Jón Pétursson fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1936. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka 22. mars 2024.
Foreldrar hans voru Guðrún Hanna Jónsdóttir húsfreyja á Vatnsstíg 4 Reykjavík, f. 7.3. 1904, d. 2.11. 1985, og Pétur Brandsson loftskeytamaður og yfirmaður á talsambandi við útlönd, f. 29.3. 1903, d. 10.5. 1986.
Jón giftist 12.5. 1963 Sigríði Jóhönnu Guðmundsdóttir (Sirrý), f. 19.10. 1942. Foreldrar hennar voru Ólöf María Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 20.9. 1919, d. 22.10. 2012, og Guðmundur Jón Jóhannsson lögregluþjónn, forstjóri Litla-Hrauns og Skálatúns, f. 18.12. 1919, d. 17.10. 2014.
Jón og Sirrý hófu búskap í Reykjavík og eignuðust þar börnin sín tvö, Guðmund Pétur, f. 19.3. 1963, d. 28.8. 2014, og Hönnu Björk, f. 26.1. 1965, hún á þrjú börn, þau Viktor Inga, f. 28.2. 1983, Jón Anton, f. 17.1. 1989, og Rakel Björk, f. 3.5. 1996. Viktor Ingi er mikið til alinn upp hjá Jóni afa sínum og Sirrý ömmu.
Jón gekk í Austurbæjarskólann í Reykjavík og tók gagnfræðapróf þaðan og síðan nam hann rafvélavirkjun hjá Volta rafverktökum og lauk prófi í þeim fræðum frá Iðnskólanum í Reykjavík. Þau hjónin Jón og Sirrý fluttu á Selfoss vorið 1965 þar sem Jón vann við iðn sína hjá Raflögnum í nokkur ár og byggðu þau sér hús við Engjaveg 59 á Selfossi og bjuggu þar til ársins 2021 fyrir utan þrjú ár sem fjölskyldan flutti til Lúxemborgar þar sem Jón nam og vann við rafmagnið í flugvélum Cargolux. Eftir heimkomuna gerðist hann tæknimaður við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hann bætti við sig tækniþekkingu á röntgenvélum og ýmsu fleiru til að þjónusta sem best allt sem þurfti til reksturs hjá HSU. Eftir rúmlega 30 ára ánægjulegt starf hjá HSU hætti Jón störfum sökum aldurs.
Jón verður jarðsunginn frá Selfosskirkju í dag, 2. apríl 2024, klukkan 13.
Við fráfall Nonna P. eins og við kölluðum hann hvarflar hugurinn aftur til bernskuáranna úti á Kársnesi í Kópavogi þar sem fjölskyldan bjó upp úr 1955. Ég hef verið 11 ára þegar stóra systir mín Sirrý, sem var elst okkar systkinanna og fyrirmynd í einu og öllu, kom heim með glæsilegan ungan mann úr Reykjavík og kynnti hann fyrir okkur sem unnusta sinn. Nonni hafði alla tíð mikinn áhuga á bílum og í þetta sinn kom hann heim á svokallaðri doríu sem var Packard-bifreið sem var tveimur árum yngri en forsetabíllinn, svört, gljáfægð og stífbónuð. Í þá daga áttu ekki allir bíla og voru örfáir bílar í
götunni hjá okkur og var því tekið eftir þegar slíkur eðalvagn rann inn götuna sem þá var malarvegur og oft miklir pollar og óhreinindi á veginum. Skítugur bíll átti ekki við snyrtipinnann Nonna. Seinna átti Nonni eftir að eignast bæði fornbíla og fjölskyldubíla sem hann hélt alla tíð hreinum og vel bónuðum.
Mér er það minnisstætt að stundum á sunnudögum átti hann það til að koma með ís og sælgæti handa litlu systkinum Sirrýjar til að gleðja okkur en í þá daga var ekki mikið um slíkt góðgæti. Sjálfur var hann mikill sælkeri.
Nonni var Reykjavíkurbarn, umvafinn foreldrum og frændfólki í fjölskylduhúsi á Vatnsstíg 4. Nonni var eina barnið í fjölskyldunni og í húsinu bjuggu afi hans Jón skósmiður sem var með verkstæðið í kjallara hússins, foreldrar Nonna, Hanna og Pétur, bjuggu á miðhæðinni með Nonna litla og kisu og uppi á loftinu bjuggu móðursystkini hans Sigga og Búddi. Ég var svo lánsöm að kynnast þessu fólki og kom oft sem unglingur á Vatnstíginn og naut velvildar Hönnu.
Sirrý og Nonni eignuðust Guðmund Pétur 1963 og giftu sig á fermingardaginn minn það ár heima á Vatnsstíg og fékk ég að halda honum undir skírn. Þau hófu búskap sinn á Vatnsstígnum og tveimur árum seinna fæddist þeim dóttirin Hanna Björk, fædd 1965.
Fjölskylda Sirrýjar var flutt á Selfoss og þótti sjálfsagt að hún kæmi líka austur með sína litlu fjölskyldu.
Þau bjuggu fyrstu árin í Miðtúninu þar sem fjölskyldan bjó en byggðu sér síðan einbýlishús á Engjavegi 59 það sem þau áttu heimili þar til fyrir 3 árum er þau keyptu íbúð við Fagurgerði.
Nonni var menntaður rafvélavirki og lærði hjá Volta á Norðurstíg í Reykjavík og var fagmaður fram í fingurgóma. Þegar þau komu á Selfoss fékk Nonni vinnu í Raflögnum, sem var nýstofnað fyrirtæki með ungum og lífsglöðum mönnum.
Sirrý og Nonni settu upp ullarprjónastofu í bílskúrnum í nýja húsinu sínu við Engjaveg sem var starfrækt þar í nokkur ár en var síðan flutt í annað húsnæði.
Nonni var einn vetur í Gagnfræðaskóla Lindargötu og lauk síðan gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar áður en leiðin lá í Iðnskólann í Reykjavík. Hann var góður tungumálamaður og kom það sér vel þegar hann flutti með fjölskylduna til Lúxemborgar og fór að vinna hjá Cargo Lux sem
tæknimaður í flugvélum. Þar bjuggu þau í 3 ár. Við heimkomuna hóf hann störf sem tæknimaður við Sjúkrahús Suðurlands og starfaði þar í allmörg ár. Heilbrigði skipti hann miklu máli og gætti hann sín í mataræði að ofgera ekki líkamanum í ofáti, hann hjólaði iðulega til og frá vinnu enda var hann
tággrannur og spengilegur alla tíð.
Nonni var mikið snyrtimenni og bílskúrinn hans var alltaf hreinn og fínn þrátt fyrir að viðgerðir á bílum og allskonar vélum stæðu yfir í tíma og ótíma. Þeir eru margir sem nutu kunnáttu hans í viðgerðum á vélum og verkfærum. Nonni var heimakær og naut þess að sjá góðar bíómyndir og lesa og fylgdist vel með fréttum sem hann miðlaði til samferðafólks síns.
Nonni starfaði með Rotaryklúbbi Selfoss og um tíma gekk hann með gönguhópi á Selfossi meðan kraftar entust.
Seinustu árin átti Nonni við vanheilsu að stríða og undir það síðast dvaldi hann á heimili aldraðra á Sólvöllum á Eyrarbakka við góða umönnun.
Ég vil þakka Nonna fyrir þau ár sem við höfum verið samferða á þessari jörð og óska honum góðrar heimkomu í Sumarlandi. Ég votta Sirrý, Hönnu Björk, Viktori Inga og fjölskyldu þeirra innilega samúð og bið guð að blessa þau.
Sigurlína Guðmundsdóttir.