Antonía Margrét Sigurðardóttir fæddist á Ljósalandi Vopnafirði 7. janúar 1935. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju 8. apríl 2024.

Antonía er elsta dóttir hjónanna Margrétar Ingibjargar Stefánsdóttur og Sigurðar Þorsteinssonar. Systkini hennar eru Sigríður, Rannveig, Þorvarður (látinn), Þórhallur, Ásta, Kolbrún, Jón Friðrik (látinn) og Kjartan. Antonía giftist Benedikt Þ. Hjarðar 8. júní 1958. Hann lést í október árið 2005 .
Börn þeirra eru Guðfinna Sigríður, Þorvaldur Sigurgeir, Margrét Ingibjörg og Harpa Dögg. Einnig fluttist Guðgeir Þorvaldur til þeirra á tólfta ári. Antonía og Benedikt bjuggu á Harðargrund Jökuldal en brugðu búi 1995 og fluttu í Egilsstaði.

Útför Antoníu fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 20. apríl 2024, klukkan 14.
Streymt:https://egilsstadaprestakall.com/youtube/

Það er sumar og sólin skín úti. Afi Bensi leggur sig á beddanum undir litla glugganum í stofunni á Hjarðargrund eftir hádegismatinn. Útvarpið glamrar við eyrað á honum. Amma Antonía er frammi í eldhúsi að sýsla, gengur frá eftir matinn og er byrjuð að undirbúa bakkelsi fyrir kaffitímann því það er von á margmenni eins og svo oft áður. Það er opið fram í sólskála. Þar eru ótal plöntur og blóm í ýmsum litum sem dafna vel í hlýjunni og gleðja augað. Það er yndislegt að skoppa gegnum sólskálann og hlaupa upp fyrir hús, inn í skóginn sem er ævintýri líkastur en þar er líka lækur sem gaman er að sulla í. Gluggarnir á Hjarðargrund eru yfirfullir af tómatplöntum og spennandi að fá að smakka á þessum litlu rauðu kúlum. Ég man alltaf eftir þegar amma sagðist, ung að árum, hafa smakkað tómat í fyrsta skipti. Hún var alveg með stjörnur í augunum yfir þessum dásamlega fallegu, vel mótuðu kúlum sem voru svo ekki eins góðar á bragðið. Hún lærði þó að meta þá og fannst þeir seinna hið mesta hnossgæti.

Það er að koma hádegi í Miðgarði 6 og á eldhúsborðinu stendur vasi með afskornum blómum. Í ofninum mallar fullur steikarpottur af hálsabitum úr Fossgerði sem ömmu fannst ómögulegt annað en að nýta og maður heyrir malið frá steina-slípivélinni úr skápnum inni á baði. Lyktin af hreindýraleðri fyllir stofuna og það er leður í mismunandi litum bunkum á víð og dreif. Borðið er yfirfullt af boxum, verkfærum, tannstönglum og lími. Saumavélin stendur undir litla glugganum og greinilegt að hér hefur verið unnið fram eftir. Amma fékk nefnilega hugmynd, sá fyrir sér nýtt stykki þegar hún var að veltast með einhverja leðurpjötluna og framkvæmdi. Hún var listakona fram í fingurgóma og var alltaf að fá nýjar hugmyndir. Skart úr leðri, töskur úr útsaumuðum púðum og leðri, hekluð ugluveski, rjúpumyndirnar og svo mætti lengi telja. Hún sótti innblástur fyrir handverkið sitt víða en það besta var eiginlega þegar Top-model-seríurnar voru í gangi á skjá einum á sínum tíma. Þá sat amma við skjáinn og drakk í sig klæðaburð fyrirsætanna, mynstur, skart og fylgihluti. Þegar von var á ömmu í heimsókn vissi maður að nú yrði lallað í fjörunni eftir steinum (glerhalli, jaspis eða basalti), rúntað inn í Hvannagil eftir líparíti eða rölt meðfram áreyrum Njarðvíkurárinnar til að finna hina fullkomnu skófasteina.

Ekki veit ég almennilega hvenær þetta byrjaði allt saman en á Þorláksmessu breyttist Miðgarður 6 í einhvers konar umferðarmiðstöð jólanna. Þangað komu allan daginn vinir og fjölskylda sem skiptust á kortum og gjöfum, sögum og gríni, knúsum og kveðjum. Á eldavélinni var stór pottur með heitu súkkulaði og eldhúsborðið yfirfullt af kræsingum. Inni í stofu voru skálar með mandarínum og Lindu-konfekti, hátíðardagskrá í sjónvarpinu þótt búið væri að skrúfa niður hljóðið og jólakortin opin svo hægt var að glugga í. Það var líka yfirleitt á Þorláksmessu, þegar rólegt var, að amma og mamma hurfu inn í eldhús og amma gaf mömmu hrútaberjahlaup úr ísskápnum í spariskál. Á æskuheimili mínu var allt kapp lagt á að komast í Egilsstaði eftir hádegi á Þorláksmessu. Heimilisfólkið sóttist eftir Þorláksmessu-stemningunni í Miðgarði 6 sem var alveg órjúfanlegur hluti af undirbúningi jólanna.

Frá því að ég man eftir vildi amma vera sjálfstæð, vinna fyrir sér og vera engum háð. Hún lagði mikið upp úr því að nýta alla mögulega og ómögulega hluti, var natin og kom til plöntum sem búið var að afskrifa. Amma hafði unun af því að ferðast en ferðirnar til Færeyja stóðu alla tíð upp úr. Hún hlustaði mikið á útvarp og stillti gjarnan á færeyska útvarpið. Hún dillaði sér jafnt við Louis Armstrong og harmonikkutónlist, naut tóna Ellu Fitzgerald, Ellýjar Vilhjálms og Ellenar Kristjáns og hafði sérstakt dálæti á karlakórum. Henni fannst mikið til Bjarkar Guðmundsdóttur koma og þegar Eivør Pálsdóttir skaust upp á stjörnuhimininn var hún alveg heilluð. Amma var alla tíð með krossgátur við höndina, las mikið og fannst gaman að spila skrafl. Orðin sem lentu á spilaborðinu voru stundum hálfótrúleg en frú Antonía var alltaf með orðskýringar á reiðum höndum. Amma talaði alla tíð hreina íslensku en ekki minnist ég þess að hún hafi nokkurn tímann verið orðljót. Hún gaf manni ráð og sagði sína meiningu en gerði það alltaf á snyrtilegan máta. Fyrir einhverjum árum vorum við Sigurður bróðir að þvælast saman á Egilsstöðum og höfðum viðkomu í Miðgarði 6. Þau sem þekkja Sigga vita að hann hefur gaman af að tala og segja sögur og lætur ákaflega fátt slá sig út af laginu. Á þessum tíma klæddist hann mikið stuttermabolum með ýmiskonar mis-gáfulegum áletrunum. Þessi dagur var engin undantekning og þegar við vorum búin að vera á spjalli í dágóða stund lítur amma á Sigga, segist nú aldrei hafa verið neitt sérlega sleip í ensku en þykist vita hvað þarna stendur. Hún velti fyrir sér hvort skilaboðunum (I would not fuck you for practice) væri beint til sín eða mín og hvort þetta væri nú ekki helst til mikill dónaskapur. Siggi roðnaði, stamaði eitthvað og hló vandræðalega en amma hafði ekki fleiri orð um þetta, sneri aftur til fyrra samtals eins og ekkert hefði í skorist.

Elsku amma! Ég veit hreinlega ekki hvar skal stoppa, gæti skrifað heila bók. Það er svolítið síðan þú sagðir okkur að þú værir ánægð með lífsverkið, stolt af öllum þínum afleggjurum og færir sátt þegar þar að kæmi. Þegar ég kom við hjá þér á annan í páskum áttum við stutt spjall og mér fannst þú þreyttari en nokkru sinni fyrr. Áður en ég fór spurði ég hvort þú værir verkjuð og hvernig þú hefðir það í raun og veru. Þú svaraðir því til að þú gætir ekki haft það betra, það væri stjanað við þig og þú værir umkringd fólkinu þínu. Ég fékk nebbakoss þegar við kvöddumst og ég vissi að þetta væri sá síðasti. Ég veit að enginn er eilífur en ég sakna þín alveg ferlega mikið. Takk fyrir allt spjallið og ráðin. Takk fyrir að fylgjast alltaf með okkur og passa upp á okkur, ég veit að þú heldur því áfram. Ég vona að þú njótir í sumarlandinu umkringd blómahafi. Og hvert sem þú ferð og hvar sem ég verð þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig.

Guðfinna Jakobsdóttir Hjarðar.