Stefán Björnsson fæddist í Kálfafellskoti í Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu 13. maí 1934. Hann lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri 6. apríl 2024 eftir stutta dvöl.
Stefán var sonur hjónanna Björns Stefánssonar, bónda og landpósts, f. 30.9. 1896 d. 7.7. 1988, og Valgerðar Pálsdóttur húsfreyju, f. 6.10. 1909, d. 20.2. 2005, og var næstelstur í sjö systkina hópi.
Systkini Stefáns eru: 1) Páll, f. 18.11. 1932, d. 26.5. 2020. Börn Páls og eiginkonu hans Guðrúnar Albertsdóttur, f. 1936, eru Birkir, f. 1959, Albert, f. 1962, d. 2012, og Hildur, f. 1967. 2) Sveinn, f. 24.5. 1936, d. 8.1. 2004. Sveinn var ókvæntur og barnlaus. 3) Guðný, f. 30.11. 1938, d. 20.1. 2022. Börn Guðnýjar og eiginmanns hennar Sveins Sigurbjörns Garðarssonar, f. 1934, d. 2019, eru Sigríður Björk, f. 1965, Birna, f. 1967, og Stefán, f. 1972. 4) Guðjón, f. 13.4. 1942. Börn Guðjóns og eiginkonu hans Valdísar Sæunnar Kristinsdóttur, f. 1942, d. 2013, eru Valgerður, f. 1963, Vilhjálmur Kristinn, f. 1965, d. 1979, og Rósa, f. 1969. Guðjón er í sambandi með Susanne Hallberg, f. 1958. 5) Snorri, f. 7.9. 1944. Synir hans og eiginkonu hans Ragnheiðar Bjargar Runólfsdóttur, f. 1944, eru Björn Helgi, f. 1972, og Rúnar Þór, f. 1974. Fyrir átti Ragnheiður Önnu Þóru Guðbergsdóttur, f. 1967. 6) Málfríður, f. 16.8. 1948. Börn hennar og eiginmanns hennar Sigurðar Óskarssonar, f. 1949, eru Ármann Atli, f. 1971, Bjartmar Ingi, f. 1975, og Svava Björk, f. 1978.
Stefán fæddist í Kálfafellskoti í Fljótshverfi og bjó þar til ársins 1941 er fjölskyldan flutti búferlum yfir Laxána að Kálfafelli, þar sem hann bjó til æviloka.
Stefán ólst upp við almenn bústörf og lærði ungur að vinna. Sem ungur maður sótti hann vertíðar til Vestmannaeyja um nokkurra ára skeið. Stefán og Snorri bróðir hans tóku alfarið við búi foreldra sinna er þau tóku að reskjast, en höfðu búið í félagi við þau fram að því. Sonur Snorra, Rúnar Þór, og Hafdís Huld Björgvinsdóttir tóku við búi Stefáns árið 1997. Hann hélt alla tíð heimili hjá þeim Rúnari og Hafdísi og var mikið viðloðandi búskapinn áfram, ekki þó síst eftir að Rúnar lenti í alvarlegu slysi árið 2006. Árið 2018 keyptu Björn Helgi og Ragnheiður Hlín fjárhús og sauðfé á Kálfafelli, en þau tóku við kúabúi Snorra í ársbyrjun 2007.
Stefán stundaði gulrófurækt um áratugaskeið og var alla tíð mikill áhugamaður um íslensku sauðkindina, og þau störf sem henni fylgja undi hann sæll við. Á haustin vann hann í sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri um margra ára skeið. Þá var hann mikill náttúruunnandi og lagði leið sína oft til fjalla. Í Kálfafellsheiði þekkti hann hverja þúfu og var mikill viskubrunnur um örnefni í Fljótshverfinu öllu. Stefán var alla tíð ókvæntur og barnlaus, en systkinabörnum sínum var hann góður og kær frændi.
Útför Stefáns fer fram frá Kálfafellskirkju í Fljótshverfi í dag, 13. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.
Stefán Björnsson bóndi fæddist í Kálfafellskoti 13. maí 1934. Hann lést á Dvalarheimilinu á Kirkjubæjarklaustri 6. apríl síðastliðinn.
Stefán var sonur Björns Stefánssonar, bónda og landpósts, og Valgerðar Pálsdóttur húsfreyju. Stefán bjó ásamt þremur elstu systkinum sínum fyrstu sjö árin í Kálfafellskoti en fjölskyldan fluttist að Kálfafelli árið 1941. Stefán ólst síðan upp á Kálfafelli í hópi sjö systkina. Stefán tók síðan við búi foreldra sinna ásamt Snorra bróður sínum árið 1972 og bjó hann þar og starfaði allt til æviloka.
Stefán, eða Stebbi eins og við kölluðum hann, starfaði sem sauðfjárbóndi mestallt sitt líf. Sauðfé og málefni sauðkindarinnar áttu hug hans allan og var hann mjög góður sauðfjárbóndi. Stebbi unni heimkynnum sínum mest af öllu og varði allri ævi sinni þar. Ég var strákur í sveit hjá Stebba frænda og ömmu og á ég margar góðar minningar þaðan. Stebbi var mér afar góður og reyndist mér vel. Á veturna fór ég í fríum og hjálpaði til við búskapinn. Ég fór í fjárhúsið að gefa. Á sumrin var ég í heyskap og að veiða fisk í ánum.
Stebbi þekkti sitt nærumhverfi betur en nokkur annar og vissi örnefni á hverri þúfu á Kálfafelli og í nærliggjandi umhverfi og þó svo að þessar heimildir séu að mestu skráðar, þá er mikill fróðleikur sem fer með Stebba frænda.
Ég minnist margra ferðalaga með Stebba frænda. Flest þeirra á mjög torförnum fjallvegum á mishöstugum fararskjótum. Rússajeppinn var eitt farartæki Stebba sem er einna minnisstæðast. Bílnum var alla mína tíð lagt í halla, því eina leiðin til að fá hann í gang var að láta hann renna í gang. Það þurfti allmikla útsjónarsemi ef átti að drepa á bílnum í ferðum. Það þurfti að velja góða brekku í það og virkilega þurfti að fara varlega ef farið var á honum yfir ár, að hann dræpi ekki á sér úti í miðri ánni.
Margar ferðirnar fórum við á fjöru og inn í Núpsstaðaskóg. Rússinn sem var kominn til ára sinna mátti þola að fara hálfur í kaf í Núpsvötnin. Oftar en ekki var Stefán ekki inni í bílnum að keyra heldur á föðurlandinu hálfur í ánni, að stika með staf á undan bílnum, til að gæta að því að við værum að fara yfir fært vað. Heimferðin gekk yfirleitt hægar því rússinn var ekkert gefinn fyrir volkið og var iðulega bremsulaus eftir það. Stefán var alltaf mjög hress í þessum ferðum og ekki óalgengt að sást bregða fyrir pela og sungnar væru vísur. Vísurnar sem hann söng hafði ég aldrei heyrt hvorki fyrr né síðar.
Stebbi frændi fór með okkur ófáar ferðir inn að Fossum innst í heiðinni, en hann unni því svæði mjög, enda feiknafallegt.
Stebbi var ekki maður margra orða, og ekki gefinn fyrir að vera í margmenni, en það var alltaf létt yfir honum. Honum leiddist ekki að segja skemmtisögur af fólki og atburðum, en aldrei heyrði ég hann tala neikvætt um aðra.
Stebbi frændi var dugnaðarmaður, en ásamt sauðfjárbúskap lagði hann fyrir sig gulrófurækt um árabil. Hann var oft á tíðum daglangt úti í kartöflugeymslu og skar til og snyrti rófur í poka. Honum varð að orði að honum leiddist það verk ákaflega sjaldan, og ef það henti þá fékk hann sér stuttan bíltúr og kom síðan aftur að verkinu sem nýr maður.
Stefán unni landi sínu og var ötull við að stöðva landfok, sem var að taka sig upp í ógrónum moldarbörðum í heiðinni, með því að sáldra í það heyi og áburði. Það fór mikil orka hjá honum í það. Lifandi minnisvarði um afrakstur hans vinnu eru gróin áður uppblásin moldarbörð í heiðinni fyrir ofan Kálfafell
Síðustu árin áttum við sameiginlegt áhugamál, en það var blessuð tófan sem var nú orðin fullfyrirferðarmikil og farin að éta fuglamatinn fyrir utan eldhúsgluggann hjá Stefáni. Fór svo að ég kom mér upp aðstöðu til veiðanna á Kálfafelli og voru í kjölfarið felld allmörg dýr. Í öllum okkar samtölum síðustu ár kom tófan eitthvað við sögu, en Stefán var á því sviði fróður eftir eigin reynslu, en einnig það sem hann hafði heyrt frá öðrum. Ég á eftir að sakna samtalanna við Stebba frænda, og að geta ekki hringt í hann, eða litið inn hjá honum í gamla bænum í spjall um daginn og veginn. Eftir að veikinda fór að gæta hjá frænda lagði ég meiri áherslu á að kíkja á hann, og voru þau samtöl góð fyrir okkur báða.
Mest þykir mér vænt um af öllu að frændi hafi ekki þurft að liggja lengi í veikindum sínum og sé nú laus við þjáningar.
Ég þakka Stefáni samfylgdina gegnum árin og óska honum góðrar ferðar inn í sumarlandið
Bjartmar Ingi Sigurðsson.