Hildur Árdís Hálfdanardóttir fæddist 22. febrúar 1931 á Þórsgötu 17 í Reykjavík og ólst þar upp. Hún lést á Landakoti 12. maí 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Þórný Jónsdóttir, f. 1904, d. 1955, og Hálfdan Eiríksson, f. 1901, d. 1981, en þau ráku saman verslunina Kjöt og fisk á Þórsgötu 17. Hjónin áttu ættir að rekja norður í Laxárdal og Mývatnssveit.

Systkini Hildar eru Hadda Árný,  f. 1935, Jakob Jón, f. 1942, tæknifræðingur, og dr. Jón Grétar, f. 1947, eðlisefnafræðingur.

Hinn 1. nóvember 1952 giftist Hildur Karli Karlssyni vélstjóra, f. 17.11. 1928 á Seyðisfirði, sonur hjónanna Karls Finnbogasonar, f. 1875, d. 1952, skólastjóra og Vilhelmínu Ingimundardóttur, f. 1892, d. 1956. Börn Hildar og Karls eru:

1) Hafdís Þóra, f. 1954, viðskiptafræðingur og tölvunarfræðingur, gift Jóhanni Árnasyni, þeirra synir eru: a) Árni, giftur Drífu Bjarnadóttur, börn þeirra eru Perla Rós, Urður Ósk og Arnaldur. b) Karl Jóhann, í sambúð með Kristínu Unu Sigurðardóttur, börn þeirra eru Þorbergur Karl og Þóranna Þöll, fyrir á Karl Jóhann Brynhildi Hafdísi og Jökul Jóhann. 2) Vilhjálmur Karl, f. 1955, giftur Benný Guðrúnu Valgeirsdóttur. Börn þeirra eru: a) Kristófer, í sambúð með Margréti Freyju og eiga þau saman Halldóru Júlíönu, en fyrir á Kristófer dæturnar Elísabetu Benný og Alexöndru Árnýju. b) Alexander, í sambúð með Söru Mörthu Barichon og eiga þau Benjamín Hjalta, en fyrir á Alexander Kolfinnu Rún. c) Rakel Rún og á hún Írenu Kristínu og Ísak Karl. 3) Hálfdan Þór, giftur Ellen L. Tyler, þeirra börn eru Mikael Arnar og Hildur Elísabet.

Hildur ólst upp á Þórsgötunni og lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands, ásamt því að stunda nám við Tónlistarskólann í Reykjavík á fiðlu og píanó. Hún var í námi í Leiklistarskóla Ævars Kvaran á unglingsárunum og sótti fjöldann allan af námskeiðum á lífsleiðinni. Eftir nám í Verzlunarskólanum vann hún hjá Raforkumálaskrifstofunni og svo við skrifstofustörf hjá „Central Mortgage and Housing Corporation“ í Winnipeg. Hildur hóf störf hjá bæjarfógetanum/sýslumanninum í Kópavogi 1962, fyrst í hlutastarfi og svo í fullu starfi sem skrifstofustjóri til ársins 2001 að undanskildu einu ári, 1982, er hún var beðin að taka fyrstu skrefin með nýju hjúkrunarheimili í Kópavogi, sem framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar. Í framhaldi af því sat Hildur í stjórn Sunnuhlíðar sem ritari í 30 ár.

Fyrstu árin voru Hildur og Karl búsett á Þórsgötu 17, 1957 fluttu þau á Skólatröð 11, 1984 fluttu þau í Mávanes 24 en síðustu sjö árin bjuggu þau á Garðatorgi 2b.

Hildur er einn af stofnfélögum Soroptimistaklúbbs Kópavogs sem var stofnaður 4. júní 1975. Frá upphafi gegndi hún ýmsum störfum í stjórn klúbbsins, auk þess að vera í stjórn samtakanna bæði á landsvettvangi og alþjóðavettvangi.

Hildur brann fyrir hugsjón Soroptimista, sem vinna að bættri stöðu kvenna og mannréttindum öllum til handa. Áhugi hennar á samtökunum smitaði út frá sér þannig að bæði dóttir og tengdadóttir eru virkar í samtökunum. Fyrir störf sín að mannúðarmálum var Hildur sæmd hinni íslensku fálkaorðu 1. janúar 2002.

Hildur verður jarðsett frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 23. maí 2024, klukkan 15.

Í dag 23. maí 2024 er Hildur systir borin til grafar. Á þessum degi fyrir 99 árum giftust pabbi og mamma. Í gær var afmælisdagur föðurömmu okkar Jakobínu Jakobsdóttur. Amma vildi ekki að giftingin væri á afmælisdegi hennar því á þeim degi 25 árum fyrr hafði hún gifst afa Eiríki Þorbergssyni en þau skildu eftir nokkurra ára sambúð. Afi flutti 1910 til Kanada. Þar kvæntist hann íslenskri konu og þau eignuðust tvo syni.

Pabbi varð eftir hér og ólst upp hjá móður sinni. Hann gekk í Verslunarskólann studdur af Millner kaupmanni í Kjöti og fiski og vann í búðinni þegar færi gafst frá skóla. 19 ára fór hann til Winnipeg til að kynnast pabba sínum, stjúpu og bræðrum. Þá var Þórný móðir okkar 17 ára og beið í festum heima á Íslandi og eitt ár í Danmörku. Eftir fjögur ár í Kanada þar sem pabbi vann ýmsa vinnu, m.a. sem kokkur, kom hann aftur heim til að sækja mömmu. En örlögin ætluðu þeim annað. Millner var kominn af besta aldri og vildi snúa aftur til Danmerkur, heimalandsins. Það varð úr að pabbi keypti af honum búðina. Það var í nógu að snúast fyrir ungu hjónin í búðarrekstri og síðan byggðu þau Þórsgötu 17 með bróður mömmu, Jóni Víðis. Þar opnuðu þau nýja búð og ráku um tíma tvær matvörubúðir, aðra á Laugavegi og hina á Þórsgötu.

Og ekki bólaði á börnum. Þá tóku systur mömmu til sinna ráða og gáfu henni fallega styttu af sitjandi barni. Það situr nú uppi á skáp hjá mér og er mér og öðrum til yndis. – Þar sem barn er koma fleiri börn, sögðu systurnar og ráðið dugði því Hildur fæddist 22. febrúar 1931.

Hildur gekk í Verslunarskólann. Á heimilinu var lengi mynd af Hildi, glæsilegri með verðlaunabikar í hendi. Hann fékk hún því hún vélritaði hraðast og réttast allra í skólanum. Eftir lokapróf fór hún til Winnipeg til skyldmenna okkar þar. Afi var þá dáinn. Þar sótti hún framhaldsnám í viðskiptaskóla en henni þótti sem hún hefði þegar lært allt í Verslunarskólanum sem þar var kennt. Hún fékk vinnu hjá Central Mortgage and Housing Corporation, kynntist ættmönnum sínum í Kanada, naut lífsins og ferðaðist um. Þegar ég stækkaði varð Greyhound-rútufyrirtækið tákn frelsis af frásögnum hennar um þann tíma. Eftir ár kom hún aftur heim, – sagan hafði endurtekið sig. Stuttu áður en hún fór utan hafði hún kynnst ungum og myndarlegum manni sem beið hennar, Karli Karlssyni.

Mín fyrsta barnsminning er þegar við sátum í eldhúsinu á Þórsgötu, ég fjögurra ára og Hildur dró banana upp úr farteski sínu. Slíkan furðuávöxt og gómsætan hafði ég aldrei séð áður. Og við bræður fengum kúrekaföt og byssur frá Kanada. Sá búnaður kom sér vel í bófahasar í bakgörðum Þórsgötu og Lokastígs. Skömmu seinna kom Westinghouse-ísskápur frá Ameríku sem dugði fjölskyldunni næstum hálfa öld.

Hildur og Kalli hófu búskap sinn í risinu á Þórsgötu. Og svo fæddist Hafdís. Átta ára passaði ég hana í tvo tíma á hverjum morgni og fékk hundrað krónur á mánuði í laun. Þá dó mamma eftir löng veikindi. Einhver spurði mig hver hefði alið mig upp. Ég svaraði að bragði að það hefði ég gert sjálfur. En auðvitað var það ekki rétt því einhvers staðar í húsinu voru systur mínar Hildur og Hadda, pabbi, amma Jakobína og síðan Begga, frænka pabba frá Húsavík, við matargerð í kjallaranum en í búðinni var seldur heitur matur í hádeginu.

Önnur minning er þegar ég sit klemmdur á milli Hildar og Höddu í aftursætinu á gamla Fordson. Þær höfðu lokkað mig út í bíl og nú þjörmuðu þær að mér. –Við vitum alveg hvernig þú ert, þótt pabbi viti það ekki. Þú stríðir Jakobi og æmtir og skræmtir þegar hann svarar. Og svo skammar pabbi Jakob. Hættu þessu!

Hildur og Kalli byggðu sér raðhús í Kópavogi og fluttu þangað. Þegar ég var kominn í gagnfræðaskóla vorum við Siggi Arnalds stundum fengnir til að passa börnin sem þá voru orðin þrjú. Það þótti þeim gaman og líka okkur barnapíunum.

Eitt sumarið í menntaskóla réð ég mig sem öskukarl. Það leist Hildi ekki á og útvegaði mér vinnu í frystihúsinu í Kópavogi. Þær vikur bjó ég hjá þeim á Hávegi og gekk í vinnuna inn í Smárahvamm. Þá lærði ég ensk heiti á öllum íslenskum nytjafiskum. Þau stóðu á pakkningunum sem ég bar inn og út úr frystiklefanum. Eftir vinnu kenndi Hildur mér mannasiði og reyndi að segja mér til í umgengni.

Einhvern veginn er það þannig að æskan tekur mestan part í huga fólks þegar það horfir til baka. Þess vegna enda ég hér þótt sextíu ár full af minningum um Hildi séu eftir. Líffræðilega ertu skyldastur systkinum þínum. Fyrir um áratug varð mér litið í spegil og ég spurði mig: Hvað er pabbi að gera hér? Við Hildur vorum lík og það var kært á milli okkar. Að því bý ég það sem eftir er. Ég þakka henni samfylgd og leiðsögn. Nú verð ég að spjara mig án hennar. Það verður erfitt en fögur minning lifir. Kalla mági sendi ég þann styrk sem ég get gefið og einnig börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum og fjölskyldum þeirra.

Jón Hálfdanarson.