Unnur Jósavinsdóttir fæddist 26. september 1932 á Auðnum í Öxnadal. Hún lést á heimili sínu, Lögmannshlíð, 5. mars 2024.
Foreldrar hennar voru Jósavin Guðmundsson bóndi á Auðnum, f. 17. desember 1888, d. 27. maí 1938, og Hlíf Jónsdóttir húsfreyja á Auðnum, f. 24. maí 1897, d. 13. maí 1972.
Unnur var yngst systkina sinna, í aldursröð voru þau: Margrét, Steingerður, Ragnheiður, Gunnar, Ester, Ari, Hreinn og Guðmundur. Þau eru öll látin.
Eftirlifandi eiginmaður er Bergvin Halldórsson, f. 10. júlí 1932.
Börn þeirra eru Guðríður Elín, f. 26. nóvember 1951, maki Sigþór Bjarnason, f. 11. febrúar 1948, d. 22. júní 2023. Erlingur Steinar, f. 23. apríl 1955, maki Ingibjörg Ágústsdóttir, f. 24. nóvember 1956.
Átti hún átta ömmubörn, 17 langömmubörn og fjögur langalangömmubörn.
Útför hennar fór fram frá Akureyrarkirkju 25. mars 2024.
Minningargrein á www.mbl.is
Elsku amma okkar, það sem þú snertir hjörtun okkar djúpt. Á stundum sem
þessum fer maður að grafa í minningabankann og sjá hversu ofboðslega margar
minningar við eigum um þig. Við getum vel fullyrt það að þú settir alla
aðra en sjálfa þig í fyrsta sæti. Sama hvað þú gerðir þá gerðirðu allt af
heilum hug og dugnaðurinn mikill, sama hvort það var að sinna
fjölskyldunni, heimilinu, garðinum eða búskapnum.
Það hefur sennilega engum þótt jafn gaman að fæða fólkið sitt og þér. Sjá
til þess að allir fengju það sem var í uppáhaldi hjá hverjum og einum og
vel af því. Það klikkaði ekki að þegar við komum í heimsókn á Skúta fengum
við alltaf spurninguna: Viltu ekki fá þér eitthvað?
Það var alltaf mikið sport að fá að gista hjá ömmu og afa, það var meira að
segja stundum þitt frumkvæði að hafa okkur í næturgistingu þótt vissulega
óskuðum við eftir því mjög oft. Það eru þessar stundir sem standa upp
úr.
Það sem þú gast dundað og leikið þér með okkur er ómetanlegt, það var
alltaf hægt að plata þig með okkur. Allir hjólatúrarnir með
skemmtifræðslu um hvernig þorpið var og Akureyri fór að taka á sig mynd,
sundferðirnar, fótboltinn, klifra í klöppinni, krikket, spilastundirnar og
svo lengi mætti telja.
Við fengum einnig mjög frjálsar hendur við kassettutækið við að taka upp
alls konar útvarpsþætti og frumsamin leikrit. Það var einnig mjög mikið
um litlar leiksýningar þar sem við fengum frjálsar hendur í gömlum fötum
sem við gátum notað sem búninga. Það eru til ófáar myndir af okkur
ömmubörnunum þínum í ýmsum múnderingum.
Þar sem þú varst var bókað mál að myndavélin var með í för. Þú varst
ofboðslega dugleg að hóa okkur, fólkinu þínu, saman í myndatökur. Sem var
ekkert alltaf í uppáhaldi hjá öllum. Uppstilltu myndirnar voru sennilega
þær allra bestu. Vélinni stillt upp á næsta stein eða hól, sett á 10
sekúndna tíma og þegar allir voru tilbúnir var afi tilbúinn á takkanum og
hljóp til okkar til að vera með. Þú vissir nákvæmlega hvað þú varst að gera
því í dag er til hafsjór af myndum og til minningar sem hægt er að ylja sér
við um ókomna tíð. Það var orðin einhvers konar hefð þegar við komum í
heimsókn að kíkja á myndirnar sem þú varst nýbúin að fá úr framköllun. Takk
elsku amma fyrir að vera með myndavélina alltaf á lofti.
Þú kveiktir snemma á harmonikkuáhuganum hjá okkur og sumir fóru svo langt
að ætla verða jafn góð og amma á harmonikku. Þú varst mjög dugleg að hvetja
okkur í því sem við tókum upp á að gera eða læra.
Hestamennskan var mjög ofarlega og það var aldrei vandamál að fá þig til
að teyma mann um allt. Þið afi kennduð okkur mjög snemma hvernig maður
hagaði sér í kringum hrossin og hvernig maður öðlaðist traust þeirra. Amma,
þú varst einn mesti dýravinur sem við höfum kynnst og það var svo gaman að
sjá hvernig þú fékkst alla hunda sem urðu á þinni leið til að verða vinir
þínir frá fyrsta augnabliki.
Þið afi voruð mjög dugleg að kenna okkur alls konar sem tengist því að vera
í sveit. Heyskapurinn var auðvitað með því skemmtilegra sem við gerðum öll
saman, nestispásurnar og gleðin.
Okkur þótti best hvað við gátum treyst á að þú stæðir með okkur.
Sérstaklega þegar afi var að fíflast í okkur og við vorum ekki alveg viss
hvort hann væri að plata eða ekki. Þá gátum við alltaf spurt er það amma?
og þú gast ekki annað en sagt sannleikann.
Ferðirnar með þér og afa að sækja sand eru mjög eftirminnilegar. Þar var
ýmislegt brallað og þú hafðir ofan af fyrir okkur alla leiðina með ýmsum
leikjum og voru ortar ófáar vísur í þessum ferðum.
Þú passaðir okkur ávallt vel og rúmlega það. Aukabílbeltið sem þú veittir
okkur með því að setja hægri höndina yfir okkur þegar þú hægðir á þér eða
stoppaðir bílinn.
Það má kannski segja að þú hafir verið pínu límið í fjölskyldunni. Það var
aldrei dauð stund. Það var alltaf eitthvað planað að gera og það sem við
erum svona hvað þakklátust fyrir eru allar heimsóknirnar til systkina ykkar
afa. Ef ekki væri fyrir þær og sögugleðina þína þá kannski þekktum við ekki
eins mikið til í dag. Takk amma.
Nú eigum við, barnabörnin þín, börn sjálf. Það má með sanni segja að öll
hlýjan og kærleikurinn sem þú gafst okkur jókst tvöfalt þegar þú eignaðist
barnabarnabörnin þín. Ef þau voru ekki með í heimsóknum þá var umræðuefnið
bara þau. Þú vildir vita allt og ljómaðir extra mikið þegar við gátum sýnt
ykkur afa myndir eða myndbönd af krökkunum. Þau voru þér mikilvæg og þú
sýndir það vel hvað þú elskaðir þau.
Hæ elskan, hvað segirðu? Hvernig er veðrið? var alltaf það sem þú spurðir
þegar þú hringdir. Þú hafðir mikinn áhuga á veðráttu og gast sagt manni
langt aftur í tímann hvernig veðrið var einhverjum árum áður. Gamla góða
veðurdagbókin var í eldhússkúffunni og þú fylltir hana út samviskusamlega
fyrir hvern dag.
Var oft mjög skemmtilegt þegar þú hringdir á afmælisdögunum okkar að þá
gastu sagt manni hvernig veðrið var í fyrra eða hittifyrra. Þú klikkaðir
aldrei á því að hringja í okkur á afmælisdögum, þú mundir það sennilega
betur en við sjálf stundum.
Þótt þú hafir haft þennan áhuga á veðrinu þá gat leiðinlegt veður oft
valdið þér áhyggjum. Sérstaklega ef þú vissir af fólkinu þínu að ferðast
milli landshluta. Það var því orðin viss rútína þegar komið var á
leiðarenda eftir ferðalag að hringja á Skúta og láta vita að við hefðum
komist heim heil á húfi. Tilkynningaskyldan heldur sínum sessi og við látum
vita af okkur.
Amma þú varst með einstakt hjartalag og fannst þér mjög erfitt ef einhver
fékk ekki alveg eins og hinir eða einhver missti af einhverju. Fyrir þér
vorum við öll jöfn og jafn mikilvæg. Það var ómetanlegt hversu mikla ást og
hlýju þú gafst og sýndir okkur. Það var hægt að leita til þín með allt,
sama hversu stórt eða lítið vandamálið var. Þú varst alltaf til staðar
fyrir alla.
Ástarþakkir elsku amma Unnur fyrir allt saman. Framhaldið verður skrítið án
þín en við hlýjum okkur yfir öllum myndunum og minningunum sem við eigum um
þig. Við elskum þig.
Berglind, Arnar, Ingvar og Unnur Erlingsbörn.