Hermann Sigfússon fæddist á Ytra-Hóli í Öngulsstaðahreppi í Eyjafirði 20. janúar 1934. Hann lést á Hrafnistu, Skógarbæ, 13. mars 2024.
Foreldrar Hermanns voru Sigfús Helgi Hallgrímsson, f. 2. október 1898, d. 21. nóvember 1987, og kona hans Sigurlína Sigmundsdóttir, f. 21. mars 1904, d. 16. ágúst 1951, bændahjón á Ytra Hóli.
Systkini Hermanns: Kristján, f. 1926, Hreiðar, f. 1928, Hreinn, f. 1930, Margrét, f. 1935, og Helgi, f. 1938. Tvö yngstu systkinin lifa bróður sinn.
Fyrri sambýliskona Hermanns var Svala Gunnarsdóttir frá Króksstöðum í Öngulsstaðahreppi, f. 11. maí 1935, d. 11. apríl 2017, og eignuðust þau soninn Hjört Hólm 14. febrúar 1975. Þegar leiðir þeirra skildi ólst hann upp með móður sinni á Laugum í Reykjadal þar sem hún var matráðskona. Eiginkona Hjartar Hólm Hermannssonar er Jóhanna Sif Sigþórsdóttir, f. 26. mars 1981, og eiga þau þrjú börn: Töníu Sól, f. 26. janúar 2005, Viktor Breka, f. 8. júlí 2007, og Sindra Jóel, f. 8. nóvember 2011.
Þá bjó Hermann í nokkur ár með Emelíu Baldursdóttur frá Syðra-Hóli, f. 1949.
Eftirlifandi sambýliskona Hermanns er Lovísa Ágústsdóttir, f. 17. júlí 1940 í Reykjavík. Dætur hennar eru Sigrún, f. 1959, Kristín, f. 1962, Sólveig, f. 1964, og Íris, f. 1973, Valgeirsdætur og eru barnabörnin sjö og langömmubörnin fjögur. Hermann og Lovísa áttu fyrst heimili á Akureyri, síðan í Þorlákshöfn og nú síðast að Ársölum 5 í Kópavogi.
Hermann ólst upp við venjuleg sveitastörf í stórum systkinahópi, en stundaði síðar nám í Héraðsskólann á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan. Eftir dvölina þar lá leiðin til Noregs þar sem hann vann í heilt ár við skógarhögg. Hann fór á 15 vertíðir til Vestmannaeyja en vann heima á sumrin og tók æ meiri þátt í störfunum eftir að hann missti móður sína svona unga. Hann gerðist einnig kartöfluræktandi á eigin vegum þar heima.
Áratugum saman vann Hermann við góðan orðstír hjá Vegagerðinni á Akureyri, mörg ár sem verkstjóri og alveg fram til sjötugs. Þá var hann eftirlitsmaður með vegunum yfir Öxnadalsheiði og Víkurskarð og öllum þar á milli og vílaði ekki fyrir sér að fara eldsnemma í hvaða veðri sem var til að kanna stöðuna, enda hraustmenni mikið alla tíð.
Útför Hermanns Sigfússonar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 8. apríl 2024, kl. 13.

Hermann Sigfússon, maðurinn hennar Lollu vinkonu, er látinn eftir langa sjúkralegu. Honum kynntist ég þegar þau Lovísa Ágústsdóttir bekkjarsystir mín í tíu ár og besta vinkona æ síðan urðu sambýlisfólk norður á Akureyri og stofnuðu þar saman fallegt heimili í Barðstúni 3. Þangað var svo sannarlega gott að koma og þar að gista.
Við Lolla erum Vesturbæingar og vorum saman strax í fyrsta bekk í Melaskóla og allt til úrskriftar í Kvennaskólanum í Reykjavík 1957 og áttum dásamleg bernsku- og unglingsár. Mennirnir okkar voru kunnugir áður frá Akureyri, Ágúst minn uppalinn á Möðruvöllum í Hörgárdal og Hermann á Ytra Hóli í Öngulstaðahreppi í Eyjafirði.
Foreldrar Hermanns og Lovísu voru vinir frá gamalli tíð og þekktust þau því frá unglingsaldri. Þegar leiðir lágu saman á ný fyrir norðan hófst nýtt tímabíl í lífi þeirra sem lofaði góðu og stóð í tvo áratugi. Þau fluttu suður til Þorlákshafnar þegar Hermann hætti að vinna og bjuggu þar í notalegu raðhúsi sem bar smekkvísi húsmóðurinnar og dugnaði húsbóndans fagurt vitni. Allt gat Hermann lagfært og undi sér best í verkum sem lutu að viðhaldi og fegrun heimilisins og umhverfis þess. Gestkvæmt var ætíð hjá þeim, vinir og vandamenn, börn og barnabörn, en Hjörtur sonur Hermanns og dætur Lovísu, Sigrún, Kristín, Sólveig og Íris Valgeirsdætur, löngu orðin fullorðið fólk með eigin fjölskyldur.
Þau ferðuðust mikið innanlands og utan. Suðurlandið heillaði og stutt að fara á fallegustu staðina frá Þorlákshöfn, gjarnan með gesti með sér. Oft fóru þau til Bretlands þar sem ensk vinkona þeirra tók þeim opnum örmum á heimili sínu. Einnig þar naut Hermann sín vel, tíndi eplin í garðinum fyrir ensku frúna og dyttaði að ýmsu. Þaðan heimsóttu þau eyjuna Jersey með gestgjafa sínum. Sérstaklega eftirminnileg er ferð þeirra til Mexíkó þar sem þau voru á eigin vegum og nutu lífsins. Þar var svo margt framandi að skoða, pýramídar og aðrar fornar byggingar. Og þau nutu bátsferða og óspart var snorklað í hlýju hafinu.
Við hjónin vorum svo heppin að fara með þeim Lollu og Hermanni til Dublín á Írlandi. Okkur langaði öll að upplifa St. Patreksdaginn, 17. mars, með Írum. Það reyndist góð ráðstöfun, afar skemmtileg ferð og frábært að hafa Hermann sem miðpunkt ferðarinnar, traustan og vingjarnlegan.
Eftir árin góðu og mörgu í Þorlákshöfn héldu Hermann og Lovísa á höfuðborgarsvæðið. Ellin sótti að og Hermann missti heilsuna og þau settust að í Ársölum í Kópavogi. Á þriðja heimilinu þeirra nutu fallegu munirnir hennar Lovísu sín enn og aftur. Margir gamlir og jafnvel að norðan.
Á þeim árum komu þau oft í heimsókn til okkar og dvalar í Bakkabúi í Borgarfirði og ber sumarbústaðurinn okkar þar glöggt merki um smiðshendur Hermanns. Þar urðu umræðuefnin óþrjótandi og margar notalegar stundir sem Eyfirðingurinn og Hörgdælingurinn undu sér vel, svo ekki sé talað um konurnar þeirra, bekkjarsysturnar. Hermann var hættur að aka, en enginn bilbugur í því efni á konu hans.
Oft skruppu þau norður til ættingja og vina og til að vitja landsins hennar Lovísu sem er á Leifsstöðum, þar sem Sólveig móðursystir hennar bjó. Þar sveiflaði Hermann orfinu kringum húsvagninn og naut þess að gleðja fjölskylduna og eiga stóran þátt í að búa þeim öllum sælureit, stundum með aðstoð Helga, yngsta bróður síns. Ekkert verkefni var of smátt eða stórt fyrir Hermann.
Að lokum vil ég þakka Hermanni öll samskipti liðinna áratuga og alla greiðana sem hann gerði okkur hjónunum. Og síðast en ekki síst ánægjustundirnar fjölmörgu. Guð blessi heimkomu hans til himna og verndi allt hans fólk. Lovísu og fjölskyldunum votta ég innilega samúð.

Guðrún L. Ásgeirsdóttir.