Hulda Björk Rósmundsdóttir fæddist á Eskifirði 26. janúar 1935. Hún lést á fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 11. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Þórunn Sigurlaug Karlsdóttir, f. á Garðsá í Fáskrúðsfirði 17.8. 1910, d. 1995, og Rósmundur Kristjánsson, f. á Víkurhaga í Fáskrúðsfirði 2.8. 1896, d. 1985.

Hulda ólst upp í stórum systkinahópi en hin voru: Jórunn, f. 1928, d. 2010, Svanur, f. 1930, d. 1984, Katrín, f. 1932, d. 2007, Anna, f. 1933, d. 2009, Viðar, f. 1936, d. 2015, Þóra, f. 1938, Sigurjón, f. 1941, Alma, f. 1942, Friðrik, f. 1944, og Þráinn, f. 1947.

Hulda giftist 30. nóvember 1957 Sigtryggi Hreggviðssyni, f. 6. janúar 1934. Foreldrar hans voru Jóhanna Sigríður Jóhannsdóttir og Hreggviður Sveinsson.

Börn Huldu og Sigtryggs eru: 1) Jóhanna, f. 1958. Maki Haraldur Friðbergsson, f. 1954. Börn þeirra: a) Heimir Svanur, f. 1978. Maki Anna Guðlaug Guðnadóttir, f. 1978. Börn þeirra: Ísabella Danía, Haukur Eron, Eva Sól og Sigtryggur Ari. b) Hulda Björk, f. 1985. Maki: Sigurður Örn Sigurðarson, f. 1982. Börn þeirra: Rakel Lilja, Amelía Dröfn, Arnþór Ingi og Elma Júlía. 2) Einar Hreggviður, f. 1961. Sambýliskona Borghildur Stefanía Ólafsdóttir. Börn hans og fyrrverandi eiginkonu Bettinu Staal: Kristófer Sigtryggur og Daníel Einar. 3) Eygló, f. 1964. Maki Jóhann Búason, f. 1965. Börn þeirra: a) Katrín, f. 1990. Maki Aðalsteinn Ólafsson, f. 1977. Börn þeirra: Ísarr Leví og Lea Hrafney. b) Bjarki, f. 1997. Sambýliskona Aleksandra Klara Wasilewska, f. 1996.

Hulda bjó alla tíð úti á Hlíðarenda á Eskifirði. Þegar hún var að alast upp bjó hún m.a. í Sjóborg þar sem saman bjuggu þrjár barnmargar fjölskyldur sem töldu samtals u.þ.b. 30 manns. Hulda var því vön að hafa marga í kringum sig og var oft margt um manninn á heimili hennar bæði í mat og gistingu. Hulda og Diddi bjuggu fyrstu árin sín í næsta húsi við Sjóborg sem var kallað gamla kaupfélagið. Þau hjón byggðu sér hús að Smiðjustíg 1 þar sem þau bjuggu allan sinn búskap.

Hulda starfaði lengst af í frystihúsinu á Eskifirði við margs konar fiskvinnslu ásamt því að vinna við síldarsöltun. Um tíma vann hún á hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð.

Hulda var mjög virk í ýmiss konar félagsstarfi á Eskifirði, m.a. var hún í slysavarnafélaginu og síðar meir í starfi eldri borgara. Kirkjukórinn var þó hennar helsta áhugamál og var hún í kórnum í yfir 40 ár.

Hulda fluttist á hjúkrunarheimilið Hulduhlíð í nóvember 2023.

Útförin Huldu fram frá Eskifjarðarkirkju í dag, 21. maí 2024, kl. 14.

Elsku amman mín.
I LOVJÚ.
Ég veit ekki hvernig ég á að byrja að tala um þig þar sem ég er vön að tala við þig.
Ótal mörg símtöl sem við höfum átt í gegn um tíðina. Hvort sem ég hringdi til að fá uppskrift eða þú hringdir til að segja mér neðanbeltis brandara. Hversu margar ömmur segja manni svoleiðis brandara! Þú varst mér svoooo dýrmæt, sagðir alltaf er þetta nafna mín? Þvílíkur heiður sem það er að vera skírð í höfuðið á þér, elsku amma mín.
Það hefur alltaf ríkt gleði og kátína í kringum þig og öllum fannst þú svo skemmtileg. Svo hjálpsöm og vildir allt fyrir alla gera. Mjög minnisstætt er þegar maður kíkti í kaffi og var mögulega að reyna að vera í átaki, þér fannst ekkert eins vitlaust og vildir alltaf troða mann út af alls konar bakkelsi, því alltaf var nóg til af nýbökuðu. Munnharpan var tekin fram og spilað fyrir gesti. Maður minn hvað við spiluðum líka mikið á spil, rommí og tveggja manna kapall varð yfirleitt fyrir valinu.
Síðustu dagana þína þegar ég lá við hliðina á þér og hélt í höndina á þér þá sagðir þú: Nafna förum! Ég sagði: Amma mín, hvert erum við að fara?
Þá sagðir þú: Í ísskápinn.
Þú varst alls ekki þolinmóð, ætli það fylgi ekki nafninu. Ég kom eitt sinn til að biðja þig að kenna mér að hekla blóm, við settumst niður og svo sagðir þú: Hulda mín, þú gerir bara svona, svona, svona og svona. Þú gerðir þetta bara fyrir mig. Þú vildir helst gera allt í gær.
Þegar þú smelltir manni upp á eldhúsbekkinn og klipptir á mann topp. Þú varst alltaf mjög nýtin og saumaðir ótal flíkur á alla. Þegar ég var búin að safna í poka handa þér til að gera við, varstu alltaf búin að gera við allt áður en ég náði að snúa mér við. Ef ég var að fara að kaupa mér eitthvað, fannst þér það alger óþarfi og sagðir: já einmitt kaupa kaupa kaupa. Við notum þetta oft, segjum nú hefði amma sagt kaupa kaupa kaupa.
Svo hefur þú alltaf sagt við barnabörnin þín og barnabarnabörnin hver á elskuna og þá var svarið alltaf amma. Elma Júlía sagði það síðast í dag, ég veit hver á elskuna, amma.
Börnin mín elskuðu að koma í heimsókn, þá var alltaf farið undir pallinn að leika með eldgamla dótið. Dót sem börnin þín áttu. Þú varst svo nýtin og vildir engu henda, enda skipti það ekki máli. Alltaf nóg til að leika með svo þegar þú kenndir krökkunum að búa til skutlur og að teikna svani. Ég brosi alltaf út í annað þegar ég sé 2 út um allt, hálfteiknaða svani. Þú varst alltaf svo montin af öllum börnunum þínum, stórum sem smáum. Sýndir manni oft sömu myndirnar og af fjölskyldunni allri, þú varst mjög frændrækin.
Ég talaði alltaf um að fá mér einn sleik hjá þér þegar ég var búin að kyssa þig og knúsa sagðir þú alltaf: jæja, ég þarf ekki að fara í bað í dag. Það verður erfitt amma mín að geta ekki deilt með þér og sagt þér allt. Ég sagði þér allt og eitt sinn sagðir þú: Hulda mín sumu deilir maður bara ekki. Ég hélt það nú, þar sem þetta var ótrúlega fyndið og auðvitað hringdi ég í þig og sagði þér frá.
Það er sko hægt að segja að þú hafir verið með húmorinn í lagi fram á síðasta dag. Þegar komið var til þín og sagt Hulda mín, hvað segir þú", þá sagðir þú: Ekkert að fyrra bragði. Þegar þú varst að rífa út úr þér súrefnið og ég bað þig vinsamlegast um að hætta þessu og hætta þessari stríðni glottir þú út í annað. Þú varst engri lík, elsku amma mín.

Þú vildir gera allt fyrir alla en það mátti enginn gera neitt fyrir þig. Ætli þú hafir ekki verið um 85 ára þegar þú loksins leyfðir einhverjum að slá garðinn fyrir þig. Sagðir alltaf þetta er minn garður og ég slæ hann sjálf". Þver varstu og ferlega fyndin. Fórum að kaupa jakka í Reykjavík, þú vildir hafa hann hólkvíðan. Við rifumst smá í búðinni, þú fussaðir yfir vitleysunni í mér. En við komumst að samkomulagi, líklega báðar jafn ákveðnar. Bað þig einnig eitt sinn að koma með mér til Reykjavíkur svo þú gætir fengið tattú á augabrúnirnar ... Það sem þú sagðir var bráðfyndið en ekki hægt að hafa eftir. Amma þú varst best!

Amma mín.
Ég elska þig amma,
þú ert mér svo kær.
Til tunglsins og til baka,
ást mín til þín nær.

Sögur þú segir,
og sannleikann í senn.
Þú gáfuð og góð ert,
en það vita flestir menn.

Ég elska þig amma,
þú færir mér svo margt.
Það er ætíð hægt að sanna,
að um þig sé ljós bjart.

Þú ert mér sem sólin, elsku amma mín,
Nú ert þú stjarnan sem skært á himni skín.
Bros þitt og þín gleði veitti birtu og yl,
Hjá þér og afa var gott að vera, þið veittuð skjól í lífsins byl.

Lífsspeki þín, orka, gleði, tryggð og trú, dugnaður, kraftur og fegurð þetta er allt þú. Þú varst minn verndarengill, áttir þátt í að móta mig, aga mig og studdir, það var svo gott að eiga þig.
Já, sólin ert þú elsku amma, þú ert sólin mín.
Ég er svo ánægð að vera dótturdóttir þín.
Sólin skín því í heiði, sólin skín fyrir þig.
Hún skín svo skært og fagurt, af því að þú varst til.
Ætíð elskuð og aldrei gleymd þar til við hittumst aftur:
I LOVJÚ
Nafna þín.

Hulda Björk yngri.