Friðrik Bergmann Guðmundsson fæddist í Reykjavík 4. október 1992. Hann lést á heimili sínu, Mánagötu 2, 19. febrúar 2024.
Móðir Friðriks er Sigríður Bergmann Gunnarsdóttir, f. 7.7. 1970, sambýlismaður hennar er Einar Geir Brynjólfsson, f. 15.7. 1976. Faðir Friðriks var Guðmundur Guðmundsson, f. 30.7. 1967.
Bræður Friðriks eru Gunnar Bergmann Guðmundsson, f. 23.8. 1988, Brynjar Bergmann Guðmundsson, f. 23.8. 1988, Vilhjálmur Bergmann Guðmundsson, f. 19.12. 1990, Tristan Bergmann Einarsson, f. 30.1. 2011, og Björn Jaki Bergmann Einarsson, f. 18.12. 2019.
Útför Friðriks fór fram í kyrrþey 8. mars 2024.
Elsku hjartans Friðrik minn, ég elska þig meira en lífið sjálft og hef alltaf gert. Fyrirgefðu mér að ég var ekki til staðar fyrir þig þegar þú þurftir hvað mest á mér að halda. Nú er lífið tómlegt og söknuðurinn óbærilegur að fá aldrei aftur að faðma þig og kyssa og vera í nærveru þinni. Heimurinn missir lit þegar þú ert ekki hér. Skarðið er gríðarlega stórt og verður aldrei brúað. Sársaukinn nístir inn að rótum yfir að nú er allt orðið of seint.
Rótin að fíknivanda sem fylgdi þér frá unglingsaldri og tókst ekki að vinna bug á var vegna níðingsverka föður vinar þíns sem hófust þegar þú varst lítill drengur. Aldrei tókst að heila sálarsárin þín og ísköld niðurstaða blasir við; ungur maður er fallinn. Ótímabært andlát þitt er afleiðing af kynferðisofbeldi. Það er niðurstaðan.
Þú sagðir mér fyrir fjórtán árum frá kynferðisofbeldinu, sem þú hafðir verið beittur árum saman. Þar átti í hlut faðir vinar þíns. Blekkingin var algjör og risastórt högg fyrir mig, pabba þinn og fjölskylduna að átta okkur á hryllilegum sannleika og reyna að vinna úr áfallinu.
Þú komst í heiminn fjórða október, fjórði drengurinn af sex bræðrum, heilbrigður og yndislegur með falleg brún augu. Þú ólst upp í öruggu umhverfi, eða það var það sem ég trúði þangað til allt annar og sár sannleikur leit dagsins ljós og í raun okkar stærsta sorg.
Þér voru gefnar ríkulegar vöggugjafir sem þú nýttir þér í baráttunni til að lifa af en gast ekki notað til að blómstra í lífinu, til þess var meinið sem búið var að vinna þér of stórt og þungt farg að bera fyrir barn og síðar ungan mann.
Fallegur varstu að utan sem innan, hugrakkur eins og ljón. Heiðarlegur með ríka réttlætiskennd sem þú viðraðir þegar tilefni var, sagðir stundum að pabbi þinn hefði kennt þér heiðarleika og hafðir það alltaf að leiðarljósi. Þú lést aðstæður sem voru þér ekki í hag ekki stöðva þig þegar verja þurfti þá sem minna máttu sín og fylgdi því stundum að verulega sá á þér eftir slík atvik. Einstaklega djúp og falleg sál sem varðveittir hjarta þitt og góð gildi sem þú stóðst ætíð með. Þú skuldaðir engum neitt í fjölskyldunni, borgaðir alltaf til baka það sem þú fékkst lánað upp á krónu, þú stalst aldrei neinu frá okkur, það var þitt prinsipp.
Ferðin sem við fórum til Portúgals þegar þú varst níu ára var ein besta ferð sem við fórum saman. Þú naust daganna í sólinni, sundlauginni og í stöðugum leikjum við bræður þína í sundlaugagarði hótelsins þar sem til dæmis vatnsblöðrur komu við sögu við misjafnar undirtektir annarra hótelgesta. Elskaðir alla tíð að fara í sund og fórst oft, stundaðir bæði kalda pottinn og heitu pottana. Þú fylgdist með bardagaíþróttum af áhuga og varst alæta á tónlist, hlustaðir á rokk jafnt og rapptónlist yfir í klassísk verk. Fatastíllinn þinn var mjög flottur og keyptir þú oft ýmsar gersemar í rauðakrossbúðinni og víðar. Sköpunarkraftinum sem bjó í þér fannstu farveg á ýmsa vegu, málaðir myndir, skrifaðir texta og samdir ljóð.
Það var í uppáhaldi að gefa þér að borða, þú hrósaðir alltaf matnum og þakkaðir fyrir þig. Sárt er hugsa til þess að þú varst ekki með okkur á síðustu jólum. Ég veit að þér leið ekki vel síðustu vikur þótt þú segðir annað og ég hefði sannarlega þurft að bregðast við en ískaldur raunveruleikinn blasir við, tækifærið til þess er glatað að eilífu.
Þrátt fyrir mótlætið sem var mikið á köflum var strengurinn á milli okkar alltaf óslitinn og sterkur. Við gátum talað saman um allt og ekkert, hlegið saman og rifist en það var aldrei djúpt á því og gufaði upp jafnharðan, þannig var okkar dýrmæta vinátta. Þú sagðir stundum við mig eins og sá sem vitrari er og vægir: Ókei verum þá sammála um að vera ósammála og þá var það útrætt. Þú gast verið krefjandi enda er fíknisjúkdómur sem er samofinn strangri áfallasögu krefjandi húsbóndi við að eiga og ástandið misgott undir hans stjórn. Hjálpin sem reynt var að fá af miklum móð kom ekki. Fyrirgefðu mér elsku vinur hvað ég tuðaði mikið í þér, ég veit þér líkaði það ekki, ég þurfti alltaf að vera að segja hvernig þú ættir að vera, ég vildi óska að ég hefði mætt þér eins og þú varst og sagt þér að þú værir bestur nákvæmlega eins og þú varst. Þannig mættir þú fólki, samgladdist öðrum þegar vel gekk og aldrei heyrði ég þig öfundast í garð annarra.
Ég mun varðveita góðu stundirnar og fallegar minningar um þig elsku besti Friðrik minn. Þú þekktir marga og komst vel fram við fólk. Fólk sem ég hitti og þekkti þig spurði ávallt hvernig þú hefðir það og talaði vel um þig. Þú varst einstaklega góður við bræður þína og mig, sagðir alltaf við okkur þegar þú kvaddir með faðmlagi ég elska þig. Nærvera við þig skildi eftir hlýju í sálinni.
Við höfum átt margar góðar stundir í gegnum árin og þakka ég þér fyrir þær ljúfurinn minn. Amma og afi í Dísaborgum voru nálægt hjarta þínu og það er ekki langt síðan þú talaðir um hvað þú elskaðir þau mikið og hversu góð þau hefðu verið þér í gegnum árin.
Ég kveð þig í bili ástin mín með miklum trega, söknuði og eftirsjá og brotnu mömmuhjarta en vil geta leyft þér að fara í guðs friði. Friðrik er nafnið þitt sem þýðir friðaður höfðingi. Ég trúi því að þú sért laus við þjáningarnar sem hrjáðu þig svo djúpt og sért kominn til pabba þíns og Grettir, hundurinn þinn sem þú elskaðir svo heitt, hafi tekið á móti þér og hlaupið í fangið þitt. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi.
I am a flower
I am a bird
I am the pink sky
I am the problem child in disguise
Most of all I am a seed seeking Water
One day ill become a butterfly and fly fly far away
(Friðrik Bergmann Guðmundsson)
x
Ég er blómið
Ég er fuglinn
Ég er bleiki himinninn
Ég er flókna barnið í leyni
En fyrst og fremst er ég fræ í leit að vatni
Einn daginn verð ég fiðrildi sem flýgur langt langt í burtu.
Þín
mamma.