Auður Ellertsdóttir fæddist 21. maí 1935. Hún lést 10. mars 2024.
Útför Auðar fór fram 20. mars 2024.
Elsku besta amma mín, ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja en ég vil
byrja á því að segja TAKK, takk fyrir að hafa verið besta amma allra
tíma.
Mér finnst erfitt en líka fallegt að skrifa þessa minningargrein til þín,
því allar minningarnar sem ég á um þig eru svo fallegar og svo gaman að
rifja þær upp.
Mínar fyrstu minningar eru úr Einihlíð á Þingvöllum, þar áttum við alltaf
svo góða tíma og þú dekraðir litlu nöfnuna þína alla daga, alltaf. Ég man
eftir svo góðum stundum þar og ég elskaði þegar þú hrærðir fyrir mig skyr
með miklum sykri og á meðan ég borðaði skyrið sastu alltaf með mér og við
spjölluðum og spjölluðum. Ég elskaði líka að koma í gluggann á eldhúsinu í
sumarbústaðnum og spjalla við þig meðan þú varst að bardúsa eitthvað þar og
þú réttir mér alltaf kex eða eitthvert gotterí áður en ég hélt áfram að
leika mér í náttúrunni.
Ég elskaði líka svo mikið þegar við fórum saman upp í gjá að tína ber saman
og fórum svo og bjuggum til sultu, þú kenndir mér svo margt elsku amma
mín.
Í mér hefur alltaf blundað mikill prakkari og mér fannst ekkert eins gaman
og að bregða þér og ég man hvað við hlógum síðan hátt að því.
Ég elskaði hvað þú hugsaðir vel um hann pabba minn og þegar hann er að
segja mér sögur frá sínum æskuárum, þá heyri ég það að þú varst
yndislegasta mamman og þú passaðir svo vel upp á hann og ég veit að hann
verður þér ævinlega þakklátur.
Mér fannst alltaf svo gott að fá að eiga tíma með þér í sveitinni og þú
kenndir mér svo margt. Að koma til þín í Ásholtið og verja með þér jólum og
heimsóknum var alltaf yndislegt og aldrei vantaði það að þú dekraðir mig og
okkur öll eins og kóngafólk. Í hvert skipti sem ég kom til þín varstu
alltaf svo blíð og góð og alltaf stutt í hláturinn. Það var alltaf gaman og
skemmtilegt að vera með þér.
Ég man líka svo sterkt eftir því þegar þú varst að kynna mat fyrir
Sláturfélagið í búðum og ég fékk að koma með pabba til þín og smakka allan
þennan góða mat sem var í boði. Mér fannst það alltaf svo gaman og
spennandi og ég man að ég ætlaði alltaf að vera eins og amma mín; að vinna
í búðum og kynna mat.
Ég á svo margar minningar um þig en ef ég ætlaði að skrifa þær allar hér þá
yrðu þær sögur í heila bók. Ég mun alltaf varðveita þær í mínu hjarta og
halda áfram að segja mínum börnum frá okkar tímum og hvað við gerðum saman,
því þessar minningar eru mér allt.
Þegar ég varð eldri varð samband okkar ekkert minna, mér fannst svo
yndislegt að hringja í þig og spjalla og ég elskaði að hlæja með þér þangað
til við vorum næstum því búnar að pissa í okkur af hlátri og við áttum
okkur mikinn einkahúmor saman. Ég er svo þakklát fyrir allar
leikhúsferðirnar, tónleikana, út að borða og matarboðin, og já ég elskaði
brúnu sósuna þína. Ég man að þú gafst mér alltaf soðið af lambakjötinu í
glas og ég drakk það á meðan þú varst að klára að bera fram dýrindismat á
borð, hvort sem það var í sumarbústaðnum eða heima í Ásholti.
Ég er svo gífurlega þakklát að þú fékkst að hitta öll börnin mín og taka
þátt í þeirra lífi og stóru atburðum þeirra, það er ekki sjálfgefið og ég
verð alltaf óendanlega þakklát fyrir það og þau elska þig ekkert minna en
ég geri.
Ég á samt mjög erfitt með að hugsa til þess að fá ekki að hitta þig aftur
og heyra röddina þína og hláturinn og það sem verður mér erfiðast eru jólin
því aðfangadagur verður ekki eins án þín elsku amma mín en ég veit að þú
munt vaka yfir mér og okkur og það er gott að hugsa til þess.
Þú ert og verður mín fyrirmynd, þú sterka kona og á seinni árum sagðir þú
alltaf ... aldrei gefast upp, stattu á þínu og lifðu lífinu til
fulls.
Elsku amma mín, ég mun sakna þín alla daga og ég mun heiðra minningu þína á
meðan ég lifi. Takk fyrir öll árin og takk fyrir að hafa verið amma
mín.
Ég vil gjarnan lítið ljóð
láta af hendi rakna.
Eftir kynni afargóð
ég alltaf mun þín sakna.
(Guðrún V. Gísladóttir)
Ég elska þig. Þangað til næst elsku amma.
Þín nafna,
Auður Ýr.