Baldur Rafnsson bóndi á Vattarnesi fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1954. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 3. apríl síðastliðinn.

Foreldrar Baldurs voru Helena Hálfdanardóttir sjúkraliði, f. 23.6. 1935, d. 22.4. 2014 og Rafn Benediktsson poppari, f. 14.5. 1935, d. 23.6. 2009.  Alsystur eru Guðbjörg Linda, f. 21.9. 1957, Brynhildur Björk, f. 8.12. 1962, Arnheiður Edda, f. 9.5. 1965. Með seinni eiginkonu sinni Huldu Hjaltadóttur átti Rafn þau Benedikt Rafn, f. 22.11. 1973 og Laufeyju Björgu, f. 9.8. 1975.

Eftirlifandi eiginkona Baldurs er Elinóra Kristín Guðjónsdóttir bóndi á Vattarnesi, f. 26.1. 1955.  Þau giftust 5.10. 1974. Foreldrar Elinóru eru Laufey Guðrún Magnúsdóttir, f. 9.9. 1929 og Guðjón Reynisson, f. 21.11. 1927, d. 26.12. 2015. Baldur og Elinóra eignuðust þrjár dætur, þær Helenu Vattar, f. 23.4. 1975. Maki hennar er Einar Björn Jónsson, f. 23.12. 1973. Dætur þeirra eru Elinóra, f. 2001 og á hún soninn Nökkva Leó, f. 2022. Emma, f. 2005 og Ásta Marín, f. 2011. Laufey Guðrún Vattar, f. 22.7. 1978. Maki Hjörtur Rafn Jóhannsson, f. 25.4. 1983. Synir þeirra eru Rúnar Berg Vattar, f. 2012 og Esjar Atli Vattar, f. 2019. Laufey á einnig Aþenu Ösp Vattar Oddsdóttur, f. 8.5. 2002 og Baldur Bent Vattar Oddsson, f. 27.2. 2005. Brynja Vattar, f. 2.5. 1983. Maki Steinólfur Jónasson, f. 15.11. 1981. Börn þeirra eru Mía Vattar, f. 2013 og Nói Vattar, f. 2019.

Baldur var frumburður foreldra sinna, Helenu Hálfdanardóttur og Rafns Benediktssonar. Baldur bjó ásamt foreldrum sínum fyrstu árin við Tunguveg 19 í Reykjavík, hjá föðurömmu sinni, Laufeyju Stefánsdóttur, og manni hennar, Garðari Bjarnasyni. Rafn og Helena keyptu hús í Smálöndum og þar ólst Baldur síðan upp til 11 ára aldurs. Fjölskyldan flutti þá í Selás í Árbæjarhverfi og varð Baldur mikill Fylkismaður. Hann hóf þegar að æfa fótbolta af miklu kappi og studdi félagið í anda alla sína tíð. Baldur var mjög músíkalskur og spilaði meðal annars á básúnu í Lúðrasveit verkalýðsins.

Baldur útskrifaðast úr Iðnskóla Reykjavíkur sem húsasmíðameistari og nokkrum árum síðar úr bókbandsnámi. Árið 1983 flutti fjölskyldan á Vattarnes og hóf hann störf sem bóndi og vann við það til æviloka. Baldur vann ýmis önnur störf, var sláturhússtjóri, skólabílstjóri, húsasmiður, var í hreppsnefnd, sjómaður, tónlistarkennari, Skrúðsbóndi og síðast en ekki síst vitavörður.  Baldur sinnti jafnframt ýmsum félagsstörfum, söng í kirkjukórnum, var í sóknarnefnd, tók þátt í starfi Lionsklúbbs, var með tónlistarstundir á dvalarheimilinu Uppsölum og var bílstjóri fermingarbarna við hin ýmsu tilefni sem og kórstjóri Skólabílakórsins.

Útför Baldurs fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 11. apríl 2024, klukkan 13.

Minningarnar flytja mig aftur í tímann. Við Baldur fæddumst á sama ári með 6 mánaða millibili. Hann var eldri, en ég var samt kynslóð á undan honum þar sem hann var systursonur minn. Við frændurnir urðum fljótt góðir vinir, fermdumst saman og áttum sameiginleg áhugamál. Baldur hafði meðal annars áhuga á íþróttum, unni tónlist, spilaði á ýmis hljóðfæri og hafði gaman af því að syngja.

Vinátta okkar varð síðan stór hluti af lífi okkar beggja og fjölskyldna okkar. Þegar Baldur og Nóra hugðu að því að flytja búferlum að Vattarnesi varð ég frændi hans jafnspenntur og þau, enda ættaðir að austan. Þannig að þegar fjölskyldan kom austur var ég ásamt fjölskyldu minni til staðar á Vattarnesi til að aðstoða þau við hin ýmsu verk enda var nóg af þeim. Síðan gerðist það bara að við fjölskyldan héldum áfram að koma á Vattarnes að vori og fara er haustaði, næstu fjörutíu árin.

Þegar Baldur byrjaði sinn búskap á Vattarnesi var að mörgu að hyggja, lagfæra þurfti íbúðarhús og taka til hendinni við að fjarlægja önnur húsakynni. Á þessum áratugum okkar saman hefur einhvern veginn alltaf verið nóg að gera við tiltektir og lagfæringar. Snemma var byrjað á því að fjarlægja gamalt fjós og ónýt íbúðarhús við fjörukantinn (Marbakki), síðar gamalt fjárhús sem við frændurnir ákváðum að kveikja í, einn góðan sumardag. Okkur fannst það einfaldara en að rífa það þar sem konurnar og börnin voru ekki heima. Einu gleymdum við frændurnir þó, það var að láta slökkviliðið og nágrannana vita, þannig að þegar við sátum sallarólegir horfðum á þetta fína bál kom allur flotinn siglandi inn á bótina. Þá áttuðum við okkur á því að við hefðum þurft að láta slökkviliðið vita. Nýtt fjárhús og hlaða var byggt síðar og annað fjárhús fjarlægt. Þá var enn eitt íbúðarhúsið rifið (Þrastarhóll) og sjóhús sem féll saman í fárviðri einn veturinn. Baldur og fjölskylda bjuggu fyrstu árin í Dagsbrún en við komum okkur fyrir á miðhæðinni í Steinhúsinu sem var eina hæðin sem var íbúðarhæf. Fljótlega tóku Baldur og fjölskylda Steinhúsið í gegn og við fluttum í Dagsbrún.

Fyrstu árin stunduðum við frændurnir handfæraveiðar en það hafði löngum verið gert á Vattarnesi af ábúendum. Fyrstu árin okkar saman vorum við á trébát (Vonin) síðan fengum við okkur Sóma-plastbát (Vöttur). Fiskurinn var verkaður og saltaður í litlu sjóhúsi (Litla hryllingsbúðin) og jafnan tóku aðrir fjölskyldumeðlimir þátt í aðgerðunum. Þegar reglugerðin um fiskverkun var orðin of flókin til að verka fisk úti í sveit tókum við þá ákvörðun að hætta þessu skaki og snúa okkur alfarið að lundaveiði í Skrúð.

Úti fyrir Vattarnesi gnæfir Skrúðurinn tignarlega úr sjó og ekki er á færi nema staðkunnugra að komast í eyjuna. Við frændurnir lögðum grunninn að því að eyjan yrði friðlýst og það hefur hún verið síðan 1995, enginn fer því í Skrúð nema með leyfi ábúenda. Skrúður er hin mesta fuglaparadís og gegnum árin hafa ótrúlega margar ferðir verið farnar í eyjuna. Ferðir í Skrúð hafa lokkað marga til okkar á Vattarnes, bæði vini og aðra gesti til að veiða, merkja fugla, taka myndir og skoða eyjuna. Fjölskyldur okkar hafa farið margar skemmtiferðir út í Skrúð og á sínum unglingsárum fóru Jóhann, Páll og Hálfdan með til að háfa lunda. Þegar hætt var að verka fisk í sjóhúsinu þá var næsta verkefni hjá öllum fjölskyldumeðlimum að handfletta, hreinsa og pakka lunda.

Austast fyrir öllu landi
af einhverjum veit ég stað,
fjalleyju grænni og góðri,
getið þér, hver muni það.
x
Hún heitir Skrúður og skýlir
Skrúðsbónda, öldnum hal.
Úti fyrir Fáskrúðsfirði
þú finnur það eyjarval.


Það eru til margar vísur og skráðar frásagnir um Baldur, veiði- og Skrúðsferðir og verða þær varla sagðar hér. Erfitt er að velja stakar sögur af Baldri því að þessi vegferð okkar á Vattarnesi er að mörgu leyti sameiginleg saga okkar. Oftast var siglt út í eyju á Zodiac af því að aðkoma að eyjunni er ekki góð fyrir venjulega smábáta. Nýlega rifjaði Baldur upp sögu af einni af mörgum ferðum í Skrúð. Hann og Jóhann voru að sigla út í eyju á nýju Zodiac-tuðrunni en aðrir ferðalangar fóru á gamla Bótólf. Þegar þeir höfðu siglt í nokkurn tíma í svartaþoku þá spurði Jóhann frænda sinn hvort hann hefði hug á að sigla til Noregs. Þá áttaði Baldur sig á því að þeir voru komnir langt framhjá eyjunni og voru á leið út á ballarhaf.

Megnið af lundanum var selt til Færeyja. Vattarnes hefur í gegnum tíðina haft sterk tengsl við Færeyjar og Færeyingar reru aðallega út frá Vattarnesi og ýmsum fjörðum á Austurlandi, allt frá seinni hluta 18. aldar fram að seinna stríði. Við Baldur átti í góðum samskiptum við Færeyinga og margir Færeyingar heimsóttu Vattarnes til að skoða staðinn þar sem forfeður þeirra höfðu dvalið sumarlangt við veiðar. Á sextíu ára afmælisári okkar Baldurs þótti okkur því báðum tilvalið að fara saman til Færeyja og varð sú ferð einstaklega eftirminnileg og skemmtileg upplifun fyrir okkur báða.

Eitt sumar ákváðum við Baldur að byggja svefnaðstöðu í Blundsgjárskútanum í Skrúð. Áður hafði verið sofið í ónýtum björgunarbát og fannst okkur Baldri það ekki vera boðlegt lengur og fengum við til okkar mannskap til að bera timbur og bárujárn upp í eyjuna. Þar var hótelið byggt fyrir okkur og aðra gesti, er smám saman stækkaði og fékk 5 stjörnur eftir ítarlegt mat gesta. Á fyrstu árunum var farið að vori með lömb í eyjuna og dvöldu þau þar yfir sumarið. Vel feitir sauðir voru síðan sóttir að hausti. Vattarnes er sauðfjárbú og var því ekki einungis fiskað, veiddur lundir eða smíðað. Það þurfti því jafnframt að sinna sauðburði að vori, heyskap að sumri, gefa á garðann og smala að hausti. Þrátt fyrir þessi mörgu verkefni stundaði Baldur aukavinnu við tónlistakennslu og smíðar bæði á Fáskrúðsfirði og á seinni árum á Reyðarfirði. Baldur var húsasmíðameistari og var ættaður að austan en langafi hans bjó á Vattarnesi í byrjun síðustu aldar og byggði Steinhúsið.

Í eitt af mörgum skiptum sendi Baldur mig til að sækja eitthvað inn á Fáskrúðsfjörð, þá rakst ég á auglýsingu um skemmtun í félagsheimilinu Skrúð þar sem við frændurnir áttum að vera með skemmtiatriði. Ég spurði því frænda hvort þetta væri rétt og jú, hann hafði lofað að koma með atriði en steingleymt því. Ekki var hægt að skorast undan og fannst okkur frændunum besta lausnin að skemmta öðrum með því að gera grín að okkur sjálfum. Við frændurnir tókum okkur sjaldnast of hátíðlega og í gegnum tíðina áttum við ávallt góð samskipti.

Á síðasta ári var ákveðið að komið væri að lokum á dvöl okkar allra á Vattarnesi. Baldur og Nóra ætluðu að bregða búi og ákváðum við í góðri sátt við þau hvernig okkar árlega sumardvöl á Vattarnesi myndi enda. Ekki grunaði okkur þá að við ættum ekki eftir að fylgjast að með Baldri næstu árin. Á kveðjustund streyma fram í hugann minningar frá liðnum stundum. Af mörgu er að taka en aðeins örfátt nefnt. Minningarnar eru okkur dýrmætar og það er því með hlýhug og þakklæti sem við kveðjum Baldur og samfylgdina gegnum árin. Ljúf minning lifir.

Elsku Elínóra, Helena, Laufey Guðrún, Brynja og fjölskyldur, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fjölskyldan í Dagsbrún,







Daníel, Erna, Jóhann, Páll og Hálfdan.