Auður Ellertsdóttir fæddist í Reykjavík 21. maí 1935. Hún lést á líknardeild Landakots 10. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Anna Ársælsdóttir og Ellert Ágúst Magnússon prentari, bæði fædd 1913. Systkini Auðar voru Sólveig, f. 1932, d. 1979, Arndís, f. 1938, d. 2015, Magnús Grétar, f. 1937, d. 2020, Ásrún, f. 1944, Ársæll, f. 1947, Jón Helgi Haraldsson (uppeldisbróðir Auðar), f. 1952, d. 2012, og tvíburarnir Elín Anna og Eyjólfur Hlíðar, f. 1954.

Dóttir Auðar og Guðjóns Guðjónssonar, f. 1932, d. 2016, er Anna, f. 1958, dóttir hennar er Lóa Alice Jansdóttir Timm, f. 2004. Sonur Auðar og Guðjóns er Guðjón Þór, f. 1954, maki Halla Hjaltested, f. 1957. Dóttir Höllu Hjaltested og Stefáns Dagfinnssonar er Íris, f. 1981, maki Kjartan Freyr Jónsson, f. 1980, börn: Karen Júlía, Hugrún Inga og Þórey Vala. Dóttir Höllu og Guðjóns Þórs er Auður Ýr, f. 1988, sambýliskona Svanhildur D. Björgvinsdóttir, börn þeirra eru: Patrekur, Kristján, Halla Guðný, Víkingur, Dagný Ósk, Bjarki Þór og Ísak Logi.

Sonur Guðjóns Þórs og Áslaugar Öddu Sigurðardóttur er Guðjón, f. 1980, sambýliskona hans er Valdís Rán Samúelsdóttur, barn Samúel Ingi.

Útför Auðar fer fram í Garðakirkju í dag, 20. mars 2024, klukkan 13.

Hún

x

Systkinin
haldast þétt í hendur
hrædd
dimmir tímar
ógnvaldur í föðurmynd
reif þau
úr móðurfaðminum hlýja

x
tómur faðmur móður
teygir sig
aftur og aftur
örvæntingarfullur
eftir börnunum sínum
heittelskuðu

x
faðmurinn
sem elskaði án málamiðlunar
faðmurinn óeigingjarni
faðmurinn hennar
nú ósýnilegur
en huggar enn
þakklát systkinin

Systir
x
Afargóð systir
blíð og best
söngelsk
dansandi
við lífið
alltaf bros
alltaf blíða
aldrei illt

x
hneppt í ánauð
fæturnir krepptust
hættu að dansa
söngurinn þagnaði
en alltaf hlustandi
áhugasöm
eftir systkinunum
eftir tónlist lífsins

x
elskuleg systir
falleg og fín
örlát á gleði
örlát á ást
kveður með hlýju
systur og bræður
bundin tryggum fjölskylduböndum
lengri en eilífðin
Vina
x
Góð vinkona
glöð vinkona
skemmtileg kona
bráðfyndin
alltaf til í tuskið og fjörið
í Múlabæ
x
stutt í hláturinn
augun svo glettin
fylgdust með náunganum
fylgdust með lífinu
af forvitnum
og sönnum áhuga

Komið er að kveðjustund elsku móður okkar. Hún var ein níu systkina. Fram til unglingsáranna ólst hún upp með foreldrum sínum og systkinum á Seljaveginum en þar bjuggu einnig amma hennar og afi í móðurætt, Arndís og Ársæll. Hún talaði sérstaklega oft um afa Ársæl, hvað hann var alltaf góður við hana og hvað hann hafði hlýjar og mjúkar hendur.



Auður var sannur Vesturbæingur og á seinni árum þegar farið var í bíltúr urðum við að keyra um Vesturbæinn og sérstaklega Seljaveginn. Hún var ótrúlega minnug og sagði okkur frá því hvernig allt hefði verið þarna í denn og hver hafði búið hvar. Á unglingsárum hennar flutti fjölskyldan í Hólmgarð 4. Oft lýsti hún því hvað hún saknaði Vesturbæjarins og hvað leiðin var löng í Gaggó Aust fótgangandi eftir hitaveitustokknum.



Móðir okkar var einstaklega félagslynd og var lengi vel í skátunum. Ásrún systir hennar lýsir hrifningu sinni, þá tæpra átta ára hnáta, á stóru systur í fallega dökkbláa skátabúningnum með hatt og gítar. Móðir okkar elskaði að dansa og var einstakur gleðigjafi. Þau voru ekki fá danssporin í gömlu Mjólkurstöðinni, nú Þjóðskjalasafninu við Laugaveg, undir tónlist strákanna eins og hún kallaði til dæmis Svavar Gests og Kristján Kristjánsson. Við systkinin minnumst þess að þegar móðir okkar var ein heima með okkur þá kveikti hún stundum á kanaútvarpinu, stillti okkur upp og dansaði við okkur af hjartans lyst.

Hún hafði ekki efni á menntun og fór 16 ára að vinna í verslun Sláturfélags Suðurlands. Þar kynntist hún Guðjóni Guðjónssyni, föður okkar, og giftist honum. Þau bjuggu á Nesveginum með frumburðinum, Guðjóni Þór. Síðan fluttu þau í Sigluvog 4, ásamt tengdamóður Auðar, Steinþóru, systur hennar Siglinn og móður þeirra Vilborgu, sem dó á heimilinu skömmu síðar. Móðir okkar sagði að það hefði verið erfið lífsreynsla fyrir sig, nítján ára unga móður, að hafa ömmu Vilborgu í opinni líkkistunni á borðstofuborðinu og Guðjón Þór skríðandi undir borðinu. Þá var enn til siðs að láta líkin standa uppi til að öruggt væri að viðkomandi yrði ekki kviksettur. Dóttirin Anna kom svo í heiminn 1958. Árin í Sigluvoginum og árin í Einihlíð, sumarbústað fjölskyldunnar við Þingvallavatn, voru þau eftirminnilegustu og hamingjumestu í huga okkar systkina.

Móðir okkar var ótrúlega fjölhæf kona. Hún elskaði lífið og tilveruna og var áhugasöm um fólk og málefni. Hún hafði ótrúlegt minni og mikla kímnigáfu alveg fram til æviloka. Eftir lát föður okkar árið 2016 átti móðir okkar elskulegt líf í fallegu og björtu íbúðinni sinni í Ásholtinu og yndislega tíma með okkur fjölskyldunni og vinum sínum í Múlabæ.

Við kveðjum þig með harm í hjarta og þakklæti. Þú lætur eftir þig ljúfar minningar sem sefa sorgina og fylgja okkur um ókomna tíma.

Anna Guðjónsdóttir og Guðjón Þór Guðjónsson.