegar stærsti karakterinn er floginn á braut. Ég mun standa við þau loforð sem ég gaf þér undir lokin varðandi þitt nánasta fólk. Dætur þínar og barnabörn verða undir okkar verndarvæng og Gústi þarf að gjöra svo vel að læra á skíði. Þú kynntir okkur fyrir manninum með stærsta og fallegasta hjartað honum Gústa, sem gerði þig svo hamingjusama. Hann verður alltaf einn af okkur. Ég veit að ég þarf ekki að biðja þig um að skila kveðju á mitt fólk þarna uppi og það er huggun harmi gegn að nú færðu að hitta pabba aftur. Ég veit einnig að þegar ég mun líta upp og sé að himininn er bleikur og blár og stjörnurnar aðeins skærari en vanalega hverjum það er að þakka. Haltu áfram að skína.
Sjáumst síðar elsku systir,
Gummi bróðir.
Hjarta mitt er brotið í þúsund mola og sorgin er það mikil að ég er hálf dofin og orðlaus. Ég get ekki lýst því nægilega vel hversu erfitt það er að horfast í augu við raunveruleikann. Hvað geri ég núna ? án þín. Þú varst ekki bara mamma mín heldur líka langbesta vinkona mín. Þú varst stoð mín og stytta í einu og öllu og stóðst alltaf við bakið á mér.
Ég hef alla tíð verið svo stolt af þér, þú varst alltaf svo glæsileg og geislandi. Ljósu lokkarnir, fallega brosið og klæðnaðurinn alveg upp á tíu. Það voru ófá skiptin sem ég var spurð að því hvað þú værir eiginlega gömul og hvort við værum systur, ég var alltaf jafn montin þegar ég svaraði því enda varstu alltaf mesta pæjan á svæðinu og fullkomin fyrir mér.
Ég á svo ótal margar dýrmætar minningar frá því í æsku. Það sem kemur upp í huga minn núna eru öll fimleikamótin á mínum yngri árum þar sem við þurftum iðulega að vakna klukkan sex á morgnana til þess að byrja á hárgreiðslunni, oftar en ekki greiddir þú fleirum en mér og allar teygjur, spennur og blóm voru að sjálfsögðu í stíl við fimleikabolinn. Auðvitað voru fimleikamótin tekin upp á video-kameru sem við horfðum síðan á stuttu eftir mót.
Ég gleymi aldrei augnablikinu þegar ég sagði þér að ég væri ólétt af Viktoríu Sif, þú faðmaðir mig og brostir svo fallega til mín. Gleðin leyndi sér ekki, þú varst svo stolt og spennt fyrir ömmuhlutverkinu. Þú varst ekki síður spennt þegar það bættist svo í hópinn þegar Dagur Ingi, litli grallarinn þinn kom í heiminn. Ömmuhlutverkið fór þér einstaklega vel og börnin dýrkuðu þig og dáðu. Það var svo aðdáunarvert að fylgjast með þér með barnabörnunum, það sást langar leiðir hversu mikið þú elskaðir að eyða tíma með þeim og á sama tíma sá ég hversu mikla gleði þau færðu þér. Það gladdi mig mikið. Litlu gormarnir hafa tekið fagnandi á móti Trixý þinni og því þarft þú ekki að hafa áhyggjur af henni, hún er í góðum höndum hjá okkur. Viktoría Sif er orðin stoltur eigandi og eru þær orðnar miklar vinkonur eins og þið tvær voruð.
Spánarferðin síðasta sumar er mér mjög minnisstæð og ég mun varðveita minningarnar frá þeirri ferð einstaklega vel. Þetta var síðasta utanlandsferðin okkar saman, ég græt meðan ég skrifa það en á sama tíma er ég svo þakklát fyrir tímann okkar saman í ferðinni. Góði maturinn sem við elduðum, ferðirnar út í sundlaug, spjallið á bakkanum, röltið í bænum og rólegu stundirnar á kvöldin, allt þetta er mér svo dýrmætt. Mér hlýnar í hjartanu að hugsa til stundanna sem Viktoría Sif og Dagur Ingi fengu með þér úti. Þau voru svo innilega glöð og hamingjusöm að hafa uppáhalds ömmu Ástu með í ferðinni.
Síðustu jól einkenndust af góðum samverustundum þrátt fyrir að þú hafir eytt mörgum stundum inniliggjandi á HSS. Þú metnaðarfulla og duglega mamma mín vildir ekki missa úr neinum hefðum, það voru gerðar hveitikökur, ostastangir, sörur, soðið hangikjöt, skreytt piparkökur og jólatréð sett upp. Allt eru þetta atriði sem við vorum vanar að gera saman í gegnum tíðina. Næstu jól verða tómleg án þín þegar baksturinn og jólastússið byrjar en ég mun halda heiðri þínum uppi og sjá til þess að allt þetta verði gert hver einustu jól hér á bæ. Allt fyrir þig.
Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til þín elsku mamma, þú gerðir allt fyrir alla og það var aldrei neinn greiði of stór fyrir þig. Varst alltaf fyrst til þess að rétta fram hjálparhönd sama hvað það var. Ég gat alltaf leitað til þín hvort sem það var tengt skólanum, vinnunni, krökkunum eða persónulega lífinu, það skipti ekki máli hvað það var þú varst alltaf með réttu svörin og gafst þér tíma í að hlusta. Allar mínar ákvarðanir í framtíðinni verða með það markmið að gera þig stolta því ég veit að þú munt halda áfram að fylgjast með.
Vorið 2020 var algjört reiðarslag fyrir okkur fjölskylduna, ég var hálf lömuð, fann fyrir mikilli reiði, hræðslu og kvíða. Þú mamma, kletturinn í fjölskyldunni hafðir greinst með ólæknandi krabbamein. Frá fyrsta degi tókstu þessu verkefni af miklu æðruleysi, tókst þessari áskorun með jákvæðni að leiðarljósi og barðist hetjulega. Þessi ár einkenndust af hugrekki, þrautseigju og viljastyrk. Þú varst alveg hreint mögnuð og alltaf lést þú eins og þetta væri ekkert mál. Eins mikið og við þráðum öll að eiga fleiri stundir saman að þá var komið að leiðarlokum, því miður. Síðustu dagarnir voru erfiðir, margir þokukenndir og óraunverulegir.
Ég sé ekki fyrir mér lífið án þín, það eru svo margir hlutir sem ég og börnin mín eiga eftir að upplifa og tilhugsunin um að þú fáir ekki að upplifa og njóta með okkur er martraðakennd. Ég mun aldrei sætta mig við fráfall þitt en ég mun gera mitt besta til þess að læra að lifa með því, hversu vel það tekst, veit ég ekki. Eftir stendur stórt skarð og óbærilega sorgmædd dóttir.
Takk fyrir að leiða mig í gegnum lífið þessi 34 ár, þú stóðst þig óaðfinnanlega og varst besta móðir sem nokkur gæti hugsað sér. Takk fyrir alla þína lífsgleði, ást og kærleika í garð okkar fjölskyldunnar. Takk fyrir þína góðu nærveru og takk fyrir okkar einstaka og sterka mæðgnasamband. Þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu.
Viktoría Sif og Dagur Ingi senda þér stórt faðmlag og segja love you amma eins og hvert einasta myndsímtal endaði hjá ykkur.
Ég elska þig af öllu hjarta og sakna þín óbærilega mikið.
Eilíf ást til þín mamma mín.
Við sjáumst seinna.
Þín dóttir,
Steinunn Sif.
Ásta var litla systir mín. Hamingjan yfir því að eignast litla systur, þegar hún kom inn í þennan heim, er mér ógleymanleg. Ég þá sjö ára. Mér þótti hún fegurst allra barna, með bláu augun, ljósu lokkana sína og brosið ómótstæðilega sem lýsti upp fallega prakkaralega andlitið hennar. Ásta systir var strax fyrirferðamikil sem barn með afar sjálfstæðar skoðanir og fór oftar en ekki sínar eigin leiðir. Það var því oft viss áskorun fyrir stóru systur að reyna að leiðbeina litla skottinu. Systkinahópurinn fullkomnaðist svo þegar bróðir okkar Guðmundur Karl bættist í hópinn fjórum árum síðar. Saman vorum við þétt systkinaeining alla tíð.
Ásta var ung að árum þegar eldri dóttir hennar, Steinunn Sif kom óvænt í heiminn 10 vikum fyrir tímann. Þrettán árum síðar bættist Vera Mist í barnahóp hennar. Á síðustu árum hafa bæst við tvö yndisleg barnabörn, sem ásamt tengdasyninum Hjörleifi fullkomnaði það sem henni var dýrmætast í lífinu. Fallegi hópurinn hennar Ástu var stolt hennar, líf og yndi.
Það var fyrir tæpum fjórum árum sem illkynja sjúkdómur ruddist harkalega inn í líf systur minnar. Við systkinin ásamt fjölskyldum okkar gerðum hvað við gátum til að grípa hana í allri þeirri kvöl og angist sem yfirtók elsku Ástu okkar. Við sjúkrabeðið eftir fyrstu aðgerðina stóðum við systkinin og reyndum að hljóma hvetjandi og umfram allt að fullvissa hana um að við myndum alltaf vera til staðar fyrir hana. Þá fórum við að taka eftir því að til hennar voru sífellt að berast blómvendir í öllum stærðum og gerðum ásamt öðrum fallegum gjöfum. Við vorum alls ekki að átta okkur á því hvað þarna var að gerast. Hvaðan komu þessar dularfullu sendingar? Jú, það var kominn maður í hennar líf. Riddarinn hennar Ástu á hvíta hestinum, Gústi, var mættur með útbreiddan faðminn stútfullan af ást og umhyggju. Saman ætluðu þau að sigra.
Tíminn sem þau höfðu var naumur, það kom fljótlega í ljós, en hann skyldi heldur betur nýttur vel. Hver einasta stund var notuð til að skapa minningar, samhliða því að ganga í gegnum hverja krabbameinsmeðferðina á fætur annarri. Gústi hreinlega bar hana á höndum sér, vék ekki frá henni, dekraði við hana, gerði hana hamingjusama svo um munaði. Ásta elskaði allt við þetta samband. Börnin hans urðu henni dýrmæt á djúpan hátt. Þau færðu henni hamingju með einlægri ást sinni og gleði sem einkenndi þau. Saman náðu þau að ferðast og skapa ógleymanlegar minningar.
Ásta var blíð og einstaklega barngóð með spaugilega sýn á umhverfi sitt. Hláturinn og grínið var alltaf til staðar, hvað sem á dundi. Hún sýndi systkinabörnum sínum öllum og síðar barnabörnunum mínum einlægan og ástríkan áhuga alla tíð.
Það er komið að leiðarlokum. Þakka ég nú fyrir samfylgdina og þær yndislega dýrmætu minningar sem við eigum með ástkærri systur. Ógleymanleg er ferðin til Ítalíu, sem við náðum að fara öll saman í tilefni af afmæli móður okkar. Hún situr nú eftir og syrgir yngri dóttur sína. Sársaukinn svíður, hann er óbærilegur. Við fjölskyldan munum nú þjappa okkur enn frekar saman og styðja hvert annað í þeirri miklu sorg sem við stöndum nú frammi fyrir.
Minningarnar um okkar ástkæru Ástu systur, munu ávallt lifa með okkur.
Með söknuði,
Jóhanna Andrea Guðmundsdóttir.